Miðvikudagur 16.01.2019 - 20:56 - 13 ummæli

Vatnsmýri – Flugvöllur í 100 ár

Leifur Magnússon skrifaði fróðlega grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann minnir á að í ár eru liðin 100 ár frá því að flugvél hóf sig í fyrsta sinn til flugs á Íslandi. Það var danski flugmaðurinn Cecil Faber sem tók á loft úr Vatnsmýrinni í Reykjavík í flugvél sinni Avro 504. Flugið var á vegum Flugfjelags Íslands.

Allr götur síðan horfðu Reykvíkingar til Vatnsmýrarinnar sem framtíðarsvæði fyrir flugvöll. Menn vissu að svæðið hentaði ekki vel til bygginga en vel til flugvallagerðar nálægt miðborginni. Halda má því fram að flugvöllur hafi verið þarna síðan eða í heila öld.

Sú flökkusaga hefur verið lífseig að bretar hafi nánast hugsunarlaust byggt Reykjavíkurflugvöll á þessum stað og án nokkurs tillits til sjónarmiða heimamanna. Sagt er að Reykjavík hafi orðið fyrir stærra tjóni í heimstyrjöldinni en margar illa leiknar borgir Evrópu vegna flugvallarins.

Þeir sem þekkja til vita að þetta er rangt. Íslendingar og bæjarstjórn Reykjavíkur hafði augastað á svæðinu fyrir flugvöll og gerði áætlanir um lögn hans nokkru fyrir stríð. Sú saga hefir áður verið rakin hér á þessum vetvangi.

Þessi uppdráttur frá því í desember 1937 er líklega fyrsti formlegi uppdrátturunn af flugvelli í Vatnsmýri enda undirritaður af Geir Zoega vegamálastjóra og formanni skipulagsnefndar kauptúna og sjávarþorpa í mars 1940.  Flugvöllurinn er teiknaður inná skipulagsuppdrátt af hendi Harðar Bjarnasonar. Flugvöllurinn  er austar í vatnsmýrinni en hann varð síðar. Flugbrautirnar eru 500 metrar og uppí 1200 metra.

 

 

Uppdráttur sem gerður var af Herði Bjarnasyni arkitekt og er dagsettur 20 ágúst 1937 þar er flugvöllurinn í  Mýrinni strax sunnan Hringbrautar á um 73 hekturum. Nú er land flugvallarins um 140 hektarar og nær nokkuð vestar en hér er gert ráð fyrir.

Hér er uppdráttur sem oft er vitnað í og er gerður af Gústaf Pálssyni verkfræðingi og dagsettur 12. september 1937, Öskjuhlíð er til hægri á myndinni. Þarna er gert ráð fyrir 76 hekturum lands fyrir flugvöllinn.

Þessi uppdráttur sem er undirritaður af Geir Zoega vegamálastjóra og formanni skipulagsnefndar og Herði Bjarnasyni í nóvember 1940 var gerður á teiknistofu skipulagsnefndar. Fullyrt er að uppdrátturinn sé gerður í samræmi við samkomulag fulltrúa íslenskra yfirvalda og bresku herstjórnarinnar. Flugvöllurinn er á svæði sem er 71 hektari.

Uppdráttur yfirverkfræðings breta P.W.Bliss sem barst Geir Zöega um mitt ár 1941. Þarna er flugvöllurinn teiknaður eins og við þekkjum hann og líklega í svipaðri stærð eða um 140 hektarar.

 Þetta er uppdráttur þar sem flugvöllurinn er líka teiknaður inn á slæmt byggingaland sem er Kringlumýri. Menn töldu holtin þar sem stutt var niður á fast betra til húsbygginga en mýrarnar.

Til gamans er svo birt hér í lokin gömul mynd sem sýnir hvað landið sem er undir núverandi flugvelli í Vatnsmýri er í raun lítið þegar það er borið saman við höfuðborgarsvæðið og það mikla land sem bíður uppbyggingar sunnan Skerjafjarðar á Bessastaðanesi og Álftanesi í örskotsfjarlægð frá miðborginni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • „Flugvélar þurfa styttri brautir“ segir Hilmar Þór hér að ofan.

  Það er rangt, frá því að farið var að byggja flugvelli, hafa flugbrautirnar stöðugt orðið lengri, og nú eru brautir á nýjum flugvöllum yfirleitt 3000m, eða tvöfalt lengri en lengsta brautin í Vatnsmýrinni.

  Það er vegna þess að flugvélarnar verða stærri, þyngri og hraðfleygari, þá þurfa þær lengri vegalend til að stoppa.

  Ástæðan fyrir því er náttúrulögmál sem kennt er við Newton.

 • Guðrún Ólafsdóttir

  Ég held að ef flugvöllurinn fær að vera þarna í friði í svona 10-15 ár í viðbót mun hann verða þarna til framtíðar og eftir 50 ár munu menn hlægja að þeim 13hugmyndum sem nú eru uppi um að leggja flugvöllinn niður og þakka guði fyrir að svo varð ekki.

 • Þetta er svo ómerkileg umræða að hálfu flugvallarandstæðinga að engu tali tekur. Nú er verið að búa til nýtt póstnúmer! ???????

 • Jón Bjarnason.

  Þú heldur það Magnús. Sannleikurinn er sá að aðeins um 40% landsins og líklega minna hefur verið undirbyggt að hluta. Þetta sérð þú ef þú kíkir ofan í holurnar á Valssvæðinu. Þetta er og hefur verið dýrt byggingaland sem auk þess þarf líklega að fjármagna nýjan flugvöll, Öskjuhlíðargöng, Miklubraut í stokk, brýr yfir Skerjafjörð og margt margt fleira.

 • Allar flugbrautir vallarins hafa verið grafnar niður á fast og nýtt efni sett í staðinn svo þetta er prýðis byggingarland.

 • Jón Bjarnason.

  Flugvöllurinn fer hvergi. Hann hefur verið demantur höfuðborgarinnar og gert henni kleyft að þjóna landsbyggðinni í 75 ár. Án hans væri Reykjavík ekki sama borgin. Það þarf ekki annan flugvöll og enginn vill kosta nýjan, hvorki borg, ríki né einkaaðilar. Svo er því þannig háttað að það verður óhemju dýrt að byggja þarna. Víðast er 3-6 metrar niður á fast. Og flugvöllurinn er ekki barn síns tíma frekar en sjálf sólin.

 • Magnús Jensson

  Það eru geislar við alla brautarenda og auk þess er stór keila yfir allri borginni. Það eru rauðmerkt hús allt innað Elliðaám. Þessi fylgja hæðartakamarkanir og auðvitað hætta. Aðalókostur þess að halda í flugvöllinn er auðvitað að á meðan hann frátekur þetta svæði eiga færri kost á að búa vistvænt miðsvæðis. En eins og við vitum eru samgöngur helsta vistvandamálið hér á landi og staðsetning miðsvæðis því forsemda vistvænna lifnarðarhátta.

 • Magnús Þórðarson

  Völlurinn er barn síuns tíma og fer árið 2002 fyrri braut og 2004 sú seinni. Menn eru að gera því skóna að hann gæ orðið varavöllur en það er af og frá því hann er of nálægt Keflavík. Það er bjart framundan sem betur fer því flugið fer til Keflavíkur.

 • Hilmar Þór

  jú Magnús. En er ekki búið að minnka það um 40 ha og niður í 100 ha. Ég held það.

 • Magnús Jensson

  Væri ekki sanngjarnt að sýna helgunarsvæði flugvallarins?

 • Hilmar Þór

  Það vill nú bara þannig til að flugvellir inni í miðjum borgum eru a’ð verða sífellt eftirsóknarverðari. Flugvélar þurfa styttri brautir og eru miklu hjóðlátari en áður.

  Í Chicago var Miðborgarflugvellinum Meigs Field lokað árið 2003 en nú er unnið að því að opna hann aftur á næsta ári.

  Allt er allstaðar breytingum undirorpið.

  http://aviationdaily.news/2019/01/12/276/?fbclid=IwAR0J8v76xPS1r88MUMDlouAkrzlBiI5ME1pTZtyr3f69RuF0w6PY8nzS9m8

 • Samúel T. Pétursson

  Er ekki rétt að taka með fyrirvara því sem þótti vera góð hugmynd á sínum tíma og líta á með augum nútímamannsins? Flugvöllur inni í miðri byggð er bara ekki góð hugmynd, ekki frekar en vetnisfyllt loftskip, eitthvað sem mönnum fannst fín hugmynd á svipuðum tíma.

 • Storgott inlegg! — 800 Ha sem fast svo til i midbaenum (midbaejonum) med „orlitilli“ vegagerd. Hvad myndi thetta spara thjodinni i kilometraakstri, CO2 mengun, timasparnadi og mannlifi i midbaejonum. Ef til vill gaeti eg talad islensku i midborgarverslunum thegar eg kem til gamla landsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn