Miðvikudagur 07.05.2014 - 07:25 - 14 ummæli

Hverfisskipulag er löngu tímabært

28.02.2014-BH4 Hugmyndaskissa

Þann 1. apríl s.l. skiluðu 8 teymi arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta gögnum vegna hverfisskipulags fyrir nánast alla Reykjavíkurborg. Þetta er rýni, greiningar og lýsingar á núverandi ástandi borgarhlutanna auk mats á umhverfisþáttum.

Þetta voru gögn sem innihéldu greiningu á jafn mörgum borgarhlutum. Greiningarnar náðu til félagslegra þátta, landfræðilegra þátta, veðurfarslegara þátta, umferðalegra þátta auk auðvitað margvíslegra skipulagslegra þátta og margra fleiri atriða.

Allt var þetta skoðað og greint m.t.t. styrkleika, veikleika, tækifæra og ógnana.

Mín stofa var hluti af einu teymanna sem fjallaði um Borgarhluta 04, Laugardal. En í þeim borgarhluta eru Tún, Teigar Kleppsholt, Heimar og Vogar ásamt Skeifunni. Í teyminu voru einnig Arkitektastofa Dennis og Hjördísar ehf ásamt landslagsarkitektunum hjá Landformi ehf.

Á grundvelli þessarrar miklu vinnu og eftir samskipti við hverfisráð borgarhlutans og formlega fundi með íbúum, samtöl og óformleg samskipti  var gerð stutt lýsing á framtíðarsýn borgarhlutans þar sem áhersla var lögð á þau sjónarmið sem fram koma í aðalskipulaginu, AR-2010-2030. Þetta eru ýmis sjónarmið sem varða hagkvæmt, vistvænt og heilbrigt umhverfi með líflegu götulífi og margt fleira.

Þarna voru helstu viðfangsefni reifuð og skoðuð framtíðarsýn um skipulag borgarhlutans, hverfa, hverfiseininga og þróunarsvæða til langrar framtíðar.

Hér var ekki um skipulag að ræða heldur greininu á núverandi ástandi og lýsingu á framtíðarsýn og hugarflug sem yrði vegvísir í fyrirhuguðu framhaldi skipulagsvinnunnar. Settar voru fram hugmyndir sem höfundar töldu rétt að skoða þegar sjálf skipulagsvinnan færi af stað í næsta áfanga. Það skal áréttað að þetta var ekki hugsað sem skipulag heldur skipulagslýsing eða hugmyndabanki þar sem stefnt var að vistvænu góðu umhverfi íbúanna og heildarhagsmuna borgarinnar og þeirra sem þar dvelja og starfa.

Það sem einkennt hefur skipulagsmál borgarinnar undanfarin 20 ár eða svo hefur verið e.k. bútasaumur þar sem fjallað var um einstaka reiti án þess að til heildarinnar sé litið og hagsmunir heildarinnar settir í öndvegi. Það verklag hefur stundum skilað af sér óhagkvæmu, sundurlausu skipulagi þar sem  hallað hefur á strafræna og vistvæna harmoníu með líflegu mannlífi og fólki líður vel.

Þetta metnaðarfulla  hverfaskipulag sem hér er til umfjöllunnar er í heildinni til fyrirmyndar og það vekur furðu að ekki hafi verið lagt í þessa vegferð fyrir löngu. Verklagið hlýtur að henta minni sveitarfélögum sem mörg hver eiga í vandræðum með að finna sjálft sig og sinn einstaka staðaranda.

Í mínum kunningjahóp meðal arkitekta hefur þetta verið lengi til umræðu. Ég man eftir að á árunum í kringum 1980 var unnið með hverfi innan Hringbrautar á svipaðan hátt. Það var á höndum Teiknistofunnar Garðastræti 17.

Ekki veit ég hvernig sú vinna endaði. Sennilega sofnaði verkefnið eða var svæft.

Ef hugsað er til baka þá tel ég líklegt borgin væri öðruvísi og betri í dag ef hverfisskipulag hefði legið fyrir.

Svokölluð verktakaskipulög hefðu orðið með öðrum hætt en raun ber vitni ef fyrir hefði legið hverfisskipulag fyrir alla borgarhluta. Ég nefni breytingu á deiliskipulagi í Skuggahverfi, skipulagið við Höfðatorg og jafnvel Borgartún. Þá tel ég líklegt að nýlegt deiliskipulag á Landspítalalóð væri öðruvísi ef fyrir hefði legið hverfisskipulag þar sem hagsmunir heildarinnar eru varðir.

Umræðan um þetta merkilega hverfisskipulag átta borgarhluta í Reykjavik hefur vakið athygli mína. Mér virðist hún á villigötum. Þáttakendur í umræðunni virðast beina umræðunni að smáatriðum vinnunnar en sjá ekki stóra samhengið sem er í samræmi við samþykkt og staðfest aðalskipulag AR2010-2030 og almenn sátt er um.

Ég nefni dæmi af bílskúrum við Hjarðarhaga sem hafa mikið verið í umræðunni. Þessir bílskúrar eru auðvitað aukaatriði og skipta litlu í heildarmyndinni. Það ber frekar að líta á þá sem tækifæri eða umræðutillögu.

Höfundar hverfisskipulags Vesturbæjar lögðu fram hugmynd um aðra og meiri nýtingu  á lóðum fjölbylishúsa við Hjarðarhaga. Þessi hugmynd gæti þróast í að verða heimild sem húsfélög fjölbýlishúsanna gætu nýtt sér í framtíðinni ef þeim sýndist svo. Þarna er ekki verið að taka neitt frá þeim sem þar eiga hagsmuni, heldur bent á hugmynd sem gæti fært þeim heimild og  tækifæri ef hún fer í frekari vinnslu í sjálfri skipulagsvinnunni sem framundan er og yrði að skipulagi.

Þessi einstaki þáttur, sem í mínum huga er aukaatriði, hefur fangað athygli fjölmiðla meðan stór atriði eins og samgöngur, vistvæn byggð og myndun hverfiskjarna í hverfinu er órædd og nær ekki athygli fólks.

Það er í raun synd að þessi hverfisskipulagsvinna hafi ekki farið af stað fyrir áratugum. Ef hverfaskipulag hefði legið fyrir á níunda áratugnum þá er ólíklegt að matvöruverslun hefði verið flutt út úr íbúðahverfunum út á hafnar- og iðnaðarsvæði utan íbúðabyggðarinnar. Sú ákvörðun er reyndar með öllu óskiljanleg fólki sem lætur sig skipulagsmál varða. Enda stuðlar hún að aukinni bifreiðaumferð, meiri mengun, auknum ferðakostnað fyrir íbúa og m.fl.

****

Nú liggur fyrir lokaútgáfa lýsingar og mats á umhverfisþáttum og drög að frumtillögu 8 borgarhluta í Reykjavík. Í framhaldinu er stefnt að því að gera skipulagstillögu að borgarhlutunum sem byggð verður á  þeirri greiningu og lýsingum sem lagðar voru fram 1. apríl.

Sú vinna verður væntanlega unnin í víðtæku samráði við borgarbúa og á að ljúka eftir eitt ár, ef áætlanir ganga eftir.

****

Efst er kort sem sýnir framtíðarhugmyndir um borgarhluta 04, Laugardal. Ef rýnt er í kortið þá sést að þar er lögð áhersla á að binda borgarhlutann saman um græn svæði og sterkan samgönguás. Góð tenging á grænum svæðum verður um allan borgarhlutann og þaðan niður í miðbæ og upp í Heiðmörk og svo aftur vestur Fossvogsdal að Skerjafirði út á Seltjarnarnes.  Í framtíðarsýninni er lagt til að á samgnguásnum liðist rafknúnir hljóðlausir almenningsvagnar með stuttu millibili um grænt svæði alla leið frá Vesturbugt að Keldum. Þetta opnar gríðarleg tækifæri. Þar má líka sjá hvenig hverfismiðstöðvar með matar- og dagvöruverslun eru fléttaðar við helstu samgönguæðar  innan borgarhlutans. (ef tvísmellt er á kortið þá stækkar það)

Að neðan koma dæmi um  tvö temakort af tugum sem finna má í hverfisskipulaginu og skýringarmynd vegna skilmála og heimilda. Loks er kort úr aðalskipulagi borgarinnar þar sem Borgarhluti 04, Laugardalur er til umfjöllunnar.

Hér er slóð að færslu um svipað efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

 

Untitled.jpgVerndun

Temakort sem sýnir hús með verndargidi í Borgarhluta 04, Laugardal

Untitled.jpgStaða skipulagaStaða núverandi kilmála og heimilda í Vogum Álfheimum, Skeifu og við Súðarvog í Borgarhluta 04, Laugardal. Á þróunarsvæðum við Súðarvog og í Skeifu er gert ráð fyrir um 1000 nýjum íbúðum auk viðbótum í atvinnu og þjónustuhúsnæði.

 

Untitled.jpgGreining á skilmálum

Dæmi um greiningu á núverandi skilmálum og heimildum. Stefnt er að því að samræma skipulagsskilmála þannig að húseigendum reynist auðveldara að gera samræmdar breytingar á húsum sínum vað varðar viðbyggingar, sólstofur, bílskúra og svalir.

 

Untitled.jpgfornmynjar

Staðsetning fornleifa og minja í Borgarhluta 04, Laugardal.

Untitled.jpgadalskip

Kort úr aðalskipulagi Reykjavíkur sem fjallar um Borgarhluta 04, Lagardal.

Flokkar: Skipulag

«
»

Ummæli (14)

 • Þetta málefni kemur fljótlega inná stjórnskipan borgarinnar. Það eru 8 sveitafélög sem byggja upp borgina, og öll með sín eigin skipulagsmarkmið. Þessi sveitafélög hafa í gegnum tíðina verið í samkeppni sín á milli um verslun, þjónustu og skatttekjur. Ef eitt sveitafélagið er með það að markmiði að efla þjónustu og fjölbreyttni í hverfunum, þá fara stórkaupmenn í næsta sveitafélag og fá ódýra uppsetningu þar sem síðan drepur niður alla hverfaþjónustu.
  Þetta er alveg eins og síðustu áratugina þegar Reykjavík var að einhverju leiti að stefna á þéttingu byggðar, á meðan Hafnarfjörður og Kópavogur voru að springa út um alla móa.
  Það þarf í raun tvennt að haldast í hendur; annarsvegar sameining þessara sveitafélaga með eina borgarstjórn og skipulagsstefnu, og hins vegar efling hverfastjónra og hverfaskipulaga. Ég sé ekki í raun að þetta gangi öðruvísi.

 • Halldór Auðar Svansson

  „Ef hverfaskipulag hefði legið fyrir á níunda áratugnum þá er ólíklegt að matvöruverslun hefði verið flutt út úr íbúðahverfunum út á hafnar- og iðnaðarsvæði utan íbúðabyggðarinnar. Sú ákvörðun er reyndar með öllu óskiljanleg fólki sem lætur sig skipulagsmál varða. Enda stuðlar hún að aukinni bifreiðaumferð, meiri mengun, auknum ferðakostnað fyrir íbúa og m.fl.“

  Var þessi tilfærsla sumsé meðvituð skipulagsákvörðun? Það er nokkuð sem ég vissi ekki og hefði mikinn áhuga á að fræðast frekar um.

  • Skipulag verslunar í Reykjavík hefur í gegnum tíðina verið álíka vanhugsuð og annað. Yfir verslun ríkti á árum áður nokkur andstaða hjá ráðandi öflum. Mig grunar að það hafi verið afleiðing gamallra hafta og „uppeldispólitíkur“. Fólk átti ekki að versla of mikið, svo það var best að gera þeim erfiðara fyrir að versla.
   T.D. voru mörk sett á hve mikið verslunarpláss í fermetrum mátti vera í miðborg Reykjavíkur. Það voru því fá tækifæri fyrir aukna verslun að finna húsnæði á svæðinu. Verslunarmenn nýttu sér því iðnaðar og skrifstofusvæði til að setja upp verslanir, (enda verslun ákveðin iðnaður). Verslun fór að spretta upp í Skeifunni og upp Suðurlandsbrautina. Það sama má segja um „Íbúðarsvæði“ í nýjum hverfun. Þar mátti bara vera ákveðin verslun á ákveðnum stað. Hluti af hugmyndarfræði Zoning sem réð ríkjum langt fram yfir aldamótin.
   Þegar ráðamenn sáu að ekki var hægt að sporna við þessari verslunarþróun komu upp hugmyndir um Nýjan Miðbæ fyrir Reykjavík. Menn vildu ekki auka verslun í miðborginni, og skipulagshugmyndir voru það að búa til nýtt hverfi, ekki bæta það sem fyrir er. Síðan vildu menn hafa þennan nýja miðbæ innandyra, og útkoman var Kringlan. Síðan þá hafa verslunarmiðstöðvar, og síðar verslunarvöruskemmur (ódýrari rekstur) verið aðal verslunarsýn landsins.
   Ég veit ekki hvort að það séu enn mörk á fermetrafjölda verslunar í miðborginni, en kannski er lítil þörf á því lengur. Vöruskemmurnar eru núna nýju miðbæjirnir.
   Þetta er gott dæmi um þróun þar sem það hefði kannski verið betra að hafa ekkert skipulag á þessu og leifa sjálfsstæða þróun verslunar í borginni.

  • Jens Helga

   Þetta var líka út af pressu frá verslunarmönnum eins og Jóhannesi í Bónus. Þeir nuti velvilja vegna lágs vöruverðs og slök skipulagsyfirvöld þorðu ekki að stoppa þróunina í átt að lægta matvöruverði. Þetta var auðvitað dauðadómur yfir hverfaskipulaginu og mannlífi þar eins og nefnt er í pistlinum og engan vegin forsenda fyrir lækkun vöruverðs. Þarna var á ferðinni kjarkleysi stjórnmálamanna og skortur á fagmennsku skipulagssérfræðinga.

  • Hilmar Þór

   Halldór Auðar Svansson

   Já ég held að það sé varla hægt að segja annað en að þessi tilfærsla hafi verið meðvituð skipulagsákvörðun.

   Ég og þeir Guðjón og Jens benda á þá er þetta margslungið.

   En það getur varla verið annað en að ákvörðunin hafi verið upplýst og meðvituð. Það eru sennilega þung rök sem stjórnmálamennirnir hafa haft á hendi sér en hin skipulagslegu rök og sjónarmið sem varða almannahag áttu æðstu embættismenn borgarskipulagsins að vita um, verja og færa fram við stjórnmálamennina sem auðvitað bera ábyrgðina fyrir hönd kjósenda.

   En þetta varð ofaná jafn vitlaust og það nú er.

   Ef horft er á vesturbæ Reykjavíkur sunnan Hringbrautar varð þessi ákvörðun til þess að ágætar matvörubúðir í sérhönnuðu rúmgóðu húsnæði við Dunhaga, Hjarðarhaga, Furumel, Nesveg Suðurgötu og víðar höfðu ekki lengur rekstrargrundvöll og t.a.m. ég þarf að aka um 4 km til að kaupa mér mjólkurpott (ef ég nyti ekki Melabúðarinnar)

   Nú 15-20 árum er verið að reyna að snúa þessu við.

 • Magnea Guðmundsdóttir

  Mikið er ég glöð að lesa þessa umfjöllun um hverfisskipulagið því að mínu mati er það eitt það besta sem hefur gerst (á þessu landi!?) í langan tíma. Spennandi hugmyndir sem þú lýsir hér líka.
  Ég er líka uggandi yfir ómálefnalegri umræðu. Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð og sækja helst í æsingsfréttir/pólitík. Það er spurning hvort við sem vitum betur og þekkjum gætum ekki gert meira í því að taka yfir umræðuna. Ef þessi vinna er ekki rædd málefnalega erum við að glata svo stórkostlegu tækifæri.
  Ég hef orðið vitni af mjög svo uppbyggilegum hlutum í hverfum London í gegnum samráð við íbúa. Nefni sérstaklega arkitektastofuna „muf“ (www.muf.co.uk) sem hafa farið frumlegar leiðir að flétta inn samtali við íbúa í borgarhönnun. Þótt slík aðferð kosti meiri vinnu er ávinningurinn margfaldur þegar fram líður.

  • Bretland er ekki besta viðmiðunin í þessu málefni, þó þar hafi margt verið gert vel síðan skýrsla „The Urban Task Force“ kom út. Ég bendi á tvær mjög skýrar og vel gerðar bækur sem byggjast á þeirri skýrslu, „Citie for a small country“ og „Citie for a small planet“. Þetta er þó orðið margra ára gamalt efni.
   Í Bretlandi er mjög lítið um hverfaskipulög, og jafnvel bæjarskipulög, fyrir utan að festa í sessi það sem þegar hefur verið byggt. Nýbyggingar eða viðbyggingar eru ekki í skipulagi og því þarf að sækja um skipulagsbreytingar fyrir hvaða einasta byggingarverkefni sem menn taka sér fyrir hendur. Ofaná þetta bætist ofverndun á eldra húsnæði sem veldur því að t.d. er um 70% af miðsvæði Lundúnarborgar er verndarsvæði. http://www.michael-jack.com/index.php/other-projects/conservation-areas/
   NIMBI-isminn er síðan svo róttækur að Bretland hefur margra ára alvarlegan húsnæðisskort. Þrátt fyrir stígandi þrýsting frá ríkisvaldinu, þráast bæjarstjórnir við að skipuleggja ný íbúðarhverfi eða leifa nýbyggingar innan hverfa. Það hefur legið á borði stjórnarinnar lengi að ríkið beinlínis taki yfir skipulag á vissum svæði til að mæta þessari þörf, en enginn hefur þorað að taka það skref ennþá.

 • Torfi Stefán Jónsson

  Takk fyrir þessa umfjöllun. SJálfur hreifst ég af hugmyndinni um möguleikann á að breyta bílskúrum í eitthvað annað. En gott að hafa svona fína greiningu við höndina þegar leikmaður leitar að upplýsingum.

 • Guðný Guðmundsdóttir

  Þetta er eitthvað annað en það sem fjölmiðlar hafa verið að fjalla um.

  Hvernig getur sýn manna á þessa undirbúningsvinnu(!) fyrir skipulag verið svona mismunandi og af hverju var borgarráð að hafna þessu?

  Sennilega er það sjálf pólitíkin sem ruglar faglega umræðu.

 • Takk fyrir þetta Hilmar. Afar mikilvægt að fá faglegt innlegg í þessa umræðu frá aðila sem kom að þessari mikilvægu vinnu. Hverfisskipulagið er win-win situation og það græða allir á þessi vinna nái í gegn. Umræðan hefur verið á algjörum villigötum til þessa og komin tími til að fleira fagfólk rísi upp og leiði hana á rétta braut. Bendi áhugasömum á http://www.hverfisskipulag.is

 • Elín Sigurðardóttir

  Ótrúlegur hroki í þessari grein. Ef þú ert óánægður með „svokölluð verktakaskipulög“ ættirðu að taka það mál upp við stjórnmálamenn sem taka ákvarðanir eða arkitekta sem teikna.

  • Hilmat Þór

   Elín.

   Ég hef skrifað marga pistla um „verktakaskipulag“ og átt samtöl um efnið, maður á mann, við framkvæmdaaðila og stjórnmálamenn, margoft.

   Verktakaskipulög eru ekki öll slæm en það sem einkennir þau frekar en önnur skipulög er að þar er skipulagt með hagsmuni framkvæmdaaðilans að markmiði og stundum á kostnað heildarinnar.

   En varðandi´“ótrúlegan hroka“! Skýrðu það aðeins fyrir mér. Mér leiðist hroki og vil forðast hann eins og heitann eldinn.

  • Elín Sigurðardóttir

   Verktakar hafa ekki ákvarðanavald. Þeir framkvæma það sem stendur á samþykktum teikningum. Varla þarf að útskýra það frekar. Kannski að hugtakið verktakaskipulag sé komið úr þröngum hópi kverúlanta þar sem menn spjalla saman með flírulegt bros á vör?

  • Elín, verktakar hafa gríðarlega mikið ákvörðunarvald.
   Mörg deiliskipulög eru gerð að frumkvæði verktaka. Arkitektarnir sem vinna þau skipulög fá greitt frá verktökunum fyrir gerð þeirra og eru í vinnu fyrir verktakana.

   Byggingarnar sem eru teiknaðar inní skipulagin eru einnig hannaðar af hönnuðum sem eru í vinnu fyrir verktakana.

   Það er með öðrum orðum fráleitt að halda því fram að verktakarnir hafi ekki vald yfir ákvarðanatöku í skipulags- og byggingarmálum.

   Hitt er annað mál að hönnuðir og skipulagsyfirvöld mættu vera duglegri að standa í lappirnar gagnvart verktökum.

   Ágætt að það komi líka fram að ýmsir verktakar eru metnaðarfullir og vilja standa þannig að málum að verk þeirra séu umhverfinu til sóma, en hins vegar eru of margir sem hugsa fyrst og fremst um eigin buddu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn