Fimmtudagur 13.09.2018 - 08:58 - 3 ummæli

Hilluhús á Selfossi-Brotið blað í hönnun fjölbýlishúsa hér á landi

Í byrjun áttunda áratugarins var mikið rætt um þétta lága byggð. Talað var um að taka blokkaríbúðina og leggja hana niður á jörðina og í stað þess að ganga að heimili sínu um stigaganga, svalaganga og lyftur, gengju menn um stiga milli húsanna. Maður talaði um að færa líf í bilið milli húsanna.

Um svipað leiti komu menn á borð við hinn heimsfræga arkitekt Moshe Shafdie sem spurði, af hverju tökum við ekki sérbýlið og stöflum því upp í fjölbýlishús? Frægast er hús hans af þessum toga í Montreal, Habitat.

Það hefur ekki mikið gerst í þessari hugmyndafræði undanfarna áratugi. Í raun hefur fjölbýlishúsið staðið í stað í nánast heila öld. Arkitektar, skipulagsyfirvöld, fasteignasalar og verktakar hafa verið fastir í viðjum vanans í 100 ár eða allt frá því að menn fóru að setja svalir á blokkaríbúðina. Síðan þá hefur ekkert gerst

Nú er þetta vonandi að breytast. Í síðustu viku var brotið blað í þessum efnum hér á landi.

Eftir þrotlausa vinnu og mikið hugmyndaríki og fórnfýsi hefur GP arkitektum í Reykjavík tekist að þróa hugmynd sem gengur út á það að taka sérbýlið og stafla því upp í nýja gerð fjölbýlishúsa.

Arkitektarnir ásamt verkkaupa sínum hafa lagt hugmyndina fram til skipulag- og bygginganefnd Árborgar á Selfossi og hefur málinu að sögn verið mjög vel tekið. Þarna, eins og áður kom fram, eru tekin sérbýlishús eða vinkilhús og staflað upp í fjölbýlishús á fjórum hæðum.

Líklegt er að þetta nýja hús muni rísa á næstu misserum og er ég ekki í vafa um að það mún hafa áhrif um allt land og jafnvel bíðar.

Ég veit ekki hvað á að kalla þessa nýju húsagerð. Þetta er allavega ekki blokk í hefðbundnum skilningi. Þetta er frekar einhverskonar Hilluhús, Staflahús eða jafnvel stultuhús.

Þegar rýnt er í teikningarnar sem hér fylgja sér maður að þarna eru vinkilhús svipuð og Kingo húsum Jörn Utzon staflað upp. Þarna er gerð tilraun til þess að sameina kosti sérbýlisins við kosti fjölbýlishússins.

Tilraunin virðist takast.

Vonandi er þetta vísir að löngu tímabærri byltingu í gerð fjölbýlishúsa sem á eftir að hafa meiriháttar áhrif á hýbýlahætti hér á landi á þettum svæðum.

 

Lífleg frumskissa sem teiknuð er af Guðna Pálssyni arkitekt. Mér skilst að hann hafi teiknað þetta á GSM síma sinn. Það liggur mikil hugsun að baki svona teikninga. Í raun svo mikil hugsun og vinna að það gerir sér enginn grein fyrir því nema þeir sem að svona vinnu hafa komið. Kosturinn við svona handskissur er sá að menn sjá aðalatriðin og smáatriðin sem leyst verða í áframhaldinu þvælast ekki fyrir. Svona skissur segja oftast miklu meira en nákvæmar tölvumyndir vegna þess að handskissan gefur ímyndarafli skoðandans svigrúm og jafnvel lausann tauminn, hafi hann á annaðborð eitthvað ímyndunarafl.

Af grunnmyndinn má sjá að þetta eru nánast einbýlishús með gluggum í 3-4 áttir úr hverju húsi og mjög stórum svölum sem nálgast það að vera einkalóð eða einkagarður.

 

Skissa frá hendi Guðna Pálssonar arkitekts sem gerð er á síma hans. Hér er hugmyndin komið nokkuð lengra en í fyrri skissunni.

 

 

Gatan milli húsanna er lífleg með áningarsvæðum og ágætri dagsbirtu við stigagang.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

 • Þetta er svo sem ágætt. Yrði svona hús samt ekki dýrari en sambærileg „blokk“ með sama flatarmáli?

  Það vekur líka athygli að á myndunum eru ekki sýnd bílastæði. Ef gert er ráð fyrir 32 stórum ríkmannlegum íbúðum í þessum sérbýlum á hæðina gæti þurft allt að 62 bílastæði m.v. 2 bílastæði á íbúð.

  Þegar maður skoðar ný fjölbýlishús t.d. á Kópavogstúni, við Lund og við Álfhólsveg er öll áherslan á bílakjallarann og bílastæðin en húsin og íbúðirnar mæta nánast afgangi í þeirri viðleitni að koma fyrir sem flestum bilastæðum. Arkítektúrinn er borinn ofurliði af bílastæðunum og lítið pláss er á lóðinni fyrir gróður eða leiksvæði. Það sem er verra er að bílastæðakröfurnar eru talsvert umfram þörf og þau bílastæði sem eru með minnsta nýtingu er rándýr bílakjallarinn. Ótti sveitarfélagsins og verktakanna við bílastæðaskort gerir það að verkum að offjárfesting verður í bílastæðum. Þetta væri skárra ef bílastæði væru almennt skipulögð innan hverfis frekar en innan lóðar, byggðin væri blönduð þannig að samnýting stæða væri möguleg og gjaldtaka væri fyrir langtíma og skammtímaleigu bílastæða.

 • Jóhann Sigurðsson

  Það væri gaman að sjá sólar/skuggastúdíu af svölum.

 • Jón Björnsson

  Ánægjulegt að heyra. Það er mikil þörf og mikil tækifæri í svona hugmyndavinnu.maður hefur saknað þessa. Vonandi vakna menn hjá borginni og öðrum sveitafélögum þegar þeir sjá þetta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn