Miðvikudagur 08.10.2014 - 23:04 - 9 ummæli

Fækkun matvöruverslanna.

 

verslun í Reykjavík 2001

 

Myndin að ofan er fengin úr  nýútkominni bók, „Borgir og borgarskipulag“, eftir Dr. Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing, og sýnir fjölda og staðsetningu matvöruverslanna í Rekjavík árið 2001.

Árið 1981 voru matvöruverslanir í borginni 127 en voru aðeins 85 árið 2001 eins og myndin sýnir. Verslunum fækkaði um 42 eða 33% á þessum 20 árum.

Síðan myndin var gerð og til dagsins í dag  hefur matvöruverslunum fækkað enn frekar. Gera má ráð fyrir að matvöruverslunum hafi fækkað niður í helming frá árinu 1981. Og þetta á sér stað þrátt fyrir að borgarbúum hafi fjölgað um 35 þúsund frá 1981 til 2013. (úr 84 þúsund í rúm 119 þúsund).

+++++++

Það má velta fyrir sér hvað hafi valdið þessari þróun og hvort hún hafi verið til góðs?

Það komu athafnamenn sem vildu stuðla að lækkuðu matarverði. Stór liður í því var að selja vöruna í stórum ódýrum skemmum, á hafnar- og iðnaðarsvæðum, langt frá neytandanum. Þessa hugmynd keyptu stjórnmálamenn enda erfitt fyrir þá að standa gegn lækkun matarverðs.

Skipulagsyfirvöld áttu auðvitað að vita betur og spyrna við fótum. Ef hár matarkostnaður skrifaðist af einhverjum orsökum á húsnæðiskostnað eða skort á bifreiðastæðum þá áttu skipulagsyfirvöld að bregðast við því innan íbúðahverfanna en ekki færa verslunina í algjöru skipulagsleysi eitthvert þangað sem voru ódýrar lóðir, ódýr hús og gnægð bílastæða.

Það hefði sennilega verið hægt að nota verkfæri skipulagsins sem eru margvísleg. T.d. taka á samgöngum (t.d. hjóla- og gönguleiðum) og  þróa verslunarkjarnana inni í hverfunum til þess að mæta þessu. Með opnun verslunar við Hallveigarstíg, þar sem er þröngt um og fá bifreiðastæði, sannaði Bónus að þetta er hægt.

Það hefði líka verið hægt að grípa til ívilnandi ráðstafanna og lækka til að mynda fasteignagjöld og gefa hverfisverslununum tækifæri til að veita betri þjónustu en stórmarkaðarnir á iðnaðarsvæðunum með einhverjum hætti. Til dæmis hefði verið hægt að leyfa sölu léttvína og bjórs í litlum búðunum (t.d. undir 300 m2) en ekki í þeim stóru.

Þó svo verðlag sé hugsanlega eitthvað lægra í stórverslununum utan íbúðahverfanna þá er mun dýrara að nálgast vöruna þegar búðirnar eru langt frá heimilunum þar sem neyslan fer fram. Þetta fyrirkomulag kallar á meiri akstur og meira skutl, jafnvel fjölskyldubíl nr. 2 fyrir  heimilin.

Svo er auðvitað miklu skemmtilegra að versla í hverfisbúðinni. Að versla í hverfisbúðinni þar sem kaupmaðurinn kannast við andlitið á manni og maður hittir nágranna sína er eiginlega hin besta skemmtun. Þetta þekki ég úr minni verslun, Melabúðinni, þar sem starfsmaðurinn kastar á mann góðri kveðju, og meinar það.

Og svo röltir maður eftir að hafa verslað  í hverfisbúðinni á hverfiskaffistofuna „Kaffi Vest“ og hittir góða nágranna og spjallar.

Aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 kallar eftir svona sviðsmynd og stefnir á breytingu á þessu skipulagi matvöruverslunnar. Við skulum vona að aðalskipulagið gangi eftir.

++++

Viðbót 09.10.2014:  Í viðtali í Tímariti Landsbankans, sem kom út í morgun, upplýsir Hjálmar Sveinson, formaður skipulagsráðs, að árið 1950 voru matvöruverslanir í borginni 370 en voru einungis 79 árið 2008. Á ráðstefnu íHörpu í morgun um fjárfestingatækifæri í verslun og þjónustu komu fram miklar efasemdir um þessa hugmynd um að færa matvöruverslun í skemmur á hafnar- og iðnaðarsvæðum. Það vekur bjartsýni um betri borgarbrag.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Dagur Bollason

    Nú væri áhugavert að vita hversu margar af þessum hverfisverslunum séu 10/11. Nú bý ég svo ‘heppilega’ að þær tvær verslanir sem eru mér í hæfilegri göngufjarlægð eru tvær 10/11 verslanir. Hvernig náði þetta fyrirtæki svona afgerandi stöðu á markaði?

  • Orri Ólafur Magnússon

    „og svo er auðvitað miklu skemmtilegra að versla í hverfisbúðinni“ Auðvitað er það persónbundið, hvað fólki finnst skemmtilegt að gera – sumir njóta þess eflaust að kaupa ofan í sig og á. Illu er best aflokið á sem skemmstum tíma er á hinn bóginn mín afstaða til slíkra hluta. Þess vegna koma ópersónulegir ofurmarkaðir með nægu rými til móts við mig. Ekki megum við heldur gleyma íslensku veðráttunni, rokinu & rigningunni , sem gerir búðaráp lítt eftirsóknarvert mikinn hluta ársins – a. m. k. undir berum himni. Kringlan og aðrar verslunarmiðstöðvar ( „malls“ ) eru að mínu mati merkilegasta framför í mannlegum samskiptum sem orðið hefur síðustu aldirnar,. Auðvitað væri lang best að setja alla eyjuna undir gler, en vegna mengunar frá eldgosum sennilega ekki gerlegt.

  • Orri Ólafur Magnússon

    „og svo er auðvitað miklu skemmtilegra að versla í hverfisbúðinni“ Auðvitað er það persónbundið, hvað fólki finnst skemmtilegt að gera – sumir njóta þess eflaust að kaupa ofan í sig og á. Illu er best aflokið á sem skemmstum tíma er á hinn bóginn mín afstaða til slíkra hluta. Þess vegna koma ópersónulegir ofurmarkaðir með nægu rými til móts við mig. Ekki megum við heldur gleyma íslensku veðráttunni, rokinu & rigningunni , sem gerir búðaráp lítt eftirsóknarvert mikinn hluta ársins – a. m. k. undir berum himni. Kringlan og aðrar verslunarmiðstöðvar ( „malls“ ) eru að mínu mati merkilegasta framför í mannlegum samskiptum sem orðið hefur síðustu aldirnar,. Auðvitað væri allra- besta að setja alla eyjuna undir gler, en vegna mengunar frá eldgosum sennilega ekki gerlegt.

  • Steinarr Kr.

    Hvað hefur breyst? Samfélagið 2014 er ekki samanburðarhæft við samfélagið 1954. Kröfur einstaklinganna hafa breyst og einnig geta þeirra til að nálgast það sem þeir vilja eða þurfa.

    Sagan segir okkur að hér var einokunarverslun, sem er smá saman búin að vera að leggjast af. Margir muna enn eftir mjólkurbúðum og vonandi eru Vínbúðirnar að fara líka, þá fyrst verður einokunarversluninni lokið.

    Melabúðin lifði af af því að hún bætti í þjónustuna og tók upp slakkann þegar hinar verslanirnar í hverfinu lögðu upp laupana. Hugsa samt að það sé miklu frekar elja eigendanna sem hélt henna gangandi en allt annað.

    Sérverslanir eins og fiskibúðir virðast ganga ágætlega, þó svo að fiskur sé seldur í öllum stórmörkuðum. Oft er þetta spurning um að vera með rétta vöru og þjónustu. Kannski var það bara þannig að allar litlu búðirnar urðu eftir í þróuninni og var þar með sjálfhætt. Ekki að þetta hafi verið eitthvað alsherjarsamsæri eins og hér er látið í veðri vaka.

  • Er ekki kominn tími til að „persónugera vandann“ og spyrja hverjir stóðu að þessum skipulagsmistökum? Hvaða meirihluti,hvaða ráðgjafar og hverjir voru embættismennirnir á toppnum þegar þetta var ákveðið?

    Axlið ábyrgð, gefið ykkur fram og rökstyðjið þetta eða segið okkur hvað hafi breyst.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Mér finndist áhugavert að vita hvernig viðskiptavinir hverfisbúða ferðast almennt milli búðar og heimilis. Er það á bíl, eða fara þeir ef til vill frekar hjólandi eða gangandi?

    Nú er ég í verkfræðinámi en hef um leið mikinn áhuga á skipulagsmálum. Mér hefur þótt gaman að velta fyrir mér íbúaþéttleika og hef leitað leiða til að meta hvað svo og svo mikill þéttleiki byggðar þýðir í raun. T.d. fyrir starfsskilyrði hverfisverslana.

    Þetta er vinkill sem ég hef saknað í umræðunni um þéttingu byggðar. Þ.e.a.s. hvert við stefnum. Hvað er æskilegur þéttleiki og hvernig metum við það?

    Þetta eru bara einfaldir reikningar sem byggja á því að því meiri sem þéttleikinn er, því fleiri búa nálægt versluninni og því fleiri fastakúnna er hún líkleg til að hafa.

    Ég ætla að láta fylgja með eitt dæmi, ef einhver hefur áhuga á að horfa á þetta frá þessu sjónarhorni.

    Eins og önnur líkön tengist þetta raunveruleikanum ekki beint, þessu er einingis ætlað að gefa grófa mynd, byggða á gefnum forsendum.

    Ég geri ráð fyrir að íbúar séu jafndreifðir um borgina. Utan um hverfisverslun dreg ég hring sem hefur radíus sem er fengin með því að margfalda saman ferðahraða og þann tíma sem viðskiptavinur nennir að verja í að ferðast út í búð. Ég kalla þetta „nenniradíus“. Því næst gef ég mér að eitthvert hlutfall íbúa versli að jafnaði í hverfisverslunum og að hverfisverslunin þurfi einhvern ákveðinn fjölda viðskiptavina til að standa undir sér. Þá má reikna hver þéttleiki byggðarinnar þarf að vera til þess að fjöldi viðskiptavina nái upp í lágmarksfjöldann.

    Nú hef ég engar tölur. Ég ætla að gefa mér að verslunin þurfi 500 viðskiptavini og að einn af hverjum tíu íbúum versli að jafnaði í hverfisverslunum. Þá ætla ég að gera ráð fyrir því að íbúi versli ekki í hverfisverslun ef hann getur ekki gengið þangað á tíu mínútum. Ég geri ráð fyrir að hann gangi á 3 km hraða á klukkustund.

    Hægt er að gefa sér ýmsar aðrar tölur, eða aðrar forsendur, og fá þannig mismundandi þéttleikatölur.

    Þetta gefur um 6.400 íbúa á ferkílómetra.

    Ég hef sjálfur dundað mér við að reikna út þéttleikatölur fyrir höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt því er þéttbýlasta póstnúmerið, Vesturbær sunnan Hringbrautar, með um 5.700 íbúa á ferkílómetra.

  • Gunnar Gunnarsson

    Árið 1950 voru íbúar Reykjavíkur 55 þús og verslanir 370 eða ein búð á hverja 150 íbúa. Nú eru næstum 10 x fleiri íbúar á hverja verslun eða 1400. Hvernig er þetta í öðrum borgum? t.d. á norðurlöndum?

  • Hilmar Þór

    Ég var á fjölmennum fundi í Silfurbergi í Hörpu í morgun.

    Fundurinn var á vegum Landsbankans með yfirskriftinni „Fjárfestingar í verslun og þjónustu“. Gefið var út veglegt blað um efnið upp á tæpar 60 síður.
    Þar eru þrjú viðtöl um skipulagsmál við Hjálmar Sveinsson, Andrés Magnússon og mig.

    Í viðtalinu við Hjálmar kemur fram að árið 1950 voru matvöruverslanir í borginni 370 en voru einungis 79 árið 2008.

    Í máli manna á ráðstefnunni voru miklar efasemdir um þessar stóru matvöruverslanir á iðnaðarsvæðum. Það féll að sjónarmiðum Hjálmars og mínum málflutningi hér og í viðtalinu. Hvorugur okkar Hjalmars skilur eða veit hvernig þessar skipulagsákvarðanir áttu sér stað.

    Kannski geta einhverjir lesendur upplýst það!

  • Kolbrún Jóns

    Það eru gleðitíðindi að borgin sé að sná þessu við. Hverfi stendur ekki undir nafni nema að þar sé skóli, kirkja og hverfisverslun. Þetta eiga allir skipulagsarkitektar að vita. 107 Reykjavík gæti varla talist hverfi ef ekki væri Melabúðin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn