Mánudagur 31.05.2010 - 21:29 - 4 ummæli

Expo 2010

 

expo2010[1]

 

Fyrir réttum mánuði, þann 1. maí, var heimssýningin EXPO 2010 opnuð undir yfirskriftinni “Better Cities – Better Life”. “Betri borgir betra líf“.

Þetta er stærsta heimssýningin frá upphafi og þekur meira en 500 hektara lands. Tæplega 200 lönd og meira en 50 alþjóðlegar stofnanir taka þátt í sýningunni. Gert er ráð fyrir að milli 70 og 100 miljónir manna heimsæki sýninguna sem stendur til 31. október í haust.

Væntingar til heimssýninga eru alltaf miklar og þær hljóta mikla kynningu. Utanríkisráðuneyti landanna og embættismenn leggja hart að sér til þess að þjóðir þeirra nái athygli heimsbyggðarinnar. Oftast er árangurinn rýr og maður veltir fyrir sér hvort ekki megi ná meiri og betri landkynningu miðað við fyrirhöfn með öðrum hætti.

Sýningarnar eru oftast mikil veisla hvað varðar byggingarlist og eru sterkustu arkitektar landanna fengnir til þess að sýna snilli sína á þessum vettvangi í samkeppni við heimsins þekktustu arkitekta á hverjum tíma.

Þrátt fyrir þetta er arkitektóniskur arfur frá heimssýningunum ekki merkilegur.

Þó eru 3 byggingar sem vert er að nefna sérstaklega og hafa haft áhrif á byggingarlistina.

Í fyrsta lagi “The Crystal Palace” frá heimssýningunni í London 1851 eftir Paxton sem var mikil bygging úr gleri og stáli. Í framhaldinu mátti sjá að hún hafði veruleg áhrif á ýmis konar byggingar víðs vegar um heim. Ég hygg að gler- og stálbyggingin á vesturhlið Ziemsenhússins í Grófinni í Reykjavík eigi uppruna sinn að rekja til Crystal Palace svo dæmi sé tekið.

Í öðru lagi Eiffelturninn sem byggður var vegna heimssýningarinnar í París árið 1889 eftir Gustave Eiffel. Turninn varð strax og er enn eitt af helstu kennileitum Parísarborgar.

Í þriðja lagi er það Barcelonaskáli Mies van der Rohe frá sýningunni 1929. Sá skáli var rifinn að sýningunni lokinni en endurbyggður aftur fyrir um 20 árum. Skáli Þjóðverja er sennilega sú bygging sem mest áhrif hefur haft á byggingarlist heimsbyggðarinnar síðustu rúmu 80 árin.

Því miður fann ég enga mynd af íslenska skálanum í Shanghai aðrar en tölvumyndir á heimasíðu íslenska skálans.   Þær eru allar tölvumyndir sem gerðar voru meðan skálinn ver í hönnunarferli.

Yfirskrift íslenska skálans er  “Hrein orka-heilbrigt líferni” og sýnist mér byggingin fanga yfirskriftina ágætlega.

Skálinn er hannaður af Plús Arkitektum sem valdir voru úr hópi 19 umsækjenda af valnefnd. Plús arketektar vöktu athygli þegar þeir unnu til fyrstu verðlauna í samkeppni um nýbyggingu Listaháskóla Íslands fyrir tveim árum.

Hér á eftir má sjá myndir af íslenska skálanum ásamt sýnishorn af skálum nokkurra annarra þjóða. Vefur íslenska skálans er www.expo2010.is.

Sérstakur þjóðardagur Íslands verður þann 11. september og þá er mér sagt að skipulögð sé hópferð íslenskra athafna- og embættismanna til Kína, þar sem þeim gefst kostur á að hlýða á forseta Íslands ávarpa viðstadda og skála, sennilega í hrísgrjónavíni.

Isllett

 Isllett2

 islett3

 Skáli Íslands eftir Plús arkitekta

Danmörk

Danski skálinn eftir BIG. Bjarke Ingels sem hlaut fyrstu verðlaun um höfuðstöðvar Landsbankans árið 2008.

Japan

Japanski skálinn

Korea

Skáli Kóreu

Mexico

Skáli Mexico

Sviss 3

Skáli Sviss

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

 • Hilmar Þór

  Ég þakka Magnúsi fyrir ábendinguna um fésbókarsíðuna. Ég vissi ekki af henni. Sennilega hefði færsla mín verið öðruvísi hefði ég verið upplýstur um hana.

  Mér sýnist henni vera haldið úti af hönnuðuði skálans, Páli Hjaltasyni og á hann heiður skilið fyrir framtakið sé þetta rétt hjá mér.

  Þetta er fróðleg og skemmtileg síða.

  Ég er hinsvegar hissa á hvað opinbera síða skálans http://www.expo2010.is. er lítið uppfærð. Það er nánast ámælisvert að það skuli ekki vera að finna þar glæsilegar ljósmyndir af fullbúnum íslenska skálanum sem væri hægt að nota í umfjöllun sem þessari.

  Ágrenningur þeirra Jóns og Magnúsar hér að ofan er skemmtilegur og upplýsandi sama hvaða gleraugu maður hefur á nefinu.

 • Stefán Benediktsson

  Landkynning Expo fyrr og nú er tímabundin eins og allar auglýsingar og stundum vafasöm. Atóm Belganna var orðið að hryllingsmynd innan dyra nokkrum árum eftir sýninguna í Bruxelles. Það er með þetta dálítið eins og með 100 metrana. Fáir spreyta sig á að ná afburðaárangri í 100 metra hlaupi en allir sem gera það vita við hvað er að keppa og leggja sig fram um að bæta besta árangur.
  Fáir vita um Barselónaskála Mies nema arkitektar og þeir einir gera sér grein fyrir að þar var reist það viðmið sem seint verður toppað, en allt sem arkitektar hanna, hanna þeir vitandi um árangur þeirra bestu, þótt sára, sára sjaldan gerum við meira en „gott úr kassa“ eins og Guðmundur sagði.

 • Hér er að finna myndir á opinberri fésbókarsíðu íslenska Expo skálans
  http://www.facebook.com/pages/ICELAND-EXPO-2010/144603038894#!/album.php?aid=172708&id=144603038894&ref=mf

  Annars mótmæli ég því harðlega að um sé að ræða sóun á hæfileikum og tíma. Hverra hæfileikar og hverra tími er að fara til spillis?

  Þetta er gríðarlega góð landkynning, hvað þá á tímum eins og þessum þegar landið hefur verið mikið í fréttum. Núna fyrst veit sumt fólk hvað Ísland er og því ætti skálinn að draga töluvert að. Fram hefur komið í fréttum að stöðugur straumur fólks sé í íslenska skálann og hafa færri komist að en vilja. Sjálfur tek ég að vísu ávallt svona fréttum með fyrirvara þar sem þær byggjast á fréttatilkynningum frá hagsmunaaðilum.

  Að því sögðu er rétt að benda á að síðan 2004, ef ég man rétt, hefur verið í undirbúningi fríverslunarsamningur við Kína. Þetta er gríðarlega mikilvægur samningur fyrir Ísland sem yrði fyrst Evrópuríkja með slíkan samning. Háttsettir menn í utanríkisráðuneytinu hafa viðurkennt að ef við hefðum ekki tekið þátt í EXPO 2010 hefðu Kínverjar litið á það sem móðgun og samningurinn yrði í hættu.

  Einnig er rétt að benda á að miðinn kostar um 160 Yuan sem eru um 3000 kr. Þetta heimsækir því ekki fátækur Kínverji, heldur fólk úr millistétt og ofar sem hefur efni á því að ferðast. Þá er því spáð að um 3,5 milljónir útlendinga heimsæki sýningarsvæðið.

  Það er því margt sem spilar saman og mitt mat er að þetta eigi eftir að skila sér til lengri tíma litið. Með þessu svari mínu er ég þó aðallega að svara Jóni Þórðarsyni. Get þó tekið undir margt í hans málflutningi og skil gagnrýnisraddir þó ég sé þeim ekki sammála.

  Gaman væri að sjá fleiri myndir af öðrum sýningarskálum, en ég vil þakka síðuhaldara fyrir góða síðu.
  Þess má til „gamans“ geta að 4000 nýir leigubílar voru teknir í notkun bara í tengslum við þessa sýningu.

 • Jón Þórðarson

  Það er alltaf gaman að fylgjast með heimssýningunum. Oftast fallegt og skemmtilegt þar sem hver reynir að toppa annan á svipaðan hátt og í evrivision. Þarna kennir margra grasa en sýningarnar ná ekki til margra og sennilega einungis til þeirra sem síst skildi. Fólks sem er að drepa tímann á kostnað skattgreiðenda og ýmiskonar styrkþega.

  T.d. þessar 70-10 100 milljónir sem koma á þessa sýningu. Ég efast um að fólkið nái að festa nema svona tvo-þrjá skála af þeim 195 sem það hafði tækifæri á að heimsækja í langtíma minni sínu.

  Þetta eru glæsilegar sýningar en þær eru úr tengslum við alþjóðasamfélagið. Þær lifa fyrir sjálfa sig og embættismenn utanríkisráðuneytanna. Sennilega hafa þær runnið sitt skeið.

  Þetta er sennilega bæði sóun á peningum, hæfileikum og tíma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn