Mánudagur 21.11.2016 - 22:20 - 16 ummæli

Hljómalindarreitur til fyrirmyndar

 fullsizerender66

Nú er um það bil að ljúka breytingum á svokölluðum Hljómalindarreit í Reykjavík.

Fyrir réttum fjórum árum var haldinn kynningarfundur á vegum borgarinnar vegna þess að deiliskipulagi á reitnum hafði verið breytt. Byggingarmagn hafði verið minnkað frá eldra skipulagi og áhersla lögð á að „minni“ staðarins yrði virt. Þara var að mér skilst átt við að nýjarbyggingar og þær sem gerðar skyldu upp yrðu í anda þess umhverfis sem fyrir var. Þarna var í raun verið að kalla eftir að andi staðarnins héldist.

Þessi skilaboð voru síðan árettuð í deiliskipulaginu sem unnið var af arkitektastofunni Studio Granda.

Það er sérstakega ánægjulegt að vera vitni að því að þessi mikilvægu gildi hafi nú fengið niðurstöðu sem er í samræmi við markmiðin.

Vonandi verður þetta viðmið sem farið verður eftir í framhaldinu. Það var lagt upp með þessi sömu viðmið í Kvosarskipulaginu frá 1986 en því var vikið til hliðar þegar deiliskipulagið við Austurbakka var unnið.

Hljómalindarreitur afmarkast af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Byggðin á reitnum var sundurleit, annars vegar timburhús byggð fyrir 1915 og hins vegar steinsteyptar randbyggingar byggðar 1920-1956. Reiturinn var þétt byggður á horni Laugavegs/Smiðjustígs og á horni Hverfisgötu/Klapparstígs, en á horni Laugavegs/Klapparstígs og Smiðjustígs/ Hverfisgötu voru lítil hús og jafnvel auðar lóðir.

Nú er þarna heilsteyptur reitur með fjölbreyttum húsum sem eiga djúpar rætur í því sem fyrir var og í anda Reykjavíkur. Það má halda því fram að þarna komi regionalisminn fram í skipulaginu og hönnun húsanna.

Tilgangur hins nýja deiliskipulags var að koma til móts við breyttar áherslur og hugmyndir borgarbúa um uppbyggingu viðkvæmra miðborgarsvæða. Markmiðið var að styrkja stöðu eldri húsa á reitnum og setja þau í lifandi samhengi við vel hannaðar nýbyggingar. Það hefur tekist.

Hér eiga allir sem komu að máliu hrós skilið; skipulagsyfirvöld, deiliskipulagshöfundar, húsahönnuðir og húsbyggjendur.

fullsizerender

 Hér er litið upp Hverfisgötu. Það er auðséð að þarna hafa menn leitað forma, lita og áferðar í það sem áður var þarna og maður skynjar  einkenni svæðisins.

 img_0504

 Hér er litið niður Hverfisgötu.

fullsizerender3

Hér er svipmynd af ófullgerðum innigarði sem er milli Hverfisgötu og Laugarvegar. Garðurinn sem er almannarými og öllum opinn lofar góðu.

7

Hér er aðalinngangur hótels markaður á áberandi í götumynd Smiðjustígs, en samt hógværan hátt.

 fullsizerender44

Aftur svipmynd af innigarðinum sem er opin öllum. Þarna verða verslanir og veitingahús á jarðhæð og íbúðir og hótelherbergi á efri hæðum.

528762_10151199073185042_2021205699_n

Hér er hluti af yfirlitsmynd sem gerð var af arkitektastofunni Studio Granda. Yfirlitsmyndin ásamt skýringarmyndum sem  fylgja í færslunni sýna skilning höfunda á staðnum og styrk hans og tækifærum semþarna eru. Slíkur skilningur er ekki öllum gefinn.

310605_10151199073250042_366260343_n

Hér eru gamlar myndir af þeim húsum sem nú hefur verið breytt og endurbætt í mynd þess sem fyrir var. Á myndinni efst til vinstri sést að húsið Laugavegur 19 hefur verið lyft um eina hæð.  Beint fyrir neðan er mynd af Hverfisötu 28 sem einnig var lyft og hefur nú verið málað rautt eins og sjá má á nýju myndunum sem teknar voru í dag.

377759_10151199101880042_645135990_nHér að ofan eru ásýndir Laugarvegs og Smiðjustígs. Miðbyggingun Smiðjustígur 4 er ný. En í forsögn skilmála fyrir allan reitinn var sagt að húsin sem þarna ættu að risa skyldu hafa „minni“ þess sem fyrir var. Þetta er í raun ákall skipulagsyfirvalda og deiliskipulagshöfunda um að menn skuli hafa hinn svokallaða „regionalisma“ í huga þegar hús eru byggð eða endurnýjuð á reitnum. Þetta ákvæði ætti að vera allstaðar þar sem deiliskipulag er í eldri hverfum. Það var t.a.m. ekki farið fram á þetta á svokölluðu Hafnbartorgi eins og allir vita sem fylgst hafa með því.

579554_10151199073350042_404798391_nHér að ofan eru skýringarmyndir sem fylgdu deiliskipulaginu. Engar slíkar fylgdu deiliskipulaginu við Austurbakka. En þar eru nú gríðarlega stórkallaleg stórhýsi að koma upp úr jörðinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Hilmar Þór

    Það er mikilvæg vinnuregla í skiðpulagi að það séu tveir mismunandi aðilar sem skipuleggja, annarsvegar og hanna húsin hinsvegar.

    Það er ástæða til að endurtaka athugasemd mína við aðra færslu „Skipulagið á að vinna fyrst og fremst með hagsmuni heildarinnar og borgarlandslagsins í huga og svo koma husahönnuðirnir og hanna húsin með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi.

    Svo takast þessir hagsmunagæslumenn á í faglegri vinnu sinni og ráðgjöf.

    Þetta er vinnulag sem borgin lagði áherslu á fyrir 2-3 áratugum en hefur nú verið lögð með þeim slæma árangri sem dæmin sanna“.

    Sjá:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/05/11/deiliskipulag-hagsmunaarekstrar/

    Hér á Hljómalindarreit er skipulagshöfundurinn einn og húsahönnuðurinn annar.

  • Árni Zophoniasson

    Alveg sammála – þetta sama á við um aðrar framkvæmdir sem nú eru á lokametrunum við Laugaveg. Nefni í því sambandi Laugaveg 36 (Sandholt) og Laugaveg 68 (Epal).

    Laugavegurinn er efni í eina af bestu göngu/verslunargötum Evrópu.

    Takk fyrir góða síðu Hilmar.

  • Jón Guðmundsson

    Ég er hjartanlega sammála, uppbyggingin á reitnum er frábærlega vel lukkuð. Þarna er kominn rammi um mannlíf sem gefur fyrirheit um líf og fjör. Þarna er hvorki kitch né heldur einhverjar isma trúarjátningar á ferðinni. Nútíminn er sem betur fer laus undan flestum ismum og kreddum 20 aldarinnar, ismarnir tilheyra síðustu öld. Stærðarhlutföll eru í góðu jafnvægi og þessi leið að opna inn í bakrýmin, millibilið er stórkostleg. Rangan á borginni, innrýmin í gamla bænum bjóða upp á endalausa möguleika sem bíða eftir því að verða virkjaðir. Meira svona.

  • Sigurður Guðmundsson

    Er ekki rétt ályktað af þessu góða dæmi að vandað deiliskipulagið veldur mestu um góða útkomu umhverfisins? Mér sýnist að það hefði þurft mikla klaufa í húsahönnun til þess að ná að klúðra þessu! Húrra fyrir Studio Granda!

  • Hvenær er von á kynningu á hinum umtalaða Austurbakka á þessari slóð?

    • Hilmar Þór

      Jú Geir!

      Það væri gaman að fjalla um Austurbakka. Málið er bara að það er allt eitthvað svo á huldu. Ég hef ekki aðgang að nægjanlega góðu efni til þess að geta fjallað um það alminlega.

      En það kemur vonandi að því.

  • Guðmundur

    Þetta lítur ágætlega út, en er auðvitað hluti af þeirri varhugaverðu þróun sem er ekki bundin við Reykjavík, að almenningssvæði verða æ oftar að einkasvæðum.

    Og gamli reiturinn var heillandi í óreiðu sinni og gott dæmi um það sem getur gerst þegar íbúar og vegfarendur fá að setja mark sitt á umhverfi sitt. Hins vegar verður sá hugsunarháttur æ ríkari að hanna þurfi allt borgarumhverfi frá grunni og selja íbúum í neytendapakkningum. Fólk flytur ekki lengur inn í ný hverfi og setur sinn lit á uppbygginguna, heldur er hvert smáatriði í þörfum íbúanna úthugsað fyrirfram.

  • Orri Ólafur Magnússon

    „… þarna verða verslanir og veitingahús …hótelherbergi og íbúðir“ Mér er spurn, hvort allar þessar litlu, sætu verslanir og veitingahús, sem er ætlað að lífga eilítið upp á steingeldan módernismann, geti yfirleitt borið sig. Lundabúð er nú þegar í annarri hverri byggingu í miðbænum og kaffihús í hverju húsaskoti. Þessi nútíma „Lego-kubba-arkitektúr“ er í rauninni sovéskur
    “ 5-ára-áætlunar-búskaps-arkitektúr“ – að vísu með eilítið mennskari andliti en í Rússlandi forðum daga.

  • Dennis Davíð

    Þetta er að ýmsu leyti vel heppnað verkefni. Tekist hefur að forðast stórslys sem þarna var í uppsiglingu og eiga þeir sem komu að málinu hrós skilið fyrir það. Þó sakna ég þess að sjá ekki áhugaverðar heimildir um fortíðina þar sem flest af því gamla hefur verið fjarlægt. Í stað þess ætti fremur að gera við gamlar byggingar en að endurgera þær. Þannig er saga þeirra vernduð sem menningararfur. Svo hefði maður viljað sjá fjölbreyttari starfsemi og minni starfseiningar á reitnum en það er ef til vill erfitt að stýra því?

  • „Batnandi mönnum er best að lifa“. Við Frakkastíg var allt rifið milli Laugavegs og Hverfisgötu eins og Egill Helga fjallar um hér. Það er bara örstutt síðan að niðurrifið var heimilað.

    http://eyjan.pressan.is/silfuregils/2015/12/04/leti-arkitekta-og-graedgi-fjarfesta/

    það er þannig með skipulagsslysin að þau gera boð á undan sér!

  • Magnús Skúlason

    Tek undir að þetta hefur heppnast að mörgu leyti vel. Þvílíkt og annað eins og var ráðgert á þessum byggingarreit.

    Ég bendi hins vegar á að lítið er eftir að gömlu húsunum nema útlit. Hvar eru t.d. merki um aldur og slit þegar inn er komið. Ekkert.

    Spyrja má af hverju álklæðning nýju húsaan þarf að gægjast inn á milli. Af hverju er ekki tímalalítil steinsteypuáferð valin?

    Þarf alltaf Modernisminn að troða sér inn að ástæðulausu?

    Á Laugavegi 19 sem hækkað var um eina hæð og er nánast nýbygging voru settar holur/svalir á austurgafl í stað glugga að kröfu eldvarnareftirlits/byggingarreglugerðar.

    Gæta þarf nefnilega sérstaklega að því að yfirvöld fari ekki offari varðandi uppbyggingu eldri húsa sbr. ákvæði byggingarreglugerðar m.a. gr. 9.2.5. 3.mgr. þar sem segir að taka skuli sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.

    • Hilmar Þór

      Það er alveg rétt hjá þér Magnús. Þetta er ekki fullkomið. En ég lít á þetta sem áfangasigur til varðveislu menningararfsins og anda Reykjavíkur.

      Það er margt sem gæti farið betur eins og þú og Dennis hér á neðan bendið á.

      T.a.m á ekki að byggja stór hótel í miðborginni. Takmarka stærðina við svona 50 herbergi. Stóru hótelin eiga að vera á jaðri byggðarinnar og í úthverfum og svo mætti lengi telja.

      Ég hef stundum þurft að búa á stórum hótelum erlendis vegna ráðstefna. Ég man eftir Hilton í Nýju Deli sem var úti í rassgati og algerlega firrt indverskri menningu.

      Lög og reglur eru víða sveigð til í skipulagsmálum. T.a.m var Menningarstefnan í mannvirkjagerð grafin lifandi þegar hún var hundsuð við gerð deiliskipulags Landspítalans og við Austurbakka. Stefnan var að mínu mati samin og gefin út til þess að koma í veg fyrir slík slys.

      Svo í lokin finnst mér Sæunn hér að ofan hitta naglann á höfuðið þegar hún segir „Skipulagsslysin gera boð á undan sér“!

  • Ólafur Gíslason

    Eru húsin á horni Aðalstrætis og Túngötu ekki með sama laginu,eða var ekki, öllu heldur stuðst við sama verklagið?

  • Þórarinn Guðmundsson

    Þetta er óskaplega vel heppnað í alla staði.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn