Miðvikudagur 29.08.2012 - 10:51 - 17 ummæli

http://www.nyrlandspitali.is

 

Prófessor við læknadeild HÍ benti í athugasemdarkerfinu í gær á hvar hægt væri að nálgast rök fyrir því hvernig aukningin á nýbyggingarmagninu á lóð Landspítalans átti sér stað. Úr 70-80 þúsund fermetrum upp í um 220 þúsund.

Hann gaf upp slóð á vefnum nyrlandspitali.is þar sem hann taldi að hægt væri að finna einhver svör við spurningunni.       

Ég fyrir minn hlut varð steinhissa á að sjá þennan texta á heimasíðu Nýs Landspítala.  Megin efni textans var svar við gagnrýni borgarfulltrúa vegna mikils byggingarmagns og var með yfirskriftinni “Aprílgabb borgarfulltrúa“. Og síðan er “hjólað í manninn” og allar tölur slitnar úr samhengi.

Ég hef notfært mér þessa síðu talsvert til þess að kynna mér málið en það hef ég gert með fyrirvara vegna þess að þessi opinbera síða er fullkomlega gagnrýnislaus á sjálfa sig og framkvæmdina . Svo segir hún á margan hátt bara hálfa söguna. Til að mynda finn ég ekki á síðunni þrívíða mynd sem sýnir lóðina alla fullbyggða eins og deiliskipulagstillagan sem nú er í kynningu gerir ráð fyrir. Aðeins er sýndur 1. áfangi.

Varðandi nefndan texta þá tel ég það óviðeigandi að á opinberri síðu sé ráðist með þessum hætti á kjörinn borgarfulltrúa sem er að vinna vinnuna sína í umboði þúsunda kjósenda.

Svona málflutningur er verri en tíðkast á nokkri fréttastofu sem ég þekki til á ekki að leyfast opinberum aðilum.

Hér er slóðin sem prófessorinn vísaði á. Dæmi svo hver fyrir sig.

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=388897

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Örnólfur Hall

    Glöggur kollegi Pétur Örn kemur við sárar kaunir í heilbrigðiskerfinu og spyr krefjandi spurninga.

  • Sigurður Ásbjörnsson

    Mér fannst það blekkingarleikur að birta myndir af fjölda Smáralinda til að sýna fermetrafjölda. Smáralindin er tveggja hæða hús með rúmmetrafjölda fjögurra hæða spítalabygginga.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Í ritstjórnarstefu nyrlandspitali.is segir: „Nýr Landspítali ohf. ber ábyrgð á að efni sem birt er á vefnum sé í samræmi við ritstjórnarstefnu félagsins.“

    Ég tek undir það með Hilmari að það er miður þegar starfsmenn opinbers verkefnis gera þau orð sem Hilmar lýsir í #4 hér að framan að sínum. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar menn gera öðrum upp skoðanir og kalla þá nöfnum. Satt að segja eru mikla líkur á að þá sé málstaður þeirra eitthvað laskaður.

  • Dr. Samúel Jónsson

    Hér mælir Hilmar Þór af mjög skynsömu viti og minnir um margt á mállutning minn um samfélagslega krankleika ýmiss konar og spakvitur ummæli mín um menn og málefni, þau er Boswell skráði niður af mikilli hind -jú og líkast til af heilbrigðri þind:

    „Þetta eru allt byggingar, sama hvernig á að nota þær. Og þær eru allt of stórar.

    Það var það sem borgarfulltrúinn sagði og það er alveg rétt hjá honum.“

  • Pétur Örn Björnsson

    Víða út um land hefur verið skorið niður árlega um litlar 30 milljónir á hverjum stað (td. á Húsavík og á Sauðárkróki). Sá niðurskurður hefur þó valdið gríðarlegum vanda (ma. lokun deilda) þar. Heilbrigðiskerfið víða út um land er nú þegar komið að þolmörkum vegna niðurskurðar þar. Þetta er grafalvarlegt mál.

    Er ekki nær að doka nú við og að horfa á öll heilbrigðismálin og þjónustuna (sem hefur verið skorin blóðugt niður, bæði í borg og út um allt land).

    Eru ekki heilbrigðis- og sjúkrastofnanir örugglega aðallega hugsaðar fyrir sjúklingana, meðan þeir enn lifa?

    Eða á að skuldsetja börn og barnabörn hinna dauðu til að stórverktakar bankanna geti steypt allri þjóðinni í taumlausar skuldir?

  • Pétur Örn Björnsson

    Maður hefði haldið að prófessorar við læknadeild HÍ ættu fremur að huga að því
    og hafa það sem sitt helsta baráttumál að berjast fyrir endurnýjun tækjabúnaðar við LSH. Það eitt væri verðugt baráttumál, enda hefur LSH lengi glímt við skort á fé til endurnýjunar tækjabúnaðar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Á beinni línu dv.is segir Björn Zoëga nú:

    „Við þurfum ekki svo mikla peninga til að endurnýja tæki okkar, góð byrjun væri 3 mlljarðar, þá gætum við endurnýjað mjög mörg helstu tæki okkar.“

    Hvernig stendur á því að þessir 3 milljarðar fást ekki úr ríkissjóði og það á þeim sama tíma og á að fara í framkvæmd upp á um 100 milljarða?

    Hvað segja prófessorar við læknadeild HÍ við því?

  • hrekkjalómur

    Hilmar
    Er það „subbuskapur“ að tala um „aprílgabb“ og „vafasama íþrótt“? Gísli Marteinn er stjórnmálamaður sem er á launum hjá okkur, m.a. við að sjá um skipulagsmál. Hann situr jú í skipulagsráði sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar í ansi langan tíma. Við verðum að treysta því að hann fari með rétt mál. Ef hann gerir það ekki þá er mjög gott að einhver bendi á það.

    Veit ekki til þess að hann hafi kveinkað sér undan ofangreindum skrifum.

    Það væri gaman að vita hvað annað er svona skelfilegt á vefsíðunni um nýja spítalann, eins og þú ert að gefa í skyn.

    Hrekkjalómur (sem er skemmtilegt leyndarhyggjunafn)

  • Gestur Ólafsson

    Ég held því miður að við komumst ekki langt í umræðunni um skipulagsmál án þess að reyna að draga þau út úr framtíðarsýnarþokubakkanum og leiðarljósunum og fá bæði sérfræðinga og stjórnmálamenn til að tala skýrar og axla ábyrgð eins og tíðkast hjá öðrum þjóðum.
    Hver eða hverjir eru t.d. þeir sem leggja það til að það sé brýnast akkúrat núna að byggja 220 þúsund m2 spítala á einum stað við mestu umferðaræð lýðveldisins og verja til þess lífeyrissjóðunum okkar eða skuldsetja komandi kynslóðir? Hvaða alþingismenn eru það sem eru þessu samþykkir og hvaða rannsóknir og gögn hafa þeir undir höndum sem réttlæta þetta? Ef skipulagssérfræðingar þjóðarinnar, sem eru á launum hjá okkur, þora ekki heldur að láta okkur heyra sín faglegu sjónarmið þá eru þeir okkur líka einskis virði.

    Af nógu er að taka, en ég vil rétt minnast á þá arfavitlausu hugmynd borgaryfirvalda að ætla að grafa göng í gegnum Skólavörðuholtið, svoköllulð Holtsgöng sem komust ekki bara inn á síðasta aðalskipulag Reykjavíkur heldur voru uppáskrifuð af skipulagsstjóra ríkisins og staðfest af ráðherra. Auðvitað sáu menn svo að þetta var aldeilis galin hugmynd, en mér finnst að við kjósendur eigum heimtingu á að vita hve lagði þetta til og hvað þetta hefur kostað okkur. Þetta sýnir bara að það er borgaraleg skylda okkar að reyna að halda í hemilinn á þessu fólki og fá að vita hverjir véla um þessi mál.

  • Gunnar Sigurðsson

    Þetta er einkennileg síða og einsleit. Hvergi er að sjá nokkurn vafa um neitt. Engin álitamál. Þetta getur ekki verið svona einfalt og rétt allt saman.

  • Hilmar Þór

    Hrekkjalómur.
    Sei sei jú það er þeirra skylda að leiðrétta alla sem fara með rangt mál. Og eins og þú segir. það eiga allir að gera. En það á ekki að tala niður til þeirra og kalla sjónarmið þeirra „aprílgabb“ eða segja þá stunda „vafasama íþrótt“.

    Það á bara að svara þeim efnislega og leiðrátta það sem hugsanlega rangt var farið með. Basta.

    Borgarfulltrúinn fór ekki með neina vitleysu sýnist mér ef frá er talið að þessir tæpir 290 þúsund fermetrar eru ekki allir ætlaðir spítalanum,.

    En það skiptir ekki máli í skipulagslegu samhengi hlutanna. Þetta eru allt byggingar, sama hvernig á að nota þær. Og þær eru allt of stórar. Það var það sem borgarfulltrúinn sagði og það er alveg rétt hjá honum.

    Mér þykir miður að einhverjum þyki þessi málflutningur sem er þarna á nyrlandspitali.is í lagi. En það er kannski einkenni umræðunnar hér á landi í dag að allskonar subbugangur í málflutningnum þykir bara OK.

    En Hrekkjalómur.

    Af hverju skrifar þú undir nafnleynd?

  • hrekkjalómur

    Sæll Hilmar Þór
    Áttu við að það sé ekki opinberum starfsmanni sæmandi að benda á þegar pólitíkusar fara með rangt mál? Er ekki einmitt mikilvægt fyrir opinbera starfsmenn, og reyndar alla landsmenn, að benda á þegar pólitíkusar fara með rangt mál?

    Ég sé ekki neitt athugavert eða hneykslanlegt við pistil Ólafs Baldurssonar. Hann er beinskeyttur og skýr.

    Hrekkjalómur

  • Hilmar Þór

    Ég má til með að birta hér orðrétt niðurlag pistils á nýrlandspitali.is.

    Ef þetta flokkast undir málefnalega óvilhalla upplýsingar um nýjan Landspítala, þá veit ég ekki hvað skotgrafamálflutningur er.

    “Það er áhyggjuefni þegar stjórnmálamenn keppast við að gera stærstu mál þjóðarinnar að pólitískum bitbeinum og gera sér leik að því að fara rangt með staðreyndir. Með pistli sínum sýnir Gísli Marteinn að hann tekur fullan þátt í þessari vafasömu íþrótt, væntanlega í þeirri von að komast á verðlaunapall. Slíkur leikur má ekki tefja brýnt framfaramál þjóðarinnar sem endurnýjun Landspítala er”.

  • Elín Sigurðardóttir

    Ekki er það prófessorinn sem mun gefa leyfi fyrir þessari byggingu. Er það ekki Reykjavíkurborg?

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Ég hef einmitt tekið eftir því sama og Hilmar með þessa tilteknu mynd af fullbyggðri lóð. Þetta veikir traust mitt á því að síðan gæti lágmarks kröfu sem gera verður til umræðu og upplýsingaskyldu opinberra aðila. Til að kóróna málið virkar ekki leitargluggin þannig að ekki er hægt að leita eftir efni þar.

  • Hvernig stendur á því að tillaga CF Möller, fyrirrennara Spital-hópsins var mun betur kynnt á vefnum nyrlandspitali.is.
    Munurinn er mikill, en teikningar CF Möller af öllum grunnplönum deilda, þrívíddarteikningar ofl. voru aðgengilegar, en þessar upplýsingar eru ekki kynntar á vefnum um tillögu Spital-hópsins og því er ekki að furða þótt fólk velti vöngum yfir því hvað á að byggja á lóðinni.

  • Guðrún Bryndís

    Upplýsingar um opinbera hlutafélagið sem birtast almenningi endurspeglast í ritstjórnarstefnu þess, en hún hljóðar svona:

    Ritstjórnarstefna NLSH
    Vefurinn nyrlandspitali.is er upplýsingavefur Nýs Landspítala ohf. (NLSH), framkvæmdafélags um byggingu nýs Landspítala.

    Markmið félagsins er að birta á vefnum upplýsandi, aðgengilegar og greinargóðar upplýsingar um mál sem verkefninu tengjast. Á vefnum er að finna ýmislegt útgefið efni sem tengist undirbúningsvinnu vegna byggingaráformanna. Þar eru birtar fréttir og fréttatilkynningar á vegum félagsins. Jafnframt er á vefnum birt annað efni sem verkefninu tengist og samræmist ofangreindum viðmiðum um efnistök.

    Nýr Landspítali ohf. ber ábyrgð á að efni sem birt er á vefnum sé í samræmi við ritstjórnarstefnu félagsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn