Fimmtudagur 23.01.2014 - 23:00 - 64 ummæli

Hótel við Hörpu

 

Samkvæmt Morgunblaðinu í morgun er stefnt er að því að framkvæmdir við nýtt hótel við hliðina á Hörpu og íbúðarhúsnæði á nærliggjandi lóð hefjist á þessu ári og ljúki á fyrri hluta ársins 2017. Þetta er mikill hraði því deiliskipulagið hefur ekki verið samþykkt ennþá.

Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð um 14 milljarðar, en í heild verða rúmlega 250 herbergi í hótelinu og 90 íbúðir, auk verslana í þeim fimm byggingum sem verða reistar næst hótelinu.

Þetta er gríðarmikil framkvæmd.  Skilja má að hótelbyggingin án bifreiðageymslna sé um 16.400 fermetrar.

Eins og sjá má á myndunum að ofan eru þetta mikil hús sem hafa allt önnur hlutföll en jafnvel stærstu hús kvosarinnar. Það er vissulega áhyggjuefni. Margir telja eðlilegt að hlutföll húss á þessum stað verði reitað niður í minni og fjölbreytilegri einingar sem henta miðborginni og því gönguumhverfi sem stefnt er að þarna. Á heimasíðu T-Ark, hönnuðunum, er gefið undir fótinn um að þetta eigi eftir að þróast og taka breytingum (til bóta)

Ég hef vissu fyrir því að þessar byggingar verða hlutaðar niður sjónrænt á síðari stigum þannig að ásýnd þessa borgarhlut henti betur fótgangandi fólki og því umhverfi sem er þarna í grenndinni.

Athugasemdarfrestur vegna skipulagsins rennur út þann 3. febrúar nk. Á heimasíðu borgarinnar má kynna sér skipulagið nánar. En þar má lesa þessa gyldishlöðnu setningu: 

Geirsgata verður falleg borgargata í stað þess að vera hraðbraut og fyrirhuguð byggð í Austurhöfn verður lægri en fyrri áform gerðu ráð fyrir. Þannig er komið í veg fyrir að byggingarnar skyggi sem minnst á sjónlínur að Hörpu.

Hér er slóðin að kynningu borgarinnar. Endilega skoðið hana.

http://reykjavik.is/frettir/nytt-deiliskipulag-fyrir-austurhofn

Myndirnar eru fengnar af heimasíða T-Ark: http://tark.is/#frttir

Sjá einnig:http://blog.dv.is/arkitektur/2012/03/13/iceladair-group-vidbygging/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/12/01/arkitektastofa-70-ara/

Að neðan kemur skemmtileg teikning úr ferðamannabækling. Á henni er hægt að glöggva sig á stærðarhlutföllum húsa í miðborginni. Það hlýtur að vera sjálfsagt markmið skipulagsyfirvalda að halda mælikvarðanum sem þarna er og fólk sækist eftir.

Húsin tvö, Tollstöð og Hafnarhúsið skera sig þarna úr, Þau eru langstærst hingað til ef Harpa er undanskilin.

Það ber að forðast að byggja stærri og fyrirferðameiri hús á þessu svæði. Það má auðvitað gera á því undantekningar þegar um menningarhús er að ræða eins og Hörpu. En hótel og fjármálabyggingar eiga að sýna kurteysi lúta fyrir því gamla sem fyrir er með virðingu, enda er það mælikvarði Kvosarinnar  öðru fremur sem gerir hana eftirsóknarverða.

Ég vek athygli á stórhýsi Seðlabankans þarna á myndinni og risabyggingu fiskifélagsins við Skúlagötu sem hvorutveggja virðast smáhýsi við hlið Hörpu og verða enn minnimáttar þegar nýbyggingar í Austurhöfn rísa ef fram heldur sem horfir.

Ég ber fullt traust til arkitektanna og kjörinna fulltrúa og treysti því að þeir lagi þessar miklu byggingar að umhverfinu og horfi þá til Kvosarinnar fremur en til Hörpu sem hefur og á að hafa algera sérstöðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (64)

  • Orri Ólafur Magnússon

    Það fyrsta sem kemur upp í huganum þegar ég sé mynd af þessum forljótu íbúðarkössum er steinsteypu – & plastik hafnarhverfið í Kiel sem reist var á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar eftir gjöreyðileggingu seinni heimstyrjaldarinnar. Þjóðverjar eiga samt það sér til málsbóta að þetta var „frumraun“ steinsteypukapítalismans – þeir vissu ekki betur þá. Það er aftur á móti dapurlegt og í rauninni ófyrirgefanlegt að þessi herfilegu afglöp skuli verða endurtekin hér norðurfrá. Ég hef oft velt því fyrir mér, hvaða ógæfufólk eigi að kaupa hluta og sennilega búa í þessum lúxus – fangabúðum við Hörpu og Mýrargötuna. Sennilega er óhætt að panta nú þegar dynamitstangirnar sem ábyggilega verður von bráðar þörf á til að jafna þessi „psychopatha – projekt“ við jörðu.

  • Dear colleagues,
    and dear Halldor thanks for the link.
    I just wanted to state, that I am not posting to tell you what there’s to do in Reykjavik, my interest is the one of a part-time inhabitant watching. I don’t want to be wiser, I just have the wish for a greater minded discussion, trying to see all the aspects of our work.
    -What I wanted to mention is that it’s on us architects to search for new solutions, we are the ones who should think city and urban contexts in a new way – because there are new challenges we have to find answers to. – The citizens have the right to expect this from us. For me there’s nothing more exciting than to create a new neighborhood in connection with the old city center a harbor and a big culture-house, but we have to be inspired to take the citizens with us.
    – Your statements show me the problem of this spot in the area of conflict between investor and stakeholder interests and the public responsibility we architects are in.
    – But first of all we have to think about sustainability in the sense of urban quality. Looking at the „deliskipulag“ I think it is only about building houses and reach as much volume as possible. On the plan the fields with the nr. 1 and 5 seem to be logic to generate buildings from „Tollhusid“ following the waterline, about the fields 2 and 6 it would be worth to discuss.
    – It should be worth to discuss what kind of functions and urban qualities should take place to complement Harpa and integrate it in to the city – in a multifunctional and diversifying way. What can attract people to walk over, to meet there, to hangout or whatever comes into our mind?
    – Couldn’t Laekjargata in future be more a boulevard for people than a highway for cars? Is it nice to drive in to the garage and walk up the stairs or should we enter Harpa in future after a nice walk from downtown (without crossing a 4-lane road)?

    In my mind there are so many things one can point at which give me the feeling that there should be another kind of planning-process and contracting for this area – in the public sense and responsibility.

    • Örnólfur Hall

      — Guðmundur bendir réttilega á að glöggt sé gests augað.

      — Norbert Grabensteiner er glöggur og er óvenjulega vel að sér um sögusvið og staðfræði Reykjavíkur. Lækargata er náttúruleg mörk í staðfræði miðborgar og út frá þvi á að miða. Tengingin tjörn, lækur, strönd og haf er honum hugleikin.

      — Athyglisverð var hugmynd hans (Landssímareitur) um frágang Víkurgarðs (Fógetagarðs) til minnis 30 kynslóða Reykvíkinga sem hvíla þar

      NB: Í síðasta pósti spyr hann spyr hvort Lækjargata framtíðarinnar geti ekki orðið göngustræti með trjám (boulevard= broad tree-lined street) frekar en bara breið bílabraut ? Það er góð spurning.

      PS:— Íslenskir arkitektar og skipulagsfræðingar geta ýmislegt af honum lært.

  • Til að umræða sé af gagni þurfa staðreyndir að vera á hreinu:
    1. Deiliskipulagsbreyting sú sem nú er í auglýsingu kemur til vegna breytingar Reykjavíkurborgar á gatnakerfi Austurbakka og þar með breytingu á reitunum. Teknar voru með lækkanir og minnkunir á mössum bygginganna eins og sjá má ef deiliskipulagið sem Hilmar vísar í efst á síðunni er rýnt (sjá einnig: http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skipogbygg/skjol/264436.pdf ). Núverandi hönnun passar öll innan núgildandi skipulags, nema hvað varðar lóðarmörk, vegna breytingar á umferðaskipulagi.
    2. Tvær samkeppnir hafa verið haldnar um skipulag Austurbakka: Sem hluti samkeppni um TRH (Hörpu), samþykkt sem deiliskipulag 2006 (fyrir 8 árum) og Hugmyndasamkeppni um Hafnarsvæðið, 2011 að mig minnir, sem Greame Massie Architects vann.
    3. Lóðin var boðin út hæstbjóðanda á sínum tíma. Í tvö ár var reynt að semja við hæstbjóðanda án árangurs, því var gengið til samninga við næst-hæsta boð í sumar og þeim seld lóðin.
    4. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur er það sem er að gerast umhverfis höfnina nefnt þétting byggðar og er borgin samkvæm sér og einbeitt í því markmiði umhverfis höfnina. Við Mýrargötu gerir borgin t.d. ráð fyrir að verði reist 5 hæða íbúðahús.
    Sú hönnun sem á sér stað á Hótelreitnum er í samræmi við gildandi deiliskipulag og stefnu borgarinnar um uppbyggingu við höfnina síðan 2006. Menn (því hér hafa konur ekki getið sér hljóðs) geta verið andsnúnir þeirri skipulagsstefnu, en þá þýðir ekki að skamma sendiboðann.
    Ekkert af ofangreindu á að koma upplýstum fagmönnum á óvart og vaknar því óneitanlega sú spurning hversvegna menn velja hér að fara gegn betri vitund, skapa tortryggni og skemmta skrattanum.

  • Örnólfur Hall

    — Skarpleg ábending, kollegi Gunnlaugur Stefán. !

    — Annað: Hvar er hægt að sjá deiliskipulag Dagnýjar og Guðna ?

    • Örnólfur, þetta var allt „Handteiknað“. Þetta er nokkuð yfirgripsmiki greinagerð í A3 með skýringarteikningum.
      Miðað hvað oft er búið að vísa í þetta skipulag, þá veit ég ekki til þess að það sé til rafrænt. Kanski ætii ég að láta skanna þetta.
      Það væri líka fróðlegt að sjá hvernig Reykjavík leit þegar byrjað var á þessari skipulagsvinnu.
      En við erum að ræða um allt annað núna.

    • Örnólfur Hall

      Guðni ! , þar er bara fínt að fá að sjá fallegar handteiknaðar teikningar um málið – það er orðið alltof sjaldgæft á tímum steingeldra tölvuteikninga oft uppstrílaðra í tölvugrafík (fengna úr myndabönkum).

  • Gunnlaugur Stefán Baldursson

    Ef Harpan á ekki að liggja eins og rekaviður,sem skolast hefur af tilviljun á Austurbakka þarf að tengja hana á einhvern hátt við Kvosina.Stórlega má efast um,að „athafnamennirnir“ ráði við það erfiða verkefni einir og alls ekki í tímapressu.Verkefnið kallar beint á hugmyndasamkeppni um rétt skipulag.

    • Hilmar Þór

      Já, ætli samkeppni hefði ekki verið heppileg leið. En úr því sem komið er þá er það óhugsandi. það er búið að selja lóðirnar og þetta er allt njörfað niður í e.k. lagaflækjum.

      Verðum við ekki að treysta á skipulagsráð eins og staðan er nú?

      En það er rétt sem Helgi Helgason nefnir. Að hanna húsin og deiliskipuleggja á sama tíma er verklag sem á að forðast þó það geti hentað stöku siinnum eins og þegar um samkeppni er að ræða.(Landsímareitur, Hörðuvellir í hafnarfirði, Suðurmjódd og ýmis íbúðahverfi svo dæmi séu tekin)

    • Gunnlaugur Stefán Baldursson

      Vinnuferlið er hér óhagstætt af því að að svæðið er meiriháttar lykill af ásjón miðbæjar Reykjavíkur í framtíðinni.
      Því legg ég til,að Eyjan opni „petition“,þ.e. beiðni til yfirvalda að finna leið,sem opni möguleika á að endurskoða það sem nú hefur verið kynnt.

    • Dennis Davíð

      Ég er ekki viss um að það sé óhugsandi leið að haldin verði samkeppni um byggingarnar þar sem ekki er búið að samþykkja deiliskipulagið. Það er hægt að setja ýmsar kvaðir i deiliskipulagi t.d. að höfð verði einhvers konar hönnunarsamkeppni um byggingarnar. Þetta svæði er í hjarta Reykjavíkur og það sem verður gert þarna er ekki einkamál lóðahafa. Þetta er mikla stærra mál en svo.

  • Your intensive discussion shows once again the big conflict about the development of Reykjavik you are in. How to continue to build the city? Where is the „Reykjavik-Scale“ or is there no scale at all? Should we continue in the dimension of the grown center – but for that you need a consensus I don’t see in your discussion.

    So just some other aspects from my point of view:
    – The Sydney Opera was never connected to the downtown city center. On purpose it was part of the concept that you have to walk a longer distance (along the water) and come nearer to the building – a very important aspect of the urban context. Out of that ask yourself for the necessity of massive building structures and create something out of the adventure to sample the urban connection.
    – The suggested structure plan is developed in south – north direction at the lowest part of the city where there once was a water as connection between Tjörnin and the sea. Laekjargata is a natural border in the topography of the city center, so let’s think about it and develop a solution out of this fact, play with the different levels, with the axis of sight, and please don’t forget the wind and your weather.
    – Where comes this Block-Structure from? In the „period of promoterism“ end 19th / beginning of 20th century they have been a logic answer to the urban conditions (See: Barcelona / Berlin / Vienna…..) of the time. But hey are living out of another scale and size. But for sure the „Block“ has something nice: there’s no wind inside there in the courtyard and it has an intimacy. AND: Why to have the Block as an idea for the structure and then you are working against it with the five free standing apartment houses?
    – Why to have this respect for Harpa? Why is there (again) not a real square? Why will be the „sight-axis“ from the city again a 4 lane road and not the walkway? What’s behind that?
    – Is the entrance of the hotel really on the side to Harpa, where the wind will blow through? Are the apartment houses there to finance the hotel-building. Will this be part of a gentrification of the east harbour side?

    There would be a lot more to say, thanks for the discussion……. Let’s hope that there will come further inspiring steps for a good development.

    • Guðmundur.

      Ég er ekki góður í ensku og leyfi mér að skrifa ég á íslensku.

      Grabensteiner nefnir þarna atriði sem ekki hafa verið nefn í þessu sambandi áður. Í fyrsta lagi er það Lækurinn og tengsl hans við höfnina og hafið.

      Þarna kemur fram að glöggt er gests augað.

      Við hér sjáum ekki þessi mikilvægu sögulegu tengsl lengur. Það er sjálfsagt of seint að breyta þessu en maður spyr hvort skipulagsfræðingarnir hafi gleymt Læknum eða ákveðið að láta hann lönd og leið?.

      Þessu er öðruvísi farið víðast annarsstaðar þar sem mikil áhersla er lögð á tópógrafíuna og söguna í skipulagi. Í Árósum og Kaupmannahöfn þar sem Åbulevarden og Köbmagergade liggja í annarsvegar árfarvegi og í Kaupmannahöfn hlykkjast Köbmagergade eftir gamla læknum sem er löngu horfinn. En lega gatnanna segja þessa sögu sem ekki gleymist iog er ekki gleymd.

      Og svo er það með þessa kubba sem allir eru eins, fimm talsins. Erlendi þáttakandinn í þessari umræðu þekkir tilurð og hugmyndafræði sem leiddi til randbyggðarinnar í gömlu borgum Evrópu. Hér á Austurbakka er þetta eins og nefnt er að ofan, úthverfablokkir sem færðar eru niður í miðbæ.

      Þetta er skelfilega grunnhyggið skipulag sem manni finnst að eigi fyrst og fremst að þjóna Mammon í skamman tíma.

    • Dennis Davíð

      Yes Norbert Grabensteiner, we need a consensus for this very important site at the heart of Reykjavík. At this point in time, before it is to late, I think it would be a good idea to scrap the present detail planning proposal (deiliskipulag) and hold a competition both for the planning of the site and also for the design of the buildings. This can and must not be just a private matter for the developers. It is a matter much bigger than that.

    • Helgi Helgason

      Það gengur ekki að einhverjir athafnamenn fái nánast upp á sitt eindæmi að byggja hvað sem þeim sýnist á viðkvæmustu stöðum í miðborginni.

      Þetta skipulag er nú í kynningu og hvergi nærri búið að samþykkja það.

      Samt fullyrða arkitektarnir og verkfræðingarnir sem taka þátt í fjárhagslegri áhættu (vegna verksins) að það verði byrjað á framkvæmdum á þessu ári!! (sjá pistilinn að ofan).

      Ef Morgunblaðið hefur rétt eftir athafnamönnunum, Mannviti og TARK, þá sýna þeir vissan hroka gagnvart skipulagsferlinu og kynningunni og hljóta að vera komnir alllangt áleiðis í hönnuninni.

      Venjulega er skipulagt fyrst og hannað svo. Hér er hannað fyrst og skipulagt svo að manni sýnist.

      Þessar upplýsingar benda til þess að þeir sem að þessu standa líta á kynningarferlið sem sýndarmennsku en ekki samstarf milli hönnuða og skipulagsyfirvalda og borgaranna.

      Norbert o.fl. benda á viðskiptahlið málsins.

      Er ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessu?

    • Eins og Nobert kemur inn á var Óperuhúsið í Sidney ekki hugsað sem hús með tengslum við gamla bæinn.
      Það sama á við um Hörpuna.
      Opna rýmið á milli Hörpunnar og Kvosarinnar er því mjög þakklátt rými.
      Það gefur bæði Kvosinni og Hörpunni sitt sjálfstæða form og byggingarlega líf.
      Útsýnið frá Lækjargötu og Kalkofnvegi til norðurs yfir gömlu höfnina er frábært og mikils virði.
      Hvers vegna að loka þessu rými???

    • Hilmar Þór

      Ég þekki aðstæður við Sydney Óperua og get staðfest að þetta er rétt hjá Norbert. Maður gengur annarsvegar í gegnum garð að Óperunni og hinsvegar úr miðbænu meðfram sjónum framhjá nokkrum miðborgarhúsum.

      Mér finnst svosem allt í lagi að byggja þarna á bakkanum í Austurhöfninni en spyr af hverju var horfið frá þeirri formhugmynd sem var mótuð í upphafi síðustu aldar þarna í miðbænum og Dagný Helgadóttir og Guðni Pálsson festu svo ágætlega í sessi í deiliskipulagi Kvosarinnar 1986?

      Af hverju er þeirri harmónisku formhugmynd sem fellur svo ágætlega inn í staðarandann hafnað í þessu nýja diliskipulagi á þessum stað?

  • Örnólfur Hall

    — Satt þú segir kollegi Guðni ! — Ég og kollegar (t.d. Guðm. Kr.) höfum spurt en okkur er ekki ekki ansað. — Við förum að líkjast alvaldsríkjum í austrinu þar sem ekki má spyrja um fúsk og ofurkostnað á opinberum fram kvæmdum.

    ENN er ÓSVARAÐ um HEILDARKOSTNAÐ á HÖRPU FRÁ A-Ö

    1) Hvað kostar lóðin öll og það að gera hana byggingarhæfa. (Nú er búið að selja hótelspilduna á 1,8 ma sem var metin á 2,5-3,0 ma.)
    2) Hvað kostaði jarðvinnan? Niðurrifið (Faxaskáli ?)
    3) Hvað kostuðu sjófyllingarnar og hvað kostaði að fjarlægja þær?
    4) Hvað kostaði uppsteypan?

    5) Hvað kostaði glerhjúpurinn einn og sér með allri endursmíði og öllum viðgerðum (Sem er greinilega viðvarandi kostnaður) 5a. — Hvað fékk Ólafur Elíasson mikið fyrir hönnunina? Hvað fengu verkfræðingar og hvað fengu arkitektar?— Hvað kostaði ónýti suðurveggur nr. 1 (burtsendur sem brotajárn til Spáníá! ) Á fjárlögum 2011 voru 44 millj. í Hörpuviðhald (NB. Nýtt hús ?) Var það ekki vegna ónýta veggjar ???
    6) Hvað kostuðu gatnatengingarnar?
    7) Hvað kostaði torggerðin?
    8 )Hvað kostar lóðafrágangurinn?
    9) Hvað kostaði bílastæðahúsið?

    10) Hvað kosta þær framkvæmdir sem eru búnar (t.d.
    Elítuloftssalir: Nú „Björtu loft“ (skýrð svo af þjóðskáldi og sem eru lokuð almenningi).
    11) Hver er fjármagnskostnaður frá 2009 til dagsins í dag?
    12) Hver er árlegur fjármagnskostnaður núna?
    13) Hverjar verða rekstrartekjur Hörpu á næsta ári?
    14) Hver verður rekstrarkostnaður Hörpu á næsta ári?
    15) Hver er kostnaðurinn við breytingar (t.d. loftin) vegna túristadótabúðar sem hefur verið sett upp og lokar neyðardyrum? Hver er húsaleigan á fermetrann?

    2) Bókhaldstæknar stjórnsýslunnar, Forkólfar Hörpunnar og ríkisendurskoðun hafa ekki svarað öllum þessum spurningum ENN. (1.okt 2013).

  • Örnólfur Hall

    Af ‘billegu’ LÚXUSHÓTELI ?

    — Skyndipæling byggð á takmörkuðum þekkingargrunni um væntanlegt ‚framkvæmdabrall‘.

    — 1. Athyglivert er að Sítus virðist hafa gefið mikið í afslátt við lóðarsöluna. Lóðin var seld á 1.8 ma en fyrra matsverð var um 2.5 ma. Samkv. því 0.7 ma.
    — 2. Athyglivert er að „erlendi stórfjárfestirinn“ virðist ekki áhættufús.
    Nú er leitað að íslenskum áhættutaka- lífeyrissjóði ?- Nýjum
    aðaleiganda.

    — 3. Skilja má að erlend hótelkeðja eigi að annast hótelrekstur með deildri áhættu við áhættufjárfestinn. Sagt er að skipta eigi arðgreiðslum. Á þá líka að skipta mögulegu tapi ? Þetta virðist geta orðið flókið viðskiptasamband.

    — 4. Þegar birt var kostnaðaráætlun vegna Hringbrautarspítala
    m.v. haustið 2012 (Spítalahús, sjúkrahótel ofl.) var fermetraverð að meðaltali áætlað 550 þús, en þá virtust innréttingar og tæki
    undanskilin. Þessi áætlun var gerð af aðilum,sem síst vildu að framkvæmdin hefði dýrt útlit í upphafi.

    — Giska má á að 5 stjörnu hótel með öllu ætti því ekki að meta á undir 650 þús pr.fm- en það er auðvitað gróft mat.
    — Fjölbýlishús af lúxusgæðum kostar varla undir 450 þús fm

    — Ef framkvæmdin varðar samtals ca 30.000 fm. og ef skipting er ca
    jöfn, hótel/ íbúðir- þá ætti meðalverð smíða að verða ca 550 þús/fm. Miðað við slíkan reikning er kostnaður smíða-verkefnis áætlaður 16.5 ma kr.
    — Þá bætist við 1.7 ma kr. lóðarverð og bílageymslu-kostnaður
    (2.3 ma kr?). Samtals 20.5 ma kr. eða 6.5 ma kr. umfram 14 ma kr.
    auglýst heildarverð mv.2014.

    — 5. Ofanefndar pælingar eru auðvitað ónákvæmar því að ýmsar forsendur eru óljósar. Verkefnið virðist ennþá vera á hugmynda
    -stigi, en samt skal kalla eftir fjárfestum strax, – nú íslenskum. — Auðvitað er því birt fögur kostnaðarmynd nú.

    — Ástæða er til að hafa í huga að margskonar stórverkefni af þessu tagi
    hafa goldið vanáætlunar á kostnaði frá upphafi og rangra rekstrar-áætlanna einnig.

    • Hafsteinn

      Þetta er athyglisverð athugun hjá þér. Það er oft þannig að þeir sem fara út í svonalagað fegra plönin. En mér sýnast þínar tölur óvitlausar. En hvað með bílastæðakjallarann? Hver borgar hann og hvar er hann í bókhaldinu?

      Er þetta trúverðugt?

    • Örnólfur, það þarf nú ekki að fara lengra enn upp á horn. Þar stendur bygging sem heitir Harpan.
      Kostnaðaráætlun og reynslutölur??

    • Steingrímur E.

      Þetta er sláandi dæmi sem Örnólfur setur upp og það er alveg rétt sem Guðni Pálsson segir að ef þetta er borið saman við hina geigvænlegu framúrkeyrslu sem varð á Hörpunni –þá botnlausu hít– þá er best að gjalda varúð við þessari framkvæmd í þeirri mynd sem hún birtist hér og margir hafa tjáð sig málefnalega um.

      Ég veit hins vegar ekki hvað er að þeim borgarstarfsmönnum og ríkisstarfsmönnum og pólitíkusum sem virðast vilja –sem af einbeittum brotavilja– taka enn og aftur stórfellda áhættu á kostnað útsvars- og skattgreiðenda, almennings.

      Er ekki kominn tími til að menn læri eitthvað og dragi ályktanir af þeirri dýrkeyptu reynslu sem hrunið reyndist almenningi? Er það til of mikils mælst af borgarstarfsmönnum, ríkisstarfsmönnum og öðrum þeim sem um véla á bakvið tjöldin?

  • Örnólfur Hall

    — Dr. Samúel J. ! – Jólaseríu-ljósa’sjóið’ utan á Hörpunni ergir marga. Öfugt við ‘halelúja’fólkið síkyrjandi. – T.d. sagðist Antonio Borghi form. ACE (Samband evrópskra arkitekta), á net-spjalli við mig, vera almennt lítið hrifinn af svona ljósa-stássi og prjáli utan á slíkum byggingum.

  • Dr. Samúel Jónsson

    Að mörgu er vafalaust að hyggja er varðar hina svonefndu byggingarlist, l´architecture.

    En þó vil ég einkum minnast hér á að Illugi í útlöndum er alveg að gera mig geggjaðan.

    Umsögn:

    Eyjan hefur stöðugt uppi auglýsingaborða þar sem Illugi blikkar augunum.
    Er ekki hægt að biðja manninn um að hætta að drepa tittlinga svona í gríð og erg? Minnir mig allt of mikið á jólaseríuna á Hörpunni.

  • Árni Ólafsson

    … og undarleg þessi árátta að hafa útlitið eftir gömlum margtuggðum tískuklisjum.“Við viljum vera öðruvísi og nútímalegir eins og allir hinir“.

  • Eiginlega veit ég ekki hvað maður á að segja. Þessi „módelmynd“ . Lítur út eins og tekið hafa verið nokkur fjölbýlishús frá sjötta áratugnum, raðað saman og sagt. Er þetta ekki bara nokkuð gott.
    Ef maður hefur engan metnað eða vantar allan skilning á því hvað „miðbæjarbygging“ er á maður að maður helst að láta vera.

    Hef aldrei skilið þetta skipulag, enda alltaf sýnt þannig að horft er til norðurs.
    Mikið væri gaman að sjá þetta „módel“ þar sem horft er til suðurs, þannig að hægt væri að sjá tengslin við núverandi byggð, ekki við Hörpuna.

    Eftir að Harpan var byggð, sem er algerlega úr stærðarhlutföllum við Kvosina, hef ég metið mikið það opna rými, sem er þar á milli.

    Allavega á að sýna þessi „módel“ í rétta átt, til suðurs.

    • Sveinbjörn S.

      Í gömlu skipulagi af miðbænum var aðalstefnan einmitt að láta húshliðar ekki vera langar. kannski 10-15 metrar, þá var skipt um útlit. Þetta var mjög flott og ég held að það hafi verið verk Guðna hér að ofan. Af hverju er þessi hugmyndafræði ekki notuð á Austurhöfninni. Hún er enn jafn skynsamleg nú og fyrir 20 árum.

    • Hilmar Þór

      Jú Sveinbjörn S.

      Þetta er tillaga frá þeim Guðna Pálssyni og Dagnýju Helgadottir arkitektum sem öðlaðist gildi 1986 að mig minnir.

      Þar voru lagðar fram tillögur um hvernig byggðamynstur kvosarinnar mætti vera. Það er einmitt full ástæða til þess að horfa til þess skipulags þegar móra á svæðin við Austurhöfn.

    • Hilmar Þór

      Þetta er auðvitað rétt hjá þér Guðni,

      Myndirnar eiga að sýna hvenig þetta fer við Kvorina en ekki hvernig þetta fer við ytri höfnina!!!!

    • Smá viðbót. Ef ég myndi gista á 5 stjörnu hóteli niður við höfn í Reykjavík, myndi ég vilja hafa annað útsýni en það að horfa á fólkið í herbergunum hinumegin við innigarðinn.

  • Örnólfur Hall

    — Varla verður því haldið fram að þessi nýja Austurhafnar-byggð kallist á við anda eða ‚karakter‘ Borgarinnar, hvað varðar byggingarmassa o.fl., frekar en Harpan, og haldi áfram að vera ‚kjúriós‘ og úr tengslum við eldri byggðina.

    –- Ég get ekki betur séð en að Harpan og hótelið líði hvort fyrir annað eins og ósamstíga og sundurlynt par (hjón) sem hefur verið skikkað til að lafa saman.

    — Þegar Harpa varð eins árs komst Hilmar Þór snjallt að orði á ‚blogginu‘, eins og hans var og er von og vísa, þegar hann sagði að Harpa væri þarna eins og „kjúriósitet“ og verði seint talin arkitektóniskt meistaraverk*.

    —*Umdeildur Mies-prís breytir engu þar um.

  • nóboddíinn

    „kjölfestufjárfestar“ engir enn, en þarf nokkuð að velkjast í vafa miðað við undangengin ár hverjir þeir verða?

    „kjölfestufjárfestar“ hörpunnar kannski?

    skiptir það engu máli fyrir stjórnkerfi reykjavíkurborgar að hafa vaðið fyrir neðan sig? veður það bara áfram í villu og svíma og fær algjörlega í hnén fyrir „kjölfestufjárfestum“ sem enginn veit hverjir eru, en flesta grunar þó hverjir eru?

  • Pétur Örn Björnsson

    Og nóboddíinn og Sigurður Ingi benda á vítið til að varast:
    Norðurbakkann í Hafnarfirði.

  • Pétur Örn Björnsson

    Steinarr Kr. segir allt sem segja þarf um þetta, hárbeitt háð:

    „Þetta eru einhverjar flottustu (og örugglega dýrustu) lóðir í Reykjavík

    og metnaðurinn er ekki meiri en svo að þarna á að byggja blokkir.

    Til hamingju, það tókst að flytja Bakkana niður á höfn.“

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Það kemur fram hér að ofan, í fyrri ummælum, einmitt það sem ég var að hugsa eftir lestur greinarinnar. Það var ánægjulegt að fleiri deili svipuðum skoðunum.

    Á svo að segja hverjum degi kem ég með strætó eftir Sæbraut, fram hjá Hörpu áleiðis inn á Lækjargötu, eða þá hinn veginn þegar ég er á heimleið. Þaðan koma þessar hugleiðingar mínar, sem þó eru aðeins hugmyndir áhuganns. Með áskoranir Hilmars í huga hef ég einsett mér að tjá mig meira um arkítektúr og skipulag, enda hef ég mikinn áhuga á slíku.

    Mér finnst mjög mikilvægt að byggðin milli Hörpunnar og núverandi byggðar í Kvosinni gegni því hlutverki að „trappa niður“ yfirgang Hörpunnar.

    Ég fæ þá tilfinningu í dag að Harpan sé svolítið „arrogant“. Henni er komið fyrir á hafnarsvæði rétt við miðbæinn. Hún er stór, glær og „glæsileg“ en í kringum hana er umhverfið sem fyrir var, höfnin og gamli miðbærinn. En á sama hátt og við mannfólkið gerum ef við sýnum hroka einangrast hún og er í dag einmanna, lokuð á milli hafnar og hraðbrautar.

    Ég held að með hruninu hafi horfið sá hugsunarháttur sem lýsa má með „því stærra og glærra því betra“. Í það minnsta vona ég það. Harpan er þó komin til að vera og við verðum að gera það besta úr henni. Leyfa henni að njóta sín, því hún getur alveg verið falleg og skemmtileg. Einmitt þess vegna er mikilvægt að endurskoða fyrri „sórar og glærar“ hugmyndir um þetta svæði, eins og vissulega er verið að gera.

    Byggðin sem kemur upp að henni verður að falla að henni, en umbreytast á sem skemmstum tíma yfir í skala Kvosarinnar, sem þó er fjölbreyttur og erfitt að festa hendur á.

    Mér verður hugsað til Lækjargötunnar. Mér finnst hún vera órjúfanlegur hluti af þessu skipulagi, enda er verið að framlengja götumynd hennar norður að Hörpunni. Skalinn á byggingunum meðfram henni er nokkuð ólíkur þeim í kringum Austurvöll og norður að Tollhúsi. Ég held það sé rétt að halda því þannig, og vinna einmitt að því að skali bygginganna þar á milli, það er meðfram þvergötum Lækjargötu að vestan, trappi niður stærðarmuninn á þeim byggingum sem eru ríkjandi við Austurvöll annars vegar og Lækjargötu hins vegar. T.d. frá Reykjavíkurapóteki niður að nýbyggingunni á horni Lækjargötu og Austurstrætis.

    Einu undantekningarnar frá skalanum sem almennt ríkir á Lækjargötu eru húsið sem hýsir útibú Íslandsbanka og húsin við norður- og vesturhlið Lækjartorgs. Mín sýn í dag er að það mætti breyta þeim, og jafnvel rífa. Byggja í stað byggingar sem eru nútímalegar en þó innblásnar af húsunum í kring, þ.e. gula húsinu út við Tjörn, MR, Torfunni, Stjórnarráðinu o.s.frv.

    Ég myndi vilja að austurhlið nýrrar byggðar sunnan Hörpu tæki mið af þessu, en trappaðist mjúklega upp svo hún félli vel að Hörpunni. Vestan við þá húsaröð hefðu menn svo frelsi til þess að byggja stærra, í skala við Austurvöll, Tollhúsið o.s.frv. Ekki væri verra að sú hlið sem snýr að höfninni reyndi þó að nálgast hana. Helst þannig að hafnarbakkinn héldi sínu hlutverki, og breyttist ekki í einhverskonar dautt „waterfront“.

    Ég er mjög hrifinn af því að menn skuli láta Geirsgötuna ganga þvert á Lækjargötu, ólíkt því sem var í upphafi. Af þeim ástæðum sem ég nefndi að framan.

    Það væri gaman að fá viðbrögð við þessum hugleiðingum.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Það þarf ekki að leita langt eftir vonbrigðum vegna kumbalda á annars fallegum stað við höfn. Hafnarfjörður hefur dæmi um þetta.

    Harpan er og verður til frambúðar dæmi um svo margt sem hrökk úr skaftinu að lítill fengur er í að leggja það til grundvallar frekari uppbyggingar á svæðinu.

  • Örnólfur Hall

    — Fróðlegt væri að vita hvað meistari ERRÓ segir nú (undir rós) um fína glerstásshúsið „okkar allra“- Hörpu og nýju ‘fylgifiskana’ (furðufiskana) með henni og blindun alls útsýnis til fjalls og fjöru (frá miðborg og Arnarhóli).
    — Austurhlið Hörpu er nú „best“ til sýnis með herfilega ljóta steypuna (skellótta eins og með skarlatsótt). Hvers vegna skyldi það nú vera ? Salt særokið ?

    — Annað er varðar Hörpu-málin: – Á „málhefta“ málþinginu í og um Hörpu (með sérvöldu 6) var okkur gagnrýnum arkitektum áður sagt að við mættum ekki tala og ekki einu sinni bera fram fyrirspunir út í sal.
    — Þinginu var svo af verkefnisstjóra í skyndi breytt í Hörpu“kryddsíld“ og fékk ég fyrir náð og miskunn að halda smátölu um ljótu „grösin“ þar í hönnun, smíði og framkvæmd. – Það var svo klippt á mig í miðri setningu þar sem ég fór að nefna 170 mynda CD-diskinn um ofannefnt efni sem hægt er að nálgast hjá mér eins og t.d. Mannvirkjastofnun, VM, LL og H.Í. hafa.

    • Egill Helgason

      Sem íbúi í Miðbæ fagna ég því að missa útsýni til fjalla. Það þýðir að myndast smá skjól.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér þáttökuna í umræðunni Halldór.

    Þú þekkir þetta auðvitað betur en flestir. Ég er sammála þér í flestu sem þú þarna nefnir. En mér sýnist þú miskilja mig smávegis. Ég er auðvitað ekki að tala þetta niður heldur að rýna tillöguna lausnamiðað og til gagns (eins og Guðbergur Bergsson rithöfundur sagði) og bendi á nánast eitt atriði og það er lárétti skalinn. Ekki lóðrétta skalann, hæðina, heldur þann lárétta.

    Ég held áfram með dæmi sem þú nefnir, húsaröðina frá Kaffi París að Ingólfstorgi. Þú segir hana 108 metra. En athuaðu að hún er ekki eitt hús, heldur 8 mismunandi byggingar sem hannaðar eru og byggðar af mismunandi arkitektum og á löngum tíma (sennilega eitthvað á aðra öld) Ef Hótel við Hörpu tæki mið af þessu ætti að reita lengstu hlið hótelsins sem er, svo vitnað sé í þig, 68 metrar í 5 lóðréttar einingar. Ef nota ætti viðmið þitt, Kaffi París-Ingólfstorg, þyrfti að skala hótelið niður með lóðréttri deilingu í 5. hluta. Og hver hluti mætti hafa mijafna áferð, liti og ásýnd.

    Svo er efnisval hótelsins líka eitthvað sem ég þykist vita að þið arkitektarnir séuð að skoða. Enda er þetta í vinnslu eins og fram hefur komið og þú áréttar.

    Það verður gaman að fylgjast með framvindunni.

    Ég óska ykkur til hamingju með þetta verkefni og gangi ykkur sem allra best.

    P.S. við megum ekki taka Tollhúsið og Hafnarhúsið til viðmiðunar. Þau eru undantekningar.

    • Gunnlaugur Stefán Baldursson

      sæll Hilmar,fyrir mestu er,að kollegar og jafnvel verkefnishöfundar eru reiðubúnir í umræðu og það er vissulega mikið og „til gangs“!
      Ekki er ég sammála þér að „toll+hafnarhúsið“ séu undantekningar.Fyrir
      þetta svæði eru þau einmitt mælikvarðinn.Þá er ég að tala bæði um hæðina en ekkert síður um hinn „lokaða“ strúktúr ,sem vissulega má hæfilega „leysa upp“ með hugmyndaflugi.Fáránlegt er að leysa þennan strúktúr alveg upp með „lost“ kubbum, ekki síst við Geirsgötuna!

    • Takk sömuleiðis, Við erum þá einfaldlega sammála um að vera ósammála með Tollstöðina/Hafnarhúsið, sem ásamt Eimskipsfélagshúsinu leggja upp þann sýnilega massa sem snýr að reitnum. Varðandi uppbrotið, þá er það hárrétt að uppbygging var í öðrum skala á öðrum tíma og stór spurning hvort og hvernig nútímaskipulag geti brotið niður skala uppbyggingar, Mikil umræða varð um það þegar Þjóðverjar fóru í endurbyggingu á Berlín og voru menn ekki á eitt sáttir um „The Critical Reconstruction Method“ , eins og þú eflaust þekkir.
      Þú segir hér í inngangi „Það ber að forðast að byggja stærri og fyrirferðameiri hús á þessu svæði. Það má auðvitað gera á því undantekningar þegar um menningarhús er að ræða eins og Hörpu. En hótel og fjármálabyggingar eiga að sýna kurteysi lúta fyrir því gamla sem fyrir er með virðingu, enda er það mælikvarði Kvosarinnar öðru fremur sem gerir hana eftirsóknarverða“.
      Það var ekki ljóst á gagnrýni þinni, sem þú skýrir nú, að þú vildir sjá aukið uppbrot á hverri hlið, heldur hljómaði tilvitnunin hér að ofan sem gagnrýni á „massann“ sem um ræðir og ég var einfaldlega að benda á að „massi“ hótelbyggingarinnar er síst stærri en gengur og gerist í Kvosinni. Það hvort og hvernig sá massi er svo brotinn upp er svo glíma í kjölfarið, enda gagnrýnivert líka að byggja undir eina starfsemi hús sem þykist vera mörg óskyld hús. Það er vandratað í henni veröld, en við höldum áfram að reyna..

    • Hilmar Þór

      Gunnlaugur Stefán.. ég skil ekki hugtakið „lost kubbum“.

      Ég skil vel að Halldór Eiríksson hafi misskilið mig þarna varðandi reitun húsanna og massann. Ég biðst afsökunnar á að hafa ekki verið nákvæmari.

    • Dennis Davíð

      Harpan er að mörgu leiti góð bygging sem virðist þjóna hlutverki sínu vel. Hún er auk þess staðreynd og henni verður ekki breytt. Hins vegar finnst mér þessi tillaga af 5 íbúðarblokkum í anda 6. áratugarins, sem allar eru nákvæmlega eins, of einsleitar og þrúgandi. Vonandi fáum við meiri fjölbreytni eins og er einkennandi fyrir byggðina í Kvosinni og gefur henni lit, líf og mælikvarða. Þar eru engin tvö hús eins. Ég legg til að fleiri arkitektar fái að koma að hönnun þessara bygginga. Víða í borgum Evrópu eru fengnir mismunandi arkitektar til að teikna byggingar á nýjum byggingareitum til að fyrirbyggja einsleitni og fá fram fjölbreytni og skemmtilegheit. Hef séð slík dæmi á hafnarsvæðum Amsterdam, Glasgow, Malmö og víðar. Í Berlín eru einnig mörg slík dæmi sem hafa tekist vel.

    • Gunnlaugur Stefán Baldursson

      Hilmar,ég undrast það mjög,að skipulagsramminn er tættur í sundur með 5 óvönduðum „kubbum“.Ef þessi breyting á rammanum verður þróuð áfram, þó að hún sé alls ekki nærliggjandi, þarf a.m.k. verulega vinnu í útfærslu eins og Dennis bendir réttilega á.

  • Hér er margt sagt en þar sem hönnunin er enn í vinnslu ætla ég að láta það nægja að bregðast aðeins við umræðum um skipulagið. Skipulag svæðisins er hannað af arkitektum Hörpunnar og því hafa þeir lagt línurnar er varðar sjónlínur og upplifun af henni í nærumhverfinu – því er ekki um eitthvað níðingsverk á Hörpunni að ræða þegar er byggt þarna – enda má sjá á síðustu hótelyfirlitsmyndinni hér á undan hversu mikið andrými er á milli. Enda mótmælir Sigurður Einarsson þessari gagnrýni á stærð og fyrirkomulag bygginganna í grein í Morgunblaðinu 21.október sl.

    Verkefni þessara bygginga sem rísa á milli Hörpunnar og Kvosarinnar er í mínum huga að trappa niður stærð Hörpunnar að því sem fyrir er. Það er ekki skýrt af texta Hilmars hvaða skala hann vill sjá á svæðinu, þegar hann talar um Kvosina. Ekki er ljóst hvort það er byggingar eins og samfellda keðju Hótel Borgar yfir í Reykjavíkurapótek (70m og 6 hæðir), Kaffi París yfir að Ingólfstorgi (108m og 5-2 hæðir) eða Héraðsdómur yfir að Pósthúsinu (74m og 5hæðir), sem eru stórir massar samfelldra randbyggða eða hvort hugur hans standi að grjótaþorpinu og nýlegri uppbyggingu á horni Lækjagötu og Aðalstrætis. Ég vona að það sé ekki það síðarnefnda, því það skilur Hörpuna eftir sem Gúlliver í Putalandi og er sannarlega úr hlutföllum við umhverfi sitt. Ef það er hið fyrrnefnda, þá er uppbrotið á hótelreitnum nærri þeim skala en hann gerir sér grein fyrir því lengsta hlið hótelsins, sú sem snýr að Hörpu er 63m og 6 hæðir. Tollstöðin er 82m og Hafnarhúsið 68m og ef við horfum til Mýrargötuskipulagsins þá eru þar fyrirhugaðar 5 hæða byggingar í miklum þéttleika. Við lækkuðum hótelið frá því sem deiliskipulagið leyfði, einmitt til að nálgast þessi viðmið sem ég taldi hér á undan.

  • Hilmar Þór

    Ég vek athygli á því að þetta eru að sögn arkitektanna „fyrstu hugmyndir sem eiga eftir að þróast“ og þá væntanlega til betri vegar.

  • Steinarr Kr.

    Þetta eru einhverjar flottustu (og örugglega dýrustu) lóðir í Reykjavík og metnaðurinn er ekki meiri en svo að þarna á að byggja blokkir.

    Til hamingju, það tókst að flytja Bakkana niður á höfn.

  • Ég verða að setja fram mótrök við þessari gagnríni.

    Þessar byggingar eru hluti af skipulagi svæðisins sem samþykt var eftir samkeppni fyrir mörgum árum síðan. Harpan er hluti af þessu skipulagi.
    Þessu skipulagi var fagnað mjög, enda var þar tekið fyrsta skrefið í átt að Evrópsku borgarskipulagi síðan Skipulag Guðjóns Samúelssónar var sett á hilluna.

    Byggingarnar eru um það bil 6 hæðir, sem er sama eða svipuð hæði og „borgar“ byggingar miðbæjarins, eins og t.d. Hótel borg og Reykjavíkurapótek. Þær falla því mjög vel að kvosinni.

    Við, bæði sérfræðingar og áhugamenn verðum að hætta að tala um að byggingar þurfi rými eða miklar sjónlínur til að teljast mikilvægar. Sjáðu t.d. Palau de la Música Catalana.

    Harpa er ekki vel hönnuð bygging. Sigur hennar á Mies van de Rhoe verðlaununum kom arkitektum, bæði innlendum og erlendum illilega á óvart, og hefur ófrægt þau verðlaun verulega. Byggingin er úr öllum skala í hlutföllum hönnunar. Hún snýr í bandvitlausa átt þar sem almenningarýmin horfa yfir gatnamót á Seðlabankann í stað Faxaflóa. Glerhjúpurinn er eitthvað sem var mjög inni í Þýskalandi um 1960 og lætur bygginguna líta út fyrir að vera höfuðstöðvar banka frekar en menningarstofnun.
    Það er engin þörf á að taka mikið tillit til þeirrar byggingar vegna hönnunar nærlyggjandi bygginga.

    Skipulag og borgarmynd þessarar hönnunar er mjög góð, og er eins og sagði áður algjör stefnubreyting á landinu til betri vega. Hins vegar er vel hægt að gagnrýna arkitektúr hótelsins verulega.
    Í fyrsta lagi þá vinnur arkitektúrinn gegn skipulagshugmyndinni með því að brjóta illa upp blokkarformið niður í móderníska klumpa og meðfylgjandi vindstrauma. í stað borgarmyndar fáum við Breyðholtið í miðborgina. Þetta er mjög illa hugsað af arkitektinum.
    Efnisval og útlitshönnun byggingana ber einnig með sér lítið ímyndunarafl. Þessi hugmynd um láréttar línur og upp brotnar lóðréttar línur hefur verið marg notað frá 9da áratug síðustu aldar, bæði í skrifstofum og blokkum. http://images.fastcompany.com/upload/KFW_090630_5080%20bearb.JPG http://www.buildingbutler.com/images/gallery/large/building-facades-4379-12683.jpg Þetta er nú þegar orðið gamaldags og leiðinleg lausn.
    Þessar byggingar gætu verið hvar sem er í heiminum. Þær hafa ekkert með Ísland, Reykjavík framtíðina eða þetta nýja skipulag að gera. Það hefði verið betra að nota eitthvað af Íslenskum efnivið og formum, við, bárujarni, steinsteypu os.frv. Gera eitthvað sem tekukr tillit til staðarins og lítur fram tímann líka og bæta við skipulagið frekar en að vinna gegn því.

    Þetta eru ljótar byggingar í góðu skipulagi.

    • Hilmar Þór

      Þetta er fín greining hjá þér Guðjón. Ég hef sagt margt af því sem þú segir hér áður bæði á vefnum og annarsstaðar. Þú segir þetta bara betur og skýrar en ég.
      Takk fyrir þáttökuna í umræðunni.

    • nóboddíinn

      Þetta eru frekar byggingar í skipulagi hinna freku og stundargráðugu með Seðló sem bakjarl.
      Leyfist manni að kasta fram spurningunni: Hverjir standa að „fjármögnun“?
      Hvað fá þeir kannski 25% viðbót við krónuna í gegnum Seðló fyrir erlenda gjaldmiðilinn? Aflandskrónur að leita til baka?

    • nóboddíinn

      Eða má kannski ekki ræða svoleiðis mál hér? Er allt svo „faglegt“ í fílabeinsturni arkitektastéttarinnar?

    • Egill Helgason

      Er það minnimáttarkennd eða einhvers konar masókismi sem veldur því að arkitektar eru sífellt að tuða yfir tveimur fallegustu nútímabyggingum á Íslandi, Hörpu og Hallgrímskirkju.

      Þarna virðist frægðin reyndar koma að utan. Því útlendingar róma þessar byggingar.

    • nóboddíinn

      Harpa er ekki ljót í sjálfri sér en hún er óneitanlega klumpur í umhvefinu.

      Gleymdu því ekki Egill að þú varst hrifnastur af Jean Nouvel tillögunni sem gerði ráð fyrir tónlistarhúsinu inní Arnarhól.

      Hvar hefðirðu þá fengið skjólið sem þú biður nú um og virðist nú vilja byggja fleiri klumpa og er það þá bara svo þú fáir skjól?

    • Örnólfur Hall

      HARPAN: FEGURÐ eða LJÓTLEIKI ?
      — Það er rétt að mörgum ‚túristum‘ finnst hún falleg og eru ferðaskrifstofur iðnar við segja þeim að svo sé.
      — En margir Landar eru svo bláeygir halda að allir erlendir gestir séu hrifnir. Það er mikill misskilningur.
      — Margir erl. gestir gera stólpagrín af okkur og glerstássbákninu okkar sem var byggt með kínversku hraði þegar Ísland var á hausnum og vilja eiga mynd af „undraverkinu“.
      — Það er stundum skotið fast á ‚halelúja‘-fyrirlestrunum fyrir gesti niður í Hörpu.
      — T.d. voru hér ástralskir sjónvarps-og fréttamenn sem komu eftir hrunið og vildu, eftir fréttafund, fá mynd af fjármálaráðherra með Hörpuna í baksýn og þá með ónýta suðurvegginn (nr.1, sem sigldi svo til Spánar,sem brotajárn)í baksýn. En það gekk auðvitað ekki.
      — T.d. eru Englendingar eru oft háðskir. T.d. tvær enskar konur á eftirlaunum (önnur fv. dómari og hin efnafræðingur) sem gerðu stólpagrín og slógu sér á lær, eftir vígsluna 2011.
      — T.d. Tveir svissneskir arkitektar hér töluðu um mikið „Tand“. Heyrt hef ég sama hjá þýskum.
      — T.d. Þýskur verktaki sem benti mér á allar misfellurnar og hnökrana á sílíkonlistunumm í hjúpnum.
      (Enda hafa þeir sést horfnir á t.d. á norðurhlið. Til eru myndir þar um.)
      — T.d. Sveitarstjórnarstjórnarmaður frá Hamborg (á þingi hér) líkti henni við þeirra „Hröpu“ sem fór þrefalt fram úr kostnaði.

      — Það er líka miskilningur að meirihluti landsmanna sé hrifinn af Hörpunni. – Sérstaklega er þetta áberandi út á landi. — Mörgum bæði erlendum og hérlendum finnst Harpan hreinlega LJÓT. – Svo er nú það !

    • Örnólfur Hall

      Af TUÐI um FAGRAR BYGGINGAR

      — Ekki hef ég heyrt mikið af tuði (arkitekta?) um Hallgímskirkju síðan einn ágætur sendiherra fjallaði lengi vel um. Kannski hefur verið tuðað um endurteknar viðgerðirnar (á kostnað okkar skattgreiðenda) á henni, sem þegar er farin að láta á sjá strax aftur.
      — Arkitektagagnrýni og masókist tuð um glerstáss-báknið okkar fagra á ekki að sjást og er til skammar.
      — Sífellt drýldið tuð „halelúja“ kóra og hyllingarfólks er í góðu góðu lagi og á að heyrast sem mest og oftast. !!

    • Ég held að Arkitektar þjáist ekki meira af masókisma en aðrar stéttir, og við erum sjaldan sökuð um minnimáttarkennd. His vegar ætti það að vera gagnlegt að fá bæði faglega og ófaglega á rýni á arkitektúr á landinu.

      Ég hef mynnst hér áður á vanhugsaða hönnun Hörpu. Hallgrímskirkja hefur ekki jaft mikla galla, en galla þó. Stærðin á inngönguhurð í kirkjuna er úr öllum skala við kirkjuna sjálfa. Stórar inngönguhurðir og hurðarvirki eru söguleg arfleifð sem vantar í byggingunni. Ef horft er á bygginguna frá hlið þá er eins og turninn hallist afturábak. Þetta er missýn vegna formsins og hefði átt að hanna úr byggingunni, og svo framvegis.

      Tvent verður að hafa í huga:
      Illa hannaðar byggingar geta haft góða starfssemi, og þar er Harpan gott dæmi um slíkt. Gagnrýni á hönnunina er ekki gagnrýni á starfsemina.

      Stórar byggingar tala við grunn sálfræði mannsins, en það er ekki samasem merki á að allar stórar byggingarnar séu vel hannaðar. Það er t.d. ástæðan að einræðisherrar eru mjög hrifnir af stórum byggingum, og túristar líka. Hallir Ceaușescu í Bucharest teljast seint góður arkitektúr en eru mikil túristagildra.

      Það eru margar vel hannaðar byggingar á Íslandi, bæði eftir innlenda og erlenda arkitekta. Þar má nefna Norræna Húsið, Ráðhús Reykjavíkur, Hæstarétt, Fúnksjón Húsin í austurbænum og Norðurmýri, og ein besta borgarbygging landsins; Búnaðarbankinn í Austurstræti. Svo mætti lengi telja.

      Arkitektar eru frekar illa launuð stétt með lítið starfsöryggi, og oft eru það frekar kúnnarnir sem hanna byggingarnar en arkitektin. Fjármálamenn í Lundúnum eru mjög hrifnir af stórum og gljáandi hlutum. Harpan er einn slíkur.

    • Hilmar Þór

      Þetta er alveg rétt hjá þér Guðjón. Það eru frekar ESSIN þrjú sem laða túrista að Hallgrímskirkju og Hörpu: Staðsetningin, Stærðin og Starfssemin.

      Alls ekki arkitektúrinn að mínu mati.

      Ég nefndi það í útvarpsviðtali fyrir skömmu að það væri fjarri því að Harpa væri besta hús á Íslandi. Þá var ég með sömu hús í huga og þú nefnir, en vildi bæta Háskólabíói og Safnahúsinu við.

      Annars var ég í intensiv túr í Hörpu í gær með Sigurði Einarssyni. Við fórum um all og hann sagði frá. Alla sali og tæknirými, um allt baksviðs og aðstöðu listamanna og skrifstofur hússins.

      Þessi túr sannfærði mig ennfrekar um að húsið snýr „bandvitlaust“ eins og þú orðar það.

      En því verður ekki breytt úr þessu, en maður hefur áhyggjur af því að dómnefnd Mies hafi ekki tekið eftir þessu!

    • Örnólfur Hall

      — Vel greint hjá ykkur kollegar Guðjón og Hilmar Þór.

      — Ég verð víst angra úrilla lofgerðar-kyrjara með því að ég ætla að halda áfram að vera í hópi svonefndra \“masókískra tuðara\“ þar til allt er upp á borði um smíðafúskið og fjármála-subbuskapinn á Austurhöfn, bagga okkar og ofurklafa eftirkomenda a.m.k. næstu 30 árin.— Nóg má áfram draga upp úr þeim ljóta sarpi og minnimáttarkennd er ekki til í orðasafni okkar.

    • Örnólfur Hall

      Tek undir með Guðjóni m.a. það sem hann segir um Hörpuna:

      — MIES- PRÍSINN

      — Mies-prísinn er sérkennilegt mál útaf fyrir sig og sjá þá m.a. klaufalegar og klúðurslegar samsetningar á hjúpshornum og víðar, verðlaunaðar í nafni ‘detail’ meistarans Mies sem hefur væntanlega snúið sér við í gröfinni við prísgjöfina

      — Antonio Borghi form. ACE (Sambands evrópskra arkitekta ) hélt (hlutlaus) utan um alm. kosningu á tilnefningum til Mies-verðlauna meðal arkitekta og áhugafólks í Evrópu.

      — Market Hall, Ghent fékk 76% atkvæða
      — Harpa – Reykjavik Concert Hall & Conference Centre,
      Reykjavik fékk 9.76% atkvæða
      — Metropol Parasol, Seville fékk 7.59% atkvæða
      — House for Elderly People, Alcácer do Sal fékk 5.35% atkvæða
      — Superkilen, Copenhagen fékk 1.29% atkvæða.

      — Rúmlega sjö sinnum fleiri atkvæði en HARPA fékk MARKET HALL, Ghent (torg og byggingar meðal miðaldabygginganna 3ja.) í Belgíu og sem UNESCO hafði mikið dálæti á vegna vel leystrar og mildrar aðlögunar að miðaldabyggingunum.

      — Arkitektar í Evrópu voru og eru enn gáttaðir yfir þessu. Hvað gerðist ?
      — Skoðuðu hraðhentir og snöggir dómnefndarmenn virkilega Hörpu-„smíðina“ og hönnunina með „augum og í nafni“ Mies ? Eða var annað á spítunni ?

  • Brynjólfur Þorvarðsson

    Takk fyrir góða umfjöllun, Hilmar!

    Þú bendir réttilega á að samkvæmt teikningum þá passa þessi hús alls ekki inn í núverandi ásýnd borgarinnar. Reyndar minnir þetta óþægilega á framkvæmdir í Kaupmannahöfn, t.d. í Norðurhöfninni – stórir kassar án nokkurs þokka eða fegurðar.

    Nýju húsin á horni Aðalstrætis og Túngötu voru ólíkt betri nálgun.

    Margir Íslendingar keyra (eða taka lest) gegnum nýjan miðbæ Öresunds, rétt hjá Kastrup án þess að taka eftir því þar sem bæði hraðbraut og lestarteinar eru niðurgrafnir. Nýji miðbærinn þar minnir óneitanlega á þessar tillögur – og mannfjandlegra umhverfi er erfitt að finna. Ég hef þurft að gista þar tvisvar á hóteli og ég fæ hroll við tilhugsunina.

    Nú í sumar munu margir eiga leið um þennan miðbæ (Bella Center er í útjaðri hans, þar sem Eurovision verður haldið í sumar), ég hvet áhugamenn um arkitektúr til að ganga frá Örestad Metro stöðinni og skoða hvernig ekki á að hanna mannvænan miðbæ!

  • ,,Þannig er komið í veg fyrir að byggingarnar skyggi sem minnst á sjónlínur að Hörpu …“

    Ha?

  • Steinþór

    Þetta er ánægjulegt að lesa og vissulega þarf að gæta að mælikvarðanum.

  • nóboddíinn

    hvar er seðlabankinn? hann sést ekki fyrir „money heaven“

    • nóboddíinn

      hafa menn ekkert lært af t.d. hörmunginni við norðurbakkann í hafnarfirði? alveg sambærilegt rugl; er aftur komið 2007 eða 2008?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn