Miðvikudagur 14.09.2016 - 14:25 - 4 ummæli

Guðrún Jónsdóttir arkitekt, 1935 -2016

AR-706109971

 

Guðrún Jóns­dótt­ir arki­tekt og heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands lést á Land­spít­al­an­um við Hring­braut 2. sept­em­ber sl., 81 árs að aldri.

Ég heyrði fyrst af Guðrúnu þegar ég var í námi í byggingarlist í Kaupmannahöfn þegar hún var kosin formaður Arkitektafélags Íslands árið 1971.

Í þá daga var allnokkur umræða um byggingarlist og skipulag í Arkitektafélaginu. Haldnir voru 6-8 félagsfundir árlega um ýmislegt sem snerti skipulags- og byggingarmál fyrir utan sjálfsögð hagsmunamál stéttar arkitekta.

Guðrún var áberandi í umræðunni, einkum hvað varðaði verndun eldri húsa og skipulagsmál. Hún var ástríðufull í sínum málflutningi og leyndi sér ekki ást hennar og umhyggja fyrir því sem vel var gert, hvort heldur það var gamalt eða nýtt.

Ræddar voru hugmyndir, húsafriðun og skipulag með málefnalegum hætti, lausnamiðað en alls ekki átakalaust. Einstakar byggingar voru einnig á dagskrá. Þetta voru fróðlegir fundir og afar skemmtilegir. Maður missti helst ekki af einum einasta fundi.

Það sem vakti sérstaka athygli mína á þessum fundum var málflutningur eldri kynslóðarinnar sem var lausnamiðaður og veitti sterka viðspyrnu í mörgum málum. Þar var málflutningur Guðrúnar Jónsdóttur engin undantekning. Hún var ástríðufull og tilfinningarík og flutti mál sitt með festu og faglegum rökum og var fylgin sér.  Tekist var á um þéttingu byggðar og margt fleira. Hún slakaði aldrei á þessum einlæga áhuga sínum og þátttöku í umræðunni. Ég heyrði síðast í henni í viðtali í þætti Lísu Pálsdóttur, Flakk, núna snemmsumars þar sem hún ræddi skipulag Landspítalans af hógværð og festu. Viðtalið var tekið við sjúkrabeðið á Landspítalanum þar sem hún lést.

Guðrún var ráðin forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur og í framhaldi Borgarskipulags Reykjavíkur 1980­‑1984. Á þessum tíma beitti hún sér fyrir þéttingu byggðar vestan Elliðaáa og vildi draga úr útþenslu borgarinnar, það gerði hún þó með öðrum hætti en við erum að kynnast þessa dagana.

Þarna var lagt upp með lága, þétta byggð inni á vannýttum reitum borgarinnar. Ég nefni Suðurhlíðar og svæðin við Vesturbrún og Austurbrún og skipulag og samkeppni um lága, þétta byggð við Frostaskjól o.fl.

Íbúðabyggð var henni hugleikin enda nam hún list sína á Konunglegu dönsku Listaakademíunni hjá færustu mönnum á Norðurlöndum á þessu sviði, professorunum Viggo Möller-Jensen og Tyge Arnfred.

Eitt var þó verkið sem því miður náði ekki fram að ganga en það var endurskipulagstillaga hennar í Skuggahverfinu þar sem lögð var áhersla á sjálfsprottið umhverfi þar sem verndun eldri húsa var veitt verðskulduð athygli.

Ég hef aldrei séð þetta skipulag en Guðrún bauðst til að sýna mér það við tækifæri og skýra út. Þetta tækifæri hefur nú runnið mér úr greipum sökum sinnuleysis af minni hálfu. En ég hef á tilfinningunni að faglegur metnaður Guðrúnar í þessu verki og festa hennar og trúnaður við þau faglegu gildi sem að þessu skipulagi lágu hafi kostað hana stöðuna, að hluta til að minnsta kosti.

Það er vissulega missir að arkitektum eins og Guðrúnu sem var ástríðufull í allri sinni framgöngu í skipulags- og byggingarmálum.

Blessuð sé minning hennar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Á Þessum árum hafði hugtakið „þétting byggðar“ aðra og hljómfegurri þýðingu en í dag.

  • Arkitekt skrifar

    Í tilvitnuninni í minnigargrein ISG er hún m.a. að tala um samskipti Davíðs Oddsonar við kvenfólk. Hilmar sleppir því að nefna það en setur sviga og punkta þar sem ISG hnýtir í DO.

    Af hverju hann gerir það veit ég ekki.

    En aðalmálið er að þöggun er í gangi meðal arkiteklta. Þess vegna nota ég dulnefni hér, af ótta við kerfið. Arkitektar þora ekki að hafa opinbera skoðun á málum sem varða þeirra sérgrein af óttta við að missa vinnu eða tæðkifæri eins og sýndi sig í dæmi Guðrúnar. Arkitektar læka yfirleitt ekki á FB síðu þeirra ef einhver ummæli koma fram þar sem Umhverfis- og Skipulagssvið Reykjavíkurborgar er gagnrýnt. Þeir gara það bara ekki af ótta. Þannig að líklega er þessi ótti reyndin meðal arkitekta hér á landi og sennilega ekki ástæðulaus.

  • Hilmar Þór

    Ég segi í pistlinum að ég hafi á tilfinningunni að faglegur metnaður Guðrúnar og festa hennar og trúnaður við fagleg gildi og fagmennska hennar hafi kostað hana stöðu sína sem skipulagsstjóri Reykjavíkur að hluta til að minnsta kosti og nefni þar skipulag hennar í Skuggahverfin í Reykjavík.
    Þetta hefur verið staðfest í tveim minningargreinum sem birtust í Morgunblaðinu í dag. Annarsvegar í minningargrein Ragnheiðar Ragnarsdóttur arkitekts og samstarfskonu Guðrúnar til áratuga og hinsvegar í miningargrein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir fv. Borgarstjóra sem skrifar þetta

    “Þetta kom fljótt í ljós í umræðu um húsvernd í Reykjavík og skipulagshugmyndir í Skuggahverfi þar sem Guðrún reyndi hvað hún gat til að móta skipulag sem féll að þeirri byggð sem fyrir var og tæki mið af verndun Kveldúlfsskála og húss Sláturfélags Suðurlands. Hún hafði ekki erindi sem erfiði og það kom berlega i ljós að meirihlutiunn vildi losna við Guðrúnu. (………) Ég fylgdist með því hvernig Guðrúnu var gert svo erfitt fyrir að henni var að lokum ekki sætt í embætti”

    Þetta eru auðvitað dapurleg vinnubrögð sem líklga eru viðhöfð enn þann dag í dag víða í stjórnkerfinu. Þ.e.a.s. að menn eru látnir líða fyrir fagmennku sína.

    Ég hef oft velt fyrir mér hvað embættismenn eiga við þegar þeir segja að þessi eða hinn sé “góður í samvinnu”? Er átt við að þeir séu þýlyndir og geri bara það sem þeim er sagt eða merkir það að þeir séu frjóir og skapandi, séu fastir fyrir varðandi grundvallaratriði sem eru öllum til heilla?

  • Sigurður

    Hér er fallega mælt um góða konu sem ég kynntist á Blönduósi. Það er e.t.v. ekki viðeigandi í þessu samhengi að vera með útskýringar á eftirmælum sem þessum. En þessi setning: „………það gerði hún þó með öðrum hætti en við erum að kynnast þessa dagana“ vekur mann til umhugsunar. Nú fer mestur hluti þéttingarinnar fram með því að rífa gömul hús og byggja önnur stærri í þeirra stað á lóðunum. Ég veit ekkrt um hvað Guðrúnu þótti um þetta, en grunar að henni hafi ekki líkað framferðið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn