Miðvikudagur 09.03.2016 - 08:57 - 5 ummæli

Fjármálahverfi Parísar – La Defence

IMG_5109

Það er líklegt að viðskiptahverfið La Defence hafi bjargað miðborg Parísar frá því að stórir og voldugir fjárfestar byggðu skýjakljúfa í alþjóðlegum stíl inni í miðborginni. Þarna var afmarkað svæði utan gömlu borgarinnar þar sem þeir sem vildu byggja og starfa í skýjakljúfum gátu látið gamminn geysa.

Í viðskiptahverfinu er samansafn af frábærum skrifstofubyggingum honnuð af þekktum arkitektafyrirtækjum.

Gallinn er samt sá að þessi hús hafa enga sérstaka arkitektóniska skírskotun til Parísar eða Frakklands yfirhöfuð og gætu þess vegna staðið hvar sem er annarsstaðar.

Fyrir utan skipulagið er hverfið ekki sérstaklega áhugavert fyrir aðra en fjárfesta og kannski arkitekta.

Skýjakljúfarnir kallast ekki á við hvorn annan, heldur keppast þeir um athyglina á sama hátt og allstaðar annarstaðar þar sem verið er að byggja svona hús.

Ég hef heimsótt svona hverfi í Sydney, Singapore, Shanghai, Tokyo, Cape Town og víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Þau eru öll meira og minna einkennalaus og eins.

Þó verð ég að segja að það er einhver elegans yfir La Defence sem maður sér ekki á mörgum öðrum stöðum af þessari gerð.

Grand Arch eftir Danann Otto Spreckelsen heldur utanum svæðið og tengir það afar sterkum böndum við miðborgina og sögu hennar.

Skipulagslega er svæðið líka vel tengt miðborg Parísar, sem byggir á hugmyndum Haussmanns fyrir meira en 150 árum. Framan við Grand Arch er göngutorg sem er sennilega nokkuð stærra en Torg hins Himneska Friðar í Beijing. Torgið er beintengt gamla Sigurboganum, Champs-Elysees, Louvre og miðborginni.

Hér fylgja nokkrar myndir sem ég tók með símanum mínum í gærdag.

+++

Sjá einnig eftirfarandi slóð þar sem sagt er frá sjónarmiðum Jan Gehl sem líkir háhýsahönnum við hönnun ilmvatnsglasa. En Gehl leggur mikla áherslu á arkitektúr í augnahæð.

Háhýsi-Ilmvatnsglös-Phallus

 

IMG_5107

IMG_5105

IMG_5102

IMG_5110

 

Flokkar: Óflokkað · Spaugilegt

«
»

Ummæli (5)

  • Reyndar væri ég alveg til í að búa eða vinna í háhýsum. Mér finnst afar gaman að búa á háhýsahótelum í erlendum borgum. Síðast í Vancouver sem er talin ein af þeim borgum í heiminum þar sem er best að búa, en þar er mjög mikið af háhýsum. (Reyndar eiga þeir í vandræðum nú vegna húsnæðisbólu sem er knúnin áfram af kaupum Kínverja á húsnæði.)

  • Sigurlaug

    Mér finnst háhýsi flott en mig langar ekki til að eiga heima í þeim eða vinna í þeim. Þetta er góð lausn í París. Við viljum samt ekki svona hús í miðborg Reykjavíkur.

  • Hilmar Þór

    Já já Egill hér að ofan. Háhýsi eiga auðvitað fullan rétt á sér þegar þau eiga við. En þau eiga sjaldan við og alls ekki innan Periferíunnar hér í París eða innan Hringbrautar í Reykjavík.

    Og varðandi Montparnasse turninn þá erum við sammála um hann. Ég las reyndar einhverssataðar að það væri nánast búið að fjármagna niðurrif hans þannig að það liggur nánast fyrir að hann muni verða rifinn á næstu 10-15 árum.

  • Mér finnst alltaf mjög gaman að koma í La Defense. Háhýsi og háhýsahverfi eiga fullan rétt á sér og geta verið frábær, svo fremi sem þau stinga ekki algjörlega í stúf við umhverfi sitt, eins og t. d. hinn hræðilegi Tour Montparnasse sem ætti barasta að rífa.

  • Jón Gunnarsson

    Látum Reykjavík innan Hringbrautar í friði!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn