Fimmtudagur 21.02.2013 - 22:19 - 24 ummæli

Framúrskarandi deiliskipulag – Landsímareitur

Ég var á kynningu á skipulagi Landsímareits í ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Páll Gunnlaugsson arkitekt frá ASK arkitektum kynnti verkið með þeim hætti að manni finnst það vera í afar öruggum höndum.  Hann gerði enga tilraun til að sneiða hjá þeim atriðum sem mest voru gagnrýnd um það bil sem samkeppni um svæðið fór fram. Þvert á móti gerði hann sérstaklega grein fyrir þeim.

Eins og áhugasamir um skipulagsmál muna kannski gerði dómnefndin nokkur tilmæli í dómnefdaráliti til verðlaunahafa um breytingar á verðlaunatillögunni.  Þetta voru skipulagsleg atriði og minniháttar útfærslur. Fjöldi áhugasamra um deiliskipulag Kvosarinnar skrifaði greinar í blöð um ýmislegt er varðaði deiliskipulagið og um 12000 mótmæltu ýmsum fyrirhuguðum breytingum á skipulagi svæðisins með undirskrift sinni auk umræðu á vefsíðum og Facebook.

Eftir frekari vinnslu á verðlaunatillögunni virðist manni að skipulagsráði með hjálp skipulagshöfunda hafi tekist að mæta gagnrýninni að verulegu marki. Það er augljóst að hagsmunaaðilinn, Pétur Þór Sigurðsson, hefur verið skilningsríkur og allir hafa aðilarnir skilið mikilvægi þess að ná almennri sátt um málið. Sátt er sérstaklega mikilvæg þegar skipulagsákvarðanir eru teknar.

Skipulagsráð, ASK arkitektar og Pétur Þór Siguðsson eiga heiður skilinn fyrir niðurstöðuna og ég óska þeim til hamingju. 

Þetta er nefnilega ekki auðvelt því manni virðist oft henta þegar deiliskipulag er unnið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila að hluti skipulagsvaldsins færist að hluta til hagsmunaaðlians.  Þetta gerist jafnt þegar einkaaðilar eiga í hlut og hið opinbera. Ég nefni dæmi af Höfðatorgi annarsvegar og Landspítalann hinsvegar þar sem manni virðist sátt hafi ekki náðst um verkefnið enda lítið tekið tillit til athugasemda úr samfélaginu og þeirra sem annt er um borgarskipulagið. Aðilum Landspítalaáætlunarinnar hefur ekki tekist að ná sátt um þá áætlun meðal borgaranna og jafnvel sýnt gagnrýnendum hroka.

Á Landsímareit er annað uppi á teningnum og er það mikið gleðiefni.

Aftur að skipulaginu. Auðvitað má stöðugt bæta allt sem gert er og ég á von á því að þróun Landsímareits og Ingólfstorgs eigi eftir að batna enn meir í höndum þeirra sem vinna að verkinu. Ég sakna þess samt að Ingólfstorg í núverandi mynd skuli ekki hafa verið tekið inn í skipulagið og því breytt til betri vegar.

Efst í færslunni er yfirlitsmynd sem sýnir svæðið úr lofti séð til suðaustur.

 Að neðan koma svo nokkrar myndir með skýringum En mikilvægast er að skoða kynningarefni sem er að finna á þessari slóð:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/hagsmunadilakynningar/1245-130220-kynning_almenningur.pdf

Í lokin vil ég segja að það vakti undrun mína hvað fáir mættu á kynningarfundinn í ráðhúsinu. Í ljósi allrar umræðunnar og 12 þúsund undirskrifta voru fundargestir mjög fáir. Kannski 50-60 manns.  Þarna voru ekki einusinni þátttakendur í samkeppninni eða ráðgjafar sem unnið hafa fyrir borgina að skipulagsmálum, heldur ekki sjónvarp eða ljósvakamiðlar að því er mér sýndist. Þetta styður fullyrðingu mína á eftirfarandi slóð þar sem segir að áhugi fyrir þessum málum er í skötulíki: http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

 

 

Hér er horft til vesturs yfir Aysturvöll að Landsímahúsinu og gamla kvennaskólanum (Nasa) Nýbyggingin sem stendur framan við Landssímann þar sem nú eru bifreiðastæði. Nýbyggingin er með risi og kallast þar með á við byggingarnar handan við Kirkjustræti. Þak Landsímahússins hækkar lítillega með  mansardþaki og kvistum  sem eru svipaðir og á Hótel Borg handan Austurvallar.

 

 

Ásýnd Thorvaldsensstrætis að Austurvelli.  Þarna sést vel kvernig form nýbyggingar við kirkjustræti og hlutföll rýma við nærliggjandi byggð, hús handan götunnar og horn Aðalstrætis og Túngötu.

 

Hér gefur að líta ásýnd að Vallarstræti og Ingólfstorgi. Athygli vekur að það eru stórir gluggar sem ekki má byrgja að göngusvæði í Vallarstræti þar sem NASA er nú. Þarna eins og allstaðar á reitnum verður verslun og þjónusta á jarðhæðum ætluð almenningi.

 

 

Hér er horft yfir Víkurgarð sem snýr til suðvestur og verður ákjósanlegur til útivistar síðdegit Þarna verða vernduð tré sem fyrir eru. M.a elsta tré borgarinnar, silfurreynir sem þarna stendur. Allar jarhæðir verða með þjónustu á borð við verslanir, bjórstofur og kaffihús.

 

 

 Hér er að lokum yfirlitsmynd þar sem horft er til norðvesturs. Ég endurtek meðmæli mín með kynningarefninu sem nefnt var að ofan og er á þessari slóð: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/skipulagsm_l/mal_kynningu/hagsmunadilakynningar/1245-130220-kynning_almenningur.pdf

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Albína Hulda Pálsdóttir

    Ég steingleymdi að þakka fyrir fróðlegt og skemmtilegt blogg. Ég myndi líka gjarnan vilja heyra einhverja umræðu um fyrirhugaða byggingu Árnastofnunar milli Hótel Sögu og Þjóðarbókhlöðunar, mér finnst mikil synd að tapa þessu opna svæði milli þessara stóru húsa þó vissulega sé húsið þarft og mikilvægt að hýsa Árnastofnun vel til framtíðar.

  • Albína Hulda Pálsdóttir

    Ég hef nú haft vinnuaðstöðu í húsinu í Kirkjustræti á móts við Landsímahúsið sem farið verður í að gera upp nú á næstu mánuðum síðan sumarið 2012. Það skín aldrei sól inn á fyrstu hæð hússins við Kirkjustræti og gatan þarna framan við er mjög þröng nú þegar og nokkuð dimm þar sem Landsímahúsið og rauða húsið á móts við Kraum eru svo há. Þegar byggt verður við Landsímahúsið og þrengt enn frekar að Kirkjustrætinu verður held ég til þröng skuggagata þar sem enginn mun vilja vera.

    Í sumar var ótrúlega gaman að sjá notkunina á Fógetagarðinum aukast þegar búið var að setja þangað rauða púða og skraut til að lyfta ásýnd þess. Þegar fólk áttaði sig á að nú var hægt að tilla sér þarna fóru að sjást þarna barnafjölskyldur og ungt fólk sem sátu og nutu sólarinnar. Þegar þetta var fjarlægt datt notkunin strax niður þó að veðrið væri ekki enn orðið slæmt.

    Við hótelið við Aðalstræti er því miður nokkuð stöðug umferð rútubíla og jeppa sem dregur nokkuð úr svæðinu en ég held að ef bílastæðin framan við Landsímahúsið yrðu fjarlægð og reynt að tengja milli Fógetagarðsins og Austurvallar yrði þetta svæði enn betur nýtt.

    Ég held að viðbygging við Landsímahúsið væri mikil afturför, myndi skipta þessum litlu opnu svæðum óþarflega upp og gera þau dimm og óyndisleg. Það eru nú þegar svo fá opin svæði í miðbænum, það má ekki fækka þeim enn frekar.

  • Þetta er áhugaverð gleði, og að mínu mati aðeins yfirdrifin, ekki vegna vinnu ASK sem er smekklega unnin, heldur ef metnar eru raunverulegar breytingar frá þeirri tillögu sem lá fyrir og var svo hrópuð niður að heil samkeppni var haldin í staðin:
    (sjá slóð:http://smugan.is/2010/05/munsolin-skina-aftur-a-ingolfstorg/)
    Massarnir sem áður stóðu við suðurenda Ingólfstorgs og í upphaflegu tillögunum ruddu gömlu húsunum inn á torgið voru fyrir samkeppni farnir að leyfa gömlu húsunum að sitja við hliðin á sér. Þeir hafa nú lækkað um eina hæð (úr fimm í fjórar). Sá fermetraniðurskurður er bættur upp við Kirkjustrætið og ofan á Landssímabyggingunum. Enn á að rífa NASA. Enn á að rísa hótel í Landssímahúsinu.
    Ég sé ekki þær fórnir og skilning sem Pétur Þór á að hafa fært. Hann komst einfaldlega ekki lönd né strönd með fyrri tillögur og varð því að leita annarra leiða. Ef þetta verður allt hótel er hann væntanlega að fá allt sitt og getur nú haldið áfram eftir margra ára tafir (kannski er það fórnin sem hann færði).
    Eru framkvæmdaaðilar búnir að samþykkja þessi útlit bygginganna til byggingaleyfis? Eða eru þetta skýringamyndir skipulagshöfunda án skuldbindinga eiganda. Ef svo er getur margt breyst .

    Annað sem er umræðuflötur er að nú eru viðbyggingarnar ekki háar valmaþaksbyggingar í póst-modernískum anda Björns, heldur valmaþaksmassar í húsformum (þak og veggir klæddir sömu efnum) gataðir með misstórum óreglulegum gluggum sem sjá má víða í umfjöllun um arkitektúr. Sem nærtækt dæmi voru fyrstu tillögur Batterísins að innfyllingu í Kyrkjustrætið fyrir nokkrum árum mjög áþekkar. Er þessi arkitektúr að verða að snertifleti húsverndarsinna og modernista í arkitektúr?

  • Nýja útgáfan af verðlaunatillögu samkeppninnar um Ingólfstorg og Kvosina er takmörkuð við hagsmuni eins aðila.
    Þó að jákvæð stíleinkenni birtist nú við Kirkjustrætið er upphækkun Landsímahúsins og það sem veigameira er : samræmi og sjónræn tengsl útisvæða Kvosar, ekki leyst.
    Þannig eru bæði markmið samkeppninnar og eftirvæntingar fjölda bæjarbúa sniðgengin.

  • Þetta skipulag lítur mun betur út, en skrítið að Ingólfstorgið er skilið útundan í þessum pælingum.

    En að öðru.

    Er til mótuð stefna um uppbyggingu í miðborg Reykjavikur. Heildræn yfirsýn hvert skuli stefna, hvernig þjóusta, byggð osfr skuli vera í miðborg höfuðborgarinnar ?

    Reykjavik er eina borg íslands og sennilega kemur varla ferðamaður til landsins án viðkomu í höfuðborginni í styttri eða lengri tíma. Nú stefnir í gríðarlega aukningu ferðamanna til landsins og tölur sýna að í ár munu um 720 þúsund manns heimsækja landið heim, 855þ árið 2015.

    Við erum að nálgast það að árlegur fjöldi ferðamanna eru þrefalt fleiri en íbúar landsins. Það er gríðarlegt. Til samanburðar þá heimsækja yfirliett ekki fleiri ferðamenn nágrannalönd okkar árlega en sem nemur íbúafjölda þeirra landa.

    En aftur að miðborginni. Nú eru hugmyndir og áform að byggja hótel/hostel á eftirfarandi stöðum. Landsímahúsinu, Apotek Reykjavikur, Hörpu Landsbanka Laugavegi, Náttúrufræðihúsinu Hlemmi og eflaust mun fleiri stöðum.

    Á góðum sumardegi í dag er vart þverfótandi í miðbæ Reykjavikur fyrir Túristum, rútum, blöðrudekkjajeppum osfr. Þetta á eftir að versna til muna með tilkomu áðurnefndra hótela. Ætlum við virkilega að stefna á að gera höfuðborgina að Benidorm norðursins með eintómum hótelbyggingum og tileheyrandi ferðamannaverslun sem samanstendur af ullarpeysum og rolluhöfðum.

    Þessu fylgir svo barir og veitingastaðir sem standa líka hálf tómir yfir vetrarmánuðina. Sumardagur í miðborg Reykjavikur verður ekki sjarmerandi í framtíðinni með þessu áframhaldi, hvað þá kaldur vetrardagur í tómri borg. Engir íslendingar á ferli því þeir sækja enga þjónustu né verslun í miðborg túristans.

    Þetta er sorgleg þróun og eitthvað sem borgaryfirvöld ættu að taka föstum tökum.

  • Sveinbjörn

    „Aðilum Landspítalaáætlunarinnar hefur ekki tekist að ná sátt um þá áætlun meðal borgaranna og jafnvel sýnt gagnrýnendum hroka“.

    þetta eru orð að sönnu.

    Landsímareiturinn er unnin í sátt við þá sem elska borgina en Landsspítalinn við þá sem elska hagsmuni sína.

    Ótrulegur „hroki“ verkefnastjórnar er þarna á ferðinni og ekkert tillit tekið til rökstrudds vilja þeirra sem sett hafa sig inn í málið.

    Punktur.

  • Stefán Benediktsson

    Það eina sem ég sakna stórlega er að Ingólfstorg skuli ekki fylgja í þessum skipulagsáfanga. Ekki sem gryfja heldur samhangandi flötur sem tengir allar fjórar hliðar torgsins og Fálkahúsið leyst úr fylgsnum aftur sem aðalsmerki torgsins. Umferð á forsendum samrýmis eftir ásnum Aðalstræti, Austurstræti.

  • Það er vandi að gera svo öllum líki. Mér finnst þetta ágætis útfærsla fyrir mína parta og sé ekki að það skerði mín lífsgæði þótt þetta verði byggt svona. Hvað varðar bílastæðin þá er einfaldlega alveg nóg af þeim allt í kringum Kvosina. Síðustu tölur voru eitthvað um 800 stæði per 1000 störf í miðborginni sem mér skilst að toppi flestar borgir austan hafs og vestan. Þótt það fari örfá stæði undir sem þarna eru í dag er það engin goðgá. Og ekki viljum við breyta Austurvelli í bílastæði er það?

    Þessi biturleiki í garð hjólreiða er líka frekar fyndin. Lítið á loftmynd af miðborginni eða hvaða stað sem er á höfuðborgarsvæðinu. Eru reiðhjólin fyrir eða er ekki nóg pláss lagt undir umferðarmannvirki og bílastæði? Í röðinni á stofnbrautinni á morgnanna eru þá reiðhjól að tefja mann? Ætti ekki frekar að þakka fyrir það að til sé fólk sem nennir að hjóla í þessu umhverfi og er þá ekki að taka pláss á götum eða bílastæði frá okkur sem eru á bílum?

  • Jón Guðmundsson

    Það er mikill léttir að sjá þessa glæsilegu tillögu. Í kjölfarið fær maður endurnýjaða trú á fagið, kollegana og borgaryfirvöld. Hér hefur ASK arkitektum tekist að koma til móts við kröfur, óskir og athugasemdir allra sem hafa látið sig málið varða. Hagsmunaðilar eru í þessu tilfelli lóðarhafi, nágrannar og allir aðrir landsmenn. Eins og eldurinn herðir járnið þá hefur gagnrýnin skerpt tök höfundanna á verkefninu og niðurstaðan er raunveruleg byggingarlist í öllu sínu veldi. Það verður gaman að sjá þessar hugmyndir verða að veruleika. Til hamingju.

  • Helgi Hallgrímsson

    Þessi tillaga hefur klárlega batnað síðan í samkeppninni. Það sem stingur samt í augu er að deiliskipulagið tekur einungis á hagsmunum lóðarhafans (landsímahúsinu og viðbyggingum við það) en ekki á hagsmunum borgarbúa (úrbótum á ingólfstorgi og víkurtorgi). Þetta er einkennilegt í ljósi þess að dómnefnd lagði mikla áherslu á útfærslu almenningsrýma í samkeppninni. Verður útkoman í kjölfar þesssar keppni sú að við sitjum uppi með jafn misheppnuð almenningsrými og nú er?

  • Steinarr, þetta hét áður Víkurgarður sem var forveri Hólavallakirkjugarðs, þarna var einnig Víkurkirkja. Þessi nöfn eru upprunalegri http://www.mbl.is/greinasafn/grein/825428/
    http://is.wikipedia.org/wiki/V%C3%ADkurkirkja_(Reykjav%C3%ADk)

  • Baldur Ó. Svavarsson

    Þetta hefur þróast bærilega og allt annað og betra en samkeppnistillagan – já í raun allt önnur tillaga en þar var kynnt. Og þar liggur ákveðið vandmál.
    Þessi ágæta útgáfa af skipulagi fyrir þetta svæði var að finna í þó nokkrum tillögum í samkeppninni um svæðið, en hlaut þá ekki náð fyrir augum dómnefndar, en dúkkar nú upp sem lausnin. Þetta er að mínu og margra kollega mati að verða vandamál í samkeppnum hérlendis. Þ.e.a.s. forsendur keppnislýsingar varða ekki vinnu og niðurstöðu dómnefnda.

    Það er reyndar einnig fróðlegt að bera þessa ágætu þróun saman við þau aldeilis gölnu áform um nýja Landsbankann í aðeins 500 metra fjarlægð sem nú er farið að ræða á ný – einnig sigurtillaga í samkeppni. Rétt eins og Ingólfstorgstillagan þá þarf LÍ tillagan og allt svæðið milli Hörpu og gömlu Kvosarinnar gagngera endurskoðunar við.

    • Læk og þekki mörg dæmi. En maður má ekki gleyma því að þetta er ferli þar sem tillögur í samkeppnum eru allar skoðanamyndandi fyrir dómnefnd enda hafa þær flestar mikið til málanna að leggja

  • Guðrún Bryndís

    V.F. það þarf engin bílastæði – það eru engir bílar. Hönnunin gerir ráð fyrir hinum fullkomna heimi þar sem fólk labbar bara. Enda er verið að hanna byggingu fyrir túrista, sem falla af himnum ofan eða rölta í rólegheitum með tösku í eftirdragi frá BSÍ/Strætó og dáist að borgarlandslaginu.
    Hilmar – 12 þúsund undirskriftir er meira en t.d. 817 athugasemdir sem bárust vegna Landspítalans, sem hefur enn ekki verið svarað – þrátt fyrir að það hafi verið samþykkt á fundi ráðsins um að ábendingum verði svarað skriflega.
    Það er engin furða þótt mætingin sé treg á þessa kynningu, fólk er ekki alheimskt – þetta er kynning á því sem á að framkvæma og það er búið að skrifa leikritið,
    Ábendingar verða mótteknar en ekki svarað. Ef þeim verður ekki svarað verða þær þá lesnar?
    Treg þáttaka gæti þýtt að íbúar borgarinnar nenna ekki að taka þátt í þessu leikriti skipulagsyfirvalda.
    Treg þáttaka gæti líka verið vísbending um að borgarbúum sé orðið sama um hvaða ákvarðanir skipulagsyfirvöld taka.
    Ég hef heyrt fólk tala um að það telji sig heppið að búa utan áhugasvæðis skipulagsyfirvalda, en það er skilgreint utan hjólafæris frá Tjörninni.

  • Steinarr Kr.

    Þarna er talað um Víkurgarð og Víkurtorg. Hét (heitir) þetta svæði ekki Fógetagarður?

    Velti fyrir mér hvort það verður skuggsælt á Ingólfstorgi og þá líka líka í Fógetagarðinum ef byggt verður svona hátt.

  • Jón Ólafsson

    Í kynningarefninu er skýrt út hvernig húsahlutföll í næstu götum hefur haft þýðingu. Þessi breytilegu hlutföll hafa ekki verið viðurkennd sem karakter eldri hluta borgarinnar og kostur en þau eru hluti af hugmyndinni hér öfugt við bæði Höfðatorg og sérstaklega Landspítalann. Mikið hefði verið gaman ef byggingin á Stjörnubíoreit hefði verið brotinn svona niður og einnig höfuðstöðvar Landsbankans sem nú er rætt um að nýju. Það er nú meiri hörmungin.

    • Guðrún Bryndís

      Jón, það vill svo skemmtilega til að hlutföllin í nýjum Landspítala – sem eru nú kallaðar viðbyggingaráform – taka mið af þessum byggingum.
      Sumum finnst það ‘meika sens’, en öðrum ekki.
      Eins og þú réttilega bendir á stendur hár turn við Höfðatorg og hann er mun hærri en byggingarnar í kring – en við skulum ekki gleyma því að hann fellur vel að Skuggahverfi og Skúlagötu.
      Tillögur Landsbankans ríma vel við Hörpu og gefur miðborginni heildstæðari heildarmynd.
      Þegar byggingaráform eru kynnt eru notuð orð sem hljóma svo fallega og gefa svo ljóðræna mynd hugmyndinni. Svo verður fólk svo hissa yfir því að metrar, fermetrar og rúmmetrar eru alltaf jafn stórir, sama hvernig hannað er.

    • Bjarni Kristinsson

      @Guðrún Bryndís.
      Ertu kaldhæðin eða er þér alvara? Ég skil ekki hvað þú ert að fara. Er það þín skoðun að byggingar í miðborg eigi að taka mið af stærð og útliti Hörpunnar? Hvað þýðir annars „heildstæðari heildarmynd“?

      Hvernig kemur t.d. stjórnarráðið til með að „harmónera“ við vinningstillögu BIG af Landsbankanum verður að veruleika. Er þetta góður arkitektur. Að bera enga virðingu fyrir núverandi byggð?

      Það finnst mér ekki. Er það „heildstæð heildarmynd“, í þínum augum? Í raun ef þessar höfðustöðvar verða að veruleika og fyrirhugað hótel verður byggt þá hefur sjarmi miðborgarinnar boðið mikla hnekki.

      Annað, hvernig getur höfðatorgsturninn sem er umvafin mun lægri húsum fallið vel að skuggahverfisturnunum sem eru í amk 700m fjarlægð (lauslega byggt á google earth)?

    • Guðrún Bryndís

      Bjarni, það sem ég skrifa er lýsing á þessum hugmyndum í ræðu og riti – ekkert af þessu eru mín orð. Ég tók saman hvernig þessar byggingar eru/voru kynntar almenningi á íbúafundum og fjölmiðlum þegar skipulag þeirra var kynnt.
      Mér hefur ítrekað blöskrað kynning deiliskipulagi og hvaða áhrif margar ‘metnaðarfullar’ framkvæmdir hafa haft á nágrennið, vegakerfi borgarinnar og ásýnd borgarinnar. Það er ætlast til að fólk gleymi hvernig borgin var áður en HR, Höfðatorg, Harpa, OR, Skuggahverfið og álíka hugmyndir urðu að veruleika. Það er aldrei lagt mat á hvað breyttist – nú er svarið borg er ekki borg ef fólk ferðast um með einkabílum.
      Það vill svo til að ég hef búið í og dvalið í stórborgum, ég hef hvergi séð þá mynd sem sýnd er með þessari tillögu – án allra ökutækja.
      Þegar áform Nýs Landspítala, sem nú eru kölluð viðbyggingar eru kynntar, er t.d. talað um að byggingarnar hafi sömu hæð og hlutföll og byggingarnar við Austurvöll og að þær hafi sama yfirbragð og vinningstillaga Graeme Massie um Vatnsmýrarskipulagið. Mér þykir þessi samanburður óviðeigandi með öllu, því Nýr Landspítali ohf á ekki að rísa við Austurvöll og Vatnsmýrarskipulagið er ekki samþykkt – þó svo að það sé byrjað að vinna eftir því að því er virðist.
      Sumar samþykktir fá litla umfjöllun, tek sem dæmi Þekkinga-/Vísindaþorp sem búið er að samþykkja á túni Aðalbyggingar Háskólans.
      Það felst líka ákaflega mikil þversögn í því að dásama og vernda verk Guðjóns Samúelssonar, en Landsímahúsið er teiknað af honum og er eldra en Gamli Landspítalinn og Aðalbygging Háskóla Íslands.

    • Bjarni Kristinsson

      @Guðrún Bryndís
      sæl ég virðist hafa misskilið þig fullkomlega. Hélt að textinn sem þú skrifaðir endurspeglaði skoðun þína. Sé nú að við erum sammála sem er hið besta mál. 🙂

      Annars er alveg hreint ótrúlegt hvað þessar kynningar geta verið mikið froðusnakk og úr takti við raunveruleikann.

      En það er víst ekki hægt að selja þessar „metnaðarfullu“ hugmyndir með því að segja sannleikann. Þetta er einhvernvegin ekki að virka:

      „Skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti einróma á síðasta fundi sínum nýja hótelbyggingu við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu. Til að hámarka arðsemi eigenda hússins (sem er t.d. Sheik í Saudi Arabíu eða einhver ríkur karl í Kanada) verður það í „mannfjandsamlegum“ skala. Allt of stórt s.s.. Húsið mun ekkert gera fyrir nærumhverfi sitt og mun ekki hafa tengingu við gömlu miðborgina.
      Fagurfræði hússins verður mjög tímabundin. Allt er gert til að húsið verði ekki tímalaust og muni eldast illa. Það verður líklegast „púkó“ innan 10 ára. Jafnvel fyrr. Ekki verður gert ráð fyrir að fólki líði vel fyrir utan bygginguna. Því það skiptir hóteleigandann ekki máli, þar sem hann hyggst bara reka bar innandyra. Fyrir utan bygginguna á samt að byggja skautasvell í framtíðinni. Það skal borgin reka. Ekki verður gert ráð fyrir skjóli á svellinu. Það mun því oftast vera tómt, nema gegnsæja fólkið á meðfylgjandi renderingunum mun kannski birtast því einn daginn. Því mun þó líka líða illa enda er hvergi skjól að finna nálægt húsinu. Að lokum er vert að minnast á að efnisval byggingarinnar, verður ákaflega óhentugt fyrir íslenskar aðstæður …. osfrv. …. En það kemur ekki að sök því það er byggt samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem er illa unnið og ætti að vera fallið úr gildi. Það var enda gert með hagsmuni einkaaðila að leiðarljósi. Þeir eru nú á hausnum enda höfðu þeir vafasamt gildismat. “

      æ smá tuð hérna. afsakið.

  • Það er aldeilis hvað þetta er jákvætt. Gleymist ekki eitthvað? Ég veit ekki hvað það ætti að vera en algott er það varla. Eftir að hafa skoðað kynningarefnið virðist mér ekkert hafa gleymst nema ef til vill að gera betur grein fyrir bílastæðum. Þetta er greinilega betra en samkeppnistillagan.

    • Hver á von á að finna bifreiðastæði í miðborgum London, Tokyo, París, Róm, New York eða Kaupmannahafnar svo maðut tali nú ekki um Rinkøbing eða Rothenburg og San Gimnigiano. það sem gerir þessar borgir spennandi er öðru fremur það að einkabíllinn er hvergi nærri. Enda eru einkabifreiðar afar óheppilegur ferðamáti í borgum. Viljum við ekki að Reykjavík sé borg?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn