Fimmtudagur 08.08.2019 - 14:24 - Rita ummæli

Eru íslendingar úti að aka?

Samkvæmt Morgunblaðinu í gær eru 712 einkabílar á hverja 1000 íbúa á Íslandi. Danir eiga samkvæmt sömu heimild 438 bíla á hverja 1000 íbúa. Eiga því íslendingar 63% fleiri einkabíla en Danir.

Hvernig stendur á þessu?

Skýringarnar eru eflaust margar. Í fyrsta lagi búum við fá í harðbýlu stóru landi og við misjöfn veður. Bílar eru ódýrir og hér er mikið dreifbýli og svo eru það skipulagsmálin.

Með betra borgarskipulagi, sjálfbærum borgarhlutum minnkar þörfin fyrir einkabíla og grunvöllur fyrir almenningssamgöngur batna. Sem betur fer er unnið að því víðast í heiminum að draga úr notkun einkabíla enda er hann dýr og hættulegur fólki og umhverfinu öllu.

Í áratugi hefur í allri kennslu í skipulagsfræðum verið lögð áhersla á að yfirráð yfir einkabíl sé ekki forsenda búsetunnar. En það er langur vegur frá hugsun til veruleika og góðir hlutir gerast hægt.

Íslendingar eru nú um 360 þúsund og ef talan í Morgunblaðinu er lögð til grundvallar þá eru um 260 þúsund einkabílar á landinu. Ef meðal sætafjöldi í bílunum er fimm sæti þá eru um 1.3 miljónir ágætra hægindastókar í þessum bílum sem eru tómir 90-95% sólahringsins. Ef allir íslendingar eru úti að aka samtímis er um það bil ein milljón hægindastóla tómir á fullri ferð á götum og vegum landsins.

Eftir nokkra áratugi munu börnin spyrja: Voru virkilega tveir bílar á mörgum heimilum í gamla daga? Og jafnvel fleiri? Svarið er já, og á mörgum heimilum eru fleiri en tveir bílar. Ojbara, þvílíkur sóðaskapur, munu börnin þá segja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn