Mánudagur 25.02.2013 - 10:10 - 9 ummæli

Louis I. Kahn og söngvar víðisins.

 

 

 

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt hefur sent síðunni fróðlega og skemmtilega grein um hinn merka arkitekt Louis I. Kahn. Fyrir dyrum stendur að opna merkilega sýningu á verkum hans í Vitra safninu og mun hún fara víða í framhaldinu. Gunnlaugur lauk námi í arkitektúr frá Universitat Fridericiana í Karlsrue í Þýskalandi árið 1971 0g hefur starfað þar í landi að mestu síðan. Hann hefur rekið eigin arkitektastofu í Siegen síðan 1990 og stundað kennslustörf samhliða.

Louis I. Kahn og söngvar víðisins.

Á seinni hluta hluta tuttugustu aldar og fram að heimskreppunni árið 2008, hafði hagvöxtur  í för með sér, að borgir og mannvirki þöndust hratt út og að því virðist, endalaust. Með álíka hraða víxluðust auðkenni þeirra frá einum stað til annars , þar sem einkenni mannvirkja var flutt á milli staða með endurtekningum og endursköpun. Vissulega komu fram fjölmargar góðar hugmyndir að mannvirkum sem líta á sem góðar fyrirmyndir, en mikilvægir eiginleikar eins og táknrænt hlutverk mannvirkja hurfu svo til alveg í skuggann eða gleymdust. Eftir að heimskreppan reið yfir hafa menn eins og arkitektinn Louis I. Kahn (1901-1974), verið dregnir fram í sviðsljósið líkt og opinberun um að tuttugasta öldin á til mannvirki sem vinna með táknræna eiginleika rýmis, efnis og inntaks líkt og finna má í  eldri tímabilum sögunnar.   

My Architecht.

Árið 2004 sló heimildamynd  Nathaniel Kahn í gegn á alþjóðlegum vetvangi og má segja að sé byrjunin á „endurfæðingu“ arkitektsins, Louis I. Kahn. Myndin fjallar um föður Nathaniel, Loius Khan, ævi hans og störf. Tveir þræðir eru megin uppistaða myndarinnar, annars vegar leit Kahns sem arkitekt að  „ fullkomnum“ verkum, og er tilbúinn til að fórna miklu í þeirri leit,  og svo leit sonar að föður, sem er gagnrýninn á fjarlægan föður en sú skoðun umbreytist að lokum í skilning á fórnarlund föður hans fyrir starfið.

Vitra Design safnið setur Kahn á svið

Næsta sumar mun Vitra Design safnið í Weil am Rhein, nálægt Basel, setja upp stóra yfirlitsýningu á verkum Kahn. En sýningin er fyrsta kynning verka hans með jafn yfirgripsmiklum hætti. Í framhaldi af uppsetningunni í Basel, mun sýningin ferðast víða um Evrópu og hafa meðal annars hafa viðkomu í Þjóðminjasafninu í Osló. Fyrirtækið Vitra framleiðir húsgögn í miklum gæðaflokki og hefur yfir að ráða höfundarétt hönnuða á borð við  Eames eða Noguchi.  Frammúrstefnuhönnuðir  hafa byggt upp margbrotinn húsakost fyirtækisins og má segja að þannig sé hægt að upplifa þversnið af fyrsta flokks hönnun síðari ára.

Hver var Louis I. Kahn?

Kahn er fæddur í Eistland. Hann flytur fimm ára gamall með foreldrum sínum til Fíladelfíu í USA og verður síðar bandarískur ríkisborgari . Foreldra hans voru dæmigerðir þýskumælandi  og  velmenntaðir Gyðingar. Móðir hans var hljóðfæraleikari og af hinni þekktu ætt tónlistarmanna Mendelsohn. Faðir hans handverksmaður og talað fjölda tungumála. Kahn erfði eiginleika foreldra og er ungur að árum jafnhæfur sem margverðlaunaður teiknari og píanóleikari í  kvikmyndahúsum. Skömmu eftir að hann lýkur námi í arkitektúr skellur heimskreppan á árið 1928. Kahn leggur um þær mundir upp í rúmlega ársferð um Evrópu, rannsakandi og teiknandi líkt og franski arkitektinn Le Corbusier gerði í  sinni frægu „Voyage d Orient“. Segja má að Kahn finni í þessari ferð þann tón sem átti eftir að einkenna viðhorf og verk til arkitektúrs alla æfi.   Það er hins vegar ekki fyrr en seinna sem hann verður staðfastur í þeirri sýn sem hann hafði til arkitektúrs og var það eftir dvöl sína á Róm árið 1950.

Rómarborg og saga hennar víkkar meðvitund hans með þeim hætti að hann veit fyrst nú hvernig hann vill vinna. Hann vildi hafna blóðlausum modernisma eftirstríðsáranna og upphefja í staðinn form sem fyllt eru tímalausum og táknrænum krafti. Á síðustu tveim áratugum ævi sinnar fær Kahn tækifæri til að vinna eingöngu að verkum sem voru hans eigin.  Er óhætt að segja að það sem eftir hann liggur frá því tímabili hafi  mikla reisn og eru tákn fyrir ákveðinn stað. Sem dæmi má nefna þinghúsið í  Pakistan. Kahn skapaði  fersk  tilbrigði af frummyndum sígildra bygginga og uppruna miðjaðarhafsmenningarinnar og tvinnar  saman  nútímann og  klassíska arfleið á mjög frumlegan og persónulegan hátt.

  Sagan, samfélagið, náttúran.

Kahn bendir á að saga ,samfélag og náttúra þurfa að haldast í hendur og geti ekki staðið einar og sér ef væntingar um góð borgar og húsrými eiga að verða að veruleika. Þetta sjónarmið vill hins vegar oft gleymast í dag,  því  sviplík  mannvirki spretta upp út um allan heim, sem oftar en ekki eru óháð staðareinkennum.  Vinnuaðferðir Kahn byggja á því að hann leitar til  frummynda í byggingarlist og með aðstoð grunnforma tekst að hanna mannvirki „óháð“ stíleinkennum sögunnar. Grískar heimspekihugsanir um táknræn form og form náttúrunnar mynda undirstöðu í sköpunum hans. Fyrsta dæmi um slíka hugsun birtist í litlu verki sem byggt var í bandaríkjunum árið 1955 og kallast  Trenton Bath House. Húsið eru fjórir  þaklæddir ferhyrningar sem mynda „grískan kross“ með opna miðju. Rýmið í miðjunni gegnir félagslegu hlutverki. Hápunktur og um leið lokaverk Kahns er hins vegar þinghúsið,  ásamt öðrum opiberum stofnunum,  í Dhaka í Banglades. Húsið var vígt árið 1983. Þinghúsið er án efa ein óvenjulegasta bygging sem reist hefur verið  á tuttugustu öld, meðal annars vegna þess að Kahn reisir útveggi sem eru óháðir innri notkun. Hér fær hugmynd hans um „leik ljós og skugga“ að njóta sín til fulls.  Yfirleitt eru byggingar Khans  opnar fyrir nýjum þróunum í samfélaginu og  geta „vaxið“ og  minnkað eftir þörfum án þess að missa einkenni og persónuleika sinn. Skipun rýma eftir einstökum hlutverkum myndar oft „miðju“, sem hefur félagslegu hlutverk að gegna  og líkja má við samkomurými. Verk Kahn eru þróuð  fyrir ákveðinn stað með áherslum sem skapast fyrst og fremst út frá umhverfiseinkennum, náttúru, veðurfarslegum þáttum eða þyngdarafls jarðar. En í meðförum hans  verður natura naturans, hin skapandi náttúra , að  natura naturata,s köpuð náttúra. Þannig eru t.d. byggingar á Indlandi eða í Dhaka klæddar veggjum, sem hafa það hlutverk að brjóta  sólargeisla  eða nota vindhreyfingar til kælinga.

 Kraftur Kahns

Hvernig verður sú geislun til, sem byggingar Kahns gefa frá sér?  Það eru einkum þrjár meginhugsanir,sem mynda grunninn. Fyrsta atriðið erð rými. Meginatriði góðra bygginga er alltaf rýmið: leyndardómsfullt og, óskýranlegt. Um rými er endalaust rætt, vegna þess að „we never know what space is“ eins og Kahn sagði. Markaðurinn er fullur af rými úr allskonar gerviplötum úr þunnum steini, blikki og ýmsu öðru. Kahn minnir okkur hins vegar á, að „hrein“ efni ,líkt og  járnbent steypa eða tígulsteinn mynda sannfærandi undirstöðu rýmis, því að ekkert er falið, allt er borið fram á náttúrulegan hátt.  Annað atriðið er massi.

Tuttugasta öldin vildi fyrst og fremst byggingar úr þunnum veggjum, ekki síst  glerveggjum sem slitu oftast öll tengsl við sögu og vöxt borga. En innirými  er eitthvað annað enn útirými og hversvegna á að að sleppa því sem er eðlileg tillfinning öryggis: massa steina og annara náttúrulegra efna? Kahn er fyrstur til að uppgötva aftur massa og mismuninn á  inni og útirými, hlutir,sem í sjálfu sér eru eðlilegir. Þriðja og síðasta atriðið eru svo Ljós og skuggar.

Kahn sagði eitt sinn að „sólin vissi fyrst hvað hún er stórkostleg þegar hún skein á vegg“ og hannaði veggi, sem undirstöður fyrir ljós og skugga. En hann leit svo á að með þeim hætti væri verið að byrja leik, sem væri lifandi og sýndi hvernig arkitektúr verður að vera í manneskjulegum hlutföllum.  Í innirými myndast líf einnig þegar sólarljós leikur um veggi þess, en að mati Khans getur rafmagnsljósadýrð nútímans aldrei keppt við sólina. Þetta sjónarhorn vinnu með massanum og gerir hann  lifandi og ýtir undir þá orku sem geislar af byggingum Kahns og á stóran þátt í að gera jafn eftirtektarverðar og þær eru í dag.

Í gömlu kínversku ljóði er ráðlagt  að leika ekki tónlist eldri valdhafa heldur að leika söngva víðsins, því þannig næst fram hátíðleiki, virðuleiki og listfengni þess, sem byggt er dag.   Er óhætt að heimfæra þau orð yfir á lífsstarf Louis I. Kahn.

Heimildir:

Louis Kahn:The Power of Architecture, Vitra designMuseum 2012.

Nýjustu skoðanir fagmanna um Kahn.  .

My Architect,USA 2003.

Einstök, ljóðræn, margverðlaunuð heimildamynd Nathaniel Kahn, son arkitektsins, m.a  „Best Documentary Feature“  Oscartilnefning 2004.

The Rome Letters.Rizzoli N. Y. 1997

Faglegt og persónulegt bréfasamband arkitektsins við Anne Tyng,  samstarfs og ástkonu hans um árabil. 

Færslunni fylgja ljósmyndir af nokkrum verka Kahn ásamt einni fríhendisteikningu meistarans.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Til að sannfærast,Guðlaugur Gauti,skaltu kynna þér:
    Yale Art Gallery:
    tæplega hægt að fella nýbyggingu „frumlegra“ og um leið betur að gamalli byggingu !
    Spurningunni „hvað er rétt?“ á ákveðnum stað er svarað!
    eða:
    Fischer House,PA:
    brilliant túkun á bandarískri „hefð“einbýlishúsa!
    Frábær ljósmyndabók Y. Saito (nýlega í 6. útgáfu!) gefur sýn á einstaklingshúsagerð Kahn („öryggi og notanlegt líðan“ !).
    Meðfylgjandi myndir gefa sýn á allt önnur viðfangsefni.

  • Hvað þýðir hugtakið fallegur og getur flottur arkitektúr verið ljótur? Mér finnst æ meir að fallegt hafi með líðan að gera. Það sé fallegt sem veitir manni öryggi og notalega líðan. Flottur, stórfenglegur og eftirtektarverður þarf ekki að gera það. Myndirnar hér að ofan eru af framandi hlutum í mælikvarða sem er langt fyrir utan og ofan það sem maður skynjar sem hluta af nærumhvefi sínu. Þessi form eru ógnandi og vekja óöryggi. En eru þau flottur arkitekúr?

  • Hilmar Þór

    Þú vekur þarna athygli á áhugaverðu efni Guðrún.

    Ég tek líka eftir að Botta lætur aldrei umhverfið vera með á myndum eða teikningum af húsum sínum. Hann var heldur ekki að velta fyrir sér staðaranda.

    Munurinn er kannski aðalega sá að á seinni árum var Kahn mest að teikna opinberar byggingar sem kannski áttu einmitt að setja einkenni á staðinn og þá leggja til staðarandans meðan Botta var að teikna lítil hús fyrir einstaklinga sem áttu kannski frekar að lúta staðarandanum í einhverri hógværð í stað þess að stinga í stúf við staðarandann með einhverjum formalisma.

    Svo er það V.F. að ofan. Þar er líka tekið á einhverju sem vert er að hugsa um þegar Kahn er annarsvegar. Það er fólkið og lífið milli húsanna.

    Ég er ekki viss um hvort félagarnir á Vandkunsten séu sérstaklega uppnumdir af Kahn!!.

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Það er mjög fróðlegt að skoða Kahn út frá þróun hans og þroska. Það sem flestir þekkja sem stíleinkenni hans birtist fyrst á efri árum og hann er sífellt að þróast. Sambærilega þróun þykir mér hafa mátt sjá hjá meistara Manfreð sem var trúr sínu en kom sífellt með nýjar og ferskar nálganir þótt kjarninn væri sá sami. Þessi þroski og þróun er nokkuð sem manni finnst fá litla athygli í dag þegar „stjörnuarkitektar“ virðast vera málið….

    Hins vegar má velta fyrir sér hversu vel Kahn tengdist staðaranda. Hann byggir byggingar sínar á grunnformum, samskiptum manna og þekktum mótífum úr rómverskri byggingarlist. Sem slík standa húsin hans sterk og sviphrein ein og sér en það má spyrja sig hvort þar sjáist tenging við menningu staðarins… s.s. í USA þar sem meirihluti bygginga hans reis. Ég hef þrátt fyrir leit i eigin bókasafni ekki fundið eitt dæmi um byggingu Kahn sem sambyggð er öðrum byggingum eða stendur í miklu nábýli innan þéttbýlis. Er hann því e.t.v. í raun dæmi um „stjörnuarkitekt“ sem með skýrum höfundareinkennum myndar tákn á þeim stað þar sem byggingar hans rísa ?…. bara smá hugleiðing í amstri dagsins….

  • Eins og ég þekki söguna um Kahn, þá varð hann ekki framúrskarandi fyrr en undir lok starfsævi sinnar, eins og fram kemur í textanum. Hann var eiginlega svokallaður „late bloomer.“ Hann var ekki maður margra orða og strögglaði í einkalífinu eins og margir stjörnuarkitektar. Hann bar andlitslýti/brunasár og var stór og grófur maður með sterka nærveru.

    Byggingar hans eru þungar og massífar og miðla ljósinu á markvissan hátt.

    Hvernig hefði Kahn klárað sig í miðbæ Reykjavíkur ?

  • Hvað ætli Gehl segi um þetta?. Sennilega mundi hann spyrja; Hvar er allt fólkip sem á að vera milli húsanna?

    Fallegt er þetta, en er ekki mjó lína þarna milli arkitektúrs og höggmyndlistar?

  • Guðsteinn

    Sterk höfundareinkenni

    Sterk konsept

    Sterkt efnisval

    Sterk form

    Lipulega skrifað

    Frábær vefur

    Allir sem mótuð nútíma byggingalist eru dánir. Síðasti modernistinn var Niemeyer.

    Hvað er merkilegt að gerast sem skiptir máli í byggingalistinni eftir aldamót?

    Eru einhverjir leiðtogar á heimsvísu eða staðbundið einhversstaðar?

    Manni fallast hendur við að lesa þetta um Kahn og skoða myndirnar.

    Það er búið að klára byggingalistina. Nú er bara eftir viðskiptahlutinn í rekstri teiknistofa eftir. Sköpunin er komin út í tómar eftirhermur. Engin frumsköpun lengur.

    Shit.

  • Stefán Benediktsson

    Ljós, skuggar, ljós, skuggar, ljós, skuggar……..Þjóðsögum ber ekki saman hve lengi Kahn hélt áfram með þennan tveggja orða fyrirlestur, hvort það voru 20 mínútur, hálftími eða full kennslustund, en fyrirlesturinn hét „Hvað er arkitektúr?“. Hann sýndi einnig myndir af verkum sínum og annarra. Þetta var fjandi kúl fyrir fimmtíu árum.

    • Hilmar Þór

      Já Stefán. Þetta hef ég heyrt og við vitum að án ljóss og skugga er enginn arkitektúr. Mér finnst þetta reyndar ennþá fjandi kúl. Svei mér þá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn