Þriðjudagur 09.11.2010 - 08:37 - 12 ummæli

Fangelsi á Hólmsheiði

Síðastliðinn föstudag  skrifaði ég færslu sem var byggð á upplýsingum á heimasíðu danskra arkitekta þar sem þeir kynna hönnun sína á nýju fangelsi á Hólmsheiði. Ég sagði í færslunni að það hlytu að vera á þessu einhverjar skýringar sem ekki liggja í augum uppi. Nú hefur ráðherra svarað í fyrirspurnartíma Alþingis og embættirmenn Dóms- og mannrétindaráðuneytisins gefið út yfirlýsingu vegna málsins.

Ég er þeirrar skoðunnar að framkoma ríkisins við hina atvinnulausu stétt arkitekta sé hér vægt sagt ámælisverð. Pukur og ógagnsæi eins og hér hefur verið viðhaft er ekki sæmandi í opnu, lýðræðislegu upplýsingasamfélagi.  Þessi vettvangur, blogg um arkitektúr, skipulag og staðarprýði er ekki staðurinn fyrir umræður af þessu tagi en ekki er undan því komist í þetta sinn.

Á heimasíðu sinni kynntu dönsku arkitektarnir uppdrætti sem virðast vera á forhönnunarstigi sem er næsta stig á undan aðaluppráttum í vinnuferli arkitekta.  Á því stigi er hönnunin nokkuð langt komin, nokkuð lengra en skilja má af athugasemd embættismanna sem hér fylgir.  

Það er mér bæði ljúft og skilt að birta athugasemdina hér. Það verður þó að nefna að eðli málsins samkvæmt hljóta embættismennirnir að gera minna úr málinu en meira, vegna þeirrar vandræðalegu stöðu sem upp kom.

„Athugasemd frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu vegna umræðna um fangelsisbyggingu

Vegna umræðna um aðkomu danskra arkítekta að undirbúningi nýrrar fangelsisbyggingar vill dómsmála- og mannréttindaráðuneytið taka eftirfarandi fram:

  • Íslensk yfirvöld hafa unnið að hugmyndum um uppbyggingu í fangelsismálum um árabil. Árið 2008 var unnið að byggingu nýs móttökuhúss að Litla Hrauni í samræmi við þágildandi áætlun um uppbyggingu fangelsa. Þá var ákveðið að fá að verkinu erlenda ráðgjafa til að aðstoða við frumathugun vegna hússins. Fyrir valinu varð danskur ráðgjafi, Sten Ostenfeld arkitekt hjá Alex Poulsen Arkitektkontor. Þótti takast vel til við þessa vinnu, en af framkvæmdum varð ekki vegna efnahagshrunsins.
  • Á vegum vinnuhóps dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar hefur verið unnið að frumathugun fyrir nýtt fangelsi. Ákveðið var að í tengslum við frumathugun yrðu gerðir frumuppdrættir til að varpa ljósi á stærð mögulegs fangelsis og lóðar auk innbyrðis tengsla fyrirhugaðrar starfsemi. Er slík vinna í samræmi við verklagsreglur fjármálaráðuneytisins um tilhögun frumathugunar. Var Sten Ostenfeld, sem er einn reyndasti ráðgjafi á Norðurlöndunum á sviði fangelsibygginga, falið að vinna frumuppdrætti og leggja jafnframt mat á forsendur í þeirri húsrýmisáætlun sem lögð var til grundvallar. Þá hefur Ostenfeld gert drög að kröfu- og þarfalýsingu fyrir byggingu og lóð, einkum með tilliti til öryggismála og þeirra sérstöku og sérhæfðu krafna sem fangelsi fylgja. Samið var um þetta verk í júní sl. Ostenfeld er hins vegar ekki arkitekt bygginganna heldur hefur aðeins unnið ofangreind verkefni.
  • Samningsfjárhæð í samningi við Alex Poulsen Arkitektkontor jafngildir um 4,8 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Gert er ráð fyrir að hönnunarkostnaður nýs fangelsis geti numið allt að 120 milljónum króna og að vinna arkitekta geti numið allt að 50 milljónum af því.
  • Frá upphafi hefur verið við það miðað að útboð á hinu nýja fangelsi næði bæði til hönnunar og framkvæmda. Með þeirri tilhögun að fá afmarkaða sérfræðiráðgjöf við gerð frumáætlunar er stuðlað að því að hönnun hins nýja fangelsis geti almennt verið í höndum íslenskra arkitekta og verkfræðinga í stað þess að treysta á að verksali leggi til vinnu arkitekta með reynslu af sambærilegum byggingum.
  • Af ofangreindu er ljóst að það er rangt að af hálfu ráðuneytsins hafi verið unnið að því að hönnun nýs fangelsis yrði alfarið eða að mestu leyti unnin erlendis.“

Athugasemdina má lesa á heimasíðu ráðneytisisn. Slóðin er:

http://www.domsmalaraduneyti.is/frettir/nr/7711

Myndin sem fylgir færslunni er af styttu Magnúsar Tómassonar listamanns og heitir „Óþekkti embættismaðurinn“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Hilmar Þór

    Í framhaldi af athugesemd Guðlaugs Gauta Jónssonar hér að ofan gerði ég tilraun til þess að finna eitthvað um fangelsisuppdrátt dananna á vef Reykjavíkurborgar. Leitin var árangurslaus.

    Á því eru tvær skýringar. Önnur er sú að málið sé ekki komið langt áleiðis og hin er sú að málið hafi farið leynt.

    Til að byrja með og á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja á heimasíðu dananna og ferli málsins hallast ég að síðari skýringunni.

  • Getur einhver sagt mér hvar fangelsið þeirra dönsku er staðsett nákvæmlega og hvaða deiliskipulag liggur til grundvallar tillögu þeirra? Ég átta mig ekki á staðsetningunni miðað við uppdrættina sem Hilmar birti 5. nóv. og sem sýndir eru á vefsíðu þeirra dönsku. (http://skipulagssja.skipbygg.is/)

  • Mæli eindregið með góðri grein eftir Örnu Mathiesen í
    lúgunni, http://lugan.eyjan.is/2010/11/09/arkitektar
    hér á eyjunni.
    Greinin ætti að höfða jafnt til arkitekta og ráðamanna.

  • Þorvaldur

    Hvernig var þetta í þátturnum „yes minister“? Þar réðu embættismennirnir öllu og skrifuðu álit eins og það hér að ofan.

    Ef allt var í steik fékk ráðherrann að taka pokann sinn og var sparkað upp!!!

    Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu áliti ef grannt er skoðað.

  • Hallgerður

    Þetta er táknrænt mál sem lýsir algeru metnaðarleysi stjórnarráðsins gagnvart byggingarlist hér á landi. Þessi ákvörðun er í fullkominni andstöðu við hagsmuni okkar lands, afleiðingarnar ná langt útfyrir hagsmuni þeirra stétta sem vinna við byggingarlist á Íslandi. Halda menn t.d. að danskir arkitektar séu mikið að velta fyrir sér genius loci hér? – Lítið á Hörpu, HR, og turnana margumtöluðu við Skúlagötu, bæta mætti við þeirri stórkostlegu forvinnu fyrir fangelsið á Hólmsheiði sem dönsku arkitektarnir sýna á heimasíðunni sinni – það þarf engan fagmann til að sjá að það eru ekki sérlega sannfærandi vinnubrögð á ferðinni. Hvaða leið getum við farið? Upplýsa og leiðrétta hræðilegan misskilning um hæfi íslenskra hönnuða (hér hugsað sem regnhlífarhugtak).

  • Páll, það er ekki bara maðkur í mysunni, heldur er kornið líka maðkétið!

  • Ég, einhver arkitekt staddur núna eins og sprek á annarlegri strönd í einhverju pólitísku fárviðri undir fána „norrænnar velferðar“ hef nú orðið fyrir algjörri opinberun um að hún er dönsk, hún er í anda Henrik Bjelke og vald-herrar sjá ekki bjálkann í eigin augum, því ekki er velferðin íslensk!

    Og já Elín, væntanlega er fárviðrið á leið til „sam-evrópska“ svæðisins til að bindast þar brusselskum krossbindingi með lopaspuna íslenska 4-flokksins.

    Eitt enn, af hverju geta ráðuneyti endalaust keypt vinnu af erlendum aðilum til að „frumathuga“ allt mögulegt og þess vegna ómögulegt. Þá sýnist mér að ráðuneyti geti sveigt sínar „faglegu“ reglur sem lund þeirra er til, á leiðinni til útlanda í Breakfast at Tiffanys, eða D´Angleterre … það þykir stíll í ráðuneytunum, á kostnað umkomuleysingjanna. Já, hún er skrýtin birtingarmynd „norrænnar velferðar“ á Íslandi nú um stundir.

    Tek svo undir orð þín Hilmar:
    „Ég er þeirrar skoðunnar að framkoma ríkisins við hina atvinnulausu stétt arkitekta sé hér vægt sagt ámælisverð. Pukur og ógagnsæi eins og hér hefur verið viðhaft er ekki sæmandi í opnu, lýðræðislegu upplýsingasamfélagi.“

  • Páll Gunnlaugsson

    Hér er maðkur í mysunni! Trúir því einhver að „reyndasti ráðgjafi á Norðurlöndumn á sviði fangelsismála“ skveri af forsögn og svo frumdrögum af fangelsisbyggingu af þessari stærð á 150 klst. … eða á 6 vikum? Í framhjáhlaupi gerði hann svo „drög að kröfu- og þarfalýsingu fyrir byggingu og lóð, einkum með tilliti til öryggismála og þeirra sérstöku og sérhæfðu krafna sem fangelsi fylgja“.
    Þurftum við erlenda ráðgjafa til að gera frumathugun á byggingu „móttökuhúss“ við Litla Hraun?

  • Ég er ekki arkitekt, en mér skilst að í gildi séu lög um opinber innkaup. Íslenskir arkitektar hafa reynslu og þekkingu á fangelsisbyggingum líkt og erlendir arkitektar.

    http://www.fangelsi.is/media/stofnunin/Framkvamdaaatlun_fangelsa_14.03.2005_f._vefsiduna.pdf

  • Ég er ekki arkitekt , en við fyrstu sýn virðast þetta aðdáunarverð vinnubrögð, að leita til þeirra sérfræðinga á Norðurlöndum sem mesta reynslu og þekkingu hafa.
    Arkitektar hljóta að geta tekið undir það að velja beri þann hæfasta til verksins, ekki þann sem mest þarf á vinnu að halda?

  • Maður vissi að það væri keppikefli stjórnvalda að skapa störf en manni láðist að spyrja hvar. Nú er svarið komið: Í Evrópu.

  • Sigurður H.

    Af hverju hefur ráðuneytið ekki upplýst um þetta fyrr?
    Hví var leynd yfir þessu?
    Því þessi nístandi þögn þar til nú?
    Mörgu er ósvarað.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn