Fimmtudagur 29.11.2012 - 15:16 - 19 ummæli

Frystigeymsla og myndlist á Grandanum.

 

 

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður hefur sent síðunni eftirfarandi pistil þar sem hann fjalllar um byggingalist og myndlist á mjög áhugaverðan hátt. Þetta er tímabært efni sem hlýtur að vekja alla þá sem unna byggingalist og myndlist til umhugsunar. Í raun undrar það mig að arkitektar hafi ekki fyrir löngu tjáð sig um þetta merkilega mál sem Kristinn vekur hér athygli á.

Gefum Kristni orðið:

Nýverið auglýsti HB Grandi eftir áhugasömum listamönnum til að taka þátt í lokaðri hugmyndasamkeppni um listskreytingu á eða við frystigeymlu sem fyrirtækið hyggst reísa á Grandanum í Reykjavík. Auglýsingin var svona, með smávægilegum breytingum:

HB Grandi  auglýsir eftir myndlistarmönnum arkitektum til að taka þátt í forvali að lokaðri hugmyndasamkeppni um gerð listaverks frystigeymslu á og eða við suð-austurgafl nýrrar frystigeymslu sem mun rísa á fyllingunni austan við aðsetur HB Granda á Norðurgarði við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Listaverkið Frystigeymslan mun verða ákveðið kennileiti við innsiglinguna að Gömluhöfninni og fjölbreytt athafnasvæði hennar að vestan verðu með Hörpu á aðra hönd. Verkið  Byggingin mun verða sýnileg víða að af hafnarsvæðinu.
Hugmyndiner að listamaðurinn arkitektinn, einn eða í samvinnu við annan myndlistarmann, vinniverk á suð-austurgaflbyggingarinnar, sjálfstættverkframanviðvegginn og/eða verk sem tengir saman veggflötinn skili listrænni byggingu og hugi að opnu útivistarsvæði austan hússins. Nýbygginginer 3.800 m2 heildarstærð, þar af er austurgaflinn  412 m2 og svæðið framan við er 1.300 m2, sem hugsað er sem og útivistarsvæði með göngustígum, dorgaðstöðu,  bekkjum ofl. Útveggir hússins verða úr stálbitum,  klæddir með setum og stálklæðningu að utan. Stálklæðningin verður ljósgrá standandi báruklæðning.

Þá er einnig tekið fram í auglýsingunni að samkeppnin sé unnin í samráði við SÍM – Samband Íslenskra myndlistarmanna. Valdir verða fjórir listamenn til að gera tillögu og fær hver og einn þeirra 250 þúsund krónur fyrir innsenda tillögu. Á heimasíðu HB Granda eru frekari upplýsingar um samkeppnina og uppdrættir og tölvumyndir af væntanlegri byggingu.

Af þessari samsettu auglýsingu að ráða hefði þetta því getað orðið spennandi verkefni, en er það augljóslega ekki.

Það er í mínum huga algerlega óskiljanlegt að bygging sem stendur á jafn mikilvægum stað og að er látið liggja í auglýsingunni skuli ekki falla undir neina fagurfræðilega mælikvarða eða fagleg vinnubrögð. Samt er staðurinn sagður mikilvægur og vísað til kennileita og sýnileika. Skv. uppdráttum er byggingin sem þarna á að rísa ekki arkitektúr, hún er frystihólf — mikill gólfflötur og stórir veggir með flötu dauðu þaki. Það er hinsvegar ekki þar með sagt að hún þurfi að vera svona. Ég held að í þessu tilfelli hafi menn misst af stórkostlegu tækifæri til að hanna byggingu sem geti verið fagurfræðilega áhugaverð og um leið það kennileiti sem lítið og fátæklegt listaverk á risavegg er ætlað að vera. Það er greinilegt að forsvarsmönnum hafnarinnar og HB Granda er ljóst mikilvægi staðarins, þeim er ljós “staðarandi” gömlu hafnarinnar og þeim er ljóst mikilvægi þess að gera umhverfið áhugavert í samhengi við borgarmyndina og umferð almennings. Slík atriði vega auðvitað þungt þegar rætt er um arkitektúr og myndlist, en í þessu tilfelli hafa þeir kosið að líta framhjá mikilvægasta atriðinu í málinu—arkitektúrnum sjálfum.

Hvert er hlutverk listaverksins í þessu samhengi? Jú, því er líklega ætlað að draga athyglina að staðnum og þá væntanlega um leið byggingunni sem það verður á eða við. Það ætti að mínu viti alls ekki að gera í þessu tilfelli. Það tapa allir á þeirri athygli.

Um þettaþarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð. Arkitektasamkeppni hefði verið eðlilegra fyrir svona verkefni,  bæði af hálfu skipulagsyfirvalda og Faxaflóahafna og ekki síður arkitekta og í henni hefði verið eðlilegt að vinna af listrænum metnaði—með eða án aðkomu myndlistarmanna.

Hvers vegna þykir ekki sjálfsagt og eðlilegt að frystigeymslur séufallegar eða falli vel að því um hverfi sem þær eru reistar í? Utanhússskraut breytir ekki vondum arkitektúr í góðan, en góður arkitektúr getur vel verið listaverk í sjálfum sér. Samvinna listamanna og arkitekta getur einnig skilað góðu verki, eins og fjöldi dæmas annar, en sú leið er allt of sjaldan farin hér á landi.

Kristinn E. Hrafnsson

Að neðan eru tölvumyndir af umræddum frystigeymslum og efst er mynd af einu af þekktum verkum  Kristins sem er einn af bestu myndlistarmönnum landsins. Myndirnar af geymslunni eru fengnar af vef Hbgranda.

Til frekari upplýsingar vek ég athygli á heimasíðu listamannsins:  www.keh.is

 

 Eins og sjá má á loftmyndinni mun frystigeymslan kallast á við Hörpu yfir hafnarkjaftinn.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Skemmtileg ádeila sem vekur lesendur til umhugsunar. Hún bendir á hið augljósa; sem eru kröfur á gæði arkitektúrs húsa á áberandi stöðum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Það er eins og eitthvað sé að opnast, að flæða út og sprengja þagnargildið;
    ég þegi bara á meðan 🙂

  • Pétur Örn Björnsson

    Mjög skemmtilegur pistill og forvitnileg umræða. Takk.

  • Bergljót Jónsdóttir

    Pistill KEH hér að ofan ber með sér meiri skilning á byggingarlist en margur byggingarlistamaðurinn getur státað sig af.

  • Ég þakka þeim sem hafa lagt sitt fram hér á síðunni. Margir áhugaverðir punktar hafa komið fram, en það er mér undrunarefni að arkitektar noti ekki svona mál til að ræða af fullri alvöru um arkitektúr, skipulagsmál, fagurfræði og hvaðeina sem snertir það umhverfi sem þeir vinna við að móta. Um myndlistarmenn þarf ekki að fjölyrða frekar en fyrri daginn – þeir hafa ekki skoðanir á svona málum og taka því sem að þeim er rétt. Ég þakka því sérstaklega þeim eina sem hefur eitthvað lagt til málanna.
    Það er gamall siður að reyna að flækja einfalda hluti og það gerir Páll Hjaltasona ágætlega í sinni athugasemd. Við getum vel eytt tíma okkar í að reyna að skilja milli myndlistar og arkitektúrs, en það er engin þörf á að gera það í þessu máli. Það er búið að því eins og verkefnið ber með sér. Svo er það flækjan um hver er opinber aðili og hver ekki og hvað er opinbert rými og hvað ekki. Sú magnaða deila er líka óþörf hér. HB Grandi er sjálfsagt einkaaðili, en rýmið sem hann tekur undir byggingu sína og umhverfi hennar er hinsvegar opinbert svæði. Um það þarf ekki að efast ef samkeppnislýsingin og verkefnið er skoðað. Þetta er allt saman vel skilgreint í verkefninu og um það var pistillinn. Ég var að gagnrýna aðferðina og skortinn á faglegum metnaði. Þetta er sú leið sem menn hafa verið að reyna að forðast á undanförnum áratugum af augljósum ástæðum. Ef einhver vill rifja upp byggingar á vegum einkaaðila á mikilvægum stöðum, þar sem miklar kröfur voru gerðar til útlits og annarra umhverfisþátta, þá má vel nefna tónlistarhúsið Hörpu og Listaháskóla Íslands. En það eru kannski ekki góð dæmi?
    Það kostulegasta í athugasemd Páls er hinsvegar lýsingin á því hvernig frystigeymsla teiknar sig sjálf – hún geti bara haft eitt form og allt annað sé ákveðið af einhverjum alþjóðlegum stöðlum. Gluggalaust. Hann segir að ágæt arkitektastofa útfæri þetta og segir ómaklegt af mér og Steinþóri Kára að gagnrýna verkið og spyr með hvaða rétti því sé haldið fram að þessi hönnun sé vondur arkitektúr. Þetta svarar sér eiginlega sjálft – verkefni stofunnar var að velja klæðningu á utaná staðlana, ef lýsing hans er rétt. Í þessu samhengi væri réttast að spyrja Pál hvað sé arkitektúr, en það ætla ég ekki að gera.
    Það ber ekki að skilja minn pistil þannig að ég sé á móti því að gera myndlist í tengslum við byggingar eða opin svæði. Þvert á móti. Ég er að reyna að beina athygli manna að öðrum aðferðum og mikilvægi byggingalistar í umhverfinu. Nánast öll myndlist sem er gerð er á einhvern hátt háð eða bundin arkitektúr. Arkitektúrinn er undirlag listarinnar eða samþættur með henni í byggingu eða umhverfi. Þessar tvær greinar hafa í aldaraðir þróast hvor frá annarri, en í seinni tíð hafa listamenn og arkitektar gert markverðar tilraunir/verk til samþættingar að nýju. Það er hinsvegar bara ein leið af mörgum og ekkert endilega réttara að fara hana frekar en aðrar í öllum tilfellum. Lykilatriði í málinu er samt sem áður krafan um góðan arkitektúr á mikilvægum stað í borgarlandinu. Það kemur mér verulega á óvart ef skipulagsyfirvöld hafa ekki áhuga á því eins og lesa má úr athugasemd Páls.
    Það er rangt að ég sé móðgaður yfir því að þessi leið var farin, eins og Páll Hjaltason gefur í skyn. Hversvegna ætti ég að vera það og hversvegna ætti sálarlíf mitt að vera efni í debatt um arkitektúr? Ég hvet menn til að fara í málefnið af meiri krafti en þetta. Svo er það frasinn um “lítinn skilning á flóknu eðli borgarskipulags”. Ef ég vildi fara í orðhengilshátt þá mundi ég spyrja hvort skipulag hefði eðli og þá um leið hvort það gæti móðgast.
    Mér finnst hinsvegar nokkuð til þess koma ef Reykjavíkurhöfn á nú allt í einu að verða gámaflutningahöfn eins og Páll lýsir. Vissi einhver af því?

  • Jón Guðmundsson

    Ástkæra ylhýra tungan afhjúpar alltaf fátæktina þegar opnað er fyrir spennandi pælingar af þessu tagi. Hvað er arkitektúr, arkitektónísk gæði, listaverk, myndlist, byggingarlist, höggmyndalist, misnotuð listaverk og síðast en ekki síst vondur arkitektúr? Hér flýtur allt hjá okkur og okkur er orðavant. Harpan og Frystigeymslan munu hinsvegar kallast á í framtíðinni, skrautkassinn og skreytti kassinn.
    Umkomuleysi okkar birtist kannski skýrast í einhverju sem menn kalla Gamlahöfnin. Það er ekkert til sem heitir Gamlahöfn. Reykjavíkurhöfn er enn á sínum stað, síung og í stöðugri gerjun.

  • Gullkorn Ívars: „að mínu viti, á ekki misnota (listaverk) til að fela vondan arkitektúr“.

  • Endurreisum sænska frystihúsið á þessum stað.

    Stórkostlegt listaverk samanborið við það sem þarna er fyrirhugað.

  • Stefán guðmundsson

    Frábær, sönn og sanngjörn samlíking hjá Jóni Ólafssyni að ofan. Ef Harpan kastar af sér klæðum keisarans er lítið eftir annað en frábær Eldborgarsalur.

  • Ívar Valgarðsson

    Þetta er mjög áhugaverð athugasemd hjá Krisni. Það má velta fyrir sér úr því að nauðsynlegt þykir að reisa álver, málmbræðslur o.þ.h. hvað það væri skemmtilegt að sjá þær klæddar í nútímalegan spennandi arkitektúr sem tæki mið af umhverfi og staðháttum. Listaverk, að mínu viti, á ekki misnota til að fela vondan arkitektúr. Náin samvinna arkitekta og myndlistarfólks frá upphafi verks getur getur verið áhugaverður kostur.

  • Virkilega fín umræða hér. Mig langar að segja þá skoðun mína að teikningin sem sýnd er lofar góðu. Þetta er hin hógværasta bygging, einföld og lítillát. Hún sver sig í þann arkitektúr sem er ríkjandi í dag og „sprottin úr þjóðarsálinni“ í dag eins og Árni segir. Er það ekki svona bygggingu sem við viljum þarna. Byggingu sem enginn tekur eftir og lætur umhverfið í friði. Er ekki að monta sig eins og Harpa. Þar með er ég ekki að segja að Harpa megi ekki monta sig en það ér óþarfi að frystigeymsla sé að því.

  • Árni Ólafsson

    Mér sýnist umrædd frystigeymsla eins og sprottin út úr íslensku þjóðarsálinni. Hún endurspeglar húsatísku síðustu áratuga á einkar snyrtilegan og skarpan hátt. Mér finnst vegið að öllum nýjum frystiskápaúthverfum íslenskra bæja með umræðunni. 🙂
    Pælingin um Hörpu er athyglisverð – og samsvörun þessara tveggja verka sennilega meiri en maður vildi sjá.

  • Páll Hjaltason

    Þetta er sniðugur pistill hjá Kristni E. Hrafnssyni og umræðan á rétt á sér, þ.e.a.s. hvar liggur munurinn á arkitektúr og list. Er þetta kannski sami hluturinn. Þetta eru samt tvær starfsstéttir með sitthvora menntunina og ólíkt starfsumhverfi. Það er vissulega frábært þegar þær vinna saman en er það endilega slæmt ef þær gera það ekki?

    HB Grandi ber ekki sömu ábyrgð og opinber aðili. Frystigeymsla er ekki opinber bygging. Hér er einkaaðili að byggja sérhæft iðnaðarhús og fær arkitektastofu til að útfæra það. Í bréfi KEH og athugasemd Steinþórs Kára eru ómaklegar árásir (beinar og óbeinar) á þá ágætu arkitektastofu sem teiknaði frystigeymsluna. Með hvaða rétti er því haldið fram að hönnun frystigeymslunnar sé vondur arkitektúr.

    Það er verið að byggja frystigeymslu. Staðsetning, form og stærð eru ákveðin, og yfirborðið gluggalaust. Stálgrindin er valin með alþjóðlega útboði. Arkitektasamkeppni myndi því snúast að mestu um val á klæðningu. Ég gæti trúað að mörgum arkitektum þætti það ekki safarík samkeppni. Þar með er ég ekki að segja að það hefði ekki verið fær leið en hún var ekki farin hér. Þess í stað ákvað HB Grandi að hafa samkeppni meðal myndlistarmanna um listarverk við hafnarmynnið, tengslum við byggingu frystigeymslunnar.

    Það má skilja af þessari umræðu, að arkitektar (og einhverjir myndlistarmenn) séu móðgaðir yfir því að þessi leið var farin. Steinþór Kári segir það lýsa „þröngsýni og skilningsleysi (sem í grunninn byggist á áhugaleysi) á hlutverki raunverulegs arkitektúrs í mótun umhverfis okkar)“. Væri Steinþór á þessari skoðun ef hann hefði sjálfur fengið það verkefni að hanna húsið? Ég spyr líka, ef engin samkeppni hefði verið haldin, hvorki meðal arkitekta eða myndlistarmanna, eins og í 99.9% tilvika þegar hús eru byggð af einkaaðilum á Íslandi, hefði þessi umræða þá farið af stað?

    Steinþór Kári vonar að „ Reykjavíkurborg skerpi á vinnureglum sínum, þannig að tryggt sé að arkitektónísk gæði verði höfð að leiðarljósi þegar lóðum er úthlutað í framtíðinni.“ Þetta er ágæt skoðun en lýsir ekki miklum skilningi á flóknu eðli borgarskipulags. Það sem ræður lóðarúthlutun er fyrst og fremst sú starfsemi sem er skilgreind í aðal- og deiliskipulagi, þó að margir aðrir þættir spili vissulega þar inn í.

    Til dæmis þeir að Reykjavíkur er stærsti útgerðarstaður landsins og bygging frystigeymslu hjá HB Granda styrkir mjög fiskvinnslu í Vesturhöfninni. Það er atvinnumál. Einnig mun geymslan gera mögulegt að ferma frystan fisk beint í millilandaskip frá gömlu höfninni og þar með minnkar verulega akstur gámabíla eftir Geirsgötu/Sundabraut yfir í Sundahöfn. Það er umhverfismál og samgöngumál auk þess að vera hlekkur í þeirri keðju að tengja gömlu höfnina betur við miðbæinn.

    Í kaupbæti fáum við svo nýtt listaverk í bæinn, geta ekki allir verið glaðir yfir því?

  • Góð og gagnleg umræða….en hvar er arkitektafélagið?

  • Hilmar Þór

    Vegna þess að Jón Ólafsson talar um að “skreyta” arkitektúr með listaverki þá langar mig til að segja að ég átti einu sinni samtal við Rúrí um hugtakið “listskreytingu” og “listskreytingarsjóð”. Hún sagðist ekki líta á list í þessu samhengi sem skraut og ég var henni sammála.

  • Jón Ólafsson

    Svo tekinn sé upp þráðurinn frá Steinþóri Kára þá kemur margt upp í hugann og margir punktar sem brydda má á..

    Til dæmis má spyrja hvort Harpa sé í raun bara kassi sem hjúpaður er “listaverki”? (með Eldborg í stað frystiklefa innan hjúpsins)

    Ef svarið er “já”, þá vaknar önnur spurning.

    Er Harpa byggingalist eða er hún bara innihald sem pakkað inn í listaverk?

    Kannski er ekki hægt að svara þessu en staðhæfa að hjúpur Ólafs Elíassonar sé redding eins og listaverk frystigeymslu HB Granda er hugsuð.

    The bottom line er allavega:

    Arkitektúr verður ekki reddað með því að skreyta hann listaverki.

    Þakka Kristi pistilinn og Hilmari birtinguna.

  • Það ber að þakka Kristni fyrir mjög góðan pistil. Hann er hnitmiðaður að vanda og get ég tekið undir hvert orð.
    Þetta mál allt saman hefur margar hliðar og veltir upp ýmsum áhugaverðum og mikilvægum punktum, sér í lagi ef litið er á samkomulag HB Granda hf. og Faxaflóahafna sem er grundvöllur samkeppninnar. Hér eru nokkrir;

    1. Í frétt í Fréttablaðinu þann 24. október sl. Þar sem sagt er frá væntanlegri samkeppni um listaverk kemur fram að…. Í samkomulagi (um lóðarúthlutun) HB Granda við Faxaflóahafnir er undirstrikað að byggingarreiturinn sé á áberandi stað. Útlit og frágangur hússins þurfi að vera fyrirtækinu til sóma. “ÞESS VEGNA samþykkir HB Grandi hf. að láta fara fram samkeppni um LISTAVERK í samvinnu við Samband íslenskra mundlistarmanna sem komið yrði fyrir við frystigeymsluna eða á ytra byrði hennar” (hástafir undirritaðs)

    2. Ekki verður annað skilið en að beinlínis sé gert ráð fyrir að ásýnd frystigeymslunnar hæfi ekki staðnum, það liggi einfaldlega í eðli byggingarinnar og hlutverki hennar.

    3. Svo virðist sem um skilyrta lóðarúthlutun sé að ræða. Það er að mínu mati framfaraskref en skilyrðið hefði átt að vera um arkitektónísk gæði þeirrar byggingar sem rísa mun á lóðinni.

    Auðvitað einkennist þetta allt af þröngsýni og skilningsleysi (sem í grunninn byggist á áhugaleysi) á hlutverki raunverulegs arkitektúrs í mótun umhverfis okkar. Þetta endurspeglast með afgerandi hætti í Reykjavík og víðar. Það er hins vegar jákvætt að aðilar málsins vilja bregðast við áhyggjum sínum af ásýnd og mótun borgarmyndarinnar og vona ég þess vegna að Reykjavíkurborg skerpi á vinnureglum sínum, þannig að tryggt sé að arkitektónísk gæði verði höfð að leiðarljósi þegar lóðum er úthlutað í framtíðinni. Þessum ábendingum kom ég á framfæri við Faxaflóahafnir, í framhaldi af birtingu fréttarinnar.

    Með kveðju,

    Steinþór Kári

  • Ég segi bara: Þroskuð afstaða myndlistarmannsins um samþættingu byggingalistar og myndlistar. Afstaðan og pistillin votta um skilning hans og næmni fyrir umhverfisgæðum, myndlist, manneskjunni og byggingarlist. Hann er ekki að draga taum myndlistarinnar á kostnað byggingarlistar eða öfugt. Hann hefur hér umræðu á þroskaðan og fordómalausan hátt.

    Takk fyrir

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn