Þriðjudagur 15.03.2016 - 11:41 - 15 ummæli

Niðurrif í Reykjavík og París.

1039688_10207810173324555_7398580276129170725_oMeðan Reykjavíkurborg stuðlar að niðurrifi gamalla húsa gráta Parísarbúar horfnar byggingar. Í Reykjavík eru rifnar gamlar byggingar sem túristarnir koma til að skoða og umhverfi sem allir elska til þess að byggja hótel fyrir gestina.

Mér sýnist Parísarbúar ekki rífa hús lengur. Þeir breyta húsunum og byggja við þau, en rífa helst ekki.

Parísarbúum er annt um staðarandann, sem sífellt er ógnað af allskonar bröskurum. Stjórnkerfi Parísarborgar er flókið. Það eru 20 borgarstjórar, einn í hverjum borgarhluta og svo er aðalborgarstjóri fyrir heildina sem er staðsettur í ráðhúsinu fræga, Hotel du Ville. Og svo skiptir ríkisstjórnin og forseti landsins sér iðulaga af bygginga- og skipulagsmálum borgarinnar. Oftast sem betur fer.

Ein þeirra bygginga sem mikið er saknað í París er Les Halles sem var látin víkja fyrir nýbyggingu uppúr 1970. Les Halles var aðalmatarmarkaður borgarinnar og oft nefndur “magi Parísar”.

Les Halles getur rekið sögu sína til ársins 1183 þegar þar var settur á laggirnar matarmarkaður sem þjónaði  borginni allri. Byggt var myndarlega yfir Hallirnar á árunum milli 1850 og 60. Þær voru hannaðar af Victor Baltard og voru úr stáli og gleri. Þetta byggingaefni var vinsælt á þeim árum. Það nægir að nefna Crystal Palace í London og síðan bæði Le Bon Marché sem fjallað var um hér í síðustu viku og stendur enn, öllum til mikillar ánægju.

 Nýbyggingin sem kom í stað Les Halles var rifin um þrem áratugum eftir að hún var tekin í notkun.  Enda var óánægja með hana. Innan nokkurra vikna verður tekin í notkun enn ein nýbyggingn á svæðinu sem Hallirnar stóðu áður. Mér sýnist hún heldur ekki lofa góðu. Mér sýnist önnur tilraun, á fjórum áratugum, til þess að byggja hús í stað gömlu Hallanna muni mistakast.

Til sönnunar þess hvað byggingar Les Halles voru taldar merkilegar þá voru tveir af  tíu skálum sem Les Halles samanstóð af reistir annarsstaðar. Annar hér utan borgarinnar og hinn í Japan. Standa þeir báðir enn.

+++

Ég kynntist Les Halles ágætlega þegar ég heimsótti Parísarborg á árunum 1960-1970. Það var mjög líflegt þarna síðla nætur þegar matvörukaupmennirnir komu til þess að sækja fersk matvæli til að selja í verslunum sínum víðsvegar um borgina.

Þarna fékk ég í fyrsta sinn franska laukssúpu innan um blóðuga slátrara og pelsklæddar hefðarkonur, sem voru að næra sig eftir skemmtanalíf næturinnar uppúr klukkan fjögur á morgnanna.

+++

Mér sýnist Reykjavíkurborg vera að gera skelfileg mistök með því að heimila niðurrif eldri húsa innan Hringbrautar. Manni fallast hendur þegar maður heyrir svo að ráðamenn segjast vera verndunarsinnar sem beri mikla viriðngu fyrir arfleyfð genginna kynslóða. Arfleyfð sem við elskum og ferðamennirnir koma til þess að skoða. Mín skoðun er sú að það eigi ekki að rífa neitt innan gömlu Hringbrautar nema í algerum undantekningatilfellum.

+++

Efst er mynd af  einu af nokkrum húsum við gömlu höfnina í Reykjavík sem verið er að rífa þessa dagana til þess að rýma fyrir 110 herbergja hótelbyggingu.

Svo koma nokkrar myndir af gömlu Höllunum í París, sem voru látar víkja fyrir nýbyggingum sem stóðust á engan hátt væntingar og voru rifnar. Síðasta myndin er af því mannvirki sem nú rís og á að opna eftir nokkrar vikur. Mér datt í hug marglitta, þegar ég leit bygginguna augum. Hvað er marglitta að gera hér á þurru landi í miðri Parísarborg?

Les Halles 1971

Svona litu Hallirnar út 1971 skömmu áður en þær voru rifnar.

 

paris-les-halles-21Hér er búið að rífa allar skemmurnar nema tvær. Önnur var endurreist utan Parísarborgar og hin í Japan.

 

Vedere_a_Halelor_din_Paris_de_pe_Biserica_Saint_Eustache

th

Að ofan er mynd sem mun vera tekin 1951.

Að neðan er mynd innan úr Les Halls í lok nítjándu aldar.

les-halles

les-hallesnnÞetta er nýbyggingin sem kom í stað stál- og glerskálanna í Les Halles frá 1850. Hún var reist um 1980 og rifin skömmu eftir síðustu aldamót.

canopée-les-halles-2014Þessi byggin kom í stað þeirrar sem reist var um 1980 og verður opnuð eftir 3-4 vikur. Líklegt er að þessi byggin hljóti svipuð örlög og byggingin frá 1980. Enda eru þær báðar dægurflugur í byggingalistinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

 • Jón Sigurðsson

  Hvernig stendur á því að eftir að húsafriðunarmaðurinn Nikulás Úlfar Másson var skipaður byggingarfulltrúi hefur aldrei verið meira rifið niður af gömlum húsum í borginni: https://www.youtube.com/watch?v=p-xGWlzy9ac

 • Hilmar Þór.

  Ég lék mér þarna í
  Fjalakettinum og man að þetta var stórt hús með balkoníi að innan allan hringinn. Þetta stóð autt að mestu kannski 2-3 íbúðir og svo ADLON sjoppa neðst. Það fer ekki vel um hús að þau standi auð árum saman og þeim enginn sómi sýndur. Ekki fannst neinn til að kaupa eða leigja svo ekki var annað í stöðunni en að rífa það. Í staðinn hefur verið byggt hús sem sómir sér vel og enginn saknar þessa kumbalds sem enginn hafði not fyrir.

 • Hafandi búið í París veit ég hvað söknuðurinn eftir gömlu Les Halles er mikill, það sem kom í staðinn var skelfing og hugsið ykkur, ekkert annað að gera en að rífa það eftir nokkra áratugi.

  Við sjáum þetta víða hér. Hugsið ykkur hvað miðborgin væri miklu fallegri ef menn hefðu ekki farið í að eyðileggja Skuggahverfið? Nú sjáum við hvað Grettisgatan og Njálsgatan sem lifa eru til mikillar prýði með sín marglitu litlu hús sem eru eitt helsta einkennismerki Reykjavíkur.

 • Sigrún Gunnarsdóttir

  Þetta er skemmtilegur vinkill. Frakkar rifu hús vegna þess að starfsemin fór annað. Þeir hefðu getað aðlagað húsin nýrri starfssemi og gefið húsunum framhaldslíf. Svo fóru þeir að byggja ný hús í stað þeirra sem var fórnað. En það tókst ekki þrátt fyrir samkeppnir og mat færustu manna. Og nú gera þeir enn eina tilraun sem ekki lofar góðu. Og allir sakna Hallanna sem voru rifnar.
  Það er að auki alger misskilningur að borgir geti ekki þróast og dafnað þó ekki séu byggð ný hús í hvert sinn sem starfseminn breytist eða ný tækni eða þægindi koma til sögunnar. Þvílíkt bull!

 • Orri Ólafur Magnússon

  Ég minnist þess að hafa lesið það í þýsku tímariti fyrir langa löngu – um síðustu aldamót – að Lissabon væri að stórum hluta til í eigu örfárra fjölskyldna sem létu sér þaðí léttu rúmi liggja þótt gamlar byggingar í þeirra eigu grotnuðu niður. Þvert á móti væri ástandið svona af ásettu ráði – nýbygging á lóðinni lofaði miklum hagnaði. Sennilega hefur sami aðilinn verið bæði eigandi og framkvæmdaraðili / verktaki í byggingariðnaði. Mér rann til rifja að sjá allar þessar fögru – og greinilega – reisulegu byggingar frá 18. & 19. öld verða eina af annari vanhirðunni að bráð Ef til vill hefur þróuninni í Lissabon verið snúið við – það eru u. þ. b. 15 ár liðin síðan ég heimsótti borgina. Því miður virðist stjórnlaus og vitfirrt hótelvæðingin í Reykjavík ´vera á góðri leið með að eyðileggja það litla sem eftir er af gömlu borgarmyndinni. Það væri svo kaldhæðni og eiginlega mátulegt á fésjúka framkvæmdamenn, ef útlendingarnir – ferðamennirnir – snéru baki við borginni einn góðan veðurdag vegna þess, hversu „steril“ og steinsteypulegt allt væri orðið – eins konar heimskauta-útgáfa af Wolfsburg ( borg sem reyndar hefur stórskánað, enda fara þeir í borgarstjórn Wbg nú orðið þveröfuga leið í skipulagsmálum en Dagur B. & Co ).

  • Hilmar Þór

   Ég hef komið nokkru sinnum til Lissabon og notið sérkenna hennar.

   Sérkenni Reykjavíkur verða minni með hverju gömlu húsi sem er rifið.

   Hér í París voru áætlanir um að rífa hina svokölluðu Mýri eins og hún leggur sig.

   Þetta kom first fram 1922 þar sem lagðar voru fram áætlanir um að rífa allt hverfið og byggja háhýsi í staðinn (Le Courbusiere). Eftir þetta slummaðist mýrin og varð afar ógeðsleg með illa viðhölnum húsum og saurlífi. Menn töldu að hverfið ætti sér enga framtíð. Svo komu aðgerðarsinnar sem töldu að það ætti að hafna þessum áætlunum. Strax og það var samþykkt tóku húseigendur sig til við að endurnýja hús sín. Núna er þetta með vinsælustu hverfum borgarinnar og fasteignaverð hefur hvergi hækkað hlutfallslega jafn mikið.

 • Samúel Torfi Pétursson

  Er það þróuninni innan Hringbrautar óumdeilanlega til framdráttar að varðveita allt þar í óbreyttri mynd án endurnýjunar og uppbyggingar á nýju húsnæði? Það má efast. Magnús kom með ágæta punkta varðandi ókostina við það hér að ofan. Fúin timburhús hér eru ekki alltaf alveg sambærileg við steinhús Parísar. En er ekki líka með því festa þar allt í formalíni eins staðan er verið að ræna miðborginni tækifæri til að vaxa og dafna, stækka og eflast? Bregðast við áhuga fólks og ferðamanna á að vera þar og svara kalli nýrra tíma? Fyrir utan að það að allar hugmyndir í átt til frystingar á allri þróun er praktískur ógjörningur m.v. þær byggingarheimildir sem liggja fyrir í núverandi skipulagsáætlunum á svæðinu.

  Að sama skapi má alveg spyrja hvort nokkuð sé ómögulegt að finna einhvern milliveg sem bregst við ákalli margra um meiri virðingu fyrir hinu gamla og einfaldlega gera kröfur um betri arkitektúr á svæðinu? Er það ekki meira hér sem hnífurinn stendur í kúnni? Ef svo er hlýtur að mega leita fordæma til annarra borga með lausnir. T.d. held ég að ég sé ekki alveg að bulla þegar ég segi að í öðrum borgum finnist dæmi um sérstakar ráðgefandi nefndir fagfólks í arkitektúr sem taka fyrir arkitektúr í verkefnum miðborga og eru ráðgefandi með það hvort veita eigi heimild til uppbyggingar. Ok, pínku meiri bjúrókrasía.. En væri slíkt alveg galið hér?

 • Sigríður

  Svo er spurning af hverju eru þær í svona lélegu ástandi? Er það ekki bara lélegu viðhaldi um að kenna? Þeir sem hafa ekki áhuga á að halda byggingum sínum við ættu ekki að eiga þær. Finnst þetta ömurleg stefna hjá borginni og eigendum húsanna.

 • Allt voru þetta handónýt hús Fjalakötturinn var mikill eldmatur og slökkviliðið saup hveljur ef hann var nefndur því eldsvoðar hafa verið miklir á þessum slóðum. Alliance var ekki saknað þó ljótt hús kæmi í staðinn. Hótel Skjaldbreið hefur verið í niðurníðslu ( ónýtt ) í aldir, rónabæli í denn en Alþingi hefur hafið endurgerð, gaman að eiða fé skattborgaranna. Það er arkitektanna að prjóna og aðlaga í sinni vinnu en það hefur ekki alltaf tekist svosem Moggahöllin og hús Almenna við hliðina á Hótel Borg. Betur má ef duga skal.

  • Hilmar Þór

   Magnus Þórðarson.
   Þú þarft að lesa þig betur til. Allianshúsið stendur enn á sínum stað og Fjalaköttinn mátti eldverja við endurbyggingu þannig að hann væri traustur sem steinhús. Og Skjaldbreið er akki aldagamalt heldur aldargamalt. Öllum þessum húsum eigum við að sýna þann sóma sem þeim ber.

  • Bjarni Kjartansson

   Samkvæmt þessum röksemdafærslum þínum, ætti auðvitað að setja kúluna á gamla hús Landspítalans?

 • Það er búið að meta það og þetta var útkoman. Það er ekki hægt að leggja það á eiganda að endurbyggja eign og sitja svo uppi með himinháa reikninga. Einnig ef ríkið kæmi að málum þá tífaldast kostnaðurinn og við höfum slæma reynslu af því. Þetta sjónarmið að allt gamalt sé svo flott og beri að varðveita er ekki hægt að framkvæma vegna erfiðs veðurfars og mikils viðhalds.

 • Þegar byggingar eru orðnar það lúnar og feysknar og ekki þess virði að endurbyggja er ekki um annað gera en rífa þær og byggja nýtt. Þetta hús er við Tryggvagötuna og var dæmt ónýtt. Þegar svo er komið er rétt að rífa það.

  • Hilmar Þór

   Ef húsið er talið ónýtt þarf að meta hvort ekki sé rétt að endurbyggja það á svipaðann hátt og það var. Svo er alltaf spurning um matið og hverjar eru meginforsendur matsins og þess vegna má velta fyrir sér hverjir eru matsmennirnir. Hvaða hagsmunir vega þyngst. Almennings, fjárfestisins eða arfleyfðarinnar. Það koma upp margar spurningar. En vinnureglan á að vera þannig að húsið njóti vafans.

  • Þórður Magnússon

   Það eru svo margar byggingar sem hafa verið dæmdar ónýtar af hagsmunaaðilum en hafa svo reynst vera í ágætu lagi. Má þar nefna hús sem hafa því miður horfið eins og Laugaveg 74, Rammagerðina og nú auðvitað Fjalaköttinm en einnig hús sem var bjargað eins og Alliance húsinu, Hótel skjaldbreið, Bergstaðastræti 19. Allt hús sem eigendur vildu rífa og fengu matsmenn til að dæma ónýt.

   Staðreyndin er sú að það auðvitað freisting fyrir hvern sem er að fá hús dæmt ónýtt og fá að launum margfalt byggingarmagn. Því miður hefur borgin af óskiljanlegum ástæðum oftar en ekki lagt traust sitt á mat sem byggingaraðilar keyptu og var því auðvitað þeim í hag.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn