Þriðjudagur 30.08.2016 - 12:25 - 14 ummæli

Hallgrímskirkja v.s. Grundtvigskirkja

Ibsen_1

Grundtvigskirkjan í Kaupmannahöfn og Hallgrímskirkja í Reykjavík eiga margt sameiginlegt.

 • Þær eru báðar reistar í nafni helstu sálmaskálda landanna, prestanna Hallgríms Péturssonar á Íslandi(1614-1674) og N.F.S. Grundtvigs í Danmörku (1783-1872).
 • Þær eru báðar byggðar á hæð, Bispebjerg og Skólavörðuholti.
 • Þær eru báðar byggðar á tuttugustu öldinni og eru gegnheilar. Það er að segja að sama efni og áferð er utan á kirkjunum og innan.
 • Þær eru báðar gotneskar í aðaformmáli en sækja innblástur í aðstæður á staðnum. Grundtvikskirkjan í hefðbundinn danskan arkitektúr og Hallgrímskirkja að hluta til í íslendskt landslag (!).
 • Þær eru báðar sterk kennileiti þar sem þær standa umkringdar tiltölulega lágri byggð.
 • Báðar hafa þær inngang sem veitir að götu með lágreistum húsum.
 • Þær eru báðar þrískipa.
 • Þær eru báðar hannaðar af sterkustu arkitektum sinnar kynslóðar, Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) og P.V.J Klint (1853-1930). Kaare Klint sonur Jensen Klint (1888-1954) kláraði bygginguna fyrir föður sinn, en hann var jafnaldri Guðjóns.
 • Kirkjurnar voru báðar lengi í smíðum. Það var byrjað fyrr á Grundtvigskirkju eða árið 1921 eftir samkeppni sem haldin var 1912-13 og smíðinni lauk 1940. Byrjað var á Hallgrímskirkju 1945 0g var hún vígð 1986.
 • Kirkjurnar tvær eru álíka langar, Grundtvigskirkja er 70 metrar og Hállgrímskirkja er  69 metrar.
 • Kirkjurnar eru svipaðar að stærð. Hallgrímskirkja er 1676 m2 að flatarmáli  og manni sýnist að Grunndtvigskirkja sé svipuð að stærð, kannski aðeins stærri. Margir telja Hallgrímskirkju stærstu kirkjuna á Íslandi. Það stendur meira að segja á nokkrum Wikipediasíðum og ferðabæklingum. Því fer víðs fjarri, Grafarvogskirkja er langtum stærri í fermetrum talið eða  2890 m2. Sennilega eru sætin eitthvað fleiri í Hallgrímskirkju sem er auðvitað líka mælikvarði.

það sem greinir kirkjurnar að er bísna margt og hallar þar oft á Hallgrímskirkju nema kannski það að Hallgrímskirkja er sennilega þekktari en Grundtvigskirkjan í Danmörku.

Grundtvigskirkja sver sig í hefðirnar í danskri byggingalist meðan Hallgrímskirkja er meira svona „kjúriositet“ svipað og verk Gaudis í Barcelona. Ekki endilega góð byggingalist en forvitlileg og jafnvel skemmileg og með fallega vinkla á nokkrum stöðum. Gaudi í Barcelona og Hallgrímskirkja í Reykjavík laða að sér ferðamenn.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af Grundtvigskirkju sem var byggð úr viðhaldsfríum gulum dönskum múrsteini samkvæmt aldagamalli hefð og tvær af Hallgrímskirkju sem er byggð úr steinsteypu sem var skigreind sem „varanlegt efni“ um miðja síðustu öld en er það auðvitað ekki eins og dæmin sanna.

Maður veltir fyrir sér hvort Guðjón Samúelsson hafi sótt innblástur til kollega síns í Danmörku þegar hann lagði drögin að helsta kennileiti Reykjavíkurborgar, Hallgrímskirkju.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

Rune_Brimer

Inngangur Gruntvigskirkju er þrí skiptur eins og turninn, faðirinn, sonurinn og hinn heilagi andi. Súlnaskipan innandyra er einnig með skýrskotun til dulinnar þekkingar.

Ibsen_2

Hliðarskip Grundtvigskirkju.

Ibsen_4

Miðskip Grundtvigskirkju.

1380371_4699874234199_379070906_n

Miðskip Hallgrímskirkju.

 9_-Hallgrímskirkja

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Hilmar Thor Bjarnason

  Mikið vildi ég að þessi grein hefði birst fyrir ári en þá var ég á leiðinni til Kaupmannahafnar. Næst þegar ég á leið þangað fyrir þetta eitt af mínum fyrstu verkefnum að skoða þessa kirkju. Kærar þakkir fyrir að opna enn eina áhugaverða dyr á heiminum.

 • Stefán Örn Stefánsson

  Þetta er alveg stórlega skemmtilegur samanburður og athyglisverður vinkill á þessar stórbyggingar tvær, svona sterk kennileiti hvor um sig í sínu umhverfi, skyldar og líkar en samt hvor með sinn karakter. Stærðarsamanburðurinn merkilegur og tíðarandinn og skólaáhrifin eiga kannski eftir að skýrast frekar á næstunni þegar fjallað verður nánar um Guðjón og verkum hans gerð ítarleg skil. Klint hafa verið gerð góð skil í bókmenntalegu stórvirki.

 • Dennis Davíð Jóhannesson

  Sjálfur sagði Guðjón um Hallgrímskirkju, sem var honum bæði kært og erfitt verkefni „Ég taldi sjálfsagt að svipur þessarar miklu kirkju væri gotneskur, enda er gotneski stíllinn álitinn fegursti stíll í kirkjubyggingum. Á hinn bóginn óskaði ég þess að kirkjubyggingin bæri svip af íslensku landslagi og umhverfi“.

  Nýgotneski stíllinn er upprunin á Bretlandseyjum um miðja 18. öld. Strawberry Hill er talið vera fyrsta húsið sem byggt var í nýgotneskum stíl og er fyrirrennari nýgotneska stílsins. Nýgotneski stíllinn „Gothic Revival“ varð afar vinsæll í Englandi á 19. öld þegar menntaðir og upplýstir arkitektar og hönnuðir, svo sem Augustus W.N. Pugin, John Ruskin og William Morris, reyndu að endurvekja form miðalda. Hugmyndir módernista um heiðarleika og sannleika í byggingum má rekja til Gotneskrar byggingargerðar.

 • Rúnar I Guðjónsson

  Grundtvigskirkju kirkjan er sennilega innblásturinn fyrir Hallgrímskirkju, svo sagði mér mætur maður fyrir mörgum árum.


  Einhver villa hefur læðst inní greinina varðandi dánardag P.V.Jensen Klint – Hann er fæddur 1853 en lést 1930, Það var síðan sonur hans,Kaare J.Klint sem kláraði verkefnið, Kaare J.Klint lést árið 1954 .

  • Hilmar Þór

   Þakka þér ábendinguna Rúnar I Guðjónsson. Ég googlaði þetta auðvitað en tók ekki rétt eftir. Ég lagfæri þetta strax.

   Þakka þér aftur. Maður vill ekki hafa staðreyndarvillur í svona texta.

 • Kærar þakkir Hilmar Þór fyrir þínar áhugaverðu og frábæru greinar!

 • Jón Eiríksson

  Skemmtilegur samanburður sem kemur okkur sem ekki þekkjum til á óvart.

 • Gunnar Gunnarsson

  „Þær eru báðar hannaðar af sterkustu arkitektum sinnar kynslóðar, jafnöldrunum Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) og P.V.J Klint (1888-1954).“

  Þetta er athyglisvert. Guðjón var einu ári eldri en Klint sem lifði fjórum árum lengur en Guðjón. Urðu 63 og 66 ára. Líklega hafa þeir þekkst ágætlega og verið samtíma á sama arkitektaskólanum. Þeir hafa líklega rætt kirkjubyggingar sínar einhverntíma. Veit einhver eitthvað um þetta?

  • Hilmar Þór

   Já að væri gaman ef einhver veit hvort þeir snillingarnir hafi haft einhver samskipti vegna þessarra systurbygginga!

 • ,,… það sem greinir kirkjurnar að er býsna margt og hallar þar oft á Hallgrímskirkju …“

  Hvað þýðir þetta?

  Kirkjurnar eru líkar og einnig að mörgu leyti ólíkar, en hvernig ,,hallar þar á“ aðra þeirra?

  • Hilmar Þór

   Páll. Þetta er nú ekki illa meint. Þetta er meira persónulegt mat mtt eða tilfinning sem ég ætla ekki að fara inná núna nema þú sérstaklega óskir þess.

  • Nei Hilmar minn, það sem þú skrifar er ekki illa meint, öðru nær, langt síðan ég tók eftir því. Ég bara skildi ekki merkingu þessara tilteknu orða. En ég skildi þau eftir umhugsun. Og er líklega sammála.

 • Sigrún Guðmundsdóttir

  Ekkert hús er eyland!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn