Mánudagur 21.06.2010 - 15:25 - 15 ummæli

Hella-Flatey, og sérkenni staðanna

IMG_6288létt Einkenni Flateyjar, lundi, Klausturhólar, Flateyjarkirkja og Bókhlaðan

Í þorpum Evrópu eru oftast tvær til þrjár byggingar sem skera sig úr. Þær gera það vegna þess að þær eru höfuðbyggingar og skipta meiru máli en önnur hús. Þetta getur verið kirkjan, skólinn og ráðhúsið eða einhver bygging stjórnsýslunnar. Kannski líka einhverjar byggingar sem hafa sérstöðu í bænum vegna sögunnar eða af öðrum ástæðum. Allir bera virðingu fyrir þessum byggingum og gæta þess að sýna þeim kurteisi og tillitssemi.  Þær móta oft bæinn og skapa anda hans og sérkenni. Sérkennin geta líka verið að finna í bæjarskipulaginu eða landslaginu. Þeir sem huga að framkvæmdum taka mið af þessum þáttum, sem móta oft anda staðarins. Þetta viðhorf er ekki algengt hér á landi og séreinkenni staðanna verða sífellt minna áberandi með hverri nýrri framkvæmd sem ráðist er í. En það eru til nokkrar undantekningar; Hofsós, Stykkishólmur, Skálholt og Flatey á Breiðafirði sem ég þekki vel. Í Flatey hafa á undanförnum 15 árum verið byggð 3 ný hús í anda staðarins. Engin tekur sérstaklega eftir þeim. Nýbyggingarnar hafa styrkt sérkenni staðarins. Höfuðbyggingarnar eru áfram Flateyjarkirkja, Bókhlaðan og Samkomuhúsið. Öll hin húsin eru víkjandi og taka hvort mið af öðru, landslaginu og náttúrunni. Flatey hefur sterka sjálfsmynd ef svo má að orði komast.

Á leið minni austur að Skógum nýverið vakti athygli nýbygging á Hellu og er hún tilefni þessara hugleiðinga. Mér hefur alltaf fundist Hella sjarmerandi  með fallegt bæjarstæði á sléttunum við Rangá. Það eru mikil tækifæri til þess að þróa fyrirmyndarþorp á Hellu. Ekki veit ég hvað umrædd nýbygging á að hýsa eða hvernig hönnuðurnir komust að þeirri niðurstöðu sem blasir við. En hún vekur athygli fyrir að vera í andstöðu við þær byggingar sem næst standa. Hún er hærri, húsdýptin meiri og efnisvalið af allt öðrum toga en maður á að venjast á landsbyggðinni. Byggingin sprettur ekki úr umhverfinu eða kallast á við það, er ekki í mælikvarða sveitaþorpsins. Hún segir okkur ekki að nú séum við stödd í sveitaplássi á Suðurlandi heldur frekar að þarna sé fyrirhugað að reisa fjármálahverfi verðandi stórborgar og allt annað muni víkja í tímans rás. Hella þarf, eins og fjöldi annara þorpa landsins, að greina sérkenni sín og byggja svo á þeim. Bærinn þarf að styrkja sjálfsmynd sína. Sérkennunum þarf að gefa merkingu og varða með þeim veginn til framtíðar. Eða skapa sérstöðu og styrkja hana með hverri byggingu og hverri nýrri framkvæmd.

Þetta er kannski verkefni fyrir “Design Down Process” þar sem hópur fólks sem hefur áhuga fyrir málinu væru þátttakendur eða verkefni fyrir íslenska arkitektaskólann.

Þegar Frank Lloyd Wright byggði sín “preríuhús” á sléttunum vestan við Chicago um aldamótin 1900 lagði hann áherslu á láréttar línur, Af hverju ætli hann hafi gert það?

Skipulagsslysin eiga sér ekki síður stað á landsbyggðinni en á Höfuðborgarsvæðinu. IMG_2155lett Nýbygging á Hellu á Rangárvöllum flatey_houses[1] Plássið í Flatey

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Hilmar Þór

    Flatey

  • Þorsteinn

    Var FLW ekki bara oðinn leiður á öllum háhúsunum með lóðréttu línunum sem hann var látinn teikna þegar hann vann hjá Adler & Sullivan?

  • “Þegar Frank Lloyd Wright byggði sín “preríuhús” á sléttunum vestan við Chicago um aldamótin 1900 lagði hann áherslu á láréttar línur, Af hverju ætli hann hafi gert það?”

    Sennilega er svarið að Wright sá flatneskjuna og fannst hún falleg. Í byggingarlist sinni lagði hann útfrá flatneskjunni, láréttu línunum og styrkti þar með einkennin eins og sjá má á “Robie House” sem er reyndar nú komið inn í miðja borg. Sjá hér:

    http://www.newberryarchitects.com/Robie%20house.jpg

    Byggingalistin á að draga fram einkenni staðanna.

    Eða kannski alls ekki?

  • Flatey er fallegt þorp og einstakt. Hella er líka fallegur landsbyggðarbær en þetta nýja hús á ekki heima þarna.
    Sporin hræða, þetta ætlar engan end að taka.
    Er það rétt að arkítektinn af húsinu bak við Naustið sé nýr formaður skipulagsráðs Reykjavíkur?

  • Hallgerður

    Gott verk að vekja máls á þessu, undirstrikar mikilvægi bloggsíðu sem þessarar vel.

  • Ætla ekki að tjá mig um málið.

  • „Arkitektinn“ sem teiknaði óskapnaðinn á bak við Naustið og þeir sem samþykktu þá teikningu ættu að missa vinnuna og aldrei nokkurn tímann vinna við þetta framar.

  • Ólafur Gísli Reynisson

    Jerimías minn! Þetta er sorglegt að sjá og álíka merkilegt fyrirbrigði og Brunabótarhúsið í Hafnarfirði var. Mikil minnimáttarkennd smáþjóðar/landsbyggðar en líka sú sýn að byggingalist sé einsöngur en ekki samsöngur. Svona lagað meiðir augað, alveg eins og falskar nótur meiða eyrað. Það þurfa ekki allir að teikna það sama, ekki frekar en að allir syngja það sama í kór en hús verða að passa saman eins og nótur verða að hljóma saman til að meiða ekki.

  • Árni Ólafsson

    Hóf er forsenda velfarnaðar.
    Að kunna sér ekki hóf er löstur. Það ættum við að hafa lært eftir allt sem gengið hefur á.
    Ég var í Færeyjum í vor. Þangað ættu allir íslenskir arkitektar að fara og temja sér auðmýkt gagnvart umhverfi og menningu.

    Það má tína til fleiri dæmi: Skúlagötuturnarnir keppa við kirkjuturnana í sjónarrönd borgarinnar (t.d. séð frá Kjalarnesi). Turnar á óviðeigandi stöðum, við Borgartún, Sigtún og í Smárahvammi taka við sem einkenni og tákn byggðarinnar.

    „Og þegar arkitekt veit ekkert hvað hann á að gera teiknar hann hring” – sbr. menningarhúsið á Akureyri. En svo skal böl bæta að benda á annað: Tónlistarhúsið í Reykjavík – mikilmennska og tilgerð sem hlýtur að teljast af sama kalíber og dæmið frá Hellu.

  • Það er rétt sem fram kemur, að Hella er vel staðsett og bæjarstæðið fallegt. Og það er líka rétt að nýbyggingin sem myndin er af , verður á næstu árum helsta kennileiti þessa fallega þorps. Þegar ég segi fallega þorps þá á ég við gömlu byggðina meðfram grasi vöxnum árbökkunum nálægt gamla brúarstæðinu. Þetta sjá allir sem aka inn í þorpið og um húsagöturnar. Maður sér á húsunum og görðunum að fólki líður þarna vel. Það er ábyggilega líka gott að búa á Hellu. Þar er góð þjónusta með grunnskóla, íþróttaaðstöðu og mikilli þjónustu fyrir aldraða.

    Nýja byggingin gefur ranga mynd af þorpinu að baki hennar og það er óheppilegt og verður sennilega ekki lagfært á næstu árum. Ég geri ekki ráð fyrir að íbúar Hellu séu ánægðir með þetta hús en við verðum að vera skilningsrík og umbera það og vona það besta.

    Ég er ekki viss um að þetta sé “ljótur kassi” en ég er viss um að hann er á röngum stað og í röngu samhengi við Rangá.

    Ef horft er á annað þorp á vesturlandi sem einnig lifir af þjónustu við sveitirnar í nágrenninu og ferðamenn, Borgarnes. Þar er helsta kennileitið risavaxið bílaplan með vegasjoppum og bensínsölu. Hella þarf að forðast þá fyrirmynd.

  • Agalega er þetta ljótur glerkassi.

  • Hriflungur

    Brunabót í Hafnarfirði er bara skemmtilegt hús. Krútttlegur brandari. Mennningarhúsið svokallaða á Akureyri er hins vegar stórslys; einhver mesta skelfing sem risið hefur á Íslandi.

  • stefán benediktsson

    Má ég þá heldur biðja um fyrrverandi skrifstofur Brunabótafélagsins í Hafnarfirði. Munið þið ekki frístandandi Nútímafrontinn fyrir framan litla timburhúsið. Hver er allt í einu að auðgast svona og á hverju, að hann þurfi að berast svona á?

  • Arkitekt skrifar

    Þetta er merkilegt fyrirbrigði sem á sennilega rætur að rekja til þess að síðan um miðja síðustu öld hefur fólk verið að flytja úr hinum dreifðu byggðum til suðvesturhornsins.

    Álit á “sveitamennsku” hefur dalað og sjálfsmynd þeirra sem búa úti á landi er ekki sterk. Fólkið í sveitunum finnst allt flott fyrir sunnan og allt svolítið sveitó úti á landi.

    Þetta er af sama toga og samanburður sem íslendinga við aðrar þjóðir. Okkur finnst allt flott í útlöndum. Svo koma erlendir sérfræðingar og við förum að þeirra ráðum. Og í sveitinni koma sérfæðingar að sunnan og plata sveitamanninn á sama hátt.

    Og auðvitað vill fólkið úti á landi hafa samskonar hús í sinni sveit og er að finna í Borgartúni. En þau hús eiga ekkert heima úti á landi. Það vita allir sem til þessara mála þekkja.

    Er þetta ekki einmitt skortur á sjálfsmynd, vilja og þekkingu til þess að kunna að meta gæðin sem eru í manns næsta umhverfi?

    Það er rétt hjá Páli Kára hér að ofan að það er ekki gott að finna sökudólg í þessum málum. En leiðin út úr þessum ógöngum er bara beinn og breiður vegur sem menn þurfa endilega að stíga.

    Þetta er allt á sömu bókina lært. Hella, Borgarnes, Bifröst og síðast Menningarhúsið á Akureyri.

    Á Akureyri er eins og arkitektarnir eða öllu heldur dómarar í samkeppninni hafi ekki kunnað að lesa bæinn, Brekkuna, Pollinn og fíngerða byggðina á Eyrinni.

  • Páll Kári

    Vil byrja á að þakka fyrir frábært blogg og mjög svo skemmtilegar umræður sem skapast oft hérna.

    Varðandi ofangreindann pistil þá hittir þú svo sannarlega naglann á höfuðið. Það er kannski ekki verið að segja að á svona stöðum megi ekki byggja ný og nútímaleg hús en svo sannarlega verða þau að vera í takt við umhverfið.

    Annað ágætis dæmi sem mér dettur strax í hug er húsið sem blasir við manni þegar maður keyrir inn að þeim fallega bæ Borgarnesi. Þar hefur einhver bankastofnun byggt sér glerhöll sem stingur svo svakalega í stúf við allt sem í kringum hana er að maður spyr sig einfaldlega hvað hafi verið í gangi.

    Maður veit hreinlega ekki um hverju er að kenna í svona tilfellum eða hvað er í gangi en leiðinlegt er að horfa uppá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn