Fimmtudagur 27.05.2010 - 13:48 - 6 ummæli

101 TÆKIFÆRI

IMG_2232léttrett

Veit fólk að 98,8% húsa á höfuðborgarsvæðinu eru innan við 100 ára gömul?  Að miðborgin og allt svæðið innan Hringbrautar er aðeins 5% af skipulagssvæði Reykjavíkur?  Að  ekki er nauðsynlegt að rífa hús þó starfsemin breytist?  Veit fólk að Listaháskólinn í Helsinki er í gamalli keramikverksmiðju?  Að Tate gallerí í London er í gamalli kolarafstöð og Musée d´Orsay í París er í gamalli járnbrautarstöð?

Allt þetta og margt margt fleira má lesa í nýútkominni bók eftir Snorra Frey Hilmarsson, “101 TÆKIFÆRI”,  sem fjallar um húsvernd og tækifæri gamalla húsa.

Í bókinni er minnt á vönduð hús sem nú eru horfin og hefðu getað fullnægt fjölda hlutverka ef skilningur hefði verið á gæðum þeirra og tækifærum á sínum tíma. Kveldúlfsskálarnir(rifnir um1984) við Skúlagötu hefðu líklega hentað listaháskóla, Ölgerðarhúsin (rifin um 2002) við Njálsgötu hefðu  kannski hentað listasafni, Landsmiðjan við Sölvhólsgötu hefði verið hægt að aðlaga starfsemi ráðuneyta (rifið um 2001(?)  Völundarhúsin við Klapparstíg og m. fl.

Í Reykjavík er stefnan að rífa nokkur eldri hús til þess að rýma fyrir Listaháskóla Íslands.  Er það ekki óþarfi? Fellst ekki verkefnið í því að aðlaga gömlu húsin nýju hlutverki og hýsa það sem á vantar í nýbyggingum á svæðinu?

Á fundi sem haldinn var fyrir skömmu um málefni húsafriðunar og hverfafriðunar sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem nú bjóða sig fram til borgarstjórnar fyrir svörum.  Fulltrúarnir voru skilningsríkir á húsfriðun og verndun anda og sérkenna miðborgarinnar og gamalla húsa hvar sem þau standa.  Það var að mestu sátt og einn vilji varðandi málið hjá fulltrúunum.

Aðeins einn fulltrúa flokkanna, sjöundi maður á lista Besta flokksins talaði á annan veg og sagði að löngu væri búið að varða (vernda!) þau gömlu hús sem hafa eitthvað menningargildi og að góðu húsin eigi að standa en hin eigi að víkja fyrir nýjum. Hann taldi borgina hafa gefist upp gagnvart “öfgafriðunum”. Og hann sagði að þetta væri ekkert grín.

Þrátt fyrir allan velvilja, góð fyrirheit og skilning stjórnmálamanna á málefninu þá er eins og þegar á hólminn er komið og staðið er frammi fyrir ákvörðun um að fórna byggingararfleifðinni, oftast fyrir peninga, þá er önnur og verri stefna tekin og niðurrif heimiluð.  Skrýtið.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur að skoða þarf alvarlega þá hugmynd að friða öll hús og allt umhverfi innan gömlu Hringbrautar. Þetta er svipað og er við lýði í Parísarborg innan Periferíunnar og í Rómaborg.  Mér er sagt að þetta eigi einnig við um innri bæ Kaupmannahafnar þar sem ekkert deiliskipulag  er til  heldur er krafan sú að nýbyggingar falli alls staðar að hinu gamla. Þarna er ekki verið að segja að engu megi breyta og stoppa eigi þróunina heldur að allar breytingar verði gerðar eftir vandaða skoðun og mikil sátt sé um þær nýbyggingar og breytingar sem standa fyrir dyrum.

Tíðarandinn hefur oft ráðið ferðinni í skipulagsmálum miðborgarinnar og ekki alltaf verið byggingararfinum hagstæður. Tíðarandinn hefur verið miðborginni slæmur. Því miður. Í miðborginni þarf að varast tíðarandann og hugsa í 100 árum eða svo.

Bókin “101 TÆKIFÆRI”  er í senn létt og fjörug, fróðleg, skemmtileg og krefjandi sama hvar er gripið niður í hana. Hún er ríkulega myndskreytt með ljósmyndum og teikningum og skemmtilegri samtvinnun teikninga, ljósmynda og texta. Það gengur kannsi of mikið á í layoutinu stundum miðað við efni bókarinnar en það er í góðu sambandi við tíðarandann.

Bókin ætti að vera er skyldulesning fyrir fagmenn og stjórnmálamenn, nauðsynleg fyrir alla sem hugsa um skipulagsmál og menningararfleifð og ætti að vera kennslubók í hverjum framhaldsskóla. Arkitektanemar ættu að taka próf í efni hennar.  Arkitektar sem ekki kunna að lesa umhverfið eða skynja og skilja anda staðarins eru engir arkitektar.

Aðalstrætið-eftir-breytingar-á-nr.10-Ljósmynd-Guðmundur-Ingólfsson

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Torfi Stefánsson

  Þetta er ágætis lýsing á Páli Hjaltasyni formanni umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar: „Aðeins einn fulltrúa flokkanna, sjöundi maður á lista Besta flokksins talaði á annan veg og sagði að löngu væri búið að varða (vernda!) þau gömlu hús sem hafa eitthvað menningargildi og að góðu húsin eigi að standa en hin eigi að víkja fyrir nýjum. Hann taldi borgina hafa gefist upp gagnvart “öfgafriðunum”. Og hann sagði að þetta væri ekkert grín.“

  Það er auðvitað ekkert grín ef þessi maður heldur áfram sem formaður í nýjum meirihluta.

 • Jón Guðmundsson

  Áform um byggingu Listaháskóla við Laugaveg-Hverfisgötu voru sorgleg og skólanum ekki til sóma. Menn töluðuðu um að skólinn þyrfti að fá að blómstra í stemmningunni sem er í gamla bænum. Til þess að fá svigrúm þurfti að ryðja hluta af stemmningunni burt. Kjánaleg þversögn.

  Mótmælum var mætt með hroka og talað um illa upplýstan almenning. Því átti að kippa í liðinn með uppfræðandi peppfundum til stuðnings áformunum.
  Hvar er allt hippið, kúlið og mannlífið sem skólinn hefur framkallað úti í Laugarnesi? Hvar eru allir skúlptúranir, gjörningarnir, garðarnir, tjarnirnar, kaffihúsin og mannlífið í kring um gömlu pulsugerðina? Ég er hræddur um að LHÍ við Laugaveg hefði aðeins orðið enn einn Kjörgarður.

  Lengi lifi Guðsteinn, Vísir, Brynja og Vínberið, troðum ekki fleiri skessum og nátttröllum niður í gömlu Reykjavík!

 • Ég tek undir að það eigi að fara á annann hátt með breytingar á svæðinu innan gömlu Hringbrautar en annarstaðar í borginni. Allar breytingar þar þurfa meiri skoðun en annarsstaðar. Gera þarf betri og meiri greiningar og rannsóknir áður en ráðist er í niðurrif og nýbyggingar.

  Deiliskipulög eiga að hafa takmarkaðann gildistíma eins og bent var á hér á þessu bloggi fyrir nokkrum mánuðum.

  Orðaleikur V.F. um að þora og valda er kvass þegar maður áttar sig á því við hvað eða hvern er átt. Eða kannski er ég að skilja þessa sneið á minn hátt.
  Allavega áttu embættismenn eða -maður mikla ábyrgð á þessu SHL slysi í Skuggahverfinu.

 • “Tíðarandinn hefur oft ráðið ferðinni í skipulagsmálum miðborgarinnar og ekki alltaf verið byggingararfinum hagstæður. Tíðarandinn hefur verið miðborginni slæmur. Því miður. Í miðborginni þarf að varast tíðarandann og hugsa í 100 árum eða svo.”

  Þetta er einmitt kjarni málsins.

  Arkitektar og skipulagsyfirvöld fara óvarlega með óskir tíðarandans á svæðinu innan Hringbrautar. Þess sjást víða merki. Við Laugarveg og raun um allt 101 svæðið.

  Bara á síðustu 20 árum hefur Skuggahverfið sem skipulagt var af Birni Hallssyni verið skemmt af útlenskum arkitektum í nafni tíðarandans. Áður en þeir komu til var svæðið ásættanlegt og það stefndi í harmoniskt svæði með grunnum byggingum sem voru í talsambandi hvor við aðra og byggingarnar ofan við Lindargötu. Austast eru fín gul hús fyrir aldraða eftir VA arkitekta. Svo koma hús eftir Guðmund Gunnlaugsson arkitekt og loks prýðilegar byggingar eftir Guðna Pálsson og Dagnýju Helgadóttur arkitekta.

  Þó betra hefði verið að fara að ráðum Guðrúnar Jónsdóttur, þáverandi skipulagsstjóra, og vernda Kveldúlfshúsin, Völundarbyggingarnar og hús Sláturfélags Suðurlands, þá var skipulag Björns ágæt lending úr því að ákveðið var að rífa gömlu húsin á annað borð.

  Svo fóru að rísa þarna gráar og drungalegar byggingar eftir dönsku arkitektana SHL sem brutu alla skilmála skipulags Björns Hallssonar og skemmdu alla ásýndina og grundvallar atriði skipulagsins. Þarna var framið skemmdarverk.

  Svo tekur steininn úr þegar TRH tónlistarboxið við enda götulínunnar rís. Allt of stórt og stefnulaust og úr öllum mælikvarða og takt við Reykjavík eins og hún leggur sig.

  Ef haldið hefði verið áfram með skipulag Björns og götulínan endað á Seðlabankanum hefði þetta gengið. En svo er ekki.

  Spyrja má af hverju skipulagsyfirvöld létu undan þrýstingi dananna SHL? Voru það stjórnmálamenn eða fjármálamenn (Eimskip átti lóðina). Sennilega er aðalástæðan skortur embættismanna á þori, vilja- og getu til að veita mótspyrnu. Þá skorti bæði þor og vald.

 • Þorsteinn Jónsson

  98,8% bygginga yngri en 100 ára og aðeins 5% borgarskipulagslandsins í 101.

  Þetta eru sláandi tölur sem verður að taka tillit til.

  Arkitektarnir og aðrir hafa næg tækifæri til þess að sprella á þeim 95% borgarlandsins sem er utan 101.

  Friðum 101.

  Þessi bók er ekta sófaborðsstykki á hverju menningarheimili.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn