Mánudagur 27.08.2012 - 11:17 - 31 ummæli

LHS – Verktakaskipulag?

 

Verktakaskipulag hefur verið skilgreint þannig að að það þjóni fyrst og fremst, eða eingöngu,  þeim sem fjárfesta á viðkomandi svæði. Það er að segja að skipulagið lýtur að þörfum og kröfum þess sem hefur forræði á landinu til eigin nota eða til sölu. Hagsmunir grenndarsamfélagsins eða borgarinnar sem heildar skiptir ekki meginmáli

Borgin sjálf, borgararnir, grenndarsamfélagið og menningararfurinn víkur fyrir vilja hagsmunaaðilans.

Hagsmunaaðilanum er „afhent skipulagsvaldið“.

Maður sér árangur þessa verklags víða.

Ég nefni ýmsa reiti í miðborginni svo sem  Höfðatorg þar sem verktakinn „var með miklu stærri plön (en borgin) og var á endanum  afhent skipulagsvaldið. Engar kröfur voru gerðar um að við hönnun hverfisins væri tekið mið af „byggingarhefðum og sögu staðarins“ svo vitnað sé beint í frábæra grein Hjálmars Sveinssonar :“Skipulag auðnarinnar“  sem birtist í tímariti MM fyrir nokkru *)

Nú virðist mér sem deiliskipulagsvinna vegna Landspítala Háskólasjúkrahúss hlýti svipuðum lögmálum.

Vekefnisstjórninni var „afhent skipulagsvaldið“

Hagsmunir borgarlandslagsins og sjónarmið borgaranna skipta litlu. Umræða er illa séð og athugasemdum seint eða alls ekki svarað.

Unnið er að heilindum að hagsmunum verkkaupa og engu látið skipta sjónarmið þeirra sem láta sig málið varða fyrir hönd heildarinnar.

Stjórnsýsla borgarinnar með frábært starfsfólk skipulagssviðs og  ágætir kjörnir fulltrúar borgaranna virðast ekki hafa áhrif. Að skipulaginu vinna nokkrir ágætir arkitektar.  Verkefnisstjórnin er skipuð góðu fólki sem einnig  er að gera sitt besta til þess að fleyta þessu máli áfram.

Allt vinnur þetta góða fólk af samviskusemi, dugnaði og áhuga.

En einhvernvegin sýnist mér að verkefnið sjálft hafi tekið af þessu ágæta fólki völdin og ráði nú ferðinni á eigin forsendum. Það er orðið svo stórt að enginn ræður alminlega við það. Eða öllu heldur að engin þorir í það!

Frá því að niðurstaða  samkeppninnar um sjúkrahúsið var opinberuð er ekki að sjá að bygginaraðilar hafi tekið tillit til gagnrýni og sjónarmiða þeirra sem hvatt hafa sér hljóðs.  Fólk hefur haft áhyggjur af byggingarmagni, staðaranda, umferðamálum og staðsetningu sjúkrahússins í borgarlandinu m.t.t. landsins alls o.m.fl.

Það er eins og kapp hafi hlaupið í fólkið sem að málinu hefur komið og það talið gagnrýnisraddir til trafala og ákveðið að taka ekki tillit til þeirra.  Þvert á móti hafa umferðamannvirki verið lögð af, staðarandinn hundsaður og byggingamagnið blásið út.

Þetta eru svipuð viðbrögð og eru þegar verklag svokallaðs  verktakaskipulags á sér stað eins og Hjálmar lýsir ágætlega í fyrrnefndri grein sinni.

Þess ber að geta hér að ég hef ekkert á móti því að verktakar eða hagsmunaaðilar hafi forræði í skipulagsmálum, þegar það á við. Og það getur verið að slíkt verklag eigi við í tilfelli LHS. En þegar þessi aðferð er notuð þarf álit almennings og kjörinna fulltrúa með sitt embættismannakerfi að vega mjög þungt. Kalla þarf fram sjónarmið og gagnrýni sem víðast að og henni ber að fagna. 

Hrósa ber þeim sem leggja það á sig að setja sig inn í málin og taka með þakklæti við sjónarmiðum þeirra af auðmýkt og skilningi.

Á það hefur mikið skort í skipulagsferli LSH.

*) í Greininni „skipulag auðnarinnar“ fjallar Hjálmar Sveinsson  um áhrif verktakaskipulags og tekur þar nokkur dæmi.  Þar á meðal fer hann ítarlega yfir sögu Höfðatorgs sem svipar nokkuð til atburarrásar LSH.  Slóðin að grein Hjálmars er þessi: http://www.hjalmar.is/page11/page10/page10.html

Að neðan er ljósmynd af byggingum við Höfðatorg.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (31)

 • Elín Sigurðardóttir

  Spikfeitir þjónar flokkakerfisins taka að sér að beina gagnrýni í réttan farveg og magrir þrælar taka undir.

 • Pétur Örn Björnsson

  Mig langar til að vitna á góða athugasemd Páls Torfa Önundarsonar við einn af ótalmörgum þörfum og góðum pistlum Hilmars Þórs (þessi hér líka þar með talinn Himar minn, þú átt mikið hrós skilið fyrir dug þinn og þor) sem heitir „Að forðast gagnrýni“. Við þann pistil skrifaði Páll Torfi þessa athugasemd:

  Páll Torfi Önundarson // 16.5 2012 kl. 09:32:

  „Þetta er hárrétt. Um daginn birti ég tillögu mína og Magnúsar Skúlasonar arktekts að lausn við nýbyggingu Landspítala í Fréttablaðinu. Okkar tillaga er viðbygging en ekki nýbygging frá grunni. Lausn sem gæti verið í sátt við nágranna, umhverfið og skipulag gömlu borgarinnar.

  Viðbrögðin frá málsvara núverandi áætlana voru ómálefnaleg. Þar var vaðið í manninn en ekki málefnið. Þetta geta menn lesið á netinu eða í Fréttablaðinu.

  Ég hef spurt arkitekta sem rætt hafa við mig og lýst stuðningi við hugmyndir mínar hvers vegna þeir ríði ekki á vaðið og styðji opinberlega nánari rýni á þennan valkost. Svarið frá einum þeirra var: \“Þöggun\“. Þegar ég hváði þá sagði hann, að þeir sem gagnrýni fái ekki verkefni (og verkefnin fyrir arkitekta séu ekki svo mörg þessa dagana). M.ö.o. eru þeir sem reyna að stofna til umræðu settir út í kuldann. Og það eru ekki bara arkitektarnir.“

  Þöggunin í þessu samfélagi bendir til þess að allt of margir hafi hag af því að þagga alla gagnrýni niður. Og þeir sem það gera eru okkar verstu bræður og okkar verstu systur, þó þau þykist vera best, alveg obosslega góð, betri og best, en eru valdgráðugir hræsnarar, sem níða okkur hin sem bara viljum reyna á gagnrýninn hátt að stofna til umræðu og þá sérstaklega með það að leiðarljósi að forðast mistökin sem gerð voru hér fyrir hrun, sem ma. grein Hjálmars fjallar um, reyndar í eftir á skýringum.

  Viljum við þannig samfélag þar sem menn þora ekki að gagnrýna vegna ótta um „hefnd“ frá opinberum stjórnsýslustofnum? Að setja fólk markvisst út í kuldann vegna gagnrýni minnir á Gúlag lýsingar:

  Er það efnd loforðanna um „Nýja“ (Sic!) Ísland á vakt Vg og Samfylkingar og Samfylkinga og Besta?

 • Eftir að hafa surfað um á netinu og lesið kommentin hér hef ég sannfærst um að það er eitthvað rotið í þessu máli. Það gengur bara ekki upp.

 • Gestur Ólafsson

  Undanfarin ár hefur fólk um allan heim verið að gera kröfu um að faglega sé unnið að skipulagi þar sem það býr enda hanga þar oft á miklir hagsmunir. Skipulag Landspítalans undanfarna áratugi hefur því miður ekki tekið mið af þessari kröfu. Auðvitað átti að byrja á því að vinna forsvaranlega staðarvalsgreiningu og skipulag og reyna að gera sér grein fyrir því hvernig höfuðborgarsvæðið þróast næstu áratugina áður en farið væri að hanna einstakar byggingar á ákveðnum stað. Þetta var ekki gert og nú stöndum við frammi fyrir því að búið er að eyða um þrjúþúsund milljónum af almannafé í vangaveltur, samkeppnir og hönnun. Ekki hef ég heldur getað fundið neinar forsendur, rannsóknir eða faglegan grundvöll fyrir inngripi Alþingis í skipulagsmál Reykjavíkur með lögum nr. 64, 2010 þar sem ákveðið er að LSH skuli rísa við Hringbraut í Reykjavík.
  Í núgildandi skipulagslögum, 38. gr. er það líka skýrt tekið fram að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Þetta er meginreglan þótt sveitarstjórn hafi líka í 40. gr. heimild til að veita einkaaðilum rétt til að vinna þessa vinnu. Skipulagsaðili á líka fyrst og fremst að hugsa um heildarhagsmuni og hagsmuni almennings. Til að standa straum af þessari mikilvægu vinnu og tryggja hagsmuni almennings er innheimt sérstakt skipulagsgjald sem hefur veðkröfu í fasteignir umfram 1. veðrétt. Það er þess vegna óskiljanlegt hvers vegna Reykjavíkurborg felur arkitektum sem eru að hanna byggingar LSH fyrir verkkaupa jafnframt að vinna deiliskipulag og gæta almennra hagsmuna borgarbúa. Í minni sveit var þetta kallað „conflict of interest“ og því ekki nema von að almenningi ofbjóði og „verktakaskipulag“ beri á góma.
  Auðvitað viljum við öll góða aðstöðu fyrir lækningar og sjúklinga þótt því hljóti líka að vera takmörk sett hvað núverandi kynslóð getur skuldsett afkomendur okkar, sem ekki hafa ennþá kosningarétt og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, fyrir þessa aðstöðu. Í öllu falli ættum við að geta sameinast um að gera þá sjálfsögðu kröfu að stefnumótun í heilbrigðismálum og staðarval þessarar þjónustu sé unnin fyrir opnum tjöldum í réttri röð og af hæfustu sérfræðingum.

 • Pétur Örn Björnsson

  Magnús Karl.

  Þú lýstir kerfislægum vanda; sá vandi einskorðast ekki eingöngu við fjármögnun vísindaverkefna. Hlutina ber ætíð að skoða í víðara siðferðilegu og samfélagslegu samhengi, já mas. í skipulagslegu samhengi.

  Gerðu ekki lítið úr greiningu þinni, hún á býsna víða vel við, hvað varðar
  klíkusamfélagið, ógegnsæið, rörsýnina og fjármagnsdreifinguna í gegnum stofnanir „hierarchy“ kerfisins.

  Hjartanlega sammála þessu Magnús Karl. Gæti jafnvel vitnað til „hierarchy“ kerfis hinna hugmyndafræðilegu stofnana ríkisins sem Althusser gerði mjög vel grein fyir hvernig þær virka til að þjóna veldi yfirbyggðarinnar, en til valdbeitingar og skuldaþrældóms undirbyggðarinnar.

 • Magnús Karl Magnússon

  Pétur Örn:
  Tilvitnanir þínar í mín skrif um fjámögnun vísindaverkefna snúast um allt annað mál og ég nenni ekki að fara í rökræður um útúrsnúninga. Er ekki talsmaður nepótisma, ógagnsæis, eða lókal hugsunar í skipulagsmálum eins og þú gefur í skyn.

  Hilmar Þór:
  Þekki ekki nákvæmlega muninn á byggingarmagni í nýbyggingartillögunum vs deiliskipulagi. En eins og þér er kunnungt er reynt að hugsa áratugi fram í tímann þegar deiliskipulag er hugsað fyrir slíka lóð. En hér er stutt grein eftir Ólafur Baldursson sem svar við grein Gísla Marteins fra síðasta vori:
  http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=388897
  Þessi grein skýrir ágætlega fyrirhugað byggingarmagn.

 • Elín Sigurðardóttir

  Út er komin sprenghlægilega smábarnabókin Góði borgarfulltrúinn og vondi vörubílstjórinn. Höfundur vill láta taka sig alvarlega.

 • Páll Torfi Önundarson

  Við Magnús Karl, góðvinur minn, erum sammála um flest og báðir starfandi prófessorar við læknadeild (en ekki í orðsifjafræðum). Báðir teljum við afar mikilvægt að koma starfsemi Landspítala fyrir á einni lóð. En nú er ég honum ósammála um orðskilning.

  Ég skil orðið „verktakaskipulag“ eins og Hilmar Þór skilgreinir það. „Verktakaskipulag“ væri t.d. ef krafa frá landeiganda um 15 hæða turn í Aðalstræti eða frá verktakasamtökum (samtökum atvinnulífsins) sem knýja á um framkvæmdir og flýtiafgreiðslu skipulags til þess að minnka atvinnuleysi. Eða ef verktakinn fær sjálfdæmi um skipulagið á lóð sinni. Dæmi um hið síðast nefnda gæti verið sú deiliskipulagstillaga, sem fyrir liggur frá SPITAL sbr. t.d. það, að annarri tillögu/athugasemd við deiliskipulagið (málamiðlunartillögu minni og Magnúsar Skúlasonar, arkitekts sbr hér að ofan) var rutt af borðinu órýndri af SPITAL og byggingarnefnd spítalans en ekki af skipulagsyfirvöldum sjálfum, sem hefðu átt að fá óvilhalla umsögn. Það var ómálefnaleg afgreiðsla hjá borgaryfirvöldum. Ekki veit ég hvers vegna. Verktakinn fékk umsagnarvaldið yfir borgarlóðinni og þar með er skipulagið einmitt orðið „verktakaskipulag“. Ég hugsa að Magnús Karl þekki ekki þessa dæmisögu – en svona gerast kaupin á eyrinni.

  En ég ítreka að ég er mjög hlynntur stækkun spítalans þótt ég sem Reykvíkingur hrífist ekki af fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Ég tel vera betri kost í stöðunni og áskil mér rétt til að hafa þá skoðun.

 • Pétur Örn Björnsson

  Ég misskildi ekki neitt Hilmar Þór. Það geta allir séð sem lesa það hvernig Árni Ólafsson leggur dæmið upp strax fyrir neðan athugasemd mína og hjólar þar með beint í mig og þú tekur svo strax undir það.
  Þið kjósið ykkur, markvisst væntanlega, að virða að vettugi, það að ég var einungis að benda á vissan tvískinnung í málflutningi Magnúsar Karls.

  Það gerðir þú einnig Hilmar Þór, þegar þú dróst fram grein Hjálmars um „Skipulag auðnarinnar“. Ætlar kannski Árni Ólafsson að kalla það. að þar með hafir þú hjólað í manninn og því sé sá pistill þinn dæmi um rökþrot og dónaskap?

 • Hilmar Þór

  Pétur Örn.

  Nú hefur annar hvor okkar misskilið eitthvað.

  Magnús Karl.

  Þú ert vel að þér um marga hluti. Mig langar að spyrja þig hver sé ástæðan fyrir því að nýbyggingamagn hefur aukist úr 50-60 þúsund femetrum eins og þrír óháðir sérfræðingar mældu með í 220 þúsund fermetra?

  Hinar spurningar þínar krefjast nokkurrar yfirlegu. Ég hef ekki tíma en vona að einhver annar taki að sér að svara þér.

 • Pétur Örn Björnsson

  Þið hjólið í mig, því þorið þið, en forðist að horfast í augu við málefnið í víðtækara samhengi.

 • Pétur Örn Björnsson

  Takk fyrir orð ykkar Hilmar Þór og Árni Ólafsson.

 • Magnús Karl Magnússon

  Hilmar Þór og aðrir arkitektar:
  Í síðasta pistli þínum „LSH – skipulag auðnarinnar“ voru mjög hástemmdar lýsingar á þessu skipulagsslysi. Það var talað með upphrópunarmerki um að deiliskipulag reiknaði með 280 þús fermetra húsnæði. Látið er í það skína að þessi tala sé ógurleg.
  Af hverju á ekki að setja hluti í samhengi skipulagsmála. Ég er ekki skipulagsfræðingur en 30 mínútna lestur um borgarskipulag leiðir mig að hutökum eins og „floor-area ratio“ sem tiltölulega einfaldan mælikvarða og þéttni skipulags. Lóðin sem um ræðir í dæmi LSH er 14.8 hektarar, eða 148.000 fermetrar. Þetta gefur „floor-area ratio“ á þessari lóð upp á 1,9 (ef deiliskipulag er nýtt til fulls, þ.e. allt byggt sem framtíðin getur hugsað sér á næstu 50-100 árum).
  Nú leyfi ég mér að spyrja arkitekta; er slíkt byggingarhlutfall í borg fráleitt? Er slíkt hlutfall ekki í ágætu samræmi við hugmyndir manna um sjálfbærar borgir?
  Bara til að nefna eitt lítið dæmi: Barnaspítali Seattle borgar er í miðju íbúðarhverfi í Seattle.(þið getið séð yfirlitsmynd á google maps með að setja inn heimilisfangið: 4800 Sand Point Way NE Seattle WA 98105 ). Þeir eru nýlega búnir að sækja um heimild til stækkunar bygginga á lóð sinni. (sjá: http://masterplan.seattlechildrens.org/documents/Compiled%20Final%20Master%20Plan%20-%20Approved%2005-12-10.pdf ). Á blaðsíðu 38 í skýrslu sem þeir hafa unnið er talað um „floor area ratio“ fyrir lóðina. Þetta hlutfall er 1,9. Nákvæmlega sama talan og er talin tröllaukin á Íslandi.
  (bls 38: „The floor area ratio for the hospital campus will be 1.9 (excluding below-grade developable floor area, below-grade parking structures and rooftop mechanical equipment).
  Mætti ég biðja arkitekta og skipulagsfræðinga um álit á þessarti stuttu rannsóknarvinnu minni. Er þetta fráleitur mælikvarði? Er ég að misskilja hugtök?

 • Hilmar Þór

  Árni Ólafsson

  Það er bæði: Rökþrot og dónaskapur.

 • Árni Ólafsson

  Hjóla í manninn – ekki málefnið !! Eru það rökþrot eða bara helber dónaskapur?

 • Pétur Örn Björnsson

  Sá vafalaust ágæti læknaprófessor og skeleggi baráttumaður fyrir fyrirhuguðum trölla-framkvæmdum við Landsspítala Háskólasjúkrahús við Hringbrautina, Magnús Karl Magnússon, nefnir í athugasemd við pistil Einars Steingrímssonar hér á eyjunni „Rannsóknir og forréttindafemínismi“, 4 atriði sem Magnús telur -og vafalaust réttilega- að hafi lengi staðið íslensku vísindasamfélagi fyrir þrifum (undarlegt er þó að hann nefni ekki skort á þúsundum kúbika af steypu sem 5. atriðið).
  En þetta eru innbúðarvandræðin 4 sem Magnús nefnir:

  „1. Klíkusamfélag – nepótismi. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.“

  „2. Ógagnsæi. Ákvarðanir eru teknar bak við luktar dyr með óskilgreindum mælikvörðum. Slíkt mun alltaf hindra framgang þeirra hópa sem utan kerfisins standa.“

  „3. Þröngsýni eða það sem mætti kalla lókal áherslur.“

  „4. Peningum er dreift gegnum stofnanir í gegnum „hierarchy“ kerfisins í stað þess að fara til þeirra sem bestar hugmyndir hafa.“

  Það sem mér finnst svo undarlegt, er að hér skrifar hinn skeleggi læknaprófessor af dirfsku og þori … en bíddu við, er þetta sá sami Magnús Karl Magnússon, læknaprófessor við HÍ, sem krefst tugmilljarða, ef ekki hundrað milljarða framkvæmda fyrir sitt klíkusamfélag, meðan heilbrigðiskerfið er skorið niður við trog og þjónustan við sjúklingana minnkar?

 • Magnús Karl Magnússon

  Sæll aftur Hilmar:
  Þú skilgreindir verktakaskipulag svona: „Verktakaskipulag hefur verið skilgreint þannig að að það þjóni fyrst og fremst, eða eingöngu, þeim sem fjárfesta á viðkomandi svæði. Það er að segja að skipulagið lýtur að þörfum og kröfum þess sem hefur forræði á landinu til eigin nota eða til sölu. Hagsmunir grenndarsamfélagsins eða borgarinnar sem heildar skiptir ekki meginmáli.“
  Ég get ekki séð að þarna liggi neinir hagsmunir fjárfesta – nema að þú skilgreinir ríkið og LSH sem fjárfesti í þessu máli. Vissulega þarf að útfæra hugmyndir og þar hefur verkefnahópur arkitekta og heilbrigðisstarfsmanna verið að vinna í náinni samvinnu við skipulagsyfirvöld.
  Varðandi skilgreiningar og inntak pistilsins – það er verktakaskipulag og LSH þá er ég ósköp einfaldlega algerlega ósammála. Þú talar um hagsmuni borgar og grenndarsamfélags. Borgin hefur verið mjög nátengd öllum skipulagsþáttum þessa ferils. Hvort sem við lítum aftur til skipulagsáætlana fyrri áratuga eða til framtíðar (Vatnsmýrarskipulagið) þá hefur LSH alltaf verið þarna í öndvegi á þessari lóð. Borgarstjórnameirihlutar hafa stutt þetta allir hvar í flokki sem þeir sitja. Húsnæðismál sjúkrahússins eru í algeru lamasessi og stendur starfsemin fyrir þrifum.
  Hvað grenndarsjónarmið varðar þá togast óhjákvæmilega á tvenn grenndarsjónarmið. Annars vegar grenndarsjónarmið LSH, sem hefur verið þarna á þessu svæði lengur en flestar aðrar byggingar á svæðinu og hins vegar grenndarsjónarmið íbúa í Þingholtinu/ Skólavörðuholtinu.
  Þeir sem vilja LSH burt eru að tala í andstöðu við allar skipulasáætlanir og framtíðarsýn sem um þetta svæði fjalla. Stórkallalegar yfirlýsingar um skipulagsslys missa að mínum dómi algerlega marks. Þarna er um að ræða áratuga vinnu sem hefur skriðið áfram með hraða snigilsins og ætti svo sannarlega ekki að koma neinum á óvart.

 • Elín Sigurðardóttir

  Hver getur stöðvað verktakaskipulag sem leiðir til auðnar? Einhver ósýnilegur? Hver getur stöðvað læknaskipulag sem leiðir til dauða? Einhver ósýnilegur? Hver er það sem ekki má nefna hérna?

 • Páll Torfi Önundarson

  Hér að ofan eru þessi orð: ,,Ég hef ekki hitt lækni sem er sammála því að byggja nýjan spítala. Það er hægt að gera margt sniðugra fyrir 100 milljarða plús.““ Og þessi: „Augljós leið til að koma í veg fyrir þessa þróun mála og leiða umræðuna til lykta er að almenningur fái að kjósa um spítalann. Eðlilegast væri að borgarstjórn tæki ákvörðun um slíka íbúakosningu.“

  Ég fæst við blóðkrabbalækningar og rek rannsóknastofu á Landspítala og vil stækka spítalann en ekki byggja nýjan spítala. Fullyrði að húsnæðið stendur okkur og heilsu sjúklinga fyrir þrifum. Flestir læknar sem starfa á Landspítala vilja bættan og stækkaðan og sameinaðan spítala þótt menn greini á um lausnir og stærð. Aðstaða sjúklinga og lækninga er fyrir neðan allar hellur á Landspítala og í engu líkar því sem þekkist hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Það þarf húsnæði. Tækjaendurnýjun er annað mál. Ég tel að um 120.000 fermetrar væri gott, verktakaskipulagið gerir ráð fyrir mun meiri byggingum.

  Ég tel Hringbrautina vera æskilegasta kostinn og þann ódýrasta, en ég hef jafnframt lýst þeirri skoðun minni að u.þ.b. 60.000 fm við VIÐBYGGING Á EFRI LÓÐINNI ÞAR SEM HJÚKRUNARSKÓLINN STENDUR NÚ með tengibyggingum og stækkun K-byggingar í norður, sem teiknuð væri í sátt við byggðina í kring gæti leist vandamálið, sjá greinar í Fréttablaðinu á netinu þar sem uppdráttur er sýndur af þessari hugmynd og á þessum síðum á mars eða apríl. Gúgglið og þér munuð finna.

  Sú aðferð að bera undir kjósendur er ágæt en þá verða menn að hafa valkostina og fagurfræðina á hreinu. Þeir sem vilja ekki það sem Hilmar Þór kallar réttilega að mínu mati „verktakaskipulagið“ (það sem þjónar hagsmunum verktakanna en ekki endilega samfélagsins) munu greiða atkvæði nýbygging á Hringbraut en hafa þá ekki þann valkost að greiða atkvæði um minni byggingu – eða hvað?

  Það er sundurlyndið, sem mun leiða til þess, að verktakaskipulagið fer í framkvæmd, sem gæti verið stöðvuð og leitt til „skipulags auðnarinnar“ sem Hilmar Þór ritaði um í næstu grein á undan. Sundurlyndisfjandinn er „óvina“fögnuður.

 • Elín Sigurðardóttir

  Nýtt hugtak? Ekki algengt vandamál? Hefurðu ekki heyrt talað um fjárhagsráð?

  “Fjárhagsráð tekur við öllum störfum Viðskiptaráðs og Nýbyggingaráðs og fær enn meira valdsvið. Ný fyrirtæki má ekki stofna né ráðast í stórar framkvæmdir, án leyfis ráðsins.“ (Sjá Tíminn 13. mars 1947:1).

 • Hilmar Þór

  Ég vil byrja á að þakka Magnúsi Karli fyrir sitt innlegg og þáttöku hans í þeim umræðum sem farið hafa hér fram um fyrirhugaða spítalabyggingu undanfarin misseri. Hans sjónarmið hafa alltaf hjálpað umræðunni og oft brúað bil milli þáttakenda í umræðunni að vissu marki.

  Ég hef saknað þess að ekki vera fleiri sem hlynntir eru byggingunum leggi hér orð í belg.

  Síðan er opin öllum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri um hvaðeina sem varðar arkitektúr, skipulag og staðarprýði, eins og kemur fram efst á síðunni. Sendið bara pistil með einhverri mynd og ég birti hann. Hann má helst ekki vera lengri en 350 orð.

  Varðandi hugtakið “verktakaskipulag” þá hélt ég að ég hefði skýrt það í upphafi færslunnar og bendi síðan á að skipulagsferlið varðandi Landspítalan hefur hagað sér á svipaðann hátt. Það kann að vera að það sé ósanngjarnt að kalla þetta verktakaskipulag. En þá væri e.t.v. hægt að kalla þetta “embættismannaskipulag”. En það er nýtt hugtak sem ekki er það algengt vandamál hér á landi að ástæða sé til þess að innleiða það í okkar ástkæra ylhýra….

 • Magnús Karl Magnússon

  Ekki skil ég hvernig hugtakið verktakaskipulag eigi við í þessu tilfelli. Það togast vissulega á hagsmunir í þessu risastóru máli, en ég hef ekki orðið var við að hagsmunir verktaka hafi þar ráðið miklu. Þarna eru miklu frekar hagsmunir Landspítala sem verið er að ræða um. Þrátt fyrir það virðist vera að helstu fjölmiðlamenn sem um málið ræða sé næstum fyrirmunað að ræða við stjórnendur þessarar mikilvægu stofnunar í íslensku samfélagi.
  Það er alveg ljóst að stefna spítalans, læknafélagsins og læknadeildar HÍ fara algerlega saman í þessu máli. Með þessu er ég ekki að segja að einvörðungu eigi að hlusta á þessa hagsmuni en þeir vega mjög mikið. Það er líka ljóst að á þessari lóð hefur verið sjúkrahús áratugum saman, það hefur verið áætlað skv. skipulagsplönum að hafa þarna sjúkrahús áfram. Þetta hefur verið stefna LSH, RVK og heilbrigðisyfirvalda nú í sennilega einn og hálfan áratug.
  Ég sé ekkert skipulagsslys í sjónmáli. Að þetta svæði þoli ekki 4-5 hæða byggingar þykir mér næsta skrítið.

 • Elín Sigurðardóttir

  Hjálmar gleymir alveg að minnast á Óskar Bergsson. Vondu verktakarnir geta ekkert gert án ágætu borgarfulltrúanna.

  http://www.visir.is/oskar-upplysi-um-tengsl-sin-vid-eykt/article/2009741223542

 • Þetta er svo dæmigert og svo sorglegt. Svona virðast fleiri mál hafa farið í gegnum kerfið undanfarna áratugi. Það merkilegast við þetta að það er eins og það sé engin í forsvari fyrir þessum framkvæmdum. Þetta vex og vex og verður einhvernveginn sjálfstætt fyrirbæri sem engin virðist geta stöðvað.

  Einhverra hluta vegna sjá Stjórnmálamenn og Borgarfulltrúar ekki ástæðu til að skipta sér of mikið af þessu máli, hvers vegna ætli það sé ? Er þetta eitthvað óþægilegt, er of mikill kostnaður kominn í verkið nú þegar að það væri pólitískt sjálfsmorð að reyna að stöðva þessa óáran ? Maður spyr sig hvaða gífurlegu hasgmuni er verið að verja með að koma þessu í gegnum kerfið.

  Það er megn óánægja með þetta verkefni, bæði innan heilbrigðisþjónustunar sem og útí samfélaginu. Samt virðist ekkert fá þetta stöðvað……hvað þá rætt að einhverri alvöru.

 • Pétur Örn Björnsson

  Guðmundur Hörður segir síðan:

  „Í þessu ljósi er eðlilegt að margir efist um ágæti framkvæmda við Háskólasjúkrahús.

  En málið mjatlar áfram í kerfinu án þess að almenningur nái almennilegum tökum á því. Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að skipulagi fyrir svæðið og eitt leiðir af öðru. Reykvíkingar fá að sitja fundi, spyrja spurninga og senda inn umsagnir og ábendingar. En umræðan verður aldrei leidd til lykta og einn daginn verður svo byrjað að byggja. Slík niðurstaða mun svo ala á enn frekari óánægju meðal almennings og draga úr trausti á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu – hinu lýðræðislega ferli.

  Augljós leið til að koma í veg fyrir þessa þróun mála og leiða umræðuna til lykta er að almenningur fái að kjósa um spítalann. Eðlilegast væri að borgarstjórn tæki ákvörðun um slíka íbúakosningu.“

  Eða er það til of mikils mælst að lýðræðislega kosnir fulltrúar láti svo lítið?

 • Pétur Örn Björnsson

  Guðmundur Hörður skrifar góðan bloggpistil um málið á dv.is
  Pistill hans með þessum raunsönnu orðum:

  „Fyrirhuguð bygging nýs Háskólasjúkrahúss er að verða eitt stærsta deiluefnið í samfélaginu. Í fréttum Rúv í gær fullyrti fyrrverandi formaður Arkitektafélags Íslands að spítalinn væri stórslys í uppsiglingu. Nýbyggingar á spítalareitnum yrðu sambærilegur að umfangi og allar byggingar í Fellahverfi og Mjódd.

  Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifaði nýverið pistil þar sem hann varaði við því að ríkið hæfi slíkar framkvæmdir í ljósi skulda ríkissjóðs sem nema nú 1660 milljörðum með meðfylgjandi 70 milljarða vaxtakostnaði á ári.

  Þá rakst ég á viðtal í síðasta Fréttatíma við ungan mann sem barist hefur við krabbamein í höfði og hefur því fengið að kynnast heilbrigðiskerfinu nánar en flest okkar. Hann hafði þetta að segja um fyrirhugaðan spítala:

  ,,Ég hef ekki hitt lækni sem er sammála því að byggja nýjan spítala. Það er hægt að gera margt sniðugra fyrir 100 milljarða plús.““

  Það er óþarfi að leggja út af þesum orðum, þau tjá ískaldan sannleikann.

 • Pétur Örn Björnsson

  Sammála drengilegum orðum þínum:

  „Aðalmálið er að finna leið út úr þessum ósköpum.“

  En skipulagsráð ber hina formlegu ábyrgð,
  ef af hinni „algjöru uppbyggingu“ verður, skv. „skipulagi auðnarinnar“.

 • Gunnar Jónsson

  Hlýfum Hjálmari. Hann er einn sá traustasti í skipulagsráði. Aðalmálið er að finna leið út úr þessum ósköpum.

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Takk fyrir þennan pistil Hilmar. Ég held að flestir sem til þekkja geti tekið undir þessa greiningu þína á stöðu skipulagsmála í Reykjavík. Þetta hefur verið svona lengi en á síðasta áratug voru möguleikar til að sinna græðginni svo miklu meiri en áður þekktist að sárin verða meira áberandi.

  Þakka þér líka fyrir tengilinn á grein Hjálmars Sveinssonar sem ég hef ekki lesið áður. Greinin er gagnmerk, heimildarvinnan góð og innsæi með ágætum eins og við (eigum) áttum að venjast hjá Hjálmari. Ég er sammála öllu sem hann skrifar þarna, bæði orðavali og inntaki.

  Nú bregður svo við að mér finnst Hjálmar hafa allt aðra skoðun en þarna kemur fram. Ég hef ekki enn svarað á prenti greinum sem Hjálmar hefur skrifað undanfarið um skipulagsmál. Í huganum hef ég hinsvegar svarað þeim oft og mörgu sinnum og undrast að þær skuli renna úr penna Hjálmars því ég hef um langan tíma sótt bæði fróðleik og ánægju í pistla hans á prenti og í útvarpi. Undrun mín er enn meiri eftir lestur þessarar greinar. Hvað er það sem skilur svona á milli núna þar sem áður (2009) var samhugur?

 • Pétur Örn Björnsson

  Með orðum Hjálmars Sveinssonar í grein hans í TMM í byrjun árs 2009, um ma. uppbyggingu Höfðatorgsreits, skal nú, varðandi LSH, fylgt sömu stefnu,
  nú þegar hann er orðinn borgar- og skipulagsráðsfulltrúi Samfylkingarinnar:

  „Stefnu … hinnar algjöru uppbyggingar. Hún felur þá skoðun í sér að saga staðarins og byggingarhefðir, eða „andi Reykjavíkur“ svo vitnað sé í merka bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, skipti engu máli.“

  Hverju svarar Hjálmar … sjálfum sér?

  Um „hina algjöru uppbyggingu“ í „skipulagi auðnarinnar“.

 • Guðrún Bryndís

  Í bréfi með yfirskriftinni: ‘Nýr Landspítali Háskólasjúkrahús – nýtt deiliskipulag’ ‘Viðbrögð skipulagsyfirvalda við athugasemdum og ábendingum frá hagsmunaaðilum eftir opinn kynningarfund þann 31. ágúst á Háskólatorg.’
  kemur m.a. fram að markmiðið er að byggja upp nútímalegan háskólaspítala sem hefur burði sem slíkur hvað varðar þekkingu fyrir nær öll þau sjúkdómstilfelli sem að höndum ber.

  Þarfagreiningarhópar spítalans (200-300 starfsmenn) hafa væntanlega byggt sína þarfagreiningu á því að allir verði meðhöndlaðir á Íslandi í framtíðinni og lagt fram tillögur um hvaða aðstöðu og tækjabúnaður er nauðsynlegur til þess að það sé hægt. Þessi þarfagreining á meira líkt við ‘brain-storming’ heldur en raunverulega þarfagreiningu og því hefur verkefnið þanist út í algjöru stjórnleysi. Því þarfagreiningin byggir á óskalista þeirra sem ákveða hvaða starfsemi á að byggja utanum, þessi þarfagreining hefur aldrei verið rýnd með tilliti til þeirrar starfsemi sem þarf að vera í húsinu, hvaða starfsemi getur verið annarsstaðar (úthýst úr LSH) og mönnunaráætlunar eða kostnaðar.

  Þetta verkefni ber öll einkenni ‘metnaðar’ embættismanna, sem virðast ekki gera sér grein fyrir því að heilbrigðiskerfið er viðkvæmt fyrir öllum breytingum, en spítalinn á að veita öllum landsmönnum alla þjónustu – þannig að er gert ráð fyrir að sú þjónusta sem nú er í spítölum úti á landi og einkareknum stofum flytjist á Hringbraut. Það á s.s. að byggja húsnæði í nýjum landspítala þar sem aðstaða er ekki fyrir hendi og tæma það húsnæðis sem hefur sinnt þjónustunni hingað til.

  Jaðaráhrifin vegna þessara áforma eru flókin og hafa ekki verið metin, þar kemur ferðalög um þriðjungar þjóðarinnar sem búa úti á landi (þar sem þjónusta verður aflögð), umferðarvandamál – ef samgönguáætlun borgar og LSH gengur ekki eftir, umferðarteppur á öllum helstu stofnbrautum borgarinnar, mengun vegna umferðar ofl.

  Þegar svona stór ákvörðun er tekin, nægir ekki að leggja nokkra spurningalista fyrir starfsmenn og sjúklinga, eða að byggja ‘sparnað’ gagnrýnislaust frá verkkaupa – þ.e. stærsta ríkisfyrirtæki landsins. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust að gera enn eina tilraunina á borginni með því að byggja ofurmannvirki (mega-structure) á þessum aðþrengda stað og sjá hvað gerist.

  Það er hætt við að það bætist enn eitt borgarskrímslið við borgarmyndina ef þessi áform verða að veruleika.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn