Föstudagur 05.02.2016 - 11:11 - 12 ummæli

Hafnartorg – Eiga vandræðin rætur að rekja til deiliskipulagsins?

fr_20160107_029943

Líklegt er að vandræðagangurinn við Hafnartorg megi að miklum hluta rætur að rekja til deiliskipulagsins sem samþykkt var fyrir nokkrum misserum á svæðinu með breytingum í skipulagsráði 22. apríl 2015.  En þar var greining á staðaranda vanreifaður að margra mati með þeim afleiðingum sem við nú hafa verið kynntar.

Fyrir tæpu 101 ári brann mikill hluti Kvosarinnar í Reykjavík.  Þetta var 25. apríl 1915.  Síðan þá hefur verið nánast stöðug umræða um framtíð svæðisins og margvísleg sjónarmið verið uppi á borðum.

Mér fannst og finnst enn að menn hafi ekki gert betri greiningu á staðaranda Kvosarinnar í skipulagsvinnu en í deiliskipulagi Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta árið 1986.  Það var fyrir réttum, 30 árum. Þar var í skilmálum gerð tilraun til þess að brúa bilið milli fortíðar nútíðar og framtíðar.  Auðvitað ekki án málamiðlana.  Mér virtist vera viss sátt um greininguna og deiliskipulagið á þeim tíma  enda var það samþykkt og hefur að mestu staðið af sér ólgur tíðarandans allar götur síðan.

Einhvern vegin fannst mér að þessa greiningu arkitektanna mætti nota við deiliskipulagsgerð á hafnarsvæðunum, einkum við Austurhöfn, eða byggja nýja greiningu og framtíðarsýn á vinnu Dagnýar og Guðna.

Dagný og Guðni gerðu á sínum tíma fallegar skýringamyndir og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þau lögðu áherslu á heildarmynd Kvosarinnar.  Þar var staðfest sú stefna að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir með hallandi þökum með kvistum.

Þetta var talið eftirsóknarvert umhverfi sem fólk hefur sameinast um að standa vörð um og styrkja

Í AR 2010-3030 er lögð nokkur áhersla á að vernda sérkenni eldri byggðar og aðlaga nýja að hinu gamla.  Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð leggur líka áherslu á þetta. (Í AR 2010-2030 er gert ráð fyrir að hús verði ekki hærri en 5 hæðir innan Hringbrautar. Við Hafnartorg eru sýnd 6 hæða hús!)

Í  deiliskipulagi vegna Austurhafnar er ekki að sjá að öll sú vinna og öll sú umræða varðandi Kvosina hafi skilað sér í skipulagsgerðinni. Hlutföll eru öll á skjön við þau markmið sem menn hafa sæst á í Kvosinni. Sennilega er það vegna þess að höfundarnir hafa ekki álitið það skynsamlegt að færa staðaranda Kvosarskipulagsins út á hafnarbakkann. Þeir hafa ekki séð þau tækifæri felast í staðaranda  Kvosarinnar þar sem hlutföll eru samræmd og tekið er tillit til hinnar sögulegu víddar. Þeir hafa valið aðra nálgun. Nálgun sem gæti verið hvar sem er og kallast ekki á við þann miðbæ Reykjavíkur sem okkur líkar og þykir vænt um.

Maður bar auðvitað þá von í brjósti að þegar metnaðarfullir arkitektar tækju sig til við að draga upp deiliskipulag þarna og hanna húsin inn í þetta skipulag að þeir tækju mið af þeirri umræðu og þeim samþykktum sem gerð hafa verið í næsta nágrenni undanfarna áratugi og reyndu að mæta þeim. Maður vonaði að þeim tækist að túlka umhverfið í nútímalegum byggungum sem væru framhald af því sem fyrir er og hvergi geta staðið annarsstaðar.

 

12321231_10153747870254003_6249131688109958182_n

 

Það er mikilvægt að horfa á götumynd Lækjargötu og Kalkofnsvegar sem eina heild. Sama á við götumyndina frá í Pósthússtræti að höfninni þar sem er að finna Hótel Borg, Natan & Olsen húsið, Pósthúsið og Lögreglustöðina gömlu og svo byggingu Eimskips. Nýbyggingarnar við Póshthússtræti þurfa að taka mið af þessum glæsibyggingum annarsvegar og hinsvegar af götulínum Lækjargötu Allt frá Tjörninni.

 

 

 

fr_20160107_029945

 

 

 

 

fr_20160107_029942_2-1

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Ásmundur

    Að mínu mati er mikið af gagnrýninni á fyrirhugað Hafnartorg ekki á rökum reist.

    Forsætisráðherra hefur bent á tilhneigingu til að byggja út í lóðarmörk og hafa margir tekið undir það. Það er hins vegar einkenni á miðbæjarbyggð, þar á meðal Kvosinni, að byggt sé út í lóðarmörk á þrjá vegu og stundum jafnvel á alla vegu að hluta td á hornlóðum.

    Hæð húsanna hefur einnig verið gagnrýnd. Þó er hún í samræmi við stóran hluta Kvosarinnar. Það á ekki bara við næstu hús sem eru Tollhúsið, Hafnarhúsið og hótelið sem áður hýsti Eimskip.

    Td er Austurstræti að sunnanverðu frá og með bókaverslun Eymundsson að hornhúsinu við Ingólfstorg af þessari stærð. Sama á við um nær öll húsin við vestan-,austan- og norðanverðan Austurvöll (sem reyndar eru að hluta sömu hús og við Austurstræti). Þessi hús eru flest minnst fjórar hæðir með bröttu risi.

    Fyrirhuguð hús Hafnartorgs eru einnig fjórar hæðir við götu. Í stað rishæðar eru sum þeirra með inndregna hæð þar fyrir ofan, jafnvel tvær allavega í einu tilviki. Hæsta húsið er þó tveimur hæðum lægra en hæsta húsið í Kvosinni sem er Morgunblaðshöllin fyrrverandi.

    Ég tel því ekki hægt að halda því fram að stærð húsanna eða hæð stingi í stúf við það sem fyrir er í kvosinni. Þó að þakformið sé annað kemur það ekki að sök þar sem um heilstætt hverfi er að ræða. Öðru máli gegnir um einstök ný hús í grónu hverfi eins og fyrirhugað hótel við Lækjargötu.

    Ég held að gagnrýnin hafi að öðru leyti beinst einkum að úliti húsanna. Það slær mig hve mörg hús hlið við hlið eru lík hvert öðru. Getur verið að sama arkitektastofa hafi teiknað þau? Hefði kannski átt að setja skilyrði um að hver stofa teiknaði aðeins eitt eða tvö hús?

    Annars hef ég mestar efasemdir um húsið sem er mest áberandi séð frá Arnarhóli og víðar. Það minnir mig á spilaborg sem er að falli komin.

  • Hilmar ég á dálítið erfitt með því sem þú skrifar um „staðaranda Kvosarinnar þar sem hlutföll eru samræmd og tekið er tillit til hinnar sögulegu víddar.“
    Er ekki einmitt áberandi misræmi í hlutföllum víða í Kvosinni, t.d. Lækjargötu þar sem standa hlið við hlið lágreist hús frá aldarmótunum 1900 og nútímalegar byggingar eins og Íslandsbanki og Iða? Og svo höfum við samskonar misræmi t.d. í Aðalstræti og víðar. Það er nokkuð snúið að taka tillit til sögulegrar víddar Kvosarinnar, svo allir séu sammála. Hvaða tímabil skulu höfð til viðmiðunar þegar nýr borgarhluti í jaðri byggðar í Kvosinni er hannaður? Tollhúsið sem stendur á aðliggjandi lóð er t.d. mjög nútímaleg bygging og býsna stór í sniðum. Menn geta haft sína skoðun á því hvað þeim þykir falleg byggingarlist, en er óeðlilegt að nýr borgarhluti endurspegli það sem er vinsælt í byggingarlist árid 2016, svo sem þakform, gluggasetningar o.fl.?

    Mér finnst ekki alveg hægt að leggja að jöfnu þegar hús eru hönnuð fyrir stakar lóðir mitt inni í gamalgróinni byggð og svo hönnun bygginga og skipulag á óbyggðu jaðarsvæði. Þetta svæði er framhald og viðbót við Kvosina sem tengir eldri byggð við hina nútímalegu Hörpu.

    Og er hægt að segja að skalinn á þessari nýju byggð sé í ósamræmi við aðliggjandi reiti, t.d. Tollhúsið, Listasafn Rvk eða reitin sem Eimskipafélagshúsið stendur á?

    • Hilmar Þór

      Það er vissulega að mörgu að hyggja og þetta er fjarri því að vera auðvelt. En þetta er ekki ómögulegt.

      Það er frægt að þegar Napóleon ef ég man sétt herjaði í Evrópu notaði hann visa aðferð yil þess að meta fjarlægðir þega skjóta átti úr fallbyssum eða annað slíkt. Hann valdi 7 einstaklinga úr fótgönguliðinu og bað þá um að gista á fjarlægðina. Svo kastaði hann út þeirri tölu sem var hæst og þeirri tölu sem var lægst. Lagði hinar sem eftir voru saman og deildi með fimm. Og viti menn að það var oftast rétt fjarlægðin.

      Svipað mætti gera í Kvosinni. Taka stærsu húsin út og nota þau ekki sem viðmið og það sama hvað minnstu húsin varðar.

      Það eru eflaust margar leiðir til þess að ná markmiðinu. Mér sýnist Dagný og Guðna hafi tekist vel up. Svo kemur Hafnartorg og tekur mið af risaeðlum Kvosarinnar í stað þess að leita að einhverju manneskjulegra viðmiði.

    • Hilmar Þór

      Með „risaeðlum“ átti ég við Tollstöðina og Hafnarhúsið. Harpa er vissulega bústin en hún má líka vera það vegan starfseminnar sem þar er fram. Hún á heldur ekki að vera miðmið í stærð og umfangi vegna þess að hún er eðli sínu samkvæmt „kennileiti“

    • Þetta eru einmitt svipaðar pælingar og spruttu upp hjá mér þegar áformin á horni Vonarstrætis og Lækjargötu voru kynnt. Hvaða viðmið á að nota í Kvosinni?

      Ég tek það fram að ég hef aldrei lært arkítektúr og er þess vegna ekki eins þjálfaður í að lesa byggt umhverfi eins og þeir sem það hafa gert.

      Þetta er í raun það sama og ég skrifaði í ummælum um grein Hilmars um þau áform á sínum tíma.

      Tökum sem dæmi hæð flatra óuppbrotinna veggja frá götu. Ég held að það sé mikilvægur þáttur í að skapa heildarsvip.

      Í Lækjargötu er nýuppgert gamalt hús sem hýsir Austurlandahraðlestina. Flatir veggir á því eru ein hæð. Húsið með hornturninum tjarnarmegin Vonarstrætis er einnig gamalt hús og flatir veggir eru tvær hæðir. Húsið næst norðan við Iðnaðarbankann er svosem ekki nýuppgert, en það er gamalt og flatir veggir eru ein og hálf hæð.

      Mér finnst aldur og heildarsvipur þessara þriggja húsa vega mjög þungt þegar kemur að hönnun Lækjargötu sem heildar. Það er verulega freistandi að nýta niðurrif Iðnaðarbankans til að þróa hana í átt til meiri samfellu.

      Á móti kemur þá menningarlegt gildi Iðnaðarbankans, sem er áberandi feilnóta í þessari götuhlið ef við lítum svo á að samfellan sé æskileg. Viljum við áfmá hann til þess að heildarsvipurinn verði snortari? Er kannski hollt fyrir okkur að inni á milli séu feilnótur, séstaklega þegar þær eru mikilvægur hluti af byggingararfleið okkar?

      Mér finnst þetta ekki vera einfaldar spurningar. Ég hef ekki komist að neinni ákveðinni niðurstöðu.

      Ég hallast samt alltaf frekar að samfellu þar sem hið gamla hefur meira vægi en hið nýja, ef til vill fyrst og fremst vegna þess að það er einfaldara og þægilegra. Það er ekki þar með sagt að það sé réttara.

      Til að tengja þetta við Napóleonsaðferðina þá gerir hann ráð fyrir að allar ágiskanir hermannanna hafi jafnt vægi. Þetta sem ég lýsi felst þá í því að eldri og minni hús hafi meira vægi í matinu en þau stærri. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég held að erfiðara sé að laga lítil hús að stórum heldur en stór að litlum í svona umhverfi. Menn geta verið ósammála mér um það.

      Að lokum við ég þakka fyrir að Hlynur hafi tekið saman gögnin sem ég spurði um. Ég hlakka til að kynna mér það við tækifæri.

  • Nálgast má deiliskipulag Kvosarinnar frá 1988, sem enn er í gildi en með fjölmörgum breytingum í skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar á heimasíðu stofnunarinnar skipulag.is Slóð hennar er http://www.skipulag.is/skipulagsmal/skipulagssja/

    Ég veit ekki hvort Hilmar er að vísa í greinargerð deiliskipulagsins frá 1988, sem Dagný og Guðni unnu, en hana má finna á þessari slóð: http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=30634898784453692219

    Og hér má nálgast deiliskipulag Kvosarinnar með öllum síðari breytingum: http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=13

    • Hilmar Þór

      Þakka þér kærlega fyrir þetta Hlynur. Ég leitaði mikið að þessu fyrir 2-3 árum þegar ég sat í dómnefnd vegan Ingólfstorgs en fann ekki. Ég mun „dánlóda“ þessu öllu saman til síðari nota. Kæsar þakkir fyrir sendinguna og áhugann.

  • Hlöðver Stefán

    Er gögn tengd úttektinni sem þú vísar í á Kvosinni frá 86 einhversstaðar aðgengileg á netinu?

    • Hilmar Þór

      Nei ég held ekki. Auðvitað ætti borgin að hafa þetta á heimasíðu sinni. En ég hef fjallað um þetta og birt myndir á þessum vef nokkru sinnum.

  • Ég held að menn hefðu alveg getað tekið meira mið af kvosinni við að teikna hús inn í þetta deiliskipulag. Hefði alveg verið hægt að brjóta húsin meira upp og jafnvel vinna með risþök. M.ö.o. held ég að deiliskipulagið sé fínt en útfærsla húsanna sé það sem fellur mörgum illa í geð.

    • Hilmar Þór

      Já Helgi.

      Það má alveg segja það að skipulagið sé ágætt en að hönnuðir hosanna hafi ekki áttað sig á mikilvægi staðarins.

      Svo má auðvitað velta fyrir sér umsögn, umfjöllun og samþykktir hjá byggingafulltrúa og stjórnkerfinu,

      Þar á lokahnykkurinn sér stað.

  • Þetta er aðalmálið:

    „Maður vonaði að þeim tækist að túlka umhverfið í nútímalegum byggungum sem væru framhald af því sem fyrir er og hvergi geta staðið annarsstaðar.“

    Það eru örfáir einstaklingar sem gætu bjargað þessu. Einn þeirra er SDG og honum ber að þakka fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn