Föstudagur 04.01.2019 - 23:44 - 3 ummæli

Hvað sjá sjálfkeyrandi bílar?

Maðurinn hefur aðeins tvö augu og verður fyrir miklum truflandi áhrifum frá umhverfinu meðan hann ekur bíl sínum. Hann þarf að vera einbeittur við aksturinn. Ekki einu sinni tala í síma eða fikta í útvarpinu.

Sjálfkeyrandi bíllinn hefur 9-16 augu sem sjá og kortleggur allt umhverfið í mörg hundruð metra fjarlægð og skynjar allar hreyfingar úr langri fjarlægð. Bíllinn kortleggur allt sem hann sér og dregur lærdóm af öllu sem verður á vegi hans.  Hann sendir sína reynslu til annarra sjalfkeyrandi bíla sem færa upplýsingarnar inn í sinn gagnagrunn. Hann sér líka í myrkri.

Um það er deilt hvaða áhrif sjálfkeyrandi bílar munu hafa á ferðavenjur íbúa í borgum núna og í komandi framtíð.  Það má líka halda því fram að um þetta sé lítið vitað enda lítið kannað.

En eitt er víst að sjálfkeyrandi bílar eru komnir á göturnar víða og virka vel.  Að þessu sögðu er rétt að skipulagsyfirvöld borga vakni af djúpum svefni og láti vera af því að dreyma drauma sem eru í viðjum vanans og geri ráðstafanir til þess að taka á móti öllum þessum bílum sem eru að koma og eru komnir á göturnar víða.

Það er næsta víst að þessir bílar munu að óbreyttu ekki breyta miklu í umferðinni nema hvað varðar öryggi og að fólk verður fljótara á milli staða og líður betur á ferðalagi sínu. Deilibílakerfi með sjálfkeyrandi bílum geta hinsvegar breytt einhverju.

Líklegt er að þessir bílar munu nýtast vel í deilihagkerfinu. Þannig munu þeir samnýtast mörgum einstaklingum, jafnvel samtímis, og líklega fækka bílum á götunum. Þeir munu draga verulega úr þörfum fyrir bílastæði og gera það að verkum að ferðatíminn verður ekki leiðinlegur heldur skemmtilegur. Gæðatími verður til sem nota má til annarra hluta en að aka. Þarna er um að ræða félagsleg samskipti, heilsurækt og tími til lesturs eða til þess að vafra um á veraldarvefnum meðan farið er á milli staða „door to door“.

Þetta er tækni sem er komin og notuð víða um heim eins og i Ariziona i Bandaríkjumnum.

+++

Efst í færslunni er mynd af Waymo bifreið sem nú er í notkun í Phoenix Arizona þar sem að sögn þúsundir svona bíla hafa verið teknir í notkun. Svo strax að neðan er myndband sem sýnir hvað bíllinn sér á leið sinni.  Þetta kerfi krefst lítillar fjárfestingar í grunnstoðum borganna sem er mikilvægt þegar þetta er borið saman við kostnað við aðrar lausnir eins og Borgarlínu og framkvæmdum til þess að greiða einkabílnum leið þar sem einn farþegi situr í hverjum bíl í stað 6-8 í hverjum deilibíl.

Ég mæli sterklega með því að lesendur horfi á myndbandið að neðan sem tekur um þrjár mínútur.

+++

Að lokum vil ég að það komi skýrt fram að síðuhaldari er fylgjandi Borgarlínu meðan önnur markmið eru ekki á dagskrá. Og eitt er víst að einkabíllinn eins og við þekkjum hann hentar illa sem aðalsamgöngutæki í borgum. En er ekki tilefni til þess að skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins geri djúpa og faglega úttekt á þessum kosti fyrir höfuðborgarsvæðið sem er því miður skipulagt á grundvelli einkabílsins svipað og margar borgir vestanhafs.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Jón Bjarnason.

    Þegar hugsað er til svona 2014 fyrir fimm árom og skoðað hvar þetta var statt þá, sjáum við að þetta mun verða algerlega öruggt og fullkomið innan 2-3 ára.

  • Hilmar Þór

    Já Ólafur sú er hugmyndin en hún kemur ekki alfarið í stað annarra almenningsflutninga á borð við Borgarlínu en leysir einhvern hluta þess sem hún á að leysa eins og að fækka bílastæðum og bílum á götunum.

  • Ólafur Gunnarsson

    Gengur hugmyndin þá út á að koma upp helling af 5-10 manna sjálfakandi strætóum sem aka manni “door to door”?
    Ef svo er þá fækkar bílum á götunum verulega sem er frábært. Kýla á þetta og minnka umsvif Borgarlínu og láta hana svo vaxa eftir þörfum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn