Sunnudagur 24.02.2013 - 12:02 - 8 ummæli

Húsnæðisvandi Landspítalans – Önnur nálgun

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræði á Landspítala og prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild H.Í hefur sent eftirfarandi grein til birtingar á síðunni. Hér koma áhugaverð sjónarmið fram, sem varða uppbyggingu og skipulag á landspítalalóð.  Það hefur vakið athygli hversu lítið aðrir kostir um endurnýjun húsakosts Landspítalans hafa verið ræddir á opinberum vetvangi. Á þetta bæði við um staðsetningu og húsrýmisáætlun.  Hér er farið faglega yfir málið af þekkingu og metnaði.  Fróðlegt væri að fá við þessu viðbrögð. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. feb. 2013.

Gefum Páli orðið.:

Á Landspítala eru veikustu sjúklingar Íslands í verstu sjúkrastofum landsins. Núverandi húsnæði kemur í veg fyrir nauðsynlega samþættingu starfseminnar auk þess að vera heilsuspillandi fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Tækjabúnaður er úr sér genginn og ófullnægjandi. Laun heilbrigðisstarfsmanna eru þar lægst á Íslandi – og er þá ekki borið saman við löndin í kringum okkur.

Risavaxnar hugmyndir

Allt eru þetta brýn viðfangsefni; launamál, tækjaskortur og húsnæðismál spítalans. Fjárskortur kallar á ítrustu hagsýni. Ódýrast og raunhæfast er að halda við og nýta gömlu húsin við Hringbraut (um 60.000 m2) en reisa jafnframt viðbyggingar. Forsenda staðarvalsins er ekki síst nýting gömlu húsanna.

Í vímu fyrirhrunsáranna var hins vegar hannað nýtt sjúkrahús frá grunni við Hringbraut, risavaxin nýbygging (135.000 m2) neðan gömlu Hringbrautar frá Umferðarmiðstöð að Snorrabraut. Eftir hrun, þegar stjórnvöld slógu nýbyggingunni á frest, fékk Hulda Gunnlaugsdóttir þó stuðning við byggingu minna bráðaþjónustuhúss við Hringbraut, c.a. 60-70.000 m2.  Hefði spítalinn þá haft 120-130.000 m2 til afnota að meðtöldum gömlu húsunum. Það er þriðjungs aukning miðað við húsnæði á Hringbraut og í Fossvogi í dag. Samt var haldið áfram að hanna risabyggingar eins og ekkert hrun hefði orðið, mestmegnis á neðri torfunni neðan við gömlu Hringbraut, þ.e. svokallað SPITAL deiliskipulag (samtals um 220.000  m2 nýrra fermetra í tveimur áföngum í viðbót við það sem fyrir er á lóðinni). Ekkert tillit var tekið til forsagnar Reykjavíkurborgar. Ýmsir telja SPITAL hugmyndina vera miklu stærri heldur en starfsemin þarfnist næstu árin og nægir að benda þar á www.nyrlandspitali.com.  Á móti er sagt að verið sé að hanna til miklu lengri tíma, en leyfir staða þjóðarbúsins það? Kærir framtíðin sig um það?

Ásýnd Þingholtanna

Staðsetning og umfang SPITAL tillögunnar er með þeim hætti, að gömlu húsin (60.000 m2) munu nýtast illa. Þegar báðir áfangarnir hafa verið byggðir verða svo lítil not af gömlu húsunum. Og hvers vegna þá staðarvalið? Mikill ásýndarskaði verður að auki á Þingholtunum og hið glæsilega gamla spítalahús hverfur sjónum. Hver myndi reisa stórhýsi beint framan við Alþingishúsið og Dómkirkjuna? Meirihluti Reykvíkinga virðist ekki vera hrifinn að SPITAL tillögunni, sem skipulagsráð borgarinnar hefur þó samþykkt. Eftir stendur, að engin fjármögnun er í sjónmáli til svo stórra framkvæmda. Á sama tíma ganga tæki spítalans úr sér svo efna verður til almennra samskota honum til stuðnings og starfsemin er í uppnámi vegna slæmra kjara starfsfólks.

Það verður að byggja

Hvað er til ráða í húsnæðismálum spítalans? Fjármunir eru takmarkaðir en Landspítali hlýtur að forgangsraðast ofar t.d. Vaðlaheiðargöngum og jafnvel ofar fangelsi þegar takmörkuðu fjármagni ríkisins er skipt. Í ljósi breyttra aðstæðna og fjárskorts tel ég rétt að benda enn einu sinni á valkost sem ég hef ásamt Magnúsi Skúlasyni arkitekt sett fram og kynnt í ræðu og riti. Tillaga okkar er u.þ.b. 60-70.000 m2 stækkun spítalans á efri torfunni fyrir ofan gömlu Hringbrautina, mest þar sem Hjúkrunarskólinn stendur nú. Byggð yrðu um fjögurra hæða hús auk kjallara með praktískum tengingum milli húsa. Sú stækkun er á við tvo Borgarspítala.  Stækkunina má gera í áföngum. Miðja starfseminnar yrði bráðaþjónustuhús. Hugmynd þessi hlaut jákvæð viðbrögð hjá íbúasamtökum miðborgarinnar ólíkt SPITAL skipulaginu. Í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem upphaflega tók hugmyndinni vel, var henni síðar rutt af borðinu af höfundum SPITAL tillögunnar, sem beðnir voru um álit á henni þrátt fyrir augljósa hagsmunaárekstra. Hún hefur ekki verið skoðuð nánar svo höfundum hennar sé kunnugt um, allavega ekki af óvilhöllum aðilum.

Spítalinn og Hjúkrunarskólinn standa nú á efri torfunni ofan við gömlu Hringbrautina. Aðeins læknadeildarhúsið er á neðri lóðinni. Verulegur hæðarmunur er á efri- og neðri torfunni en það gerir tengingar við gömlu húsin erfiðar sé byggt á neðri lóð. Verði hins vegar byggt á efri torfunni (ofan gömlu Hringbrautar) eins og tillaga okkar gerir ráð fyrir er auðvelt að áfangaskipta verkefninu. Þannig má í senn ráðstafa fé til brýnna tækjakaupa og reisa fyrst þau hús, sem bráðasta þörfin er fyrir með góðri tengingu á öllum hæðum við gömlu húsin, sem munu nýtast vel áfram. Litir eru notaðir til að skýra áfangana á meðfylgjandi skýringarmynd:

  • ÁfangI 1 (svartur): Bygging bráðaþjónustuhúss, legudeilda, rannsóknastofuhúss, OG STÆKKUN “LÆKNAGARÐS.  Öll bílastæði starfsmanna flytjist á neðri torfuna og Læknagarður verði stækkaður til að taka við námsbraut í hjúkrun. Gamli Hjúkrunarskólinn/Eirberg verði rifin og bráðaþjónustuhús byggt þar. Í bráðaþjónustuhúsi verði a.m.k. bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur og gjörgæslur. Byggð verði stækkanleg álma til suðurs með einni legudeildarálmu í fyrstu (8 nýjum legudeildum). Í stækkuðu rannsóknastofuhúsi (K byggingu, teikning er til) verði auk núverandi miðlægrar kjarnarannsóknastofu (klíniskrar lífefnafræði og blóðmeinafræði), sýklafræði, veirufræði, ónæmisfræði, blóðbanki og líffærameinafræði. Tengibygging verði við CD álmu milli bráðaþjónustuhúss og kvennadeildar.
  • Áfangi 2 (rauður): LEGUDEILDIR:  Stækkun suðurálmu með tveim nýjum legudeildarálmum.
  • Áfangi 3 (grænn): til SEINNI TÍMA. Seinna mætti byggja í norður frá kvennadeild og í norður frá bráðaþjónustuhúsi og sunnan geðdeildarbyggingar.

Lokaorð:  Allt fé til spítalans er fengið úr ríkissjóði. Byggingarkostnaður, fé til tækjakaupa og launagreiðslna kemur allt úr vasa skattgreiðenda. Með því að byggja minna  og í smærri áföngum heldur en núverandi áætlanir gera ráð fyrir má ná öllum aðalmarkmiðum framkvæmdanna til næstu áratuga. Sá sparnaður sem næst gefur gefur svigrúm til að tryggja endurnýjun tækja og rétta hlut starfsfólks. Því er þessi tillaga endurtekin og sýnd í hugsanlegum áföngum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Pétur Örn Björnsson

    Miðað við hátækni-brjálæðið þá er þetta eins og hósíanna og hallelúja.

    Ef um þetta gæti nást sátt og út frá þessu skipulagi yrði unnið,
    þá skal ég lofa að vera með prúðari mönnum héðan í frá,

    svo hjálpi mér 10 puttar á á leiðinni upp.

  • Er þetta ekki lykilatriðið sem einnig er í samræmi við sjónarmið hinnar hagsýnu húsmóður:

    „Með því að byggja minna og í smærri áföngum heldur en núverandi áætlanir gera ráð fyrir má ná öllum aðalmarkmiðum framkvæmdanna til næstu áratuga. Sá sparnaður sem næst gefur gefur svigrúm til að tryggja endurnýjun tækja og rétta hlut starfsfólks“.

    Núverandi áætlanir eru metnaðarfullar og góðar séðar af kögunarhól ársins 2007

  • Torfi Hjartarson

    Er ekki einhver fyrsti áfangi skv. núgildandi deiliskipulagi sem hægt er að byrja á? Deiliskipulag er ekki mótað í stein og því er hægt að breyta, sérstaklega ef það er þjakað af stórmennskubrjálæði. Mörgum er nefnilega meira umhugað um ástand sjúklinga og heilbrigðismála heldur en mögulegar skemmdir á ásýnd Þingholtanna skv. einhverjum framtíðarskýjaborgum. Það er ekki nóg með arkitektar séu stöðugt að rífast um þetta venju skv. heldur eru þeir búnir að draga læknana í þetta. Á meðan blæðir sjúklingum út í húsnæði sem hvorki boðlegt fyrir þá eða starfsmenn.

    • „draga lækna inn í þetta“….. Hverslags málflutningur er þetta. Málið er að fagmenn þora ekki að tjá sig um þetta á opinberum vettvangi. þetta á sérstaklega við um arkitekta og lækna. Það ber að fagna hverri nýrri rödd í umræðunni og hafna svona þöggunnaráráttu eins og kemur fram hér

      Til upplýsingar er fyrsti áfangi í gildandi deiliskipulagi um 60 þúsund fermetrar!!!!!

    • Torfi Hjartarson

      Einar: Ég sem ég hélt að ég ný rödd í umræðunni sem bæri að fagna. Mér sýnist þú nú frekar vera með þöggunartilburði og fullyrðingar sem ekki standast. Getur þú rökstutt frekar þær fullyrðingar þínar að fagmenn þori ekki að tjá sig um þetta á opinberum vettvangi? Getur ekki eins verið að fagmenn séu almennt sáttir við tillögurnar enda væntanlega búið ræða við heilbrigðisstarfsfólk á öllum deildum sjúkrahúsanna um þarfir starfseminnar? Það er mikil einföldun að skilgreina allar áætlanir sem gerðar voru fyrir 2008 óraunhæfar, ekki síst ef þær fela í sér spár um þróun heilbrigðismála. Það er líka dýrt að hugsa bara til skamms tíma þó við eigum við tímabundna erfiðleika að etja. En krónurnar í buddunni hljóta alltaf að ráða því hvað mikið er byggt á hverjum á tíma og á meðan ekkert er byggt en bara rifist þá gjalda sjúklingar fyrir aðgerðaleysið.

  • Sigurbjörn

    Hér er stakkur sniðinn að vexti, áfangaskipting sem hægt er að ráða við, samhljómur er við umhverfið og gömlu húsin nytast fullkomlega. „Go for it“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn