Mánudagur 04.06.2012 - 20:18 - 16 ummæli

Gamli Hæstiréttur í niðurníðslu

 

Gamla hús Hæstaréttar við Lindargötu er í slæmu ástandi.

Lesandi síðunnar vakti athygli á þessu og sendi hjálagðar ljósmyndir af gömlu Hæstaréttarbyggingunni. Þetta eru ljósmyndir sem sýna ástand hússins eins og það er nú.

Árið 1949 flutti Hæstiréttur inn í nýbyggingu sína við Lindargötu. Húsið var teiknað af einum ástsælasta arkitekt okkar íslendinga, Guðjóni Samúelssyni.  Rúmlega hálfri öld síðar, þegar rétturinn var orðinn of stór fyrir húsið flutti hann í nýbyggingu handan Lindargötu sem teiknað var af Studio Granda. Þetta var árið 1996 eða fyrir sextán árum.  Samkeppnin var haldin 1993.

Síðan þá hefur þetta fallega hús Guðjóns Samuelssonar staðið tómt og hirðulaust að mestu að mér er sagt.  Það ku eitthvað hafa verið notað af Þjóðleikhúsinu o.fl. en ekki mikið. Þetta fallega samhverfa hús sem er í nokkurskonar “palazzostíl” er nú í mikilli vanhirðu. Það er bókstaflega að grotna niður. Það ber ekki af sér góðan þokka að horfa uppá eina af sögufrægustu byggingum borgarinnar fara svona.

Hið opinbera hefur stutt viðhald bygginga með átakinu “Allir vinna”.  Átakið hefur gert það að verkum að viðhald borgar sig mun betur nú en áður. Menn fá virðisaukaskattinn endurgreiddann, allt er uppgefið og skattar og útsvar skila sér.  Þarna er kjörið verkefni fyrir flinka arkitekta og iðnaðarmenn i því harðæri sem nú hrjáir þessar stéttir.

Það sem þarf  fyrst að gera er að finna húsinu hlutverk. Vafalaust eru einhverjir að vinna að því einhversstaðar. Margt kemur til greina.  Það vekur athygli að ekki hafi verið hægt að nota húsið undir sívaxandi umsvif ríkisins. Hugsanlega væri hægt að nota það fyrir skrifstofur einhverrar sjálfseignarstofnunnar eða félagasamtaka. Þetta væri  einnig ágætur staður fyrir t.a.m. skrifstofur Bandalags Íslenskra Listamanna. En sennilega gengur það ekki vegna þess að einhverntíma var ákveðið að þarna væri “stjórnarráðsreitur” hvað landnotkun varðar. Það er að segja að reiturinn er frátekinn fyrir stjórnsýslubyggingar.

 

Einkastæði ráðherra við inngang hússins.

Húsið er að grotna niður og virðist á vegferð til tortímingar ef fram fer sem horfir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Hilmar Þór

  Þakka þér fyrir upplýsingarnar Stebbi. Þetta staðfestir þá skoðun mína að það þurfi að endurskoða alla reitina sem deiliskipulagðir vori í góðærinu og í aðdraganda þess. Deiliskipulögin sum valda meiru tjónu en gagnsemi sýnist manni. Þetta deiliskipulag sem þú bendir á er frá árinu 2001.

 • Samvkæmt samþykktu deiliskipulagi, eins og það birtist í skipulagssjá borgarinnar, á gamla hús Hæstaréttar að víkja.

  http://lukrskjol.reykjavik.is/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Stjornarradsreitur.pdf

 • JR: Nei, ég meina ekki nógu STÓRT. Ég þekki þetta hús mæta vel, þar inni er einn risastór dómsalur og svo skrifstofu- og bókasafnspláss. Best gæti ég trúað að húsið hafi þegar verið orðið of lítið fyrir Hæstarétt þegar hann loksis fluttist burt og við Hæstarétt eru ekki nema 9 dómarar. Héraðsdómur Reykjavíkur er stærsti dómstóll landsins með yfir 20 dómara og að mig minnir 4 ef ekki 5 dómsali.

  Það er erfitt að sjá fyrir sér hverslags ríkisstarfsemi væri hægt að flytja inn í Lindargötuhúsið — meðal annars vegna smæðar. Dómsalurinn sjálfur er mjög svipmikill, þar er aðalinnréttingin og hún er eins og úr amerískri bíómynd frá 1930. Það væri synd að rústa honum og/eða skipta upp í smærri rými.

 • Ég er ekki sammála þeim sem hafa vakið máls á því hér, að héraðsdómur eigi að víkja af lækjartorgi. Það er nú einu sinni þannig að í mörgum borgum heims má finna dómstóla inn í miðborginni. Það má alls ekki hugsa eingöngu um það að þarna falli sakamál, því þau eru jú vissulega bara brot af þeirri starfsemi sem fer fram innan dyra héraðsdóms.

  Ef við færum að skoða menningarsögu lands og þjóðar, þá geymist stór hluti af heimildum sögu okkar einmitt í þessum dómum sem kveðnir eru upp í þessu húsi. Það er því að mínu mati, jafn nauðsynlegt að hafa slíkt hús í grend við miðbæinn og almenna starfsemi borgarinnar eins og að hafa þar kaffihús og verslanir.

  Er ekki nægilega mikið af góðu húsnæði sem stendur autt í miðbænum sem vel væri hægt að nýta í „magazin“ verslunarpláss? Þarf að rýma hús sem hefur þegar góða nýtingu?

 • Magnús O.

  Þetta er ekki fallegt hús og má bara missa sín – gröfuna á þetta drasl. Og Guðjón Sam er ekki yfir gagnrýni hafin og það má alveg fækka kofunum eftir hann.

  En það er rétt að Héraðsdómur á ekki heima á Lækjartorgi og já það er mjög gott að búa í einbýli með garði og takmörkuðum samskiptum við næsta fólk.

 • ,,Húsið er alls ekki nógu stórt fyrir Héraðsdóm.“

  Meinar þú ekki að það sé ekki nógu fínt ?

  Þegar akitektar segja að húsið hafi bara framhlið, en ekkert annað , voru hæstaréttardómarar úti á túni ?

  Það til mörg stór hús um alla borgina , ekki bara í 101 !!!

  Væri ekki nær að setja svona vinnu út í ystu hverfi borgarinnar ?

  Eru ekki allar fréttir um að þar verði bara glæpir framdir ?

 • Húsið er alls ekki nógu stórt fyrir Héraðsdóm.

 • Ég mæli með að héraðsdómur verði fluttur frá Lækjartorgi í þetta hús og að dómshúsinu á Lækjartorgi verði fundið nýtt hlutverk, helst sem svona „Magazin“ sem finna má miðsvæðis í öllum helstu stórborgum. Það myndi svo sannarlega hleypa lífi í Lækjartorg og miðbæinn.

 • Björn Vignir Sigurpálsson

  Tengillinn á Morgunblaðsumfjöllun árið 2001 sýnir þankaganginn á þeim tíma sem menn voru í alvöru að huga að stjórnarráðsreitnum en þar fer ekkert á milli mála að það er fyrst og fremst framhlið gamla Hæstaréttar sem á að vernda enda húsið ónýtt innvortis, m.a. vegna asbestklæðninga ef ég man rétt:

  http://timarit.is/files/7730200.pdf#navpanes=1&view=FitH&search=%22h%C3%BAs%20H%C3%A6star%C3%A9ttar%22

 • Hilmar Þór

  Hef ekki alminnilega gert mér grein fyrir að Reykholt er teiknað sem infill. Það er alveg greinilegt eftir að manni hefur verið bent á það. Það vantar bara allar byggingarnar í kring. Var það elkki Aalto sem sagði að allar fimm hliðar húss væru jafn mikilvægar þar sem fimmta hliðin væri Þakið. Var það ekki í Bath á Englandi sem staðararkitektarnir tóku að sér að hanna framhliðar húsanna og svo máttu menn haga sér eins og þeim sýndist á bak við þær?

 • Sveinn í Felli

  Þarf ekki bara að finna húsinu hlutverk við hæfi?

 • Stefán Benediktsson

  Hárrétt Ólafur. Hæstiréttur er „infill“ og því réttilega bara farm og bakhlið en Reykholt er úti á túni en teiknað sem infill.

 • Hvað er þetta með Íslendinga og einbýlin, þarf að heyja í kringum hvert hús? Alvöru borgir eru með randbyggð og því öll húsin „bara“ frontur, t.d Casa Batllo sem er fallegasta bygging sem ég hef komið í.

 • Sveinn H.

  Það er hægt að útvega fjármagn til gerð ganga i gegnum fjöll, til byggingu sjúkrahúsa og fangelsa en ekki smáaurar til þess að bjarga verðmætum frá skemmdum.

 • Það er þannig að sum hús eru alltaf falleg jafnvel þó þeim sé illa við haldið. Önnur eru ljót sama hversu snyrtileg og vel hirt þau eru. Kannski fellst munirinn á arkitektúr og ekki arkitektúr einmitt í þessum mun. Hús Hæstaréttar tilheyrir fyrri hópnum

 • Stefán Benediktsson

  Í Hafnarfirði var bárujárnshús (Brunabótafélagið?) með fronti eins og Almannatryggingar og Austurstræti 17. Allir hlógu en við hefðum kunnað að meta það sem „kúríósum“ í dag. Gamli Hæstiréttur á það sameiginlegt með Reykholti að vera eiginlega bara frontur. Við Lindargötuna er það Florens sem hefur verið ï huga höfundar þegar fronturinn var teiknaður. Húsið og minning höfumdarins eiga það alls ekki skilið að vera látið grotna niður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn