Miðvikudagur 20.04.2016 - 08:54 - 12 ummæli

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku verðlaunin fyrir menningararfleiðar/ Europa Nostra 2016

L1002048

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar/ Europa Nostra verðlaunin 2016

Evrópusambandið og Europa Nostra tilkynntu þann 7. Apríl s.l. að Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlyti Evópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar fyrir árið 2016. Sigurvegurum verður formlega afhent verðlaunin við sérstaka athöfn, sem leidd verður af Tibor Navracsics og Plácido Domigo, kvöldið 24 Maí í sögulega Zarzúela leikhúsinu í Madríd.

Við endurnýjunina sem hófst árið 2009 var mikil virðing borin fyrir upphaflegum efniviði og handverki. Notað var timbur úr gamla húsinu eins og hægt var og gömlu handverki.

Þegar það er haft í huga að um 70% arkitekta í t.a.m Frakklandi vinna að endurbyggingum eldri húsa en einungis milli 2-4% hér á landi verður það að teljast stórviðburður að íslendingum hlotnast virðulegustu verðlaun á sviði endurbygginga eldri húsa í álfunni. Einkum vegna þess að hér á landi er almennt lítil virðing borin fyrir menningararfleifðinni þegar kemur að gömlum húsum. Jafnvel þó að einungis 0,3% húsa í Reykjavík séu t.d. frá árinu 1907 eða eldra veigra menn sig við að leggja í endurnýjun þeirra fáu húsa sem til eru. Þeir vilja frekar rifa þau!

Þessi verðlaun efla vonandi skilning  almennings og stjórnmálamanna á mikilvægi menningararfleifðarinnar fyrir samfélagið og hagkerfið. Endurbygging gamalla húsa byggir brýr á milli nútímans, framtíðarinnar og fortíðarinnar.  Ekki veitir af. Manni virðist sem núverandi kynslóð hér á landi botni ekkert í þessu þegar horft er til niðurrifs húsa hér í Reykjavík að undanförnu.

Ég hef jafnvel heyrt arkitekta flokka kollega sína í annarsvegar verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingasinna eins og um sé að ræða andstæðinga þar sem verndunarsinnar eru vondir og uppbyggingasinnar góðir og bjartsýnir. Þetta er hinn mesti misskilningur sem ber vott um þekkingarleysi og/eða skort á umburðalyndi.

Evrópusambandið og Europa Nostra benda á það augljósa að húsavendun ýtir undir hagvöxt, eflir sjálfbæra þróun og hvetur til félagslegrar þátttöku, samfélagslegrar ábyrgðar og samheldni – sem skiptir meira máli nú, en nokkurn tíma áður.

Þetta þurfa íslenskir arkitektar og stjórnvöld að átta sig á. Endurnýjun eldri húsa og húsavernd er talin hluti af „Skapandi Evrópa“ (e. Creative Europe) verkefninu og skiptir miklu máli varðandi alla uppbyggingu og jákvæða og þroskandi menningu meðan niðurrif er nánast ekkert annað en ómenning í flestum tilfellum.

++++++

Hér kemur hluti úr dómnefndarálitinu eins og það kom fram í frettatilkynningu:

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði

„Verkefnið fólst í endurbyggingu og flutningi Franska spítalans til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann var upprunalega byggður. Auk spítalans voru kapella, sjúkraskýli og Læknishús á sama stað, sem einnig voru gerð upp eða endurbyggð. Nafn spítalans má rekja til stofnunar hans árið 1904 til að sinna fjölda franskra sjómanna sem veiddu við strendur Íslands í um 400 ár. Við upphaf síðari heimstyrjaldarinnar hættu þeir siglingum til Íslands. Þrátt fyrir tilraunir bæjarfélagsins til að halda spítalanum gangandi var honum fljótt lokað og húsið flutt yfir fjörðinn og breytt í íbúðarhús. Árið 1980 var húsið endanlega yfirgefið og lagðist í eyði. Uppbyggingarverkefnið, sem hófst árið 2009, fólst í samstarfi arkítekta, verkfræðinga og handverksmanna Minjaverndar og innan bæjarfélagsins undir stjórn Minjaverndar.  

Þetta var stórt verkefni með það að markmiði að endurlífga þetta markverða tímabil í sögu bæjarfélagsins með því að breyta spítalanum í hótel og safn til minningar um hinn mikla fjölda sjómanna sem fórust við strendur Íslands og á spítalanum. Virðing var borin fyrir upprunalegum efniviði og handverki við endurbyggingu hússins, timbur úr gömlu byggingunni var endurnýtt og gömlu handverki beitt til hins ítrasta. “Verkefnið endurvekur ákveðið tímabil í Evrópskri sögu með því að rifja upp þessa tengingu milli Frakklands og Íslands. Samstarfshópurinn hefur lagt sig fram um að varðveita þessa merku og viðkvæmu byggingu sem og hina áhugaverðu arfleifð sem hún stendur fyrir“, sögðu dómarar verkefnisins.    

“Endurgerð byggingar eins og Franska spítalans fyrir ólíka starfsemi er vandasamt verk. Úrlausn og úrræðasemi samstarfshópsins er sérlega góð. Sú ákvörðun að blanda saman upplýsandi safni og fallegu hóteli er mark um virðingu hópsins fyrir sögu hússins og áherslu þeirra á að auka aðgengi allra að arfleifð hennar.“ Byggingin er staðsett í stórbrotnu og fallegu landslagi Fáskrúðsfjarðar og hefur laðað ferðamenn að þorpinu og þar með endurvakið stöðu þess sem athvarf fyrir þá sem eru langt að heiman.“

++++

Það er ástæða til þess að óska þeim sem stóðu að verkinu til hamingju en þeir eru Þorstein Bergsson hjá Minjavernd, Arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hjá arkitektastofunni ARGOS.  Árni Páll Jóhannesson setti upp glæsilega sögusýningu í húsinu sem er hluti af verðlaunaverkefninu.

Sýning Árna Páls fjallar um fiskveiðar frakka sem hófust á Íslandsmiðum árið 1614 og stóðu yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Talið er að um 400 skútur hafi farist á Íslandsmiðum á einni öld frá 1810 til 1914. Allur aðbúnaður sjómannanna var hörmulegur.

Færslunni fylgja frábærar ljósmyndir sem teknar voru af Guðmundi Ingólfssyni hjá Ímynd. Efst er mynd af sýningu í húsinu sem unnin er af Árna Páli Jóhannesson Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir innan úr byggingunu og frá því þegar endurbyggingin átti sér stað.

+++++

_DSC0066Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar.

_DSC9783

_DSC9594Í þessum gömlu húsum er efniskenndin og handverkið áþreyfanlegt. Maður sér pensilstrokur málarans og spónafar trésmiðsins.

_DSC9668Það er í sjálfu sér upplifun að gista á hótelum sem þessum. Það þekki ég frá Flatey á Breiðafirð þar sem sömu aðilar hafa staðið að uppbyggingu og hóteli í á annað hundrað ára gömlum húsum. Maður sér þssa nálgun víða. Ég nefni Búðir á Snæfellsnesi þó það sé aðeins á annan hátt. Fyrir ferðamanninn er gistingin hluti af upplifuninni þegar svona er búið að þeim. Það er hún ekki þegar gestum er vísað í hin svokölluðu „gámahótel“ sem víða er boðið upp á og jafnvel látin ryðja gömlum húsum úr vegi.

Herbergi invalidSjúkrahúsið er nú glæsilegt hótel. Ekki er annað að sjá en að hægt sé að koma fyrr nútimalegri hótelstarfssemi í aldagömlum húsum ef vilji og hæfileiki þeirra sem að standa er fyrir hendi. Maður veltir fyrir sér hvort ástæðan fyrir niðurifi eigi sér stað sé vegna hins gagnstæða; vilja- og hæfileikaleysi.

Kapella inni AKapellan

LKz8TCS642BUt1Plh-9YGDPoLMf0alLla9jumP1-9KQ,-ZTMKV_gbABEIriNPMh8RVhoq0vO8f955chzBx7LGowHér er hluti hússins komið á örubíl og lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar.

 

Myndir til skipta 050Ástand hússins var ekki gott þegar hafist var handa. En ljóst er að það var hvergi nærri því að vera onýtt.

Myndir til skipta 061

scan2Sagt hefur verið að arkitektarnir hjá ARGOS teikni „með hjartanu“

L1001996Í læk sem liggur meðfram húsunum til sjávar hefur verið komið fyrir allnokkrum sæbörnum hnullungum þar sem kappað hefur verið í nöfn nokkurra þeirra skipa sem fórust við Íslandsstrendur á öldum áður.

L1002000

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Valgeir Kjartansson

    Góð grein hjá þér Hilmar um þetta verkefni. Vonandi verður endurbygging Franska spítalans öðrum hvatning.

    Í þessu sambandium varðvæslu mætti nefna að á Eskifirði utan við veginn til Neskaupstaðar er að finna um 7 litlar timburbryggjur flestar áfastar við hús. Sú byggðarmynd er horfinn á flestum þéttbýlisstöðum, því væri full ástæða að varðveita þá byggðarásýnd. Sum þessara mannvirkja urðu fyrir tjóni í vetur vegna mikils sjógangs.

  • Stefán Örn Stefánsson

    Það virðist svo sem Reykjavíkurborg hafi takmarkaðan áhuga á gömlum byggingum, byggingararfleifðinni eða hagnýtri varðveislu menningarminja ef svo má að orði komast. Helst er sjá að Reykjavíkurborg hafi einhvers konar ofnæmi fyrir slíkum afskiptum, vilji helst losa sig við þau hús sem hún þó hefur lagt fjármuni til, sem hverja aðra óværu. Þau dæmi sem ég hef í huga eru þau sem ég þekki best til, elsta hus borgarinnar sem svo er kallað, Aðalstræti 10, að stórum hluta til upprunalegt frá tíma Innréttinganna, þegar það var eitt af fimm timburhúsum sem reist voru um og upp úrmiðri 18. öld.
    Hitt húsið er Austurstræti 22, sem Reykjavíkurborg lét endurbyggja í sinni upphaflegu gerð, sem stokkahús og lögð var mikil alúð og fagmennska í hvert handtak við uppbyggingu hússins í umhverfi sínu á brunahorninu svokallaða. Enda fékk verkefnið sérstök verðlaun í heild sinni, hin svokölluðu Prix Rothier í Bruxelles 2010. Reykjavíkurborg seldi þetta hús nýverið ásamt öðrum húsum á umræddu horni. Það kann að vera gott og blessað en það þýðir jafnframt að engin trygging er lengur fyrir því að húsið verði varðveitt í sinni mynd, að ekki verði gerðar breytingar vegna mismunandi knýjandi þarfa mismunandi leigutaka og botninn detti þannig úr því metnaðarfulla verki sem endurbyggingin var Reykjavíkurborg hefur engu ansað þeim möguleika að gera húsið að útibúi frá Árbæjarsafni þar sem segja mætti sögu Jörundar að sjálfsögðu, sem hefur reyndar alþjóðlega skírskotun eins og fram hefyur komið á margvíslegan hátt, segja sögu vaxandi verslunarstaðar í Reykjavík, Kvosarinnar og bygginganna þar, leggja sitt af mörkum til að opna megi inn í garðinn bak við Hressó og skapa þannig einstakt athvarf í miðjum bænum. Auðvitað hægt að selja kaffi og mat ,með öllu þessu en hugmyndin og meiningin og athafnirnar þurfa að fylgjast að eigi slíkt að geta gengið. Og með því að selja eignirnar frá sér er möguleikinn tapaður. En slíkri stefnu fylgir jafnframt stöðugildi, ett eða fleiri, sem eru náttúrlega annar ofnæmisvaldur borgarstjórnar ( nema ef vera skyldi í Ráðhúsinu).
    Í Aðalstræti er málið flóknara, einfaldlega vegna þess, að Reykjavíkurborg er þar aðili að eignarhaldinu gegnum hlut sinn í félaginu Minjavernd, sem á húsið og viðbygginguna og hafði allt frumkvæði að verndun og endurbyggingu hússins. Þar hefði heldur betur mátt segja sögur, sögu Innréttinganna og tengslanna við Danmörku og allra fyrsta félag sem Íslendingar áttu aðild að og stefndi að framförum og iðnaði í líkingu við það sem var að gerast í Evrópu. Uppgröfturinn í Aðalstræti leiddi fram ótrúlega fallegan skála og merkilegar tengingar við jarðfræði og upphaf Íslandsbyggðar, sem gerð voru skil í sérstæðri sýningu sem varla á sér sinn líka hér á landi. Við hönnun og framkvæmd var haldið opnum möguleika á að tengja saman sýningarskálann og viðbygginguna við Aðaltræti 10 og þannig skapa möguleika á að segja sögu borgarinnar frá fyrstu byggð til iðnaðarbæjarins. Framhaldið mætti svo segja í Austurstræti. Áhuginn virðist enginn, ofnæmið veldur því að best er að losna við herlegheitin, burt þar sem ekki þarf að áhyggjur af vinnu og stöðugildum og stefnu og framkvæmd hennar. Menningartúrismi? Ekki hér, pulsur og peningar, næturlíf og nýbyggingar, það er málið

    • Guðrún Valdimarsdóttir

      Menningartúrismi!

      Gott orð sem þeir í ferðamálunum þekkja ekki.

      Það er lítur út fyrir að Reykjavíkurborg, öll atvinnugreininni eins og hún leggir sig og ferðamálayfirvöld viti ekki til hvers ferðamennirnir eru að koma hingað til lands. Það er eins og þau haldi að tilgangurinn með heimsókninni sé bara að eyða peningum.

      Svo talar þetta fólk um ómetanlega auglýsingu fyrir Ísland þegar eitthvað stjörnulið sýnir sig á svæðinu!!!!

      Landið er þegar of auglýst og það eru of margir ferðamenn nú þegar. Það er komið nóg.

      Málið er að við þurfum enga auglýsingu. Landið og gott orðspor á að duga.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Þakka þér fyrir að benda okkur á þetta einstaklega vel heppnaða framtak, Hilmar Þór. Ljósmyndir skólabróður míns, Guðmundar Arnar Ingólfssonar, af ástandi hússins fyrir og eftir endurnýjun sýna betur en ótal orð, hversu miklu má koma til leiðar ef viljinn og kunnáttan er fyrir hendi. Því miður virðist hvorugt vera til staðar í borgarstjórn Reykjavíkur einsog hryggileg dæmi um niðurrif gömlu húsanna nýverið sýna. Hér á árum áður, þegar ég var mikið á ferðinni um Þýskaland á vegum vinnuveitanda míns, gisti ég, ef því varð við komið, í hótelum samtakanna „Romantik Hotels“ . Þetta voru gamlar, jafnvel sögufrægar, byggingar, sem hefur verið breytt í hótel. Auðvitað ríkir allt annar andi í slíkum byggingum en einhverju flugvallarhótelinu – enda þótt slík skyndigisting eigi auðvitað einnig rétt á sér ! Það er ánægjulegt að Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði hafi verið fundið nýtt hlutverk sem, þar að auki, fjármagnar viðhald hússins og sýninguna. Ef til vill ætti að skoða þessa hlið málsins ; hvernig mætti nýta gömlu húsin í Reykjavík til atvinnureksturs og gera endurnýjun þeirra, a. m. k. að hluta til, sjálfbæra ?

  • Sigurlaug

    Þetta er til eftirbreytni. Arkitektar og stjórnmálamenn eiga að skammast sín fyrir framkomuna við verk forfeðranna. Þeir eru að skemma gömlu Reykjavík með niðurrifi og fórljótum nýbyggingum sem ekki falla að íslenskri menningu.

  • Páll V. Bjarnason arkitekt

    Ég er eini íslenski meðlimurinn í Europa Nostra og það mættu vera fleiri. Samtökin fengu mig því til að vera assessor eða matsmaður í þessu verkefni. Ég fór austur og skoðaði þetta allt og ræddi við aðstandendur í heilan dag. Þetta eru viðurkenningar sem Europa Nostra ásamt European Union Heritage Board veita. Þessa viðurkenningu veita þau 21 tilnefningum af 190. Tilnefningarnar eru í fjórum flokkum, þ.e. endurbyggingum, rannsóknum og tölvuframsetningu, fórnfúsu stari eins aðila í minjavörslu og uppfræðslu og handleiðslu. Franski spítalinn er því meðal 7 verkefna sem fengu viðurkenningu í endurbyggingaflokknum. Á þingi sem haldið er árlega og verður í maílok í Madríd verða síðan sjö verkefnum veitt heiðursverðlaun (í öllum flokkum) eða Grand Prix Laureate,sem eru vegleg peningaverðlaun. Eitt verkefni fær síðan verðlaun almennings, eða Public choice Award, þar sem kosið er á netinu. Franski spítalinn gæti því auðveldlega náð lengra en hann hefur þegar gert.
    Fólk getur kosið hér:
    http://vote.europanostra.org/
    PUBLIC CHOICE AWARD
    Hvet alla til að kjósa.

  • Guðmundur G.

    Við eigum einmitt að passa upp á að gera ferðamannaiðnaðinn á Íslandi þannig að það fyrsta sem mönnum dettur í hug er sérstaðan og það sem er einstakt. Einstakt veðurfar, einstakt landslag, einstakt fólk, einstakur matur, einstakir vegir, einstakur akitektúr og einstök hótel.

    Allt eftirsóknarvert fyrir ferðamenn sem vilja greiða fyrir gæðin en ekki láta féflétta sig í gámahótelum og keðjuhótelum eins og Hyatt og Marriot.

    Setja kóta á ferðamannafjöldan (2 milljónir er hámark) og auka svo gæðin og hækka verðið. Verðið hækkar þegar skortur er. Þetta stjórnlausa bull sem nú á sér stað leiðir okkur til glötunnar á þessu sviði.
    fljótar en nokkurn grunar.
    Vita ráðamenn um þau tækifæri sem felast í eldri bggð borgarinnar og þorpanna um allt land?.

    Til haminju með Franska Spítalann.

  • 0,3% húsa í Reykjavík eldri en frá 1907!!!!

    Er það eftir að fjögur hús við Tryggvagötu voru rifin (10, 12. 14 og ?)

    Og eftir að húsin tvö við Hafnarstræti voru rifin (19 og 17)

    Og heimildin til að rífa Grettisgötu 4

    og eru húsin tvö Laugarvegur 17 og 19 sem skrælluð voru að innan með í þessari tölu.

    Eru gömlu húsin í Reykjavík kannski bara 0,25%.

    Þeta verður að stöðva strax. Það sjá allir sem lesa þessa grein.

    • Hilmar Þór

      Það er rétt að taka fram að þessa tölu að einungis 0,3% húsa í Reykjavík séu eldri en 1907 er fengin úr grein Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur sem birtist í Kjarnanum í fyrradag (18.04.2016)
      Ég veit ekki hvaðan hún hefur hana.

    • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

      Mér finnst ekki ólíklegt að þetta liggi fyrir í gjaldfrjálsum gögnum frá Landupplýsingakerfi Reykjavíkur. Þar má sækja húsafláka þar sem ef til vill er skráð byggingarár. Ég er þvi miður ekki með aðgang að forriti til að getað skoðað þetta nú i kvöld.

      http://lukr.rvk.is/gjaldfrjals_gogn/index.htm

  • Þórður Jónsson

    Fallegt, vel gert og gott fordæmi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn