Miðvikudagur 29.12.2010 - 09:44 - 17 ummæli

Gestastofa að Skriðuklaustri

 

Á árinu sem nú er að líða var opnuð gestastofa, upplýsingamiðstöð ferðamála fyrir Vatnajökulsþjóðgarð að Skriðuklaustri, “Snæfellsstofa”.  Þarna er um að ræða litla bygginu sem er um 750 m2. Mér hefur ekki hlotnast tækifæri til þess að skoða bygginguna en er sagt að hún beri af sér góðan þokka. Húsið tyllir sér léttilega niður í landslaginu þar sem áberandi brot er í hæðarlínum og gott útsýni er til fjalla.

Form Hússins er að sögn höfunda innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins, hvernig hann ýmist brýtur sér leið eða hopar. Byggingunni er tyllt niður á landið þar sem brot er í hæðarlínunum og hún er látin svífa yfir landinu. Höfundar hússins eru arkitektar hjá Arkís www.arkis.is og í greinargerð þeirra segir m.a.:

“Vatnajökull þekur um 15% af Íslandi en veður- og náttúrufræðilegt áhrifasvæði hins mikilfenglega Vatnajökulsþjóðgarðs þekur næstum hálft landið og landgrunnið þar undan. Jaðrar jökulsins eru breytilegir og í stöðugri mótun vegna eldsumbrota og stöðugra veðurfarsbreytinga. Hlykkjóttar línur, langir bogar og önnur óregluleg lögun jökulsins er endurspegluð í gestastofum þjóðgarðsins.”

Þetta er augljóslega gott hús með grunnmynd sem geymir sterka hugmynd sem byggir á umhverfinu og starfrænum þáttum. Grunnmyndin sem hefur X form gengur fallega upp í sneiðingum og efnisval.

Hjálagt er afstöðumynd, grunnmynd og frábærar ljósmyndir Sigurgeirs Sigurjónssonar sem segja meira en 1000 orð.

Ég hef ekki komið austur á hérað síðan ég fór til þess að kveðja þá fallegu náttúru sem fór undir Hálsalón og því ekki hlotnast tækifæri til þess að skoða gestastofuna að Skriðuklaustri sem ber af sér góðan þokka. Ljósmyndir Sigurgeirs Sigurjónssonar sem hér fylgja vitna þar um.

BREEAM

Framkvæmdasýsla Ríkisins hefur undanfarið lagt áherslu á vistvænar byggingar. Þetta er eitthvað sem hefur verið stundað um árabil og oft nefnt LCA (Life Cycel Analysing) sem gengur út á að huga að umhvefisvænum efnum sem ekki eru hættuleg heilsu manna og eru heppileg til endurvinslu og auðvelt að farga. Hugsað er til allra umhverfisþátta á líftíma byggingarinnar. Borgarholtsskóli var hannaður undir þessum merkjum.

Nú hefur verið búið til sérstakt vottunarkerfi BREEAM (Building Reserarch Establishment Enviromental Assessment Method). Annað kerfi er LEED (Leadership in Energi and Environmental Deesign) sem þróað var af GBC (Green building Counsil) sem starfar hér á landi.

Gestastofa að Skriðuklaustri er ein þriggja bygginga sem eru fullbúnar eða á hönnunarstigi sem farið hafa í gegnum slíkt vottunarkerfi (matskerfi) Hinar eru Hús  íslenskra fræða og Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.  Í Útboðslýsingu vegna hjúkrunarheimilis á Eskifirði fyrr á þessu ári var ætlast til að hönnun og framkvæmd færi í BREEAM vottun.

Ekki veit ég hvar það mál stendur nú.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Þorgeir misskilur aðeins. Vísanir eru ágætar – en þær eru misgóðar, stundum eru þær langsóttar – og stundum er eins og þær komi eftirá, og stundum eru þær bara bull og gera ekkert gagn fyrir húsið eða þá sem eiga að njóta þess. Þetta átti ekki við um vísanir almennt. Vísanir í Skriðuklaustur snerust um að húsið er í landi Skriðuklausturs og það eru til drög að framtíðarskipulagi svæðisins frá þeim tíma, fjós, útihús, hlöður og fleira. Það hefði mátt byggja á slíkum reit og þá hefði áskorun arkítektsins verið að vinna með Skriðuklaustur á svipaðan hátt og viðbygging Alþingishússins.

  • Þorgeir Jónsson

    Var bara að bregðast við ummælum Andra um tilvísanir í arkitektúr sem einhverju bulli. Ekkert var fullyrt hver teiknaði húsið (Skriðuklaustur), en það er engu að síður runnið undan hugmyndafræði þjóðernissinna í Þýskalandi. Tilvísun í „Arnarhreiðrið“ stendur, þó arkitektarnir að þessum húsum (Skriðuklaustri og Hreiðrinu) hafi verið sitt hvor maðurinn. Þakka svo Silju fyrir upplýsingarnar um hver teiknaði hvað, og þér Andri fyrir að nenna þessu. Það var Andri sem vildi frekar sjá tilvísun í Skriðuklaustur en í jökla og náttúru landsins….þar í liggur offramboðið.

  • Hönnunarsaga Skriðuklausturs er rakin í nýlegu Tímariti Máls og Menningar, 3 tbl. 2010.
    Á heimasíðu TMM segir:
    „Þau Silja Traustadóttir og Pétur Ármannsson skrifa um Fritz Höger og Skriðuklaustur sem hann teiknaði, en sú saga hefur verið lífseig að sá arkitekt hafi teiknað Arnarhreiðrið svokallaða fyrir Hitler. Þeim spurningum er öllum svarað í grein þeirra Silju og Péturs og rakin skipti þeirra Gunnars og Fritz kringum þessa stórhuga húsbyggingu.
    http://tmm.forlagid.is/?paged=2
    http://www.skriduklaustur.is/islsida/skriduklaustur/klaustur.htm
    Skemmtileg lesning fróðleiksfúsum.

  • Takk Silja – það víst : ,, ekki skortur á skilningsleysi ófaglærðra á tilvísunum í bygginalist.“

  • Greyið hann Þorgeir „fúli“ fer hér með rangt mál og hefur ekki haft fyrir því að gúgla sér rétt til.
    Skriðuklaustur var teiknað af arkitektinum Fritz Höger sem var vinur Gunnars Gunnarssonar. Höfundur Arnarhreiðursins er arkitektinn Roderich Fick.

  • Þorgeir Jónsson

    Nei, nei Andri minn, ég er ekkert fúll. Hús eru fyrir fólk ( og húsdýr) ekki fyrir „rétt Consept“. Hugverkið líður fyrir rangt „Consept“ hjá þér. Annars hrósa ég þér fyrir óvenjulega nálgun og skerandi gagnrýni á það sem allir vita, en vilja ekki tala um.

  • Voðalega er þessi Þorgeir fúll.

  • Þorgeir "Jensen"

    bygginalist= byggingarlist

  • Þorgeir "Jensen"

    Magnaður þessi Magnason. Bendi honum að skreppa upp í Kehlsteinhaus, Afmælisgjöf til Adolfs ( sami arkitekt og teiknaði líklega Skriðuklaustur) og skoða hvort þetta hentaði ekki betur sem móttökuhús ferðalanga í þjóðgarðinn, helst með 800 m lyftu úr kopar eins og þar. Svo væri hægt að útbúa atvinnubótavinnu við að steinleggja brattan stíg upp í þjóðgarðinn. ( Eins og Adolf gerði á sínum tíma)
    Annars er ekki skortur á skilningsleysi ófaglærðra á tilvísunum í bygginalist.
    Skoðið: http://thirdreichruins.com/kehlsteinhaus.htm

  • ,,Hlykkjóttar línur, langir bogar og önnur óregluleg lögun jökulsins er endurspegluð í gestastofum þjóðgarðsins“.

    Þetta er alveg ferlegt bull og mætti gjarnan fara að kveða niður á faglegan hátt svo ný hugsun komist að. Það er svo langt í jökulinn að þetta verður hliðstætt við bullið á bak við spíssinn í Hellisheiðarvirkjun, sem er sjoppulegur, en á að vísa á Snæfellsjökul. Mætti alveg eins vísa í útlínur Íslands, Venusar eða rasskinnar Madonnu. Vísanir eru fínar en þetta er léleg konseptlist og oft er verið að eyða tugmilljónum í að eltast við hallærisdillur af þessu tagi. Það vantar talsvert meiri umræðu um arkítektúr og hún má gjarnan fara að verða beittari án þess að fara út í bein leiðindi. Tek því formlega aftur þetta með rasskinnar Madonnu. Þetta hús er í sjálfu sér allt í lagi, sem hús en samt skrítið og nýtist furðulega og það er eitthvað rangt og tilgangslaust við þetta allt saman, conseptið, húsið, staðsetninguna, kostnaðinn. Vandi sem má rekja alveg niður í kjördæmaskipan sem býr til ábyrgðarleysi og vilja til sóunar, til að ná ,,framkvæmdum heim í hérað“, eitthvað að grunnhugsun, samstarfi milli ráðuneyta sem veldur því að svo margt, svo mikil hugsun, svo mikil steypa, svo mikill kraftur peningar, hráefni og tími lendir á vitlausum stað. Það er ekki endilega við arkítekta sjálfa að sakast, oft taka þeir þátt í samkeppni þar sem grunnhugsun er öll skökk og þeir neyddir til að gera hið besta úr slæmum aðstæðum þótt þeir fái betri hugmyndir en finnast í deiliskipulagi. Aðkoman er strax fáránleg, landslagið mótað og sléttað út af einhverjum sem átti of stóra jarðýtu, vegurinn breiðari en aðkoma að dýragörðum í Danmörku sem taka milljón gesti, húsið á skrítnum stað þar sem maður er í rauninni ennþá bara í sveitalandslagi í Fljótsdal en umfjöllun er um hálendið en vantar alla tilfinningu fyrir því, í Skaftafelli blasir landið þó strax við manni og á Þingvöllum. Það hefði mátt byggja upp einhvern bóndabæ í sveitinni og gera að miðstöð, það hefði mátt nýta teikningar frá tíma Gunnars Gunnarssonar um hlöður og fjós við Skriðuklaustur og byggja við þar og samnýta krafta og starfsfólk, það hefði mátt sleppa þessu og setja upp betri göngustíga, fleiri starfsmenn eða merkingar uppi á hálendi. Miðstöðin er risavaxin á hjara veraldar, þarna er ekki alfararleið eins og við þjóðveginn, þarna vinna unglingar við að selja minjagripi steinsnar frá stofnun sem getur sinnt því öllu, tvöfalt tölvukerfi, ræstingar, starfsmannahald. Það er eitthvað rangt við að horfa þaðan út á Lagarfljót með einhver grenitré hinum megin dalsins, raflínurnar sem liggja út í Reyðarfjörð, allt sem er svo augljóst að gerir staðinn ekki tækan í þjóðgarð – nýbúið að bæta í Lagarfljótið heilli Jöklu, nýbúið er að misþyrma hálendinu, eyða fossaröðinni í Norðurdal, sökkva heiðargróðri – það verður einhver skelfileg hræsni úr þessu öllu því miður. Þetta er í samræmi við planið – virkjun og þjóðgarður – en því miður það er eiginlega bara óbragð þarna, eins og plástur á sár, upplýsingarnar kafna í öllu því sem er ósagt.

  • Viskíprestur

    Fangelsi fyrir Lord Zarak!!

  • Smá limra í telefni kommenta og ljósmynda:

    Hart er deilt um fagurt fljóð
    á fögru brekku flugi.
    Þegar inn er litið
    er allt svo skrítið,
    inni fyrir er flagð.

    Án gríns, þá er þetta glæsilegt og öllum til sóma sem að hafa komið, en samt…smáójafnvægi milli þess ytra og þess innra. (hef aldrei komið þarna)

  • Árni Ólafsson

    Set inn krækjur á nokkrar myndir frá því í sumar, sem sýna hve kaótískt innra rýmið er í húsinu. Þessi sýning, sem þarna er um stórmerkilega náttúru þjóðgarðsins, býður mann ekki beinlínis velkominn. Útsýnið er flott – en það hefur ekkert með húsið að gera. Evrópski herragarður Gunnars heldur mun betur utan um gesti auk þess sem spennan milli þess sem er úti og inni er magnaðri í því húsi.
    Ég pæli samt í því hvort þetta hús væri ekki betri byggingarlist í öðru umhverfi!

    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_01.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_02.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_03.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_04.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_05.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Vtnjklstjdgrdr-AO_06.jpg

  • Einar Jóhannsson

    Það má sjá að grunnmyndin er ágæt með greinilegum inngangi, móttöku og sýningarsal þar í beinu framhaldi. Snyrtingar aðeins afsíðis o.s.frv. Skrifstofuhlutinn er svaka stór og úr öllu samhengi við almenna rými gestastofunnar. Sniðið er fínt sýnist mér, hærra til lofts í stóru rýmunum og útsýni er rammað inn á ákveðnum stöðum. Hilmar er sanngjarn í mati sínu á þessu. Þetta er bara flott

    Restin er í mínum augum bara venjulegt hús með smá dassi af arkitektastælum sem passa inn í “tíðarandann” en ekki endilega landslagið eða staðinn.

    Varðandi “brímið” þá er staðsetningin ekki í samræmi við markmiðin. Það er rétt sem Árni Ólafsson nefnir að það er á skjön við brímmatið að hafa þessa fjarlægð milli Skriðuklausturs og gestastofunnar. (Í bríminu er lögð áhersla á gangandi og hjólandi og almenningssamgöngur)

    Varðandi náttúruvernd, sem er einn aðal hugmyndafræðilegi stólpinn sem húsið stendur á, þá á húsið auðvitað að standa við gamla Skriðuklaustur og vera í samhljómi við það arkitektóniskt og ekki síður rekstrarlega (bifreiðastæði, viðhald, starfsmannahald og kynnigar).

    Til þess að vera smá leiðinlegur má ég til með að nefna Végarð þar sem áróðurssýning Landsvirkjunnar var í meðan á framkvæmdum við Kárahnjuka stóð yfir. Þar var byggt við með herfilegum hætti þannig að viðbyggingin var í algerri andstöðu við gamla félagsheimilið. Þetta var viðbygging sem hönnuð er í samræmi við margræddann “tíðaranda”. Var ekki skynsamlegra að koma gestastofunni fyrir í því húsi? Það er jú þarna og það hefði verið hægt að aðlaga að starfsseminni.

    Ég var skammaður í gær fyrir athugasemd mína vegna Austurstrætis færslunnar og ætla því að hætta nú.

  • Þetta er nú eiginlega bara ljótt hús

  • Árni Ólafsson

    Skírskotun til náttúrunnar er það síðasta sem manni dettur í hug þegar farið er inn í þetta hús. Form þess hafa ekkert með náttúruöflin að gera. Þau geta hins vegar verið áhugaverð og útpæld fyrir því.

    Húsið er ögrandi og vekur spurningar hjá gestum um það hvort það sé viðeigandi í umhverfinu eða hvort 2007 formið henti starfseminni sérstaklega. Byggingin ber með sér ákveðið yfirlæti og yfirlýsingu – hér er ég!

    Andstæðan er handan við hæðina – Skriðuklaustur Gunnars Gunnarssonar, sem vekur upp tilvísun í ákveðin öfl í stjórnmálum Evrópu á fyrri hluta nýliðinnar aldar – sem einnig er yfirlætisleg bygging, þó á allt annan hátt. Tengsl þessara húsa eru óleyst og vandræðaleg. Gestir heimsækja sjálfsagt felstir bæði húsin. Þótt aðeins sé steinsnar á milli þeirra kostar það bílferð þar sem ekki var hugað að sameiginlegri aðkomu og bílastæði. Þarna eru „óskyldir aðilar” á ferðinni sem hvorugur virðist vilja vita af hinum. Þarna var kjörið tækifæri til þess að ná „samlegðaráhrifum” með því að spyrða þessar stofnanir saman og auðvelda alla umgengni og aðkomu ferðamanna og annarra gesta.

    Komu formpælingarnar í veg fyrir meiri nálægð?
    Hefði meiri nálægð truflað umhverfi Skriðuklausturs vegna stílsins á nýja húsinu?
    Hefði þetta hús ekki sómt sér betur við höfnina í Reykjavík?
    Er þetta góður arkitektúr á þessum stað?

  • stefán benediktsson

    Góð bygging. Vonandi lesa fáir greinagerðina. Okkur hefur síðustu 50-60 ár hætt við að bulla dálítið mikið um að „aðlaga“, „falla að“ eða „falla inn í“, „taka tillit til“ og annað skemmtilega gáfulegt. Allan tímann hefur þessi viðleitni snúist um það sjálfsagða atriði hvort sem um þéttbýli eða dreifbýli var að ræða að láta ekki eins og næsta umhverfi sé ekki fyrir hendi. Arkís gengur það prýðilega vel, líka í Garðabæ og óbyggðu byggingunni á Hellissandi. Vatnajökull þekur ekki nema 8% landsins en hefur vissulega mótað allt að helmimg þess.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn