Fimmtudagur 26.08.2010 - 14:27 - 12 ummæli

Erlendir arkitektar á Íslandi

IMG_6815létt

 Strax eftir að fyrstu Íslendingar með menntun í byggingarlist sneru til heim eftir nám var sá tími liðinn sem erlendir arkitektar teiknuðu hús á Íslandi.

Erlendir aðilar komu ekki nálægt húsahönnun hér á landi eftir það. Síðasta opinbera byggingin sem hönnuð var af erlendum aðilum, með einni undantekningu, var Safnahúsið við Hverfisgötu. Það var fyrir 101 ári síðan.

Undantekningin var Norrænahúsið eftir Alvar Aalto sem opnað var 1968.

Þeir erlendu arkitektar sem hér skildu eftir spor sín voru þeir bestu sem völ var á. T. d. Magdahl sem var arkitekt Safnahússins við Hverfisgötu, nú  Þjóðmenningarhús. Eigtved  hannaði Viðeyjarstofu og Fortling  hannaði Bessastaðastofu svo nokkur dæmi séu tekin.

Ekki verður annað sagt en að íslensku arkitektarnir sem tóku við kyndlinum af hinum erlendu fagmönnum fyrir 100 árum hafi staðið sig vel og nægir þar að nefna Rögnvald Ólafsson, Sigurð Guðmundsson, Gunnlaug Halldórsson, Guðjón Samúelsson, Bárð Ísleifsson og marga fl.

Í upphafi góðærisins brugðust peningamennirnir og aðrir áhrifamenn við og tóku til við að sækja erlenda arkitekta hingað til að hanna hús hér á landi. Árangurinn er umhugsunarverður þegar litið er til gæða húsanna og skipulagsþáttar þeirra

Nægir þar að nefna Tónlistarhúsið við Austurhöfnina, Háskólann í Reykjavík og svörtu skuggalegu húsin í Skuggahverfinu sem til skamms tíma litu út eins og borgarastyrjöld hefði geysað á svæðinu. Viðbyggingin við flugstöðina í Keflavík er undantekning enda var að mér skilst nánast öll vinna við hana unnin af íslendingum eftir að samkeppni lauk

Þessi hegðun peningamanna og niðurstöðurnar eða afleiðingarnar  eru afkvæmi góðærisins og þeirrar veruleikafirringar sem þá sveif yfir íslensku þjóðfélagi.

Í íslenskri arkitektastétt býr mikil auðlind. Þessa auðlind þarf að virkja, næg eru verkefnin.

620_x221020091325314949363[1]

Skuggahverfið. Húsin austast eru eftir arkitektana Hróbjart Hróbjartsson og Sigurð Björgólfsson, þá koma hús eftir Guðmund Gunnlaugsson arkitekt og vestast eru hvítar byggingar eftir Guðna Pálsson og Dagnýju Helgadóttur arkitekta. Á milli þeirra koma dökkleit hús eftir dönsku arkitektana SHL.  Hús dönsku arkitektanna skera sig úr hvað varðar form, hlutföll, stærð, efnisval og liti. Sitt sýnist hverjum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Árni Ólafsson

    Þessi umræða á hingað til við ytra form og útlit. En þegar litið er til innra skipulags og eiginleika íbúðanna í Skuggahverfinu kemur í ljós að „dönsku húsin“ bera af. Við erum enn læst í kjarnafjölskylduíbúðinni þar sem nýting hvers rýmis er fyrirfram læst og ákveðin með formi þess, stærð og tengingum við aðra hluta íbúðarinnar. En í dönsku húsunum, eins hrikaleg og óviðeigandi sem þau eru í reykvískri bæjarmynd, eru vel leystar íbúðir með áhugaverða eiginleika og fjölbreytt notagildi.

  • Örnólfur

    Ef ég hugsa ekki um háhýsaskipulagið og horfi á svörtu sköndulhúsin kann ég alltaf betur að meta líflega formuð hús Hróbjartar og Sigurðar og svo Dagnýjar og Guðna ( Þjóðremban í mér?).
    Mér er sem ég sjái svipinn á Danskinum hefðu Íslendingar átt að teikna danska Óperuhúsið.- Er nokkur hugsanlegur möguleiki á því að gamla herraþjóðin hefði sætt sig við það (Danska þjóðremban?).
    .
    PS Að sjálfsögðu hafa danskir arkitektar teiknað hér falleg hús eins og Hilmar rekur.- Það er rétt hjá Guðjóni að blandið sé gott.

  • Af því að verið er að nefna erlenda arkitekta má ekki gleyma Ferdinand Meldahl sem teiknaði Alþingishúsið, hann var einhver merkasti arkitekt og skipulagsfræðingur Dana á 19. öld. Og milli Safnahússins og Norræna hússins er ein perla eftir erlendan arkitekt í Reykjavík. Það er Aðventkirkjan við Ingólfsstræti sem er eftir Johansson (ef ég man rétt), sænskan arkitekt. Gott er alltaf að hafa erlenda arkitekta í bland við þá íslensku hér á landi, það skapar ákveðna fjölbreytni.

  • Jón B G Jónsson

    Þjóðmenningarhúsið er eitt af fallegustu húsum á Íslandi. Það er gott að fá bæði innlenda og erlenda arkitekta til að hanna hús á Íslandi. Við fáum nauðsynlegan samanburð og það eflir samkeppni. Við getum ekki verið svo boruleg að hér megi enginn hanna nema með Íslenskt ríkisfang.

  • Jón vandamálið er ekki viðbyggingin heldur það að Kaninn og ESB eru ekki sammála um framkvæmd vopnaleitarinnar. Þess vegna þarf að vopnaleita farþega frá Ameríkunni áður en þeir fá að blandast Evrópuvopnaleituðum farþegum á biðsvæðinu.

  • Sigurður Gunnarsson

    Glöggt er gests augað
    Það verður dapurleg framtíð arkitektúrs og skipulags ef við ætlum að fagna „hreinu árgöngum fjölnis-arkitekta“ sem reyndar eins og Jónas félagar lærðu „erlendis“. Það er rétt að mynna á ágætan samanburð alþjóða hússins þar sem bent var á að flestir glæpir á Íslandi væru framdir af Íslendingum. Mér er til efs að Vallahverfið í Hafnarfirði, Krikarnir í Mosfellsbæ eða Geislarnir í Grafarholti að ógleymdu Salahverfi Kópavogs séu á ábyrgð erlendra ódæðismanna!? (Grand Hótel, Korputorg, Hótel við Leifsstöð,…)
    Auðvitað á að gagnrýna og yfirhöfuð ræða það sem miður fer en Hilmar – frændur eru frændum verstir það er af nógu af taka hér heima áður en við missum umræðuna til Suður-Afríku!

  • Hún er orðin rosaleg þessi þjóðremba hún smýgir sér alstaðar inn. Núna þetta Ísland fyrir íslenska arkítekta. Lágkúra sem ber vott um mikla minnimátarkennd yfir þjóðerni sínu.

    En ég geri fastlega ráð fyrir því að síðuhöfundi sjái svo ekkert að því að íslenskir arkítektar starfi í útlöndum, enda munu þeir þurfa þess. Að baknaga erlenda arkítekta er ekki rétta leiðin til að auka virðingu fyrir íslenskum arkítektum, þvert á móti. Að sömu ástæðu og ég vantreysti alltaf sölumönnum sem drulla yfir vörur samkeppnisaðilan, það merkir að þeir vörur þeirra standast ekki náinn samanburð.

    ps. hvað með öll norsku katalogg húsin sem eru hér útum allt?

  • Sveinbjörn

    Svo er eitt sem er athygli vert. Það er hvernig kerfið liggur flatt fyrir útlendingum.
    Sagt er að ekki sé búið að samþykkja Hörpu enn hjá byggingayfirvöldum og að engar teikningar liggi hjá embættinu. Því hefur verið haldið fram í athugasemdum hér á þessu bloggi. Hvernig getur það verið, ef satt er?
    Hvernig stendur á því að SML fengu að hækka húsin í Skuggahverfinu, brjóta upp byggingareitina og auka nýtinguna?
    Svo maður blandi nú pólitík í þetta; Hverjir voru við völd þegar SHL og verkkaupi þeirra þvinguðu þetta í gegn. Hver var yfirmaður skipulagsmála hjá borginni þegar þaulhugsað deiliskipulag Björns Hallssonar var samþykkt. Og hver var yfirmaðurinn þegar SHL fengu heimild til þess að brjóta það allt saman og þjösnast á því og skemma, eins og nú blasir við?
    Hver voru hin faglegu rök fyrir breytingu á skipulagi Björns?
    Gleymum því ekki að byggðin norðanverðu í Þingholtinu allt niður að Skúlagötu var heillegasta svæðið í gömlu Reykjavík áður en þessi ósköp öll dundu yfir.
    Hver ber ábyrgðina á þessu og hvernig stendur á þessum heimóttaskap og sífelldu undirgefni í garð útlendinga?

  • Hilmar Þór

    Það er rétt að Einar Erlendsson gleymist oft eins og fleiri.
    Einar var afkastamikill og flinkur arkitekt. Hann teiknaði Mjólkurfélagshúsið í Hafnarstræti/Tryggvagötu sem ég þekki vel auk húss við Þórsgötu sem ég fæddist í.
    Einar tók við af Guðjóni Samúelssyni sem húsameistari Ríkisins og gegndi því embætti í nokkur ár. Það er fullt tilefni til að fjalla um verk hans og störf sem voru fjölbreytt. Þakka þér Eggert Ásgeirsson fyrir að minna á þann mæta mann.

  • Þorsteinn

    Það hefur alltaf ríkt óverðskulduð og óskiljanleg virðing fyrir “erlendum sérfræðingum” hér á landi. Sjáið bara ofuráhrif AGS.

    En það sem er sérstakt í þessu tilfelli er að þessir sérfræðingar sem hér eru til umræðu eru allir menntaðir annað tveggja á Konunglega Listaháskólanum í Kaupmannahöfn eða á Arkitektaskólanum í Árósum eins og meginþorri íslenskra arkitekta. Þetta á við arkitektana sem eru að teikna Hörpu, Skuggahverfið og Háskólann í Reykjavík.

    Virðingaleysi fyrir íslenskum arkitektum er yfirþyrmandi og óskiljanleg.

  • EggertÁsgeirsson

    Gjarnan gleymist Einar Erlendsson

  • Enda er eitthvað að hönnun viðbyggingar flugstöðvarinnar sem svo veldur því að farþegar frá vesturheimi verða að fara aftur í vopnaleit!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn