Miðvikudagur 10.10.2012 - 09:18 - 19 ummæli

Hafnarsvæði – Steinn í götu skipulagsstefnu

 

Það er opinber stefna borgarinnar að minnka umferð einkabíla innan borgarlandsins.

Þetta á að gera með því að auka þjónustu almenningsflutninga, leggja meiri áherslu á hjólandi og gangandi umferð og dreifa þjónustunni þannig að hún verði nær neytandanum og meira „í leiðinni“.

Og helst í göngu- eða hjólafæri.

Þetta eru raunhæf og góð markmið.

Ef þetta á að takast þarf að halda utan um stefnuna af mikilli festu.

En það getur verið bæði langur og grýttur vegur frá hugmynd að veruleika í þessu sem öðru. Hugmyndin liggur fyrir og nú þarf að ryðja öllum steinum úr götunni þannig að markmiðinu verði náð.

Eitt megin viðfangsefnið er skipulagslegs eðlis. Það er að færa þjónustuna nær neytandanum og staðsetja hana þannig að hún sé  sem oftast “í leiðinni” hvort sem ferðast er gangandi, hjólandi eða með almennigsvögnum. Út frá þessu má ekki víkja ef áætlunin á að ganga eftir.

Þetta hafa menn ekki alltaf haft í huga við skipulagsákvarðanir og látið einkabílinn ráða ferðinni og móta borgarskipulagið.

Einhverntíma um miðjan fyrsta áratug aldarinnar var gefið undir fótinn með að leyfa verslunarstarfssemi á hafnarsvæði borgarinnar. Þetta var við Fiskislóð. Ég man ekki nákvæmlega hver fékk fyrstu undanþáguna sem var rökstudd með að fyritækið Segull, sem þjónar útgerðinni fékk að opna þarna verslun. Svo kom hvað af öðru, Ellingssen sem er útgerðartengd verslun opnaði á hafnarsvæðinu. Svo komu Húsasmiðjan og BYKO.

Og loks fór matvöruverslunin að færast út úr íbúðahverfinu á hafnarsvæðið. Matvöruverslanirnar KRÓNAN, BÓNUS og Europrís opnuðu þarnna á hafnarsvæðinu við Fiskislóð. Í framhaldinu lagðist verslunarrekstur inni í íbúðabyggðinni nánast af með undantekningum.

Mér skilst að á þessum tíma hafi landnotkun í aðalskipulagi verið formlega breytt í samræmi við þessa óheillaþróun úr hafnarsvæði í takmarkað miðborgarsvæði.

Það var óheillaspor sem stuðlar að því að flytja þjónustuna fjær neytandanum og auka einkabílaumferð. Ekki er auðvelt fyrir núverandi borgarstjórn að breyta þessu í einum vetvangi, en hún ætti að geta gefið út einhverja stefnu sem kemur í veg fyrir frekari þróun í þessa átt, þar sem neytendum er nánast gert ókleyft að sækja þjónustuna gangandi eða hjólandi og einkabíllinn  festur enn frekar í sessi.

Nú hefur ný lágvöruverslun óskað eftir að fá að opna verslun á hafnarsvæðinu við Fiskislóð við hliðina á þeim tveim sem fyrir eru. Það er að segja að þriðja lágvöruverslunin er að opna þarna til þess að þjóna vesturbænum. Eðlilegt er að spyrja hvort þetta sé í samræmi við stefnu borgarinnar í umferðamálum?  Ef  þörf er fyrir þriðju lágvöruverslunina í borgarhlutanum hlýtur að vakna spurningin um hvar  rétt sé að staðsetja hana með tilliti til fyrrgreindrar stefnu borgarinnar í samgöngumálum?  Stefnir borgin að því að færa matvöruverslun alfarið út úr íbúðahverfunum almennt og auka þar með umfang einkabíla í borginni og leggja það með þungar byrgðar á borgarbúa? Á ekki að staðsetja matvöruverslunina á skipulagslegum forsendum?

Í borgarhluta 107 er mikið framboð af vannýttu eða ónotuðu verslunarhúsnæði sem hentar ágætlega fyrir verslanir af öllu tagi. Ég nefni nokkur hundruð fermetra verslunarhúsnæði við Dunhaga sem nú er notað fyrir Háskólautgáfuna(!) og verslunarhúsnæði við Hjarðarhaga auk mikilla tækifæra við Hofsvallagötu og Neshaga og víðar.

Nú liggur fyrir að  þriðja lágvöruverslunin opni á hafnarsvæðinu í byrjun desember. Ekki veit ég hvaða áhrif það mun hafa á þau fáu tækifæri sem matvöruverslun hefur í borgarhlutanum. En ég óttast lægra þjónustustigs í göngufæri.

Þarna er lagður stór steinn í skynsamlega þróun í átt að vistvænni borg þar sem fólk fer gangandi og hjólandi að sinna sínum daglegu erindum og einkabíllinn festur enn frekar í sessi.

Borgin þarf að fylgja stefnu sinni í þessu máli þannig að markmiðin í umferðamálum verði ekki fyrir borð borin. Eitt skrefanna er að endurskoða skilgreiningu landnotkunnar á hafnarsvæðinu og beina miðborgarþjónustunni þangað sem hún á heima og matvöruverslun og annarri þjónustu aftur inn í íbúðahverfin. Gera íbúðahverfin sjálfbær þannig að sem flesta þjónustu sé hægt að sækja gangandi og að einkabílaumferð sé í lágmarki.

Annars er betra heima setið en af stað farið í samgöngustefnunni.  Hvað gengur borginni til? Hverjum er hún að þjóna?

++++++

Efst í færslunni er mynd sem tekin er á hafnarsvæðinu úti á Granda. Þarna má sjá Bónus og Krónuna. Nú stendur fyrir dyrum að fjölga um enn eina lágvöruverslunina þarna á svæðinu eins og fyrr segir.  Skipulag nærliggjandi íbúðahverfis gerir ráð fyrir stórum matvörubúðum við Dunhaga og Hjarðarhaga. Mikil tækifæri er að finna fyrir verslun og þjónustu á horni Hofsvallagötu og Neshaga.

Tækifæri íbúanna til þess að geta gengið fallegar götur til  innkaupa þar sem þeir hitta sína næstu nágranna er tekin frá þeim og þeim gert að sækja verslun í einkabíl. Þetta virðist vera þvert á stefnu borgarinnar í samgöngumálum.

 

Að ofan er ljósmynd sem sýnir byggingar á horni Hofsvallagötu og Neshaga sem eru miðsvæðis í hverfi 107.  Þetta eru byggingar sem byggðar eru sem atvinnuhúsnæði og henta vel fyrir ýmsa þjónustu fyrir hverfið svo sem lágvörumarkað, heilsugæslu, bókasafn, ýmsa félagsstarfssemi og fl. Þarna eru nú ýmsar skrifstofur sem ekki þjóna hverfinu sérstaklega.

 

Í Vesturbæ sunnan Hringbrautar er ekki að finna í göngufæri, lágvöruverslun, bókasafn, heilsugæslustöð, fiskbúð, hverfisknæpu, byggingavöruverslun(isenkram-krambúð), pósthús, áfengisverslun, vefnaðarvöruverslun, fitnescenter og margt fleira. Ekki er að efast um að rekstrargrunnvöllur sé fyrir þessa þjónustu í hverfi af  þessari stærðargráðu. Ef fundin væri staður fyrir þ jónustu við íbúana innan íbúðahverfanna eða í tengslum við þau mun hverskonar „skutl“ á einkabílum minnka stórlega og álag á gatnakerfi borgarinnar minnka verulega.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Hérna er mjög fróðlegur fyrirlestur með Jan Gehl (á dönsku) sem ég fór á í Arkitektaskólanum í Árósum 2011.

    http://studyarch.wordpress.com/2011/06/12/se-jan-gehls-forelaesning-pa-arkitektskolen-aarhus/

  • Arnþór T

    Spurning um að færa íbúabyggðina út á Granda?

  • Þodnjoð

    Það er munur á hafnarstarfssemi og hafnsækinni starfsemi og um þau gilda mismunandi lög og kröfur. Þessu er vandlega blandað saman á Grandanum. Vill benda ykkur á að lesa bókina „Social logic of space“
    Hún er ókeypis hér: http://www.ebook3000.com/The-Social-Logic-of-Space_35467.html

    Þetta er nýleg kenning sem segir að innihald og staðsetning starfsemi í borgum og bæjum skiptir ekki máli, heldur eru aðrir kraftar sem stjórna þróun borga. Þegar betur er að gáð getur þetta staðist fyrir nokkur hverfi í Reykjavíjk og nágrenni. Miðbær Hafnarfjarðar er ekki miðbær þjónustu og starfsemi, það er iðnaðarhverfið norðar í bænum. Skeifan í Reykjavík var skipulagt sem iðnaðarhverfi…og Grandinn fyrir hafnarstarfsemi. Grafarholtið átti að hafa miðbæjarkjarna efst á holtinu, en er núna neðst við Vesturlandsveginn. Lágvöruverslanir staðsetja sig á ódýrari stöðum sem liggja vel við samgöngum.

    Samkvæmt kenningu er ástæðan fyrir hnignum Laugavegar síðustu ár, gatnabreytingar í nágrenninu. Tvöföldun aksturs á Hverfisgötu og byggðin við Skúlagötu. Svíar notuðu þessar kenningar til að uppræta götusölu á vændi með því að loka fyrir hringakstur í hverfi vændiskvenna. Þeir upprættu ekki vændið, heldur fluttust þær þangað sem hringakstur var enn leyfilegur.

    Reynið að gera ykkur í hugarlund hvað breytist í Reykjavík ef skipt væri um akstursstefnu á Laugarvegi.

  • Sigurlaug

    Þetta landnotkunar ákvæði í aðalskipulagi er sprungið og stenst ekki.

    Ef farið er á ja.is sést að þarna eru hálft annað hundrað fyritæki. Flest eru iðnaðar og þjónustufyritækui sem ekkert hafa með útgerð eða hafnarstarfssemi að gera.

    Það sem ætti að gera er að breyta svæðinu í blandaða byggð fyrir iðnað og þjónustu ásamt að sjálfsögðu hafnsækinni starfssemi en BANNA matvöruverslanir á svæðinu enda eiga þær ekkert erindu út fyrir íbúðasvæðin eins og bent hefur verið á. Þetta er fínnt atvinnusvæði sem tengist vesturhluta borgarinnar og gatnakerfi ágætlega og höldum okkur við það.

    Hvernig geta skipulagsyfirvöld misst svona tökin á því verkefni sem þeim er falið og láta það viðgangast að matvörubúðir séu skilgreindar sem iðnaður eins og virðist vera hér á ferðinni????

    Hér eru nokkur dæmi um fyritæki við fiskislóð.:

    Dekkjaverkstæði
    Bílaleiga
    Ráðgjafafyritæki
    Rafmagnsvörufyritæki
    Bílasala
    Bílaþvottastöð
    Bókabúð
    Hljomflutningstækjaleiga
    Plastgluggaverksmiðja
    Blaðasmiðja
    Byssusmiðja
    2 arkitektastofur
    Hugbúnaðarfyritæki
    Ferðaskrifstofa
    Gagarín tölvufyritæki
    Geymslur
    Heilsárshús
    Gallery
    Sjónvarpsstöð
    Sálfræðiþjónusta
    Klæðskeri
    Skóli fólksins
    …….
    ……
    ……
    ……
    ……
    og
    Þrjár lágvöru matarbúðir……

  • Svæðið í kringum Hótel Sögu er á heimleið flestra Vesturbæinga og væri tilvalið fyrir verslunarrekstur. Þarna eru tugir hektara af bílastæðum og plássfrekt hringtorg. Bílastæðin eru nýtt af Háskólanemum frá 8 til 16, þá fer fólk að versla og margir keyra líklega út á Granda. Verslun fer aðallega fram á milli 16 til 19 og um helgar þegar stæðin eru núna tóm. Á kvöldin eftir að verslanir loka eru hluti stæðanna nýttur af gestum Háskólabíós.
    Undir Bónusversluninni á Smáratorgi eru bílastæði, sem sýnir að nægt pláss er við Hótel Sögu fyrir ýmsar verslanir með því að færa stæðin neðanjarðar.

  • Af því hér hafa fleiri en einn minnst á Melabúðina, þá er rétt að hafa í huga að sú búð er algjör undantekning og svolítið „síðasti móhikaninn“, þ.e. hverfisverslun með gott vöruúrval og skapleg verð. Fáar sambærilegar búðir finnast. 10-11 búðir eru ekki „hverfisverslanir“, heldur sjoppur sem selja matvöru 50-70% dýrari en lágvöruverðsverslanir.

    Matvöruverslanirnar tvær, bráðum þrjár, úti á Granda eru ekkert einsdæmi. Lítið á Bónusbúðina á Korputorgi, sem er ekki í göngfæri fyrir neinn. Sama gildir um Bónus gegnt IKEA. Svipaðar skipulagslega eru svo Krónan í Húsgagnahöll og Holtagarðar, stíla inn á fólk eigi leið framhjá á bílnum.

    í nýjum hverfum eru svo búðir oftar en ekki alveg í útjaðri, td. Nóatúnsbúð í Grafarholti, marvöruverslanir í Vallahverfi í Hafnarfirði o.fl.

    Það er vel hægt að hafa ágætlega stórar búðir, líka lágvöruverslanir, INNI Í hverfum, sjáið bara Bónus búðirnar á Laugavegi og á Hallveigarstíg. En skipulagsyfirvöld þurfa að stýra þessu. Þau vinna fyrir OKKUR og við eigum að ráða því líka hvar búðir eiga og mega vera, ekki bara verslunarkeðjueigendur.

  • Þormóður

    Er þetta ekki bara sama gamla sagan. Það er alltaf hlaupið eftir óskum þeirra stóru. Þetta er það sem SA er gagnrýnt fyrir. Landsvirkjun og álverin ráða því sem þeir vilja á hálendinu og blokkirnar gömlu, Bonusfeðgar og BYKO familian ráða skipulaginu í borginni. Og það versta er að þetta er ekkert að breytast. Ég skora á þann skipulagsarkitekt getur fært skipulagsleg rök fyrir að að gott sé fyrir borgarbúa að setja matvöruverslun á iðnaðarsvæði að upplýsa okkur sauðsvartann almenninginn sem þarf að búa við þetta.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Já Jóhann, munstrið er margslungið.

    Það má deila um hvort konan í dæminu hjá þér þarf lífsnauðsynlega á einkabíl að halda. Hún gæti etv keypt inn í Hagabúðinni, sem er ekki langt frá Heimilinu. Ef fjölskyldan væri staðráðin í að komast af með einn bíl gæti hún hugsanlega flutt sig um set innan hverfisins, eða þá nær vinnustað konunnar.

    En látum þetta liggja á milli hluta, og gefum okkur að hún komist ekki af án bíls. Þá er þetta galli í borgarskipulaginu sem kostar viðkomandi fjölskyldu 90.000 á mánuði skv þínum tölum.

    Að manneskja með 220.000 kr nettó á mánuði sjái sig tilneydda til að reka sér bíl er umhugsunarvert. Uppundir helmingurinn af nettóinnkomunni fer þá í reksturinn á bíldósinni.

    Í Landsspítalaumræðunni er aldrei spurt afhverju séu ekki byggðar íbúðir fyrir fólk í grunnstörfum í göngufæri við svo mannfrekann vinnustað. Þetta var gert áður fyrr og fylgdi þá stundum íbúðir starfinu á viðkomandi Heilbrigðisstofnun.

    Á heimleiðinni úr vinnunni á Landspítalanum rennir síðan konan úr dæminu út Granda og kaupir í matinn.
    Þar með missir hverfisbúðin af þeim innkaupum.

    Svona myndast þetta munstur sem við erum föst í.

  • þakka svarið og hálf-set skottið milli afturlappanna 😉

  • Auðvitað væri gott að hafa fleiri hverfisverslanir en ég svo sem get lifað við þetta, það er ekki mikið vandamál að koma sér út á Granda og ef sárvantar e-ð þá er hægt að greiða smá hærra verð og fara í Nóatún, Melabúðina og 10-11. Í betri heimi fyndist mér þó fínt ef 10-11 o.fl. færi úr t.d. Hjarðarhaganum og þar kæmi lágvöruverslun en ég myndi samt óttast bílastæðisleiðindaumferð þar sem landinn nennir oft ekki að ganga en það væri samt frábært að hafa svoleiðis svo maður ætti möguleika að ganga eða hjóla til að versla. Það er einmitt málið, auka möguleikana til að geta komist til þess að versla án þess að þurfa að fara á bíl, ég styð það heilshugar.
    Það er svo sem annars ekki langt f. hverfið að sækja í bókasafn, eitt niðríbæ og annað út á nesi, sama með heilsugæslustöð. Fiskbúðin á nesveginum er steinsnar frá bæjarmörkum, það væri gaman að fá hverfisknæpu einhvers staðar vissulega en enginn er að fara að leggja út í þá óvissu, spurning að skella sér bara á hótel sögu. 😉 Fitness center, póstur og áfengisverslun er svo úti á nesi, það væri skemmtilegra að hafa það nær og í leiðinni en það er ekki svo langt, eru menn ekki alltaf að mæla með að labba eða hjóla í næsta nágrenni hvort eð er?

    Að blanda staðarvali nýs landsspítala við umræðuna er út í hött, hann er nefnilega ekki bara fyrir gangandi og hjólandi vesturbæinga og miðborgarbúa, hann ætti frekar að vera nálægt þungamiðju höfuðborgarsvæðisins, austar, en ekki með hinu mikla fyrirhugaða byggingarmagni .

    Einhvers staðar stendur: „Í framhaldinu lagðist verslunarrekstur inni í íbúðabyggðinni nánast af með undantekningum. “
    Hvaða mikli rekstur var það? Ég man ekki sérstaklega eftir honum í vesturbænum (fyrir utan einstaka litlum hverfisverslunum, fiskbúðum og sjoppum í gamla vesturbænum)

    p.s. talandi um vannýtt húsnæði, Keilugrandi 1, hvað í ósköpunum er það, er það notað eitthvað?
    p.p.s. einu „vetfangi“ ekki vetvangi 😉

    • Hilmar Þór

      Þetta eru fínar umræður hér. Þakka þær.

      Mig langar bara, vegna athugasemdar Ara, að segja að mér finnst hann ekki skilja hugmyndafræðina að baki samgönguhugmyndar þar sem meira er gengið og minna ekið. Hann þarf að setja sig inn í þankaganginn og reyna að skilja hann. Ég ætla ekki að útskýra það hér en samt nefna eitt eða tvö atriði.

      Fiskbúðin á Nesinu, við Vegamót, er útúr. Hún er ekki einusinni í Reykjavík, Sama á við um áfengisverslunina og pósthúsið.

      Þannig að ef þú ætlar að hafa fisk í matinn og vilt kaupa fiskinn í fiskbúðinni, og vilt hafa eitthvað grænmeti með ásamt nýbökuðu brauði og hvítvín til þess að skola þessu niður. Þá þarftu að fara á fjóra staði sem eru með nokkurra kílometra millibili og dreufðir um tvö sveitarfélög.

      Þá fer allur eftirmiðdagurinn í að útvega hráefnið ef farið er gangandi vegna þess hvað þjónustan er dreifð. Það er ekki heil skipulagsbrú í þessu.

      Varðandi fækkun verslana á svæðinu minni ég á að á Fálkagötu voru 5 verslanir í eina tíð. Fiskbúð, mjólkurbúð Stebbabúð, KRON og Ragnarsbúð.

      Sumar þessarra verslana voru leystar af þegar veslunarhúsnæði var byggt beggja vegna Dunhaga og bættist þá við skósmiður, hannyrðaverslun og hárgreiðslustofa. Svo var við Hjarðarhaga; Hagabúðin, sjoppa og Ísbúð.

      Tvær matvöruverslanir voru við Furumel og svo var og er Melabúðin og þrjár matvöruverslanir voru í sunnanverðum Skjólunum. Tvær voru við Hringbraut sunnanverða

      Hér eru taldar upp einar 18 búðir og þjónustufyritæki í hverfinu. Einhverri hef ég gleymt.

      Nú eru bara2-3 eftir í 107 og það er Melabúðin og Nóatún. Varla er hægt að telja 10 -11 með enda kom hún mikið seinna og er varla samkeppnisfær.

      Ekki er ástæða til þess að taka þetta fyrirkomulag upp aftur enda aðrir tímar. En að færa matvöruverslunina út úr íbúðahverfinu er enganvegin ásættanlegt. Enda trúi ég ekki að skipulagslegar forsendur hafi legið að baki þeirrar ákvörðunnar.

      Varðandi réttritun þá verður bara að hafa það að einhverjar vitleysur slæðist með í þeim efnum. Fólk verður að fyrirgefa það. Innihaldið skiptir meira máli en umbúðirnar. Þetta er oftast skrifað með miklum hraða og lítið yfirfarið.

  • Guðmundur Guðmundsson

    Setjum okkur eitt augnablik í spor þess sem á að reka hverfisbúðina.

    Birgjar hans bjóða honum oft hærri verð en varan kostar í smásölu td. í Bónus.

    Að auki þarf hann að borga hærri leigu inn í íbúðarhverfunum en lágvöruverslunin í iðnaðarhverfinu.

    Tryggð viðskiptavinanna er svo ein víddin. Það er keyptur einn mjólkurpottur á stangli í bland við það sem gleymdist í síðustu Bónusferð.

    Að fá þannig rekstur að ganga upp er erfitt, ef ekki útilokað eins og umhverfið er í dag

    • Jóhann Sigurðarson

      Já Guðmundur, þetta er ekki einfalt.

      Setjumn okkur í spor eiginkonunnar sem á mann sem vinnur í byggingariðnaði og þarf á fjölskyldubílnum að halda til þess að stunda vinnu sína í nýlegum úthverfum og úti á landi.

      Konan vinnur á skrifstofu og þarf að reka heimilið sem er á Hjarðarhaga. Segjum að hún vinni á Landspítalanum og taki strætó (það er svo mikið af þeim þar) og fari úr á Hringbrautinni við Grund. Þá þarf hún að ganga út í Örfyrisey til þess að kaupa í matinn. Hún þarf að hjóla út á Seltjarnarnes til þess að fara í pósthús eða í Ríkið o.s.frv.

      Þessi staðsetning þjónustunnar gerir það að verkum að hún verður að hafa bíl til umráða vegna heimilisrekstursins eingöngu. Hún hefur 280 þúsund brúttó á mánuði og fær 220 þúsund útborgað. Rekstur bílsins kostar um 90 þúsund á mánuði ( þetta er pínulítill bill sem lítið er ekið) Þessar 90 þúsund er eðlilegt að keggja ofaná reikning vegna matarinnkaupa.

      Og vegna þess að hún á bílinn mun hún aka í vinnuna. Þar með er samgönguáætlun Landspítalans fallin hvað konuna varðar.

      Það er eiginlega varla hægt að færa rök fyrir matvöruverslun á hafnar- og iðnaðarsvæðum langt frá íbúðabyggðinni. Það er bara heimska.

      Ergó: Þetta einkabílaskipulag er arfavitlaust og það er ekki spurning um að færa þjónustuna inn í íbúðahverfin. Það á að gera ráðstafanir til þess strax og ekki bíða einn einasta dag. Að öðrum kosti er Landspítalaáætlanirnar hvað varðar umferðamál ónýtar þannig að finna þarf honum annan stað.

  • Magnús Karl Magnússon

    Góð færsla og rétt að setja þetta í samhengi.
    Það er einnig gaman að þú sýnir myndir af byggingunum við Hofsvallagötu/Neshaga. Ég sit í annarri þessara bygginga sem prófessor við læknadeild HÍ. Rannsóknarstofan mín er í byggingu Læknagarðs við LSH. Ég oft hjóla, keyri eða geng þar nokkrum sinnum á dag.
    Háskólinn er með starfsemi í báðum þessum byggingum á horni Hofsv.götu og Neshaga og forsenda þess að hægt sé að nýta húsnæðið til nærþjónustu fyrir íbúa er að sameina heilbrigðisvísindi á einn stað við Hringbraut. En takk fyrir frábæra hugmynd Hilmar, ég styð hana heilshugar!

  • Guðmundur

    Mig dreymir um kaffihús í gamla Iðunnarhúsinu á Bræðraborgarstíg (http://bit.ly/SP3TXr). Reyndar mætti breyta þeirri götu, tja, kannski ekki í vistgötu en þó gera hana vistlegri. Hún gæti jafnvel hentað sem verslunargata með íbúðarhúsum og sérverslunum í bland, svona í anda Skólavörðustígs.

  • Jón, það mun heldur aldrei breytast nema grundvöllur sé lagður fyrir því.

    Við miðborgarbúar getum gengið í lágvöruverslanir, tvö Bónus eru í miðbænum og það er gríðaralgeng sjón að sjá fólk með Bónusinnkaupapoka á gangi heim og að heiman. Ég held þú vanmetir göngu- og hjólagleði Reykvíkinga.

  • Jón Sigurðsson

    Þróunin breytist ekki svo glatt og auðveldlega í Flateyjarstemmingu. Það var t.d. ekki nóg að leyfa bjórinn og þá yrði til bjórmenning. Við búum á Íslandi og það er eins og það gleymist í umræðunni. Það fara ekki margir út í Flatey á veturna. Það er og verður alltaf auðveldast að hoppa uppí bílinn.

  • Björn Helgason

    Flott fræðileg færsla á mannamáli. Ég bendi á aðra færslu um svipað efni:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn