Mánudagur 28.11.2011 - 15:03 - 20 ummæli

Golfvellir—fallegir en baneitraðir?

Golfvellir eru einhverjir fallegustu staðir sem maður kemur á. Þeir eru oftast í fallegu landslagi. Allt er svo snyrtilegt. Grasið svo iðagrænt og vel hirt. Engar aðskotaplöntur eða blómstrandi illgres sjáanlegt og skordýr sjaldséð.

En hvernig stendur á því að þetta er svona óaðfinnanlegt?

Mér er sagt að golfvellir séu einhverjir menguðustu staðir á jarðríki. Þarna séu notuð efni til þess að láta grasið verða grænna. Efni til þess að grasið vaxi og önnur efni til þess að það vaxi hægt. Notuð eru erfðabreyttar grastegundir og eitur lagt á fletina til þess að halda óvelkomnum plöntum niðri eða drepa þær.

Á netinu er nokkuð skrifað um þetta og því ekki bara haldið fram að efnanotkunin sé slæm fyrir náttúruna heldur er því einnig haldið fram að “……. chemicals used in turf maintenance cause golfers a variety of health problems, including reduced sex drive, reduced fertility, cancer and even fatal allergic reactions”.

Því er einnig haldið fram að efnanotkun á golfvöllum séu farin að ógna vatnsbólum.

Auðvitað á maður ekki að trúa öllu sem sagt er. Það má gera ráð fyrir að allt sé þetta orðum aukið. En ég staldraði við þegar ég las umfjöllun um „vistvæna“ golfvelli í bandaríkjunum. Einn af þeim fyrstu var  á Martas Vineyard og nú fer þeim ört fjölgand.

Einn af þeim fyrstu í Evrópu var opnaður í Danmörku fyrir nokkru.  Hann er við Möllekildegaard norðan Kaupmannahafnar. Golfvöllurinn er lagður á jörð þar sem áður var vistvænn landbúnaður. Þar er ekki notaður tilbúinn áburður eða nein framandi efni á brautirnar sem haldið er í góðu ástandi með Terra Biosa eða lífrænum áburði. Engin eitur eru leyfð.

Þetta er örugglega eitthvað sem þarf að huga að og hugsanlega að bregðast við.

Ég hef heimsótt nokkra golfvelli hér á landi og erlendis.

Eitt skil ég ekki og það er hvernig stendur á því að notaður er hvítur sandur í glompurnar allstaðar í veröldinni. Líka þar sem engann hvítann sand er að finna. Af hverju er notaður hvítur sandur hér á landi? Er það einhver órjúfanleg hefð eða bara hinn gamli þekkti heimóttaskapur, þröngsýni og smáborgaraháttur. Því er verið að bera hvítann sand inn á mitt land þar sem hann á sér engann stað í náttúrunni?

Til gamans kemur hér texti úr lagi eftir þá Bob Dylan, Georg Harrison og félagana úr Tavelling Wilburys þar sem fjallað er um efnið. Lagið kom út fyrir rúmum 20 árum.

While you’re strolling down the fairway
Showing no remorse
Glowing from the poisons
They’ve sprayed on your golf course
While you’re busy sinking birdies
And keeping your scorecard
The devils been busy in your back yard

 

Myndirnar með færslunni eru frá golfvellinum í Möllekildegaard í Danmörku.

Vistvænn Golfvöllur í Danmörku. Heimasíðan er:

http://www.mollekildegolf.dk

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

 • Nei einsi.
  Það er einskis að vænta frá Bjarna Þór og félögum. Þeir stinga höfðinu í sandinn og láta ekki svo lítið að svara ahyggjyfullu áhugafólki.
  En hugmynd þín um eiturefnalausa íslenska golfvelli er flott. Bara ef hún endar ekki eins og hugmyndin um eiturlyfjalaust Ísland árið 2000!!!!!

 • Er ekki sóknarfæri þarna fyrir íslenska golfvelli.
  .
  Eiturefnalausir golfvellir? Kannski gengur það ekki upp.
  Það væri afar fróðlegt að fá nánari skýringar frá Bjarna Þór og öðrum sérfræðingum.

 • Einar Gunnarsson

  Gott efni til umfjollunar. Ekki er nema sjalfsagt ad their sem vinna vid thetta bregdist til varnar. Vonandi kemur pistill fra grasafraedingnum thar sem hann nefnir bestu tilfellin og thau verstu erlendis og ber saman vid astandid a Islandi og hvernig malin hafa throast til betri vegar undanfarid i heiminum. Thvi thad hafa thau Gert.

 • Ekki veit ég hvernig þessu er háttað á Íslandi, býst svo sem ekki við að golfvellir hér séu hættulegri en annað graslendi enda almennt lítil þörf á efnum hér til að draga úr vexti gróðurs, frekar að það sé á hinn veginn.

  En hitt er annað mál að t.d. á Spáni þar sem ég er kunnugur er það vel þekkt að margir hafa neyðst til að draga úr golfiðkun sinni og selja hús sín í golfbyggðum vegna heilsufarsvandamála sem rakin eru til efnanotkunar á golfvöllum. Ég er persónulega kunnugur fasteignasala á Costa del Sol sem hefur fengið nokkrar evrur í vasann annað slagið fyrir að höndla með eignir sem hafa farið í sölu af þessum sökum.

  Þannig að þessi færsla Hilmars er ósköp eðlileg, skiljanleg og áhugaverð að mínu mati. Raunar furðulegt að þetta hafi ekki borið á góma hér fyrr í tengslum við tíðar golfferðir Íslendinga til annarra landa.

 • Þetta er áhugavert efni sem lengi hefur verið í umræðunni en ekki uppi á yfirborðinu hér á landi fyrr en kannski nú. Ég gerði eins og málshefjandi og skoðaði veraldarvefinn og sló inn “toxic golf course” (eitraðir golfvellir) innan gæsalappa og fékk 14,500 svör á Google. Þar er verið að tala um “toxic free turf” og fl. jákvætt. Flestar greinarnar eru viðbrögð við eiturefnanotkun á golfvöllum.

  Það leynir sér ekki ef efnið er skimað að þarna er mikið vandamál á ferðinni. Það kemur fram að það er verið að vinna í málunum og talað um “Golf At A Crossroads” í þessum efnum eða að golfið sé þarna á krossgötum. Sem sagt að sérfræðingarnir eru að vinna í málinu eins og kemur fram í máli Árna Bragasonar.

  Það ber að fagna þessari umræðu í stað þess að afgreiða málið með því að tala um “þekkingarleysi”. Sérfræðingar þurfa að sitja á strák sínum og bæla hrokann. Ég er ekki hissa á að málshefjandi geri athugasemd við þetta hugarfar sérfræðingsins.

 • Arni Bragason

  Umræðan um umhverfisvæna golfvelli er vaxandi í heiminum og það var frábært framtak hjá Golfsambandinu að leggja til að allir vellir á Íslandi færu í gegnum fyrsta fasa hjá GEO
  http://www.golfenvironment.org/
  http://www.golfenvironment.org/news/2011/03/icelandic-golf-makes-unanimous-on-course-pledge

  GEO-Samtökin eru frjáls og óháð og njóta stuðnings allra stóru mótaraðanna og flestra samtaka ó golfinu. Menn taka hlutina alvarlega og ætla sér að gera vel fyrir umhverfið en passa upp á leikinn.
  Ég fór á fund hjá samtökunum sem starfsmaður Eflu-verkfræðistofu og hef réttindi til að umhverfisvotta golfvelli og Edwin golfvallararkitekt hefur einnig réttindi.
  Þessi jákvæða bylgja er orðin það sterk að hún mun eflaust hafa áhrif á rekstur allra valla í framtíðinni og stuðla að minni áburðar og eiturefnanotkun (sem er mjög lítil á Íslandi) og einnig stuðla að notkun staðbundinna grastegunda.

 • Hilmar Þór

  Það virðist vera hægt að misskilja allt.

  Það sem ég segi í inngangi er að mér hafi verið sagt að golfvellir séu einhverjir menguðustu staðir á jarðríki o.s.frv. Þarna er auðvitað átt við ræktað land. Ég segi líka að maður eigi ekki að trúa öllu sem er sagt og að þarna sé allt orðum aukið.

  En ég staldra við og geri þessa flökkusögu að umræðuefni. Áður en ég setti þetta á netið fór ég á veraldarvefinn og sá að nú er verið að koma á legg lífrænum og vistvænum golfvöllum víða. Fyrir því hljóta að vera einhverjar ástæður. Ég sá líka að það eru hundruð síðna sem fjölluðu um efnið, margar virtust skrifaðar af þekkingu. Þar má víða lesa að efnanotkun er mikil á golfvöllum.

  Talað er um að það sé ekki einungis eitrað fyrir illgresi á flötunum heldur líka fyrir óvelkomnu grasi. Og jafnvel er eitrað þannig að aðeins ein grastegund vex. Hinar drepast.

  Kannski er þetta bara allt tómur skáldskapur.

  Ég fann líka nokkrar góðar greinar þar sem verið er að andmæla þessu og því haldið fram að þetta sé orðum aukið. Sem er vonandi rétt. Þannig fer umræða fram. Menn takast á um sjónarmiðin.

  Rétt er samt að taka það fram að engar sögur hef ég heyrt af slæmri meðhöndlun á náttúrunni á íslenskum golfvöllum.

  Ég vil í lokin þakka Bjarna Þór Hannessyni fyrir hans athugasemd. Það er mikilvægt að fá álit kunnáttumanns á þessu sviði. Skoðun hans dregur úr vægi flökkusagna og róar þá sem eru áhyggjufullir vegna þessa. Mér er ljúft að birta hér á vefnum pistil um efnanotkun á golfvöllum frá honum þar sem hann segði frá því hvernig hlutirnir eru í raun. Kannski með dæmum frá Íslandi.

  Kannski þarf ekki annað en að umorða athugasemd hans hér að ofan. En ég mundi sleppa upphafssetningunni. Það er aldrei gott að ávarpa viðmælanda sinn með því að segja að hann hafi ekki vit á umræðuefninu. Það tekur allan þunga úr annars ágætum málflutningi.

  Það er rétt að minna á hið augljósa að það sem fram kemur í pistlinum eru ekki mínar persónulegu skoðanir ef frá er skilin athugasemdin um lit á sandinum. Ég vek bara athygli á máli sem er í deiglu og algengri skoðun í því sambandi.

 • Guðmundur Kristján Jónsson

  Ég er nokkuð viss um að golfvöllurinn í Syðridal við Bolungarvík sé með þeim vistvænni á landinu. Mér skilst að hann sé mestmegnis mótaður af náttúrunnar hendi, fyrir utan flatir og teiga. Hvað áburðarmál varðar þá veit ég ekki hvernig því er háttað fyrir vestan, en eitthvað segir mér að flestir golfvellir á Íslandi hafi tæpast efni á að eyða stórfé í eitraðan áburð.

  Burtséð frá eiturefnaumræðunni sem er vissulega áhugaverð þá hefur ekki verið minnst einu orði á alla þá vatnsnotkun sem golfvellir krefjast í formi vökvunar. Á Íslandi og víða annarsstaðar er svosem ekki skortur á vatni og rigningardögum, en skýtur það ekki skökku við að á mörgum stöðum í heiminum, til að mynda í Kaliforníu, er verið að dæla rándýru og meðhöndluðu drykkjarvatni yfir golfvelli á sama tíma og mörg þróunarlönd þjást af lífshættulegum vatnsskorti?

  Að vökva golfvelli með drykkjarvatni getur seint talist vistvænt…

  Ps. Ég tek það fram að ég er ekki golfari, einungis áhugamaður um golfvelli og ýmislegt sem þeim tengist.

 • Bjarni Þór Hannesson

  Það er nokkuð augljóst af þessum skrifum þínum að þekking þín á þessum málaflokk er af skornum skammti. Algengur misskilningur líkur þínum, kemur reglulega fram á sjónarsviðið á hinum ýmsu vígstöðum. Því miður lepja margir upp þennan misskilning og dreifa honum áfram.

  Eiturefna notkun golfvalla á íslanid er lítil sem engin. Þannig að íslendingar geta sofið rólega. Íslenskir golfvellir eru með þeim vistvænni í heiminum þegar eingöngu er litið til viðhalds vallanna. Hjálpar þar til litlar gæðakröfur íslenskra kylfinga.

  Eiturefnanotkun erlendis er mjög mismunandi. Til eru svartir sauðir í þessu eins og öðru, en eitt er þó ljóst að golfvallaiðnaðurinn er mun vistvænni en mikið af matvælaframleiðslu (landbúnaður). Öll eiturefni, lyf og þessháttar, sem notað er í golfvallaiðnaðinum eru efni sem framleidd eru fyrir landbúnað. Reglur um notkun þeirra er síðan mun strangari fyrir golfvelli en landbúnaðinn (löggjafinn segir, réttilega, að við lifum af án golfvalla en ekki án matar) og mun færri efni leifileg (og þá í veikari formi).

  Á golfvöllum er einnig mun meira af lífverum en á venjulegri landbúnaðarjörð, þar sem að um 50-70% af meðal golfvelli er undir lágmarks viðhaldi (að mörgu leiti bara villt). Nú er t.d. stórt verkefni í gangi víðsvegar á Bretlandi þar sem verið er að nota golfvellir til að auka fjölda villtra býflugna.

  Talandi um Bretland, þá eru meira en 100 golfvellir á svæðum sem hafa verið mekt SSSI svæði, eða Site of Specific Scientific Interest, sökum lífríkis sem þar fyrir finnst.

  Meðal golfvöllur notar einnig frekar lítið af áburði. Markmiðið er ekki að búa til mikinn grasvöxt, heldur að halda honum í lágmarki. Landbúnaður gengur að mestu út á hið gangstæða.

  Það að halda því að fram að golfvellir séu á meðal eitruðustu staða heimsins er algerlega fráleitt. Ég efast ekki um að þú hafir meint lítið með þessu, en hefur (líklegast óaðvitandi) mögulega kastað hér ljótum skugga á fagstétt mína, með illa rökstuddum ásökunum (eða vangaveltum).

  Ég gef mér það að þú munir kynna þér þetta betur í framtíðinni. Glaður skal ég setjast niður með þér og ræða þetta við tækifæri (þetta er of lítið pláss til að ræða þetta almennilega).

  Bjarni Þór Hannesson M.Sc.
  Grasvallatæknifræðingur

 • Þörf ábending.
  Nú þurfa forstöðumenn golfvalla að skýra málið.

 • Rafn Hilmarsson

  Svartur Hekluvikur á golfvellinum á Hellu. Kemur mjög vel út.

  ps „….Mér er sagt að golfvellir séu einhverjir menguðustu staðir á jarðríki….“ er kannski ekki sterkasta heimildin fyrir þeirri gagrýni sem þú setur fram !

 • Anna Björg

  Tók eftir því í sumar að golfvöllurinn á Höfn í Hornafirði er með svörtum sandi. Fannst það skemmtilega öðruvísi.

 • Skafti Harðarson

  „Landbúnaður á sér ekki jafn sterka málssvara eða varhunda i kerfinu og golfarar.“ Hvílíkur brandi. Milljarðar króna sem hent er árlega í landbúnað – og kvartað undan golfurum! En svona í alvöru – ég er frístundagolfari og geri engan mun á því og ýmissi annarri útivist. Golf er hvorki síðri, né betri, útivist en gönguferðir um land eða borg t.d. Hins vegar er oft vart við ótrúlegan hroka í garð golfara frá hendi ýmissa vitringa, sem oftar en ekki vilja hafa vit fyrir öðru fólki. Ábendingin um efnanotkun við viðhald vallanna er hins vegar ágæt, en meðan ég veð gæsaskítinn á Nesvellinum eða verst kríunni þar þá veit ég vel að efnanotkunin þar hlýtur að vera lítil sem engin …

 • Hilmar Þór

  Stefán. Það er sjálfsagður hlutur að nota skeljasand á golfvöllum fyrir vestan. En að mínu mati er óskiljanlegt að nota skeljasand á golfvellinum í t.a.m. Vestmannaeyjum. Sérstaklega þegar hugsað er til flutnings og þess að skeljasandurinn samlagast aldrei þeim sandi sem Vestmannayjar eru byggðar úr.

  Og það er rétt tilgetið að ég spila ekki golf.

 • Ég er hvorki hestamaður né golfari . Vill samt frekar sjá jarðir fara undir golfvelli. Golfvellir gera meira fyrir umhverfi sitt.Golfvellir í Evrópu nota „ormaskít“ á túnin frekar en tilbúin áburð,sem er umhverfisvænna.

 • Björn Erlingsson

  Ég geng umhverfis einn hér við Korpúlfstaði og þar eru greinileg áhrif á grunnvatnið og ég hef séð menn ,,mála grasið grænt“ og aðspurður sagði vallarstarfsmaðurinn þetta væri bara til þess að hægt væri að sjá hvar búið væri að bera á! Ég hef fettað fingur út í hvar afskorna grasinu er hent en þar sem það fer innan um venjulegan gróður þá eyðilegst gróðurvistkerfið. Þeim til málsbóta þá tóku þeir tillit til kurteysislegra ábendinga um þetta. Ég held að rigningin og rokið bjargi miklu varðandi eituráhrif ne hef engar mælingar fyrir mér í því. En golfvellir eru ekki vistvænir enda eru menn í stríðeldi á grasi og ef það væri búið að finna upp erfðabreytt sjálflýsandi gras (sem væntanlega væri geislavirkt) þá væri búið að planta því ansi víða.
  Björn E

 • Halldór G

  Gæti orðið frábært kosningamál fyrir VG og umhverfisráherra að gera alla golfvelli landsins umhverfisvæna næsta sumar!

 • stefán benediktsson

  Góð umræða. Nóg er af gulum (hvítum) sandi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum.

 • Árni Sigurðsson

  Allir sem einhveju ráða stunda golf. Það er ástæðan fyrir því að golfvellir hafa sloppið i umræðunni um efnanotkun og takmarkandi frelsi í reglugerðum. Landbúnaður á sér ekki jafn sterka málssvara eða varhunda i kerfinu og golfarar.
  Ég dreg þá álygtun að málshefjandi stundi ekki golf og þakka honum fyrir ad vekja athygli á þessu.

 • Hafsteinn Árna

  Það hlaut að koma að því að vistvæn hugmyndafræði næði til golfvalla. Þetta er örugglega mjög misjafnt og notkun allskonar efna mismikil. Sumstaðar eru þetta auðvitað baneitraðir staðir og annarstaðar ekki.

  En spurningin er. Hvernig er þessu háttað hér á landi? Ég hef trú á að flestir minni golfvellir hér á landi hafi ekki fjárráð til að kaupa öll þessi efni….sem betur fer kannski.

  Ætli það séu ekki fleiri vistvænir golfvellir á Íslandi einu en i öllu Florida svo dæmi sé tekið!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn