Miðvikudagur 14.07.2010 - 10:50 - 11 ummæli

Gegnumgangur-LSH samkeppnin

 

 03-Landspitali-torglett

Í gærkvöld var svokallaður “gegnumgangur” hjá arkitektum þar sem farið var yfir tillögur í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Gegnumgangur er eins konar fundur þar sem tillögurnar eru rýndar og störf dómnefndar gagnrýnd. Oft er framkvæmd viðkomandi samkeppni til umræðu, forsögn og meðferð dómnefndar á henni. Þetta eru oftast líflegir, skemmtilegir og málefnalegir fundir, sem helst enginn vill missa af.  Á gegnumgangi gefst keppendum og öðrum tækifæri til þess að tjá sig um tillögurnar og dómnefnd fær tækifæri til þess að verja dóm sinn ef hann þykir ósanngjarn. Og auðvitað fá keppendur tækifæri til þess að svara gagnrýni dómnefndar.

Oftast sýnir sig að dómnefnd hefur staðið sig vel en stundum fær hún að finna til tevatnsins svo eftir er tekið. Þessir fundir veita dómnefndum aðhald. Ekki er látið kyrrt liggja hafi dómnefnd ekki dæmt samkvæmt keppnislýsingu eða góðum siðum.

Gegnumgangurinn nú var svipminni en búast mátti við þegar haft er í huga að hér er á ferðinni langstærsta arkitektasamkeppni sem haldin hefur verið hér á landi.

Það sagði nánast enginn neitt. Hugsanlega vegna þess að dómararnir rökstuddu niðurstöðu sína vel og hún var að mestu í samræmi við útboðslýsingu. Önnur skýring kann að vera sú, að aðalmálið var ekki til umfjöllunar, þ.e.a.s. staðsetning sjúkrahússins sem að stofni til var ákveðin fyrir meira en 80 árum.

Dómarar fóru vel yfir tillögurnar og það mátti heyra að megin verkefnið og helsti áhrifavaldur um niðurstöðuna var skipulagsþátturinn og hvernig hægt væri að koma fyrir þessu byggingamagni á þessum stað svo vel færi. Mér fannst ég skynja, að þetta væri fyrst og fremst skipulagssamkeppni þó ýmis atriði varðandi starfsemina hafi komið til umræðu. Einkum staðsetning bráðamóttöku og aðalinngangs. Þessi atriði má skilgreina sem skipulagsmál.

Ég ætla að gera hér að umtalsefni þá tillögu sem valin var til frekari útfærslu. Höfundur hennar er teymi hönnuða sem vinnur undir nafninu SPITAL. Í teyminu eru arkitektastofurnar ASK, Tröð, Kanon og Bjarni Snæbjörnsson ásamt RATIO, reyndum norskum arkitektum í sjúkrahúsbyggingum, landslagsarkitektum frá Landark og verkfræðistofunum Nordconsult,  Eflu og Lagnatækni.

Megin inntakið í tillögu Spital hópsins er að byggja spítala í borg. Það er að segja að gerð er tillaga að gatnakerfi sem er í eðlilegu samhengi við núverandi gatnakerfi í þessum hluta borgarinnar. Barónsstígur er látinn ganga alla leið niður að nýrri Hringbraut og gamla Hringbrautin látin halda sér að hluta ásamt að nýjum borgargötum sem bætt er við. Á þessum reitum er svo sjúkrahúsið byggt.  Þessi nálgun leiddi höfunda frá stórum gamaldags hugmyndum frá árinu 2007 niður í smærri og viðráðanlegri einingar sem hægt er að byggja og þróa á næstu árum og áratugum. Þarna er farin margreynd leið í formun (mótun?) bæja og borga þar sem byggðin er brotin upp í reiti með einföldu gatnakerfi með götum og torgum sem allir skilja. Þarna eru gömul góð gildi látin ráða ferðinni. Spítalinn tekur mið af borginni og fær við það nauðsynlegan sveigjanleika. Ég var ekki þátttakandi í samkeppninni en ég hef á tilfinningunni að Spital teymið hafi skilið verkefnið betur en það fólk sem skrifaði keppnislýsinguna.

Hinar tillögurnar fjórar litu á Landspítalann sem eyland í borgarlandslaginu, eyland sem lifir sínu sjálfstæða lífi. Lausn Spital teymisins vinnur á við kynningu. Á torginu sé ég fyrir mér matvöruverslanir, veitingastaði og þjónustu sem notað er af grenndarsamfélaginu ekki síður en af starsfólki þessa stærsta vinnustaðar landsins. 

Í ávarpi Helga Más Halldórssonar, arkitekts og verkefnisstjóra teymisins, kom fram að umræðan um staðarval hafði ekki farið framhjá höfundunum frekar en öðrum og í raun varð hún kveikjan að hugmyndinni sem leiddi þau frá stóra borgarsamhenginu niður í það smærra og að eindregin ósk Landspítalans um sveigjanleika.  Auðveld áfangaskiptingu framkvæmda hafi líka haft mikil áhrif og reitaskipulagið sem svarar ágætlega kalli spítalafólksins. Þetta var vel mælt og sýnir að gagnrýni og umræða leiðir fólk oftast til góðra verka. Helgi kom líka að atvinnuástandi arkitektastéttarinnar í ávarpi sínu og sagði.:

“Ég og er stoltur af því að tilheyra þeim hópi sem ég er fulltrúi fyrir og nefnir sig SPITAL-hópinn en hann mynda níu arkitekta- og verkfræðifyrirtæki. Fulltrúar flestra þeirra eru saman komnir hér á sviðinu, öflugur hópur sem verið hefur gaman og gefandi að vinna með undanfarna mánuði

Efnt var til samkeppni um nýjan Landspítala við aðstæður í okkar fagi sem eiga sér enga hliðstæðu. Samdrátturinn er slíkur að segja má að jörð sé sviðin í ákveðnum skilningi. Í slíku árferði hlýtur að mega taka Landspítalaverkefnið sem mikilvæg skilaboð fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni og fyrir þjóðina alla. Það ríkir í raun harður vetur í okkar faggreinum, vonandi fer að vora.

Við gleðjumst vissulega yfir því að standa hér í þessum sporum en vitum líka af eigin reynslu að sárt er að ná ekki alla leið þegar menn leggja hart að sér. Ég þakka öllum keppinautum okkar fyrir keppnina nú að leikslokum og óska þeim velfarnaðar í baráttu okkar allra í óvissri framtíð í faginu okkar.”

Að lokum vil ég segja að það gladdi mig mikið að sjá þann öfluga hóp íslenskra arkitekta sem stóð á sviðinu og tók á móti þessu mikla verki á föstudaginn var.

Ég eins og fleiri óttaðist að þetta verk færi á hendur erlendra ráðgjafa eins og virtist vera stefnt að með óraunhæfum kröfum til þátttakenda. Það sýndi sig líka að engin íslensk arkitektastofa hafði burði til þess að taka þátt í samkeppninni óstudd samkvæmt forvalsgögnum. Sigurvegararnir samanstóðu af alls níu arkitekta- og verkfræðifyrirtækjum eins og fram kom í ávarpi verkefnisstjórans. Íslensku stofurnar brugðust við þessum óeðlilegu kröfum með samvinnu.

Ástæðan fyrir því að verkefnið fór ekki í hendur erlendra sérfræðinga er einkum slæmt gengi krónunnar og áræði, dugnaður og færni íslenskra arkitekta.

Ef gengi krónunnar hefði verið á svipuðu róli og árið 2007 hefðu erlendir ráðgjafar haft verk þetta í hendi sér eins og raunin varð á með THR og HR. Þegar gengi krónunnar var sterkt var íslenski markaðurinn áhugaverður fyrir erlenda arkitekta. Það er hann ekki lengur.

Ég óska hönnunarteyminu og dómnefndinni til hamingju með niðurstöðuna.

Ítarlega kynningu á tillögunni er að finna á þessri slóð:

www.spital.is

 

201007_fullbyggd[1]

 

04-Landspitali-torg-lett2

10-09-modelmynd-án-textax.pdf

 

 

 

 

 

 

 

spitalhopurinn_090710-m[1]

Hönnunarteymið Spital 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Jón Jón Jónsson

    Ég sé á myndinni að Álfheiður Ingadóttir hefur verið
    … í hönnunar tíminu
    … á stíminu
    … með Sigurmar með Lýsingu
    … en á myndina vantar Dóminikk í hýsingu
    … fjárglæpamanna fyrir hönd AGS og ESB
    Ein fuhrer … Steingrím … vantar líka á myndina
    … og flórens sjálfa … heilögu og þögulu
    Jóhönnu
    … með víbratórinn í steypuna.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér fyrir að benda á slóðina Halldór Eiriksson. Þetta er fín slóð. Ég held ég skelli afstöðumyndunum samt í næstu færslu mina eins og um var talað. Orð skulu standa.

    Og þú ert ekkert of langorður. Aðalatriðið er að hér sé málefnaleg umræða. Það hefur hún að mestu verið og er ég þakklátur fyrir það.

  • Þeir sem vilja sjá tillögurnar nánar og til að létta aðeins vinnu af Hilmari þá má finna þær á netinu undir:
    http://www.haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/framkvaemdin/byggingasagan/samkeppni_um_forhonnun/
    Vinningstillagan er undir sér flipa en hinar eru undir „tillögur“. Þar má sjá öll framlögð gögn.

  • Hilmar Þór

    Þegar talað er um “eyland” þá á ég við að samþætting lóðar spítalans við umhverfið, einkum gatnakerfið sé ekki jafn mikil og þétt í tillögunum fjórum og lesa má af afstöðumynd Spital hópsins. Þetta virkar skýrt þegar afstöðumyndir eru bornar saman.

    Ég held að ég reyni að koma á móts við óskir um að birta afstöðumyndirnar fimm í næstu færslu svo lesendur geti borið þær saman.

  • Ég tek undir með Þorsteini þar sem óskað er eftir afstöðumyndum allra tillagnanna hér á bloggið. Þá getur maður fyrst tekið afstöðu til umræðunnar um hverfi sem “eylönd” í borgarskipulaginu.

  • Halldór Eiríksson

    Þakka þér fyrir að opna umræðuna. Það er leitt að heyra að gegnumgangurinn hafi verið sviplítill um svo stórt mál, en það skýrist kannski af sumarfríum (eins og í mínu tilfelli). Sem einn af höfundum tillögu TBL þá vildi ég koma með eina athugasemd og tvö umræðuatriði. Ég hef einungis gefið mér stuttan tíma til að skoða aðrar tillögur svo ég mun ég fara varlega í að túlka aðrar tillögu en TBL hópsins, þó ég þykist vita að ýmislegt eigi við þær einnig.

    Mér þykir leitt að sjá að þú afgreiðir aðrar tillögur sem “eyland í borgarlandslaginu”. Ég tel að ef þú rýnir tillögurnar betur þá sé nær að líta á allar tillögurnar sem “campus” nálgun, þar sem áherslumunurinn liggur í aðgengi akandi umferðar um svæðið. Við lögðum mikla áherslu á að tryggja flæði gangandi og hjólandi umferðar um og í gegnum lóðina, skapa borgargarða og heildstætt “campus” skipulag í anda Háskólasvæðisins enda munu þær byggingar sem þarna rísa aldrei falla að mælikvarða Þingholtanna, þær tala fyrst og fremst til eldri spítalabygginga.
    Ég lít því svo á að stimpillinn eyland sé ósanngjörn einföldun á þeirri skipulagsnálgun sem aðrar tillögur lögðu fram.

    Hvað varðar umræðuatriði, þá vekur tvennt athygli mína í þessari niðurstöðu.
    Fyrir þá sem ekki vita fylgdi samkeppnislýsingunni viðauki frá skipulagssvið Reykjavíkurborgar, samþykktur af Skipulagsráði, þar sem sértök áhersla var lögð á að viðhalda sjónás Gömlu Hringbrautarinnar að Aðalbyggingu Háskóla Íslands, og reyna að halda götunni sjálfri eins og kostur er. Tillögurnar í 2-4.sæti reyna allar að verða við þessum óskum borgaryfirvalda, en slíkt var hægara sagt en gert vegna krafna um innra skipulag spítalans. Vinningstillagan sinnir ekki þessum óskum Skipulagsráðs, sem er bergmál af eldri samkeppni um Listaháskóla við Laugaveg þar sem Skipulagsráð óskaði sérstaklega eftir að viss hús héldu sér en sigurtillagan fór ekki að þeim óskum. Þetta vekur upp þær spurningar hver tilgangur slíkra óska er, ef það sýnir sig að þær eru marklausar við dóm. Á borgin einfaldlega að hætta afskiptum sínum af samkeppnislýsingum, eða viljum við að þær hafi áhrif á niðurstöðuna?
    Í þessu ljósi er hrifning Stefáns Benediktssonar hér að ofan áhugaverð.

    Hitt atriðið sem ég vildi nefna er áhugaverður samhljómur tillagnanna í 2. og 3. sæti varðandi skipulagsnálgun svæðisins (TBL annarsvegar og hinsvegar tillaga Hornsteina, Arkitektúr.is ofl.) Báðar raða byggingum spítalans um borgargarð fyrir framan aðalbyggingu spítalans; staðsetningar meðferðarkjarna, háskólabygginga, legudeilda og rannsóknabygginga, aðkoma og umferðarflæði. Virðast tveir hópar hönnuða hafa komist að mikið til sömu skipulagsniðurstöðum hvor í sínu lagi.
    Þykir leitt að vera svona langorður.

  • Sammála flott. Þetta fellur mjög vel að húsunum í Þingholtunum sömu stærðarhlutföll.
    Heilbrigðisráðaneytið ætti að bjóða ARKS að vinna með tillöguna en ARKS hefur yfir miklu fjármagni að ráða sem að þeir geta lagt fram óafturkræft. Ekki þyrfti að breyta miklu til að þetta félli vel að hugmyndum ARKS og ekki veitir okkur af fénu.
    Ef að ARKS kæmi að þessu mætti vígja fyrsta áfanga þ. 25. 12. 2014 á aldarfjórðungs ártíðinni.

  • Flott hugmynd.

    Hún er miðborgarleg og mun tengja Miðborgina saman við fyrirhugaða byggð í Vatnsmýrinni á vingjarnlegan hátt, ólíkt fyrri hugmyndinni sem virkaði eins og virki.

    Ég vona þó að báðir áfangarnir verði byggðir, því að þyrpingin virkar svolítið skrýtin án annars áfanga (torgið er ófullkomið og fleira)

    Einnig vona ég að reiturinn við hliðina á Læknagarði lokist eins og hugmyndin sýnir að hægt sé.

  • Helgi Hallgrímsson

    Klárlega rétta tillagan sem vann. Þetta er alveg laust við að vera skrímsli í borgarlandinu eins og upphaflega C.F. Möller tillegan og er ágætlega í skala við miðbæinn og ekki síst smellpassar þetta inní Vatnsmýrarskipulagið.

  • stefán benediktsson

    SPITAL fer hiklaust sagt fram úr vonum þeirra, sem að málinu komu af hálfu borgarinnar. Það má ef til vill gefa dómnefndinni það sem henni ber í þessu. Nú er bara að vona að verkefnið fari ekki að hökta.

  • Þorsteinn

    Þetta lítur bara vel út.

    Eins og fram kemur er þetta auðvitað fyrst og síðast skipulagssamkeppni sem byggir á skipulagslegum hugmyndum. Þess vegna voru kröfur verkefnisstjórnar til hönnunarteymana óþarfar og vanræðalaust að hafa samkeppnina opna öllum arkitektum.

    Ég bið ritstjóra bloggsins um að birta á blogginu afstöðumyndir allra tillagnanna svo lesendur geti gert samanburð á eigin forsendum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn