Fimmtudagur 04.04.2013 - 08:25 - 23 ummæli

Hin eftirsóttu Mies verðlaun til Íslands?

dezeen_Harpa-Concert-and-Conference-Centre-by-Henning-Larsen-Architects-Batteriid-Architects-and-Olafur-Eliasson_8

Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að í fyrsta sinn í sögunni er bygging á Íslandi komin í úrslit í vali á bestu byggingu Evrópu á s.l. ári. Tilnefnd voru 335 verk frá 37 Evrópulöndum.

Um er að ræða virtustu verðlaun af þessu tagi í álfunni og sennilega um víða veröld.

Þetta eru Mies van der Rohe verðlaunin sem eru, eins og gefur að skilja, mjög eftirsótt.

Hér að neðan er fjallað stuttlega um verkin fimm  sem hafa komist í úrslit árið 2013. Það vill svo til að ég þekki svoldið til þriggja verkanna. Eitt af umfjöllun og hin tvö hef ég sjálfur skoðað og lagt mitt persónulega mat á. Eftir því sem maður kynnir sér verkin fimm betur sýnist mér vinningslíkur Hörpu stöðugt aukast.

En í heildina  verð ég að segja að mér finnast verkin fimm ekki vera í þeim gæðaflokki sem ég átti von á í þessu vali. Valnefndin hefur að því er virðist verið nokkuð upptekin af orðspori höfundanna og að hluta verið að leita að frumlegum lausnum frekar en góðum arkitektúr í víðum skilningi þess orðs. Arkitektafyritækin sem að verkunum standa eru mjög öflug í sinni markaðssetningu sem án efa hefur haft áhryf.

Þarna er ég ekki að segja að Harpa og önnur verk sem í úrslit hafa komist séu ekki góður arkitektúr heldur að þau uppfylla tæplega þær væntingar sem ég tel hæfa vegsemdinni.

Meginatriðið er þó það að Harpa er komin í úrslit í þessu merkilega vali og því ber að fagna og vona það besta.

Ég óska öllum sem að verki hafa staðið til hamingju með að hafa náð svona langt. Fyrst í röðinni er auðvitað arkitektaeymið sem samanstóð af Henning Larsen í Danmörku, Batteríið arkitektar og Tryggvi Tryggvasyni arkitekt (AttArk) frá Íslandi. Næst ber að geta þáverandi verkkaupa, Portus,  sem lagði fram þessa lausn í lokuðu einkaframkvæmdarútboði. En Portus samanstóða að IAV, Landsbankanum og fasteignafélaginu Nýsir. (Landsbankinn og Nýsir urðu því miður gjaldþrota í Hruninu)

Í samvinnu við  hóp afreksmanna á sviði byggingarlistar, myndlistar og tónlistar vann Portus eins og áður er getið  einkaframkvæmdarútboð um bygginguna. Afreksmennirnir voru Teiknistofa Henning Larsen (sem þá var u.þ.b. að ljúka operunni í CPH), Ólafur Elíasson myndlistarmaður og Vladimir Askenazy hljómsveitarstjóri. Allt heimsfrægir aðilar.  HLT  þurfti á samstarfsaðia að halda hér á landi til aðstoðar við lausn verkefnisins og fengu Tryggva Tryggvason arkitekt (AttArk), sem þeir þekktu fyrir vegna starfa hans, í lið með sér  og  Batteríið arkitekta sem tóku að sér hönnunarstjórn og samskipti við byggingayfirvöld ef rétt er skilið.

Íslendingarnir lögðu allnokkuð til verksins ef ég skil rétt og er ástæða til að vera stoltur af þeirra framlagi og óska þeim sérstaklega til hamingju. Ég verð samt að segja að það virðist oft gleymast að geta Tryggva Tryggvasonar og teiknistofu hans þegar fjallað er um þetta glæsilega hús en það á vonandi eftir að breytast áður en til verðlaunaafhendingar kemur.

Tilkynnt verður um verðlaunin í næsta mánuði og þau afhennt formlega þann 6. júní í Barcelonapavillion Mies van der Rohe á Spáni.

Ítarlega má lesa um Hörpu í bækling sem THL gáfu út og má nálgast hér:

http://www.pagegangster.com/p/9cQKr/

Hér er umfjöllun ium Barcelonapavilloninn:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

ic02_nic-lehoux

Lesa má nánar um Hörpu á þessari slóð:

http://www.dezeen.com/2011/08/25/harpa-concert-and-conference-centre-reykjavik-by-henning-larsen-architects/#more-150017

dezeen_Superkilen-by-BIG-Topotek1-and-Superflex_5

dn02_superflex

Það er spennandi að koma í Superkilen við Nörrebrogade í Kaupmannahöfn. Það sem einkum einkennir staðinn er liturinn á göngufletinum. Auk hans er þarna að finna fjölbreytileg a skúlptúra og leiktæki. Spyrja má hvort ekki þurfi meira til svo verk nái í úrslit í keppni á borð við MvdR. Manni finnst að verkin þurfi að bera af og helst vísa veg til betri framtíðar. En því er ekki neitað að þetta er skemmtilegt.

» Superkilen, Copenhagen, Denmark, by BIG Bjarke Ingels Group; Topotek1; Superflex

pt12-fgsg

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-26

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-21

 

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-43

Hér er hús fyrir aldraða í Portúgal sem komist hefur í úrslit árið 2013. Húsið er alhvítt að innan og utan og myndast sérlega vel. Það er meira að segja hægt að halda því fram að það sé fallegt. Þetta gæti verið skemmtilegt hótel til stuttrar dvalar en ég verð að segja að ég vona að engin aldraður maður, nákomin mér, verði latin dvelja á svona stað.  Af grunnmyndinni má sjá að ekki er gert ráð fyrir félagslegum samskiptum og form og litir eru eins og um líkistuhönnun væri að ræða. Áreiti til upplýftingar er í lágmarki. Húsið er eins og biðstofa milli lífs og dauða. Það er eins og sé verið að hanna fyrir fólk sem er hvorki lifandi né dautt. Jafnvel þó húsið sé smart og trendí get ég ekki ímyndað mér að það geti þjónað hlutverki sínu þannig að fólki líði vel þarna. Þess vegna má jafnvel halda því fram að þetta sé ekki góður arkitektúr. Er þetta ekki meira svona „arkitektúr fyrir arkitekta“?

» House for Elderly People, Alcácer do Sal, Portugal, by Aires Mateus Arquitectos

sp17-david-frank

Parasól í Sevilla á spáni. Um hana má fræðast á eftirfarandi slóð:

» Metropol Parasol, Seville, Spain, by J. Mayer H.

be01_petra-decouttere

Um verkið má nánar lesa hér:

http://www.robbrechtendaem.com/projects/urban/market-hall

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Örnólfur Hall

    Fréttir af atkvæðavægi tillagna til MIES-verðlauna:

    Market Hall, Ghent virðist enn sækja í sig veðrið í kosningunni og Harpa kemur næst á eftir.

    75.96 %—– Market Hall, Ghent, Belgium
    Robbrecht en Daem architecten; Marie-José Van Hee architecten

    9.95 %—– Harpa – Reykjavik Concert Hall & Conference Centre, Reykjavik, Iceland
    Batteríid architects; Henning Larsen Architects; Studio Olafur Eliasson

    7.48 %—- Metropol Parasol, Seville, Spain
    J. Mayer H.

    5.38 %—- House for Elderly People, Alcácer do Sal, Portugal
    Aires Mateus Arquitectos

    1.0 %—– Superkilen, Copenhagen, Denmark
    BIG Bjarke Ingels Group; Topotek1; Superflex

    Unesco fjallaði um Market Hall, Ghent og miðaldabyggingarnar:
    —- Unesco (Menningarstofnun S.Þ.) staðfesti að þrátt fyrir að Market Hall, Ghent (markaðshöllin) sé voguð innkoma (,daring intervention‘) inn á viðkvæmt svæðið þá hafi lausnin ekki áhrif á alþjóðlegt gildi (‚universal value‘) hinna sögulegu miðaldabygginga.

  • Örnólfur Hall

    Síðustu tölur um atkvæðavægi til Mies-verðlauna:

    74.26 %—Market Hall, Ghent, Belgium
    Robbrecht en Daem architecten; Marie-José Van Hee architecten

    1.33%— Superkilen, Copenhagen, Denmark
    BIG Bjarke Ingels Group; Topotek1; Superflex

    10.69%— Harpa – Reykjavik Concert Hall & Conference Centre, Reykjavik,
    Iceland
    Batteríid architects; Henning Larsen Architects; Studio Olafur Eliasson

    7.74%— Metropol Parasol, Seville, Spain
    J. Mayer H.

    5.97%— House for Elderly People, Alcácer do Sal, Portugal
    Aires Mateus Arquitectos

    Market Hall, Ghent virðist vera með yfirburðakosningu til Mies-verðlauna.

    –Úr umsögn : Sögulegt hjarta Ghent hrörnaði áratugum saman og hlaut það hlutskifti að verða bílastæðasvæði milli þriggja nálægra gotneskra turnbygginga.– Byggingarlausnin á viðkvæmu svæði þykir sýna hinum göfugu sögulegu byggingum mikla virðingu. — Miðsvæði Ghent verður aftur líflegt svæði fyrir fólk.

    • Pétur Örn Björnsson

      Seint verður það hins vegar sagt um Hörpuna að hún sýni einu né neinu nema sjálfri sér einhverja virðingu, ekki flóanum, ekki fjallasalnum og seint verður hægt að segja að svæðið í kringum hana sé líflegt fyrir fólk. Harpan er mónumental bygging, sem einhvern veginn tókst ekki nógu vel sem skyldi, því miður. En mér skilst að hljómburður sé góður í sölum. Ég horfi bara á þetta utan frá, sem utangarðsmaður.

  • Hilmar Gunnarz

    …Annars er ég steinhissa á því af hverju Shigeru Ban sé ekki löngu búinn að vinna til þessara verðlauna. Hann hefur náð gríðarlegum árangri með pappastrúktúrunum sínum,

    • Hilmar Þór

      Shigeru Ban er auðvitað snillingur og væri vel að tilnefningu kominn. En hefur hann byggt eitthvað í Evrópu og er arkitektum utan álfunnar veitt þessi merkilegu verðlaun?

    • Hilmar Gunnarz

      Jú, Shigeru hefur gert fleiri en eitt verkefni í evrópu: Centre Pompidou-Metz í Frakklandi t.d.

  • Hilmar Gunnarz

    Hér eru meginmarkmið verðlaunanna:

    „…in recognition of its conceptual, technical and constructional qualities, and the other that receives the Emerging Architect Special Mention.“

    Þarna kemur fram að dómnefndin er á höttunum eftir áhugaverðum hugmyndum/notkun, ásamt áhugaverðum tæknilegum útfærslum eða efnisnotkun og burðarfræðilegri getu (performance). Meginmarkmið verðlaunanna sverja sig augljóslega í ætt við aðferðir Mies sem var pragmatisti, upptekinn af hindranalausu rými, sem felur í sér að burðarvirki geti teygt sig yfir langar vegalengdir, án utanaðkomandi stuðnings eins og burðarsúlna. Þetta skapar sveigjanleika í innra skipulagi og gerir aðlögun að fjölbreytilegri starfsemi auðveldari.

    Á blómaskeiði Mies vou miklar framfarir í framleiðslu stáls. Þetta nýtti hann sér til fullnustu. Gott dæmi um þetta er IIT-skólinn í Chicago (http://blog.conciergepreferred.com/chicago/wp-content/uploads/2011/03/mies.jpg), þar sem voldugir stá- burðarbitar liggja eftir þakinu til að sneiða framhjá notkun súlna. Galdurinn liggur í þversniði stálbitans og skýrum áherslum og útfærsluatriðum arkitektsins.

    Dæmi um þekkta arkitekta í nútímanum sem aðhyllast aðferðarfræði Mies, eru Rem Koolhas og Sanaa architects. Þeir fyrrnefndu hafa einmitt unnið til verðlaunanna. Rými Hörpunnar minna mig stundum á rými Rem Koolhas (OMA). Þarna er ég að tala um hvernig rýmin skarast og kannski líka um sjónræn, ekki endilega starfræn tengsl rýmanna. Það sem mér finnst líka skemmtilegt við Hörpuna er hvernig hægt er að lesa flæði rýmanna utan frá.

    Sveppastrúkturinn hans J.Meyer hefur hugsanlega þrekmesta og margbreytilegasta burðarvirkið eins og kemur vel fram á þessu þversniði:

    http://faunam.wordpress.com/2011/05/10/metropol-parasol-sevilla-espana-arqs-jurgen-mayer-h-andre-santer-marta-ramirez-iglesias/metropol-parasol-77/

    Strúktúrinn aktiverar torgið og dregur að sér ótrúlegan fjölda ferðamanna sem skapar mikið mannlíf á þessu svæði sem var búið að vera líflaust lengi. Tillagan uppfyllir þess vegna allar þær væntingar sem gerðar voru til hennar og gott betur.

    Þessi hugmyndafræði sver sig í ætt með arkitektúr sem er upptekin af upplifunar- og margfeldisáhrifum arkitektúrs (affect and performance), sem á eitthvað skilt við aðferðarfræði Mies. Þetta þýðir að arkitektúrinn hvetji á einhvern hátt til óvæntrar notkunar sem ekki voru fyrirséð í upphafi. Ennfremur að strúktúr eða yfirborð efnanna þjóni öðrum og margvíslegri tilgangi en var ætlast til af þeim. Ljósaspilið hans Ólafs, á glerhjúpi Hörpu, er kannski tilraun í þessa átt, þó að hún sé frekar máttlaus, að mínu mati.

    Að þessu sögðu, er ég sammála greinarhöfundi þegar kemur að gæðum tillaganna. Þetta er ekki besti árgangurinn en skemmtilegt að bygging í Reykjavík hafi náð þetta langt. Þetta á eftir að vekja mikla athygli áhugamanna um arkitektúr.

    Til hamingju Ísland og takk fyrir greinina.

  • Þakka greinina,Hilmar,
    nokkrar spurningar vakna:
    Fyrir 2 árum (02.05.2011) kynntir þú síðustu úthlutun á Mies v. d. Rohe verðlaununum: endurnýjun „Neues Museum“,staðsett á safneyjunni í Berlin.
    Athyglisvert að minnast þess nú,því að safnið er sérlega tímalaust og fágað, „klassík“,sem ég kallaði „perlu með sögu og sál“ auðsjánalega í tengslum við „heimspeki Mies“.
    Hversvegna er mikið af því sem nú er tilnefnt andstætt þessum tengslum við Mies ? úr hverju var að velja?….
    Er svarið á leiðinni ?……

    • Hilmar Þór

      Ég sé hér að ofan að arkitektarnir Pétur Örn, Örnólfur Hall, Gunnlaugur Stefán og ég eru að velta fyrir okkur spurningu þinni.:

      „Hversvegna er mikið af því sem nú er tilnefnt andstætt þessum tengslum við Mies ?“

      Ég veit ekki hvort svarið sé á leiðinni en ég veit að margir velta þessu mjög fyrir sér.

    • Vissulega er verkið í Gent í nokkurri sérstöðu:
      grunnhugmyndin um yfirbyggt torg með blandaðri nýtingu í sökkulhæð er tilbrigði af stefi,sem var heillaði Mies,eins og safnið hans í Berlinarborg endurspeglar á fágaðan hátt.
      Enn mikilvægara er,að byggingin er þróuð með virðingu fyrir umhverfinu.
      „Endalok sýndarmennsku í augsýn“ ?spurði ég í lesbók Mbl. (27.06.09) þegar ég fjallaði um þetta efni.
      Er þessi boðskapur á leiðinni?

    • Örnólfur Hall

      Gunnlaugur ! – Ég fann loks grein þína á Lesbók Mbl. í morgun og las um athyglisverðar hugleiðingar þínar 2009. – Góð lesning líka í dag. -Takk !

  • SVEINN BJÖRNSSON

    TIL HAMINGU MEÐ TILNEFNINGUNA ALLIR ÍSLENSKIR ARKITEKTAR.

  • „Er þetta ekki meira svona “arkitektúr fyrir arkitekta”?“ segir Hilmar. Þetta er umhugsunarvert. Það er því miður ennþá þannig að margir arkitektar eru að keppast við að ná hylli kollega sinna og gleyma notandanum, fólkinu.

    Ég er hræddur um að menn eins og Gehl hefðu sagt sig úr valnefndinni ef srefndi í þessa niðurstöðu. Þessi hvíta bygging setur Mies verðlaunin niður vegna þess að arkitektúr er fyrst og fremst nytjalist. Þetta elliheimili er hryllingur í því ljósi. Sveiattan.

    Harpa vinnur þetta enda langbesta byggingin. Ég veit ekki hvernig verkaskipting arkitektanna var en það er fullkomlega siðlaust að nefna bara tvo úr teyminu þegar þeir eru þrír.

    • Læk.
      Ef stofurnar voru þrjár sem unnu að verkinu þá eru þær þrjár sem njóta heiðursins….ekki tvær.

      Hvað er eiginlega hér á ferðinni?

  • Pétur Örn Björnsson

    Finnst fólki þetta hús vera í anda Mies van der Rohe?: Less is more.
    Þið fyrirgefið mér það vonandi, en ekki finnst mér það.

    Mér finnst það bera merki um dramd spilltra bankamanna og allir vita það,
    en reyna að berja sér nú á brjóst í nafni þjóðrembu alþjóðarembunnar.

    Ég fagnaði Scarpa verðlaununum til Skrúðs, ég fagna öllu sem verðlaunað er ef það er gert í anda sannra meistara, Scarpa, Mies van der Rohe, eða annar slíkra.

    • Örnólfur Hall

      Vel mælt kollegi eins og þín var von og vísa. – Hvað myndi meistari Mies segja nú, mætti hann mæla, um þetta stórkarlalega bákn með glerhjúp sem mynnir á stát og stáss :“ Less is more“ ?..?.?

    • Örnólfur Hall

      ‘Mynnir’ á að sjálfsögðu að vera: minnir !

  • Guðmundur Björnsson

    Linkurinn að bækling HLT opnast ekki á minni tölvu.

    Fór ekki ísland allt á hausinn í hruninu? Er þetta ekki eins og áður hefur verið sagt stærsti minnisvarði um hrunið og drambið í aðdraganda þess? Ég held að allir sem að verki komu hafi farið á hliðina að undanskildum HLT og AttArk. Ekki bara Lansinn og Nýsir!

    • Linkurinn opnast heldur ekki hjá mér. Það er greinilega búið að „take it out“ enda var sjálfshól HLT ósæmilegt. Ég man eftir þessum bækling í einhverri fyrri færlsna hér á síðunni.

      Á heimasíðu HLT er sagt:

      Arkitekter: Henning Larsen Architects og Batteriid Arkitekter. (Stofu Tryggva er ekki getið sem hluti teymisins)

      Svo neðar er tíundað ábyrgðasvið stofanna.

      Partneransvarlig: Peer Teglgaard Jeppesen – Designansvarlig projektleder

      Myndighedsansvarlig partner: Sigurður Einarsson

      Sem er í samræmi við færsluna og skilja má að hann hafi verið tengiliður við byggingayfirvöld og sköpunin verið hjla Peer Teglgaard.

      Hlutverk Tryggva er ekki sérstaklega skilgreint á síðunni þó hans sé getið sem óbreytts fótgönguliða. Þetta er svakaleg sögufölsun ef taka á mark á pistlahöfundi. Ég efast ekki um að sá varfærni maður sem heldur úti þessu bloggi viti sínu viti.

      En verum bjartsýn og fögnum því að hús á Íslandi hafi náð slíkum árangri.

    • Hilmar Þór

      Jens.

      Ég svara yfirleitt ekki þeim sem skrifa hér undir nafnleynd eða hálfnefni en geri undantekningu vegna þess að persóna mín kemur til tals.

      Ég get fullyrt að Tryggvi Tryggvason var ekki neinn „fótgönguliði“ í þessu samstarfi. Ef ég man rétt var hann frumkvöðull og tengiliður milli arkitektastofanna þriggja sem mynduðu teymið auk þess að vera virkur í frumhönnuninni, reyndar lykilmaður ásamt fleirum að mér er sagt.

      Ef annað kemur fram á heimasíðu HLT þá þurfa þeir Tryggvi og Sigurður Einarsson að eiga við frændur okka orð og fá þetta lagfært.

      Varðandi „sköpunina“ (designansvarlig) sjálfa og hver ber faglega ábyrgð á henni getur engin vitað nema þeir einir sem að verkinu komu vitað.

      Hitt er mikilvægt fyrir okkur arkitekta og er mikilvægt. Maður hefur oft látið sér í léttu rúmi liggja að vera rændur peningum eða þóknun en sæmdina vill maður eiga í friði. Um það snýst þetta. Og það er ómögulegt að einhver óvissa é þar.

    • Pétur Örn Björnsson

      Undir pistli Hilmars um Hörpuna eins árs skrifaði Tryggvi Tryggvason arkitekt mjpg fróðlegar og upplýsandi athugasemdir sem vert er í þessu samhengi að minna á:

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/05/14/harpa-eins-ars/

  • Einar Jóhannsson

    „Til hamingju Ísland“…. nú eða Danmörk!

    Hvort heldur sem er þá ber að fagna því að slíkt byggingalistaverk skuli ver hér í Reykjavík. Það eru samt mörg hér í bæ sem eru betri en njóta ekki verðskuldaðrar virðingar. Til dæmis Norræna Húsið sem er finnskt, Safnahúsið sem er danskt og Háskólabíó sem er íslenskt og mörg fleiri sem toppa Hörpu.

    En þessu ber að fagna og nýta sem best byggingalistinni og þjóðinni til framdráttar þó orð Stefáns hér að ofan séu umhugsunarverð. Við erum ansi ánægð með okkur, fyrst og best í öllu (eða þannig)

  • stefán benediktsson

    Eins og arkitektarnir eru vel að öllum heiðri komnir megum við eiginlega ekki við því sem þjóð að fá svona alþjóðlega viðurkenningu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn