Sunnudagur 15.12.2013 - 23:06 - 5 ummæli

Harpa – matarmarkaður – hús fólksins!

Nú um helgina var haldinn sérlega velheppnaður matarmarkaður í Hörpu.  Ég kom þangað uppúr hádegi á laugardag og varð strax undrandi yfir vöruúrvalinu og hvernig varan var pökkuð inn, kynnt og seld. Allt var þetta til fyrirmyndar, smekklega gert og af mikilli þekkingu. Seljendurnir sem jafnframt voru framleiðendur, þekktu vöru sína og komu kaupendur aldrei að tómum kofanum þegar seljandiin var spurður um vöruna.

Annað sem vakti athygli var stemmingin og andrúmið sem þarna var. Það ríkti gleði og ánægja með framtakið hvarvetna. Bæði meðal seljenda og kaupenda og þeirra sem voru bara forvitnir vegfarendur.

Það hefur lengi vantað matarmarkað hér í Reykjavík. Markað þar sem framleiðendur selja vöru sína. Flestir hafa kynnst matarmörkuðum á ferðalögum sinum erlendis. Það sem einknnir þá er að þar er leiðin frá framleiðanda til neytanda stytt verulega. Oft um marga milliliði. Í stórmörkuðum veit í raun enginn hvaðan varan kemur sem seld er. Starfsfólk stómarkaðanna þekkir ekki vörnua sem er boðin til sölu.

Það var ánægjuleg upplifun að koma í Hörpu  í þessum markaðsbúningi, iðandi af lífi. Hún hefur aldrei verð betri.

Frá hruni hafa menn mikið velt fyrir sér hvað gera ætti við Hörpu. Snemma í kreppunni var ákveðið að klára húsið í samræmi við fyrri áætlanir. Sennilega var það skynsamlegt.

En þessi velheppnaði matarmarkaður gefur tilefni til þess að velta fyrir sér hvort ekki sé tilefni til þess að hugleiða matarmarkað í húsinu til frambúðar. Endurskipuleggja opnu svæði hússns frá grunni (sem eru of stór) og koma fyrir vönduðu vöruhúsi þar sem matarmenning og íslensk hönnun fléttist starfrænt saman við tónlist og upphaflegar hugmyndir um notkun hússiins. Þarna yrði matur , músikk og hönnun. Þetta getur vel farið saman. Þá væri fyrst hægt að tala um menningarhús – menningarhús fólksins.

Svona starfssemi hentar vel á þessum stað. Hún tengist samgönguás aðalskipulagsina og væri aðdráttarafl fyrir jafnt ferðamenn sem alla íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þetta gæti orðið einskonar „Torvehaller“ Reykjavíkur með hámenningu á næstu grösum.

Hér fylgja nokkrar ljósmyndir sem ég tók með síma mínum í gær. Efst er yfirlitsmynd sem sýnir stemminguna og hluta þess fjölda fólks sem þarna var. Sennilega þúsundir.  Andrúmið og upplifunin var stórkostleg og eykur bjartsýni um framhaldið.  Að neðan koma svo nokkrar myndir af fjölbreyttum sölubásum framleiðenda og vörum þeirra.

Neðst er svo mynd sem tekin er hafnarmegin í Hörpu þar sem ekkert var að gerast fremur en venjulega. Hún sýnir það sem oftsinnis hefur verið bent á, að arkiektarnir sem hönnuðu húsið hafa ekki áttað sig á kostum staðsetningarinnar og snúið húsinu öfugt. Þeir hafa lagt áherslu á að tónleikagestir og aðrir gestir Hörpu þjáist af útsýni til einnar stærstu umferðaræðar borgarinnar og Seðlabankans en ekki komið auga á hið augljósa tækifæri sem bauðst með útsýni til vesturs og norðurs þar sem er Reykjavíkurhöfn og fjallahringurinn sem er eins og „fjólublár draumur“

Nokkuð hefur verið skrifað um matarmarkaði á þessum vef. Hér eru nokkrir tenglar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/10/hegningarhusid-safn-um-hrunid/

 

 

photo.JPG 1Kofareykt bjúgu frá Bjarteyjarsandi

photo.JPG4Íslenskt handverk: Konfekt frá Sandholtsbakaríi

photo.JPG3Sultur voru seldar af sultugerðarmanninum

photo.JPG2

Kökugerðarfólk kynnir og selur vöru sína

1511194_10152120734017718_1926953811_nÞaðvar sammekt með nánast öllum vörum sem í boði voru að umbúðir voru fallegar og vel hannaðar. Hér eru boðnar Makkarónur frá Matarkistunni.

1476170_10152129893338489_1514618560_n Bóndahjónin á Bjarteyjarsandi tilbúin til þess að selja vöru sína og svara viðskiptavinum sínum.

utiÞar sem útsýnið er best og fallegast, þar sem staðsetning Hörpu nýtur sín best var ekkert um að vera frekar en endra nær, enda snýr húsið að því er virðist öfugt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Jón Pétursson

    Frábær hugmynd

  • Hilmar Þór

    Ég hef fengið í rafpósti athugasemdir frá lesendum við hugmynd um matarmarkað til framtíðar í Hörpu þar sem menn sjá fyrir sér Kolaport í þessu húsi. Menn telja þetta of fínt og of dýrt hús fyrir slíka starfssemi.

    Það er auðvitað rétt.

    En ég sé þetta ekki fyrir mér sem Kolaport heldur hágæða markað með úrvalsvöru, líkt og var þarna um helgina, þar sem fólk verslaði ekki til þess að spara peninga heldur til þess að fá úrvalsvöru beint frá framleiðanda. Stað þar sem matarinnkaup er bæði skemmtun og upplifun.

    Svo er líka hitt að húsnæðið kostar það sama hvort heldur sem það stendur tómt eða með gæðamarkaði fyrir hönnun og matvöru.

    Nei, þarna yrðu seljendur að fara í gegnum þröngt nálarauga áður en þeim er gefin kostur á að kynna og selja vöru sína á þessum stað þar sem enginn kemst að nema standast skoðun.

  • Stefán Benediktsson

    Ég er ekki sammála þér um „öfuga“ húsið að öllu leiti. Það er afslappandi að fara úr skarkalanum austanmegin í útsýnið og friðinn vestan megin. En þetta hefði mátt nýta betur á öllum hæðum.

    • Hilmar Þór

      Já stefán. Þau eru mörg sjónarmiðin og við þurfum ekki að vera sammála um neitt þeirra. En það er ganam að velta þessu fyrir sér. Ég er svosem ekki heldur alveg sammála tilgátu minni um að húsið snúi öfugt.

      Ég er kannski markaður af heimsókn minni í óperuna í Sydney um árið.

      Þar gengur maður inn í húsið landmegin og nýtur svo útsýnis til hafnarinnar í hléum í hinum endanum. Það er dásamleg og ógleymanleg upplifun að vera með iðandi borgarlífið að baki og friðsæla rólega höfnina sem blasir við gestum í hina áttina, njóta freyðandi kampavíns og sjá borgarljósin handan hafnarinnar þar sem brúin lokar myndinni til vinstri.

      Svipuð staða er einnig í Grand Opera í París þar sem genguið er út á svalir og horft niður Avenue de la Opera með allri ljhósadýrðinni þar. Í Hörpu er áherslan lögð á Kalkofnsveg og Svörtuloft. Því er ekki að neita að fyrir minn smekk er útsýnið til allra annarra átta betra.

  • Tryggvi Jónsson

    Ég var þarna í gær og tek undir hvert orð í pistlinum. Eina sem vantaði voru vörur frá smáfyritækjum í sjávarafurðum.

    Þarna sýndu smáfyritæki hvers þau eru megnug. Það er sjálfsagt (og jafnvel krafa) að borg og ríki styðji þetta framtak eins og tónlistina (sem er styrkt um kr.2.000.000.000.- á ári, bara í Höpu) Þarna er fjöregg atvinnusköpunnar í landinu. Þarna er komið þetta „eitthvað annað“ sem er tónlist, hönnun og matarframleiðsla í háum lifrænum og óerfðabreyttum flokki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn