Mánudagur 01.11.2010 - 23:23 - 7 ummæli

Hús á hvolfi

Ég var í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þar var þessi bygging á vegi mínum. Þetta er stór klassisk bygging. Virðulegt hús sem er hannað á grundveli gamalla viðurkenndra hefða.

Á einum stað brýtur húsið hefðirnar sem gerir það einstakt og vekur á sér athygli.

Húsið er á hvolfi.

Það er eins og það hafi fallið af himnum ofan og lent þarna á götuhorni. Það hefur lent utan í einnar hæðar múrsteinsbyggingu sem hefur skaðast lítillega. Smásprungur hafa komið í bygginguna en engar rúður virðast hafa brotnað. Með húsinu er hluti af götubúnaði á borð við ruslafötur, bekki, ljósastaura, póstkassa, pálmatré o.þ.h. Líka á hvorfi.

Þetta er eins og áður segir hús sem byggir á hefðum. Þakið hefur þetta form af vissum ástæðum. Hallinn á valmaþakinu er einnig rökstuddur. Sama á við um bjórana yfir gluggum(nú undir) o.s.frv.

En þarna er öllu bókstaflega snúið á hvolf.

Og þá vaknar spurningin:  Er þetta byggingarlist?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Ég er sammála því að þetta sé brandari. En þetta er líka gífurleg ögrun. Svo mikil ögrun að maður verður hálf önungur útí arkitektinn og eigandann. Hverslags fólk gerir eiginlega svona? Skemmtilegt.

  • Þorsteinn G.

    Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta getur ekki flokkast undir arkitektúr. Þetta er augljóslega auglýsing eins og Ólafur bendir á. Gallinn við auglýsinguna er sá að það liggur ekki í augum uppi hvað er verið að auglýsa.

    En ég verð að segja að þetta er skemmtilegt á vissan hátt. Stór brandari kannski eins og Árni nefnir. Gallinn við brandara er sá að þá vill maður helst ekki heyra oftar en einu sinni.

    En Guð forði mér frá því að hafa svona “in my back yard”

  • Er þetta ekki umgjörð um rekstur frekar en yfirlýsing í arkitektúr?
    http://www.wonderworksonline.com/

    Annars eru fleiri sérstök hús þarna í Orlando.
    http://www.agilitynut.com/mim/upside.html

  • Árni Ólafsson

    Húmor í byggingarlist er sjaldgæfur. Það eru til óteljandi læknabrandarar og prestaskrítlur. En aðeins ein ferskeytla um arkitekta á íslensku. Og sorgarsögurnar í íslenskri byggingarlist eru hugsanlega fleiri en gleðiefnin. Þetta hús yrði væntanlega ekkert verra en gengur og gerist sums staðar hérlendis!

  • Takk Hilmar – eru íbúarnir með Konráðs gæðaklístur (sbr. Lína Langsokkur)?
    Þetta flokkast sjálfsagt undir auglýsingaskilti. Eins og skæralyfturnar við útjaðra Reykjavíkur.

    Þótt Florida sé ekki allra á hún líka sínar góðu hliðar.
    http://goflorida.about.com/cs/saintaugustine/a/aa080700a.htm

    ps: ég vissi ekki að þú spilaðir golf!

  • Jú ég hef séð þetta einmitt í flatneskjunni þarna Florida. Ég hef komið þarna og séð þetta. Það er óvenjulega mikil flatneskja í allri húsahönnun þarna suðurfrá. Það ætti að vera óþarfi að vera með svona kjánalæti til þess eins að láta taka eftir sér.

    Það væri gaman að sjá skipulagsskilmálana. Sennilega eru þeir ekki til. Það er sennilega ástæðan fyrir hvað þetta er allt dapurt þarna.

    Veðrið, golfvellirnir og sæmilegt gengi á dollar veldur því að einhver nennir að heimsækja Florida. Svo eru það garðarnir, Wet &Wild, Disney o.þ.h. Restin er rusl.

  • Uppskriftir

    Er þetta ekki í Flórída?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn