Laugardagur 18.10.2014 - 21:44 - 3 ummæli

Hið byggða umhverfi og hrunið á Íslandi

image001

„Hörgull í allsnægtum – Hið byggða umhverfi og hrunið á Íslandi“,

Þetta er bókartitill á nýrri bóik sem heitir á frummálinu: Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland.

Bókin er um hrunið og hið byggða umhverfi á Íslandi. Efni bókarinnar varðar alla íslendinga, en hún á sérstakt erindi við þá sem hafa áhuga á formun umhverfisins og tengslum þess við hag einstaklinga og samfélags. Bókin fjallar um samfélagslega ábyrgð ef ég skil rétt.

Þetta er ein þriggja eða fjögurra bóka sem út hafa komið undanfarnar tvær vikur eða svo sem fjalla um arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Hinar eru stórmerk bók Dr. Bjarna Reynarssonar um Borgir og Borgarskipulag og svo bók Péturs H. Ármannssonar arkitekts um einn besta arkitekt íslandssögunnar, Gunnlaug Halldórsson (þá bók hef ég ekki séð enda enn ekki komin í bókabúðir) og svo fróðleg bók sem landslagsarkitektarnir hjá Landmótun gáfu úr fyrir nokkrum vikum sem heitir „Að móta land í 20 ár“

Svo vitnað sé i kynningu bókarinnar, að mestu orðrétt hér í þessum pistli  er fjallað um hið byggða umhverfi og Hrunið á Íslandi. Bókin er að mestu runnin upp úr evrópsku rannsóknarverkefni „Scarcity and Creativity in the Built Environment“ eða „Hörgull og sköpun í hinu byggða umhverfi“, þar sem Arkitektaskólinn í Osló sá um eitt af undirverkefnunum: rannsókn á höfuðborgarsvæði Íslands fyrir og eftir Hrun. Í bókinni eru stuttar og auðlesnar greinar eftir marga fræðimenn, listamenn, arkitekta, skipulagsfræðinga og aðgerðasinna sem komu að verkefninu beint eða óbeint.

Mér finns samt halla nokkuð á bókina fyrir þær sakir að hún er á ensku. Það sem við þurfum að leggja áherslu á í allri umræðu um arkitektúr, skipulag og staðarprýði er að nota íslensku og íslensk viðmið. Sérstaklega þegar fjallað er um íslensk málefni. Aðeins þannig náum við til neytenda og framfarir á sviðinu nást ekki öðruvísi en með þátttöku notenada hins manngerða umhverfis, eins og það er kallað allt of oft.

Í bókinni eru birt nemendaverkefni sem rannsaka nýjar framtíðarsýnir í ljósi Hrunsins, unnin af nemendum í arkitektadeild Listaháskóla Íslands, skipulagsdeild Landbúnaðarháskóla Íslands og EMU (evrópskt framhaldsnám meistara í borgarskipulagi).

Eftir hrunið hafa fjölmargir hagfræðingar komið fram með kenningar um orsakir Hrunsins og hugmyndir um lausn vandans. Í þessari bók kveður við annan tón, þar sem rakin eru bein og óbein tengsl hagkerfisins við umhverfismótun, arkitektúr og skipulag.

Í bókinni eru reyfaðar mikilvægar hagtölur. Síðustu sex árin fyrir Hrunið var um 25% af höfuðborgarsvæðinu í byggingu. Fjöldi íbúða jókst um yfir 17% meðan fólksfjölgun var um 11%, en stóran hluta hennar má rekja til innflutts vinnufólks í tengslum við byggingariðnaðinn.

Innviðir og húsnæði sem var byggt var á þessum tíma reyndist vera sérlega óhentugt fyrir þjóð sem líður niðurskurð og hnignandi velferðarkerfi eftir efnahagslegt hrun, ekki síst þegar það krefst æ meiri fórna að ná í eldsneytið sem þarf til að komast til og frá vinnu í borg sem nú hefur verið dreift uppum holt og hæðir kringum borgina eins og hún var.

Bókin stillir upp þversögn auðlindabölvunarinnar eins og hún kemur fram í byggðu umhverfi á Íslandi. Þótt íslendingar sem hafa gnægð orku í fallvötnum, matarkistu sjávar allt um kring og mest vatn á mann af öllum þjóðum heims, eru margir í kröggum, vegna fjárfestinga í umhverfinu (skipulag og arkitektur) sem skapað var fyrir hrunið.

Svo virðist sem umhverfismótunin fyrir Hrun hafi verið afleiðing hag- og auðlindastjórnar, auk vilja til að ávaxta fé, fremur en að skipulaginu hafi verið ætlað að þjóna því lífi sem við viljum lifa í framtíðinni. Þetta er í takti við  sjónarmið Margrétar Harðardóttur á fundi s.l. þriðjudag þar sem spurt var „Hver á borgina“?

Aðgerðir og aðgerðarleysi eftir hrunið, bæði í grasrótinni og hjá stjórnvöldum er rakið. Innblástur fyrir vinnustofurnar var sóttur hjá fólki sem hefur farið óhefðbundnar leiðir, séð möguleika í hönnun á sínu nánasta umhverfi, gert breytingar á umhverfinu til að nýta það betur, og farnast hefur vel þrátt fyrir hrunið.

Hlutverk arkitekta og skipulagsfólks er einnig reifað og sýndur ávöxtur af hönnunarverkefnum barna, með hjálp skapandi listamanna.

Bókin sýnir yfirlit yfir hvernig kerfi borgarinnar virka; jarðfræðin, vatnið, maturinn, skipulags, efnahags, samskipta og húsnæðiskerfið, og dregnar upp nýjar framtíðarsýnir fyrir borgina, þar sem sérstaklega er litið til svæða borgarinnar sem voru í uppbyggingu áður en hrunið skall á.

Loks bíður bókin uppá hugmyndir byggðar á annarri nálgun í mótun umhverfisins; hönnun á forsendum vistkerfanna á staðnum og nýtingu á þeim í þágu íbúanna.

Flestir líta á verk arkitektsins sem lúxus, og arkitektinn sem nauðsynlegan aðila til að skrifa undir teikningar. En með tilliti til þess sem nokkrir nemar í arkitektúr og skipulagsfræði sýna í bókinni eftir nokkurra daga vinnu, hlýtur betri nýting á þeim fjölda hönnuða; arkitekta, iðnhönnuða, skipulags og borgarfræðinga sem Ísland hefur alið, að teljast tækifæri sem ekki má samfélaginu úr greipum ganga.

Bókin er sett fram með nýstárlegum hætti þar sem innsæi listamanna, rannsóknir í borgarfræðum, hugvitsamlegar lausnir, fleigar tilvitnanir og áhugaverðar tilraunir eru settar fram í máli og myndum. Bókin má teljast áhugaverð heimild um mikilvægt tímabil í Íslandssögunni og dregur lærdóma sem gæti nýst öllum inní betri framtíð.

Meira en 60 manns, Íslendingar í meirihluta en einnig útlendingar, koma að bókinni með greinar, verk og myndir, en hún er skrifuð á ensku. Ritstjórar eru Arna Mathiesen frá Apríl Arkitektum í Osló, Dr. Giambattista Zaccariotto frá Arkitektaskólanum í Osló og prófessor Thomas Forget frá háskólanum í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Fjöldi ljósmynda og teikninga prýðir bókina sem kemur út hjá Actar, forlagi með alþjóðlega dreifingu, sem er þekkt fyrir vandaðar bækur um arkitektúr og skipulagsmál.

Haldið verður uppá útgáfu bókarinnar í Mengi, Óðinsgötu 2, þriðjudagin 21. Október. Arna mun einnig kynna bókina með fyrirlestri (á ensku) á Stofnun Sæmundar Fróða, í Odda – stofu 101 frá 12.00 til 13.00, fimmtudaginn 23. Október, og (á íslensku) í Listaháskólanum, sal A frá 12.10 til 13.00, föstudaginn 24. október.

Hægt verður að kaupa bókina á kynningarafslætti við þessi tækifæri, og af og til í 12 Tónum vikuna 20-25. Fylgið framvindunni og viðburðum á facebook: https://www.facebook.com/pages/Scarcity-in-Excess/1461211694118149.

Eins og komið hefur fram  er þessi texti að mestu byggður á kynningu aðstandenada bókarinnar og endursagt að mestu orðrétt samkvæmt henni. Það verður spennandi að taka bókina í hendur sínar og kynna sér efnið!

Pistlahöfundur mun á síðari stigum tjá sig hér eða annarstaðar um bókina eins og tilefni gefast til

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn