Fimmtudagur 12.04.2018 - 18:08 - 4 ummæli

Hótel í Lækjargötu – aftur

Í morgun kynnti Egill Helgason á bloggi sínu nýsamþykktar teikningar af húsum í Lækjargötunni milli Skólabrúar og Vonarstrætis og minnir á að þarna hafði áður verið kynnt tillaga sem var afar illa tekið.

Nú hefur Björn Skaftason og starfsfólk hans hjá Atelier arkitektum gert nýjar tillögur af sömu húsaröð sem sýna vissan skilning á staðaranda kvosarinnar og haft skilgreininguna hans frá 1986 að leiðarljósi.

Í greiningu á staðaranda Kvosarinnar frá 1986 skrifuðu höfundarnir  Dagný Helgadóttir og Guðni Pálson að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir með hallandi þökum og með kvistum.  Þessu fylgdu fallegar skýringamyndir og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þau lögðu áherslu á heildarmynd Kvosarinnar.  Þarna var staðfest í deiliskipulagi stefna um staðaranda kvosarinnar hvað varðar útlit og áferð húsanna í Kvosinni. Það var almenn sátt um þessa greiningu Dagnýjar og Guðna.

Þetta er að því er virðist gleymdur texti. Ef horft er á þau hús sem verið er að byggja við svokallað Hafnartorg er augljóst að höfundar bygginganna þar hafa virt greiningu þeirra Guðna og Dagnýar að vetthugi. Eða kannski ekki vitað af henni.  Líklegra er að  þeir hafi vitað af þessari vönduðu vinnu þeirra Dagnýjar og Guðna en ákveðið að fara ekki eftir henni og hanna byggingar sem eru algerlega lausar við öll tengsl við það sem fyrir er og þá miðborg og þann staðaranda sem allir dást að og vilja halda við.

Eins og oft hefur verið nefnt hér áður þá þarf ekki mikið til svo hús falli vel að umhverfi sínu. Í tilfelli Kvosarinnar eru það aðallega fjögur atriði sem öll voru tíundið í Kvosarskipulaginu frá 1986. Það er að húsahliðar séu ekki langar, kannski milli 10 og 15 metrar. Að áferð útveggja verið með mismunandi hætti á húshlutunum. Að húsahæðirnar stallist og loks að gluggar séu í háformati og virki sem göt í veggjunum og að arkitektar forðist gluggabönd, glugga í lágformati og heila gluggaveggi  (Curtain wall)

Flóknara er það ekki.

Framhjá öllum þessum atriðum var gengið við Hafnartorg og gleðin var svo mikil í Umhverfis- og skipðulagsráði að mér er sagt að þar hafi verið klappað þegar hugmyndirnar voru fyrst kynntar.

Í mínum huga ætti Lækjargatan og Kalkofnsvegur arkitekttóniskt séð að vera sama gatan. En svo er ekki. Hún skiptir algerlega um öll einkenni (karakter) þar sem Hafnarstræti/Tryggvagata mætir Kalkofnsvegi. Líklega munu margir telja það arkitektónisk og/eða skipðulagsleg mistök.

Helstu gallana varðandi ásýnd Hafnartorgs má rekja til deiliskipulagsins sem var afskaplega lítið unnið. Ég nefni bara gamla grjótgarðinn sem kom öllum á óvart en þeir sem báru ábyrgð á deiliskipulaginu áttu að vita af. Svo vantaði algerlega greiningu á útliti og áferð nýbygginganna. Ekkert var gert í deiliskipulaginu til þess að mæta fyrirhugaðri Borgarlínu, Hvorki leiðum hennar né stoppistöð sem verður væntanlega með þeim fjölförnustu í öllu kerfinu.

Í fljótu bragði lítur tillaga Ateliere arkitekta vel út og eru til mikilla bóta þó byggingarnar hefðu mátt vera einni hæð lægri eða jafnvel stallast meira og gott hefði batnað ef meira hefði verið um hallandi þök og kvisti eins og greiningin frá 1986 lagði áherslu á. Myndin efst í færslunni sýna þetta vel.

Hér í færslunni eru birtar nokkrar myndir af fyrirhuguðum byggingum sem samþykktar hafa verið í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur. Ég vek sérstaklega athygli á neðstu myndinni sem sýnir andrúm í bakgarði hótelsins sem þarna mun rísa.

 

 

 

 

 

 

 

Hér í blálokin kemur svo mynd af Lækjargötu fyrri tíma þar sem gamli Iðnaðarbankinn er. En hann var fimm hæða eins ig fyrirhuguð hótelbygging.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Hilmar Þór

    Birkir Ingibjartsson.

    Þú segir : „Kvosarskipulagið frá 1986 er 32 ára gamalt og því úrelt.“

    Þetta stenst ekki.

    Það er ekki þannig að eitthvað verður úrelt barafyrior það eitt að það sé orðið gamalt!

    Hugmyndir úreltast fyrst þegar eitthvað kemur í þeirra stað sem er betra.

    Ekki fyrr.

    Það sama á við um allt, bæði hluti og hugmyndir. Bíla og flugvélar og stundum í listum. Hefur einhver einhverntíma haldið því t.a.m. fram að níunda symfónían eftir Beetoven sé úrelt vegna þess eins að hún sé orðin gömul?

    Nei.

    Og veist þú Birkir Ingibergsson.

    Varðandi dæmi þitt um Iðnaðarbankann þá var hann afsprengi hugmynda sem einmitt úreltust og það kom annað í staðinn sem var álitið betra árið 1986.

    Hann var hannaður undir nú úreltum hugmyndafræði internatíonalismanns og fyrrtur næsta umhverfi sinu eins og glögglega má sjá á síðustu myndinni í færslunni.

    Það varð rof milli áranna 1961 og 1986 sem við öll þekkjum og tengist hugmyndum um staðarandann sem kallaður var „genius loci“. Þetta tengist líka umræðunni um lífið milli húsanna og staðbundnum arkitektúr, „regionalismanum“.

    Sú umræða er enn í þróun og nú er svo komið að „internationalisminn“ eða alþjóðahyggjan á undir högg að sækja.

    Fylgjendum regionalismans fer stöðugt fjölgandi enda vel rökstuddur allt frá dögum Vitruvíusar fyrir 2000 árum og er alls ekki úreltur þó gamall sé.

    En þetta rof hefur ekki orðið milli áranna 1986 og 2018 í neinu mæli sem máli skiptir Það hefur verið smá þróun sem gengur hægt í sömu átt þar sem staðarandinn er áttavitinn. Það komu reyndar á leiðinni nokkrar bylgjur sem ekki breyttu neinu varðandi hugmyndirnar frá 1986. Ég nefni Brutalisma, Postmodernisma, Minimalisma, Metafysik, Deconstruktivisma New Wave, Biomor og fleira.

    Enn alltir þessir stílar gátu fallið ágætlega að greiningu Dagnýjar og Guðna á staðaranda Kvosarinnar frá 1986.

    Þessvegna eru hugmyndirnar að baki Kvosarskipulagsins ekki úreltar og Kvosarskipulagið þar með ekki úrelt heldur og úreltist ekki fyrr en eitthvað nýtt og betra kemur í þess stað.

    Bíðum eftir því áður en við afskrifum það og úreldum Kvosarskipulagið frá 1986.

    Hafnartorg sækir í verstu stefnu allra tíma sem er á útleið sem betur fer og það er hinn staðlausi „internationalismi“ sem hefur engin landamæri.

    Ég þakka þér fyrir að vekja athygli á þessu sem gaf tilefni til að ræða þetta sem er að sjálfsögðu aldrei útrætt.

  • Birkir Ingibjartsson

    Kvosarskipulagið frá 1986 er 32 ára gamalt og því úrelt. Það getur ekki verið ráðandi faktor í hvernig svæðið er þróað áfram í dag sama hversu gott plagg það var. Til samanburðar má benda á að Iðnaðarbankinn sem þarna stóð áður var byggður í kringum 1961, einungis 25 árum áður en Kvosarskipulagið var samþykkt.

    Á milli þessara tímabila er augljóst og eðlilegt rof milli hugmynda um hvernig þróa skuli þetta svæði. Það sama á við í dag. Við getum ekki látið hugmyndir frá seinni hluti níunda áratugarins skilgreina hvað má og hvað má ekki gera í Kvosinni.

  • Margrét Vald

    Þetta er fallegt en húsin eru of há. Það sést best þegar myndin af gamla Íslandsbanka er skoðuð. Af hverju er alltaf tekið mið af hæstu húsunum á viðkomandi svæði?

  • Sveinbjörn.

    Sammála þessu sem hér er sagt. Það er mikill munur á Hafnartorgi og þessum byggingum. Nýja hótelið í Hafnarstræti er af sama toga og einnig Hljómalindarreiturinn sem er til fyrirmyndar. Hafnartorg virðist ætla að verða fíaskó. En sjáum samt til.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn