Sunnudagur 06.06.2010 - 15:47 - 7 ummæli

Gehry “farðu á eftirlaun”

1274759626-53810456-1-528x362[1]

Nýjasta verk Frank O.Gehry var opnað í síðasta mánuði. Það er heilsugæslustöð fyrir heilasjúka í Las Vegas.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef kostaði stöðin 100 milljónir dollara eða um 13 milljarða króna.

Í aðalatriðum skiftist Cleveland Clinic Lou Ruvo Center í tvo ólíka húshluta sem er túlkað sem hægra og vinstra heilahvel. Sá hluti sem hýsir skrifstofur er agaður og formfastur.  Hinn hlutinn, sem  hýsir skurðstofur og  þ.h er fjörugri í formi sínu svo vægt sé til orða tekið.  Styrkurinn og um leið vandinn fellst í því að blanda þessum ólíku hlutum hússins saman. Maður fer á milli húshlutanna á svipaðann hátt og maður notar heilahvelin, án þess að taka eftir því. Þessi nálgun er samt betur leyst hjá Gehry í Disney Consert Hall í Los Angeles, þar sem skrifstofuhlutinn er hefðbundin meðan sjálft tónlistarhúsið og anddyrið er organist í formi sínu og hentar starfsseminni fullkomlega.

Heilsugæslustöðin hefur fengið misjafna dóma. Þessa byggingu í Las Vegas hef ég ekki skoðað en mér sýnist það rétt mat gagnrýnenda að “starkitektinn” sé að tapa fluginu og missa fersleika sinn. Einn dóm sem ég las bað gagnrýnandinn Gerhy að drífa sig á eftirlaun. Ég tek ekki undir það þó maðurinn sé orðinn 81 árs. Það má skjóta því inn af þessu tilefni að það er almennt álitið að arkitektar verði betri og betri með aldrinum,  séu þeir góðir á annað borð.

Ég hef skoðað margar byggingar eftir Gehry, austan hafs og vestan.  Þær eru eðlilega hver með sínu lagi og sumar framúrskarandi góðar með sterkum höfundareikennum. Ég vonast til þess að fá tækifæri til þess að fjalla um þær hér á þessum vettvangi við tækifæri.

Hér má lesa umfjöllun Los Angeles Times um bygginguna:

http://www.latimes.com/entertainment/news/la-et-gehry-vegas-20100519,0,5357916.story

 1274787686-cleveland-clinic-1-528x347[1]

 1274787684-4575521164-51ee2391c8[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Jóhann G.

    Vörumst stjörnuarkitekta og fólk sem á ”of” mikla peninga og falla inn í skilgreiningu Árna um skilning þeirra á hinum fögru listum og klæðum keisarans.

    Dæmin í byggingarlistinni eru mörga. Hér er eitt.:

    http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/10/19/varist-stjornuarkitekta/

  • Árni Ólafsson

    Byggingarlist er fagurfræðileg mótun hins praktíska veruleika. Hið praktíska/hagnýta er í þessu samhengi lykilatriði. Ef arkitekt gerir allar byggingar sem hann hannar að táknmyndum, óháð stöðu þeirra eða hlutverki, er eitthvað að. Ef hin fagurfræðilega mótun kemur niður á tæknilegum gæðum, endingu og notagildi, eins og fjölmörg dæmi eru um úr skúlptúrasafni Frank Gehry, er ekki um að ræða góða byggingarlist. Þótt einsaka hús kunni að vera réttur hlutur á réttum stað og veki aðdáun og hrifningu á það ekki við um allt sem maðurinn gerir – langt í frá.

    Hlustið á barnið í ykkur – keisarinn er ekki í neinum fötum.

  • stefán benediktsson

    Á form að fylgja starfsemi? Er þetta list? Af hverju er fólk hrifið af þessu? Hvaða áhrif hefur þetta á heilsu fólks? Ég tíni hér til örfáar spurningar ykkar bara til að undirstrika það að Gehry hefur öll einkenni brautryðjanda. Spurningar mínar (ykkar) um hvert hann er að fara eru um leið spurningar um hvert ég (þið) er að fara. Mér finnst eitt hið besta við Gehry að það eltir hann enginn. Hann vekur til umhugsunar, en það er ekki hægt að stæla hann öðruvísi en verða til athlægis.

  • Árni Ólafsson

    Fékk verkkaupinn það sem hann bað um?
    Heldur húsið vatni?
    Fór framkvæmdin fram úr kostnaðaráætlun?
    Gaf stjörnuarkitektinn skít í öll sjónarmið önnur en sín eigin?
    Hvers vegna kallar stofnun sem þessi á sömu sérkennilegu og órökréttu byggingarform og listasöfnin – og yfirleitt öll önnur hús hönnuðarins?

    Er þetta ekki “absúrd-arkitektúr”?

    Aðeins þeir sem bera eitthvað skynbragð á æðri listir og hámenningu sjá hvað þetta er gott – sbr. söguna um nýju fötin keisarans. Þess vegna leggja fáir í að gagnrýna. Gehry gerir skúlptúra sem í sjálfu sér geta verið áhugaverðir. En hvað kemur þetta byggingarlist við? Er maðurinn ekki bara að ögra samfélaginu með því að gera það sem honum sýnist óháð öllum forsendum?

  • Ég fékk spurningu á netfang mitt um það hvort arkitektúr af þessari gerð ætti við þarna?

    Þetta væri heilbrigðisstofnun, ekki menningarhús á borð við Guggenheim í Bilbaó, poplistasafnið í Seattle eða tónlistarhús Disney í Los Angeles, allt eftir Frank O. Gehry?

    Menningarhús þurfa og eiga að hafa sterk séreinkenni, en þarf heilsugæslustöð á því að halda?

    Spurningin var hvort þetta formmál sem þarna er að finna eigi við þegar um heilbrigðisstofnun er að ræða?

    Svari hver fyrir sig.

    Svo má velta fyrir sér líðan sjúklings sem vaknar, groggí og smáruglaður, eftir aðgerð og djúpa svæfingu í húsi sem þessu. Er það á bætandi að láta hann vakna í rugluðu rými?

  • Arkitekt skrifar

    Það er alveg rétt að flestir arkitektar toppa ekki fyrr en 45-50 ára gamlir og oft ekki fyrr en eftirlaunaaldurinn fer að nálgast.

    Það hefur margsinnis sýnt sig og þarf í rauninni ekki að fjalla um það.

    Þeir arkitektar sem vekja mikla athygli ungir verða betri með aldrinum ef eitthvað er varið í þá. Við þekkjum líka fjölda dæma um unga spræka arkitekta sem urðu “one night wonder” og eru horfnir í gleymskunnar dá eins og hendi sé veifað.

    Ástæðan fyrir því hvað arkitektar eru seinir til er m.a. sú að eftir 5-7 ára nám tekur við 4-5 ára starfsþjálfun og þá fyrst fara þeir að geta sér orð í samkeppnum o.þ.h. Vinni þeir samkeppni þá er hönnunar og framkvæmdatími 4-8 ár. Svo þarf að markaðsfæra árangurinn ef hann er góður.

    Bara þetta tekur um 13 ár.

    Það er að segja að 12-15 árum eftir að námi er lokið er arkitektinn loks tilbúinn, menntaður, þjálfaður og kominn með reynslu. Þá er hann kominn nokkuð á fimmtugsaldur.

    Þannig er þetta og hefur alltaf verið og mun verða. Þetta er eðli starfsins.

    Það er allt rétt sem Stefán segir að ofan og því til viðbótar má nefna að ástæðan þess hvað arkitektar eru fórnfúsir og gefa mikið af vinnu sinni til samfélagsins launalítið, og í samkeppnum launalaust, er hvað þetta er skemmtileg vinna.

    Svo eru menn í arkitektastétt sem ekkert leggja til listarinnar, enga samkeppnir vinna en reka samt blómleg fyritæki í arkitektaþjónustu. Stndum eru þeir hæfileikalausir í listinni en komnir með reksturinn á góða siglingu ungir að árum.

    En þeir arkitektar eru ekki til umfjöllunar hér.

  • stefán benediktsson

    Arkitektar eru seinþroska. Kannski tengist það fjárhagslegu ósjálfstæði á yngri árum? Arkitektum hættir til Mannerisma eða Manierisma þegar þeir eru orðnir fullþroska. Þá verður svo gaman að gera það sem þú getur vel að þú getur ekki hætt. Svo lengi sem það selur finnst mér það í besta lagi. Byggingar Gehrys fá mann svo sannarlega til að hugsa og ræða um arkitektúr.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn