Þriðjudagur 01.06.2010 - 14:46 - 2 ummæli

Finnska leiðin

Hanne_Granberg_20lett

Í dag eru hreinar iðnhönnunarvörur 25% af heildarútflutningi Finna og hönnun hefur komið að flestum öðrum útflutningsvörum þeirra  á einn eða annan hátt.  

 Þetta og margt fl. kemur fram  í fróðlegri grein sem Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson arkitektar skrifuðu á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar eftir ferð þeirra til Helsinki, þar sem þau vorum að kynna sér stöðu hönnunar og nýsköpunar í Finnlandi og hvernig Helsinki hefur tekist að ná þeim árangri að verða valin Hönnunarborg heimsins 2012.    

Eftir bankahrunið á Íslandi 2008 stendur atvinnu- og efnahagslíf Íslendinga á tímamótum nýrra tækifæra.  Með tíð og tíma tekst vonandi að byggja hér upp öflugt menningar- og atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á hönnun og öðrum skapandi greinum.  Af 140 ára reynslu Finna geta Íslendingar ýmislegt lært m.a. það að uppbygging hönnunarsamfélags er langhlaup sem gerir kröfur um úthald, öguð vinnubrögð, aðhald, umræðu og gagnrýna hugsun.  

Ef rétt er haldið á málum bendir því margt til þess að hönnun og arkitektúr gætu skipað veglegri sess í íslensku samfélagi en verið hefur.  Í því felast miklir möguleikar fyrir útflutning landsmanna.

Til þess að það takist þarf að styrkja hönnunardeildir skólakerfisins frá grunnskólum og uppúr. Veita þarf Listaháskólanum nauðsynlegar fjárveitingar og ekki síður kröftugt faglegt aðhald.

Grein Hjördísar og Dennis má lesa í heild sinni á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvarinnar:  http://www.honnunarmidstod.is/Greinarogvidtol/Grein/1957

Hjálagt eru nokkrar myndir af finnska skálanum í Shanghai eftir finnsku arkitektana JKMM sem unnu til verksins í kjölfar opinniar samkeppni.

Hanne_Granberg_21lett

Kari Palsila_648lett

Hanne_Granberg_22lett

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Kári K.

    Það er auðsýnt að íslensku þjóðina vantar hönnunarlegt uppeldi, samanber bókmenntalegt- og tónlistarlegt uppeldi. Og það þarf að hefja uppeldið í grunnskólanum. “Það sem ungur nemur, gamall temur”. Og í framhaldinu, þegar þjóðin hefur menntast í hönnunarfræðum og lærir að gera kröfur til hönnuða skapast grundvöllur fyrir samkeppnisfæra hönnun á heimsvísu.

    Varðandi LHÍ almennt þá er augljóst að leiklistardeildin stendur sig vel og sama á við um tónlistardeildina. Fatahönnun hefur sýnt fram á tilverurétt sinn og sama á við um vöruhönnun og grafík. LHÍ gengur vel og hann þarf að styrkja. Fjárveitingar til skólans munu skila sér margfalt í áranna rás. En það má ekki gleyma grunn- og framhaldsskólunum. Allt þetta getur orðið mikil tekjulind fyrir Ísland og gefið tækifæri fyrir íslenskan iðnað og útflutning.

    Listaháskólinn þarf að kynna verk nemenda betur á heimasíðu sinni og vera markaðssinnaðri þó svo að ekki sé málamiðlað í listinni. Ég var að skoða heimasíðu LHÍ og sé að þar er ekkert að finna um útskriftarverkefnum arkitekta frá því í vor (2010) sem “arkitekt skrifar” nefnir. Kannski er skýringin einmitt sú að deildinni hafi hrakað undanfarið eins og arkitektinn lætur að liggja?

    Og svo er það umræðan sem er í skötulíki hér á landi. Án umræðu gerist ekkert.

  • Arkitekt skrifar

    Það leikur ekki nokkur vafi á því að orka og auður þjóðarinnar liggur í mannfólkinu og hugvitinu.

    Sóunina er að finna í orkuframleiðslu og stóriðju. Fjársjóður framtíðarinnar liggur í náttúrunni, fiskimiðunum og fólkinu.

    Hönnun og hugvit kemur þar fremst. En það dugir ekkert nema ströngustu kröfur ef árangur á að nást. Ala þarf upp kynslóð kröfuharðra upplýstra neytanda eins og finnar hafa gert áður en menn fara að sjá stóra fjármuni einhversstaðar í hönnun.

    Hönnunardeild LHÍ þarf að efla. Einkum í arkitektúr. Sjá mátti á vorsýningunni núna 2010 vissa afturför á útskriftarverkefnum nemana. Þau voru mun betri fyrir þrem árum þegar ný Vesturbæjarlaug var verkefnið. Hönnun nemana í vor á húsi við Lækjargötu/Vonarstræti voru flest úr byggingalistarlegu og skipulagslegu sambandi við umhverfi sitt.

    Eins og sagt er þá er þetta langhlaup og fólk þarf að vanda sig ef árangur á að nást.

    Þessi skáli finnana sem er reyndar eins og skál er frammúrskarandi. Gaman væri að fá fleiri slíkar myndir af sýningarskálum EXPO 2010.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn