Mánudagur 11.05.2015 - 07:57 - 4 ummæli

Hvaðan kemur orðið „hönnun“?

Tryggvi Thayer  hefur skrifað áhugaveðan pistil undir heitinu „Hvaðan kemur orðið „hönnun“‘ sem fylgir hér á eftir.

Tryggvi  er verkfnastjóri Menntamiðju á Menntavísindasviði HÍ auk þess að vera adjunkt í nýsköpunarfræðum og Ph.D kandidat í stefnumótun í menntun við Háskolann í Minnesota.

Pistillinn að neðan er vel skrifaður og sérlega áhugaverður.

++++++

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls. Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design). Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

++++++

Rannsóknarsvið Tryggva snýr aðallega að framtíð menntunar í ljósi tækniþróunar. Í tengslum við það hefur hann notað hönnunarnálgun (e. design thinking) með aðferðum framtíðarfræða til að hvetja skólastjórnendur, kennara og stefnumótendur til að hugsa á skapandi hátt um mögulegar framtíðir í menntun (sjá t.d. https://www.idunn.no/dk/2014/02/constructing_optimal_futuresfor_education_-_technology_for).

 

p

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Sigurður St. Arnalds – takk fyrir þetta innlegg. Greinin í DV er nákvæmlega það sem þurfti til að klára þetta púsl. Eins og segir í greininni þá var ég búinn að átta mig á þessum mögulega skyldleika við fornyrðið hannarr en það vantaði staðfestingu á að þetta væri raunverulega fyrirmyndin.

  • Sigurður St. Arnalds

    Því er við þetta að bæta að það var Alexander Jóhannesson háskólarektor sem fyrstur setti fram tillöguna um „að hanna“ sem þýðingu á „to design“ á fundi Orðabókarnefndar Háskólans árið 1955 eða 1956. Í framhaldinu kom fram orðið hönnun og árið 1963 tók verkfræðistofa upp það orð sem nafn á fyrirtækinu og það stuðlaði áreiðanlega að almennri útbreiðslu þessa orðs. Hönnun hf varð síðar Mannvit hf. Frá þessu greinir m.a. í sögu Mannvits, „Framfarir í 50 ár“, bls 47, og þar er vísað í „Sögur af nýyrðum“, málfarspistil Halldórs Halldórssonar í DV 24. september 1994.

  • Stefán Benediktsson

    Gestur Ólafsson arkitekt notaði þetta orð fyrstur þeirra sem ég þekki og var mikill hvatamaður notkunar þess.

  • Mér hefur aldrei líkað orðið „hönnun“þegar hús eru annarsvegar. Mér finnst betra að spyrja : „Hver teiknaði þetta hús?“ en hver hannaði þetta hús. Svo er mín tilfinning að betra sé að segja „Hver hannaði þennan kjól?“. Líklega tengist það orðinu „hannyrðir“ sem Tryggvi nefnir í þessum tímabæra pistli.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn