Eins og fram hefur komið í tveim síðustu færslum var haldin opin samkeppni um skipulag og hótelbyggingu í kvosinni við Ingólfstorg.
Hér er kynnt tillaga sem hlaut fyrstu verðlaun.
Tillagan var unnin hjá ASK arkitektum ehf og voru í hönnunarteyminu arkitektarnir Þorsteinn Helgason, Gunnar Örn Sigurðsson, Páll Gunnlaugsson,Valdimar Harðarson, Vilborg Guðjónsdóttir, Una Eydís Finnsdóttir, Snædís Bjarnadóttir allt félagar í Arkitektafélagiu Íslands.
Umsögn dómnefndar um tillöguna var þessi:
„Metnaðarfull tillaga sem tekur tillit til sögu Kvosarinnar en sýnir um leið áhugaverða þróunarmöguleika. Styrkur hennar felst meðal annars í skýrri og heildrænni sýn á viðkvæmu og mikilvægu miðborgarsvæði. Hún sýnir markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum.
Tillagan skiptir uppbyggingunni í þrjá áfanga. Hver áfangi hefur skýrt hlutverk.
Í Vallarstræti verður fjölbreytt verslunar og þjónustuhúsnæði. Það mun styrkja þjónustu í hjarta miðborgarinnar, auðga mannlíf og skapa áhugverða upplifun fyrir vegfarendur. Hrynjandi og form nýbygginga fellur almennt vel að nálægðri byggð. Samkomusalur við Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Innangengt verður í veitingasal hótelsins.
Landsímahúsið er allt skipulagt sem hótelbygging með viðbættri þakhæð og nýbyggingu við Kirkjustræti. Aðalinngangur í hótel er frá Kirkjustræti og innra skipulag hótels skapar tengsl við nærliggjandi almenningsrými, Víkurgarð og Austurvöll.
Uppbygging á syðri hluta Ingólfstorgs, þar sem Hótel Ísland stóð einu sinni, skapar nýja sýn og uppbyggingarmöguleika sem vert er að skoða. Tillagan gerir ráð fyrir að þar verði menningarhús. Nýbygging á þessum reit þarfnast frekari útfærslu og almennrar umræðu. Ljóst að þar er um að ræða sjálfstæða einingu á borgarlandi sem tengist ekki hóteluppbyggingunni.
Umferðarskipulag fyrir gangandi og akandi vegfarendur er gott. Vallarstræti fær heildstæðara götuform. Það kemur til með að styrkja tengsl Austurvallar við Grjótaþorp. Með nýbyggingu á Hótel Ísland reitnum er opnað fyrir sögulega tengingu Austurstrætis við Aðalstræti. Um leið styrkist götumynd Aðalstrætis og Veltusunds.
Einn helsti veikleiki tillögunnar er sú hlið hótelsins sem snýr að Kirkjustræti. Hún verður mjög áberandi og þarfnast endurskoðunar. Sama gildir um þá hlið hótelsins sem snýr að Víkurgarði og aðkomu að hótelinu þaðan. Taka þarf tillit til uppbrots og stærðarhlutfalla eldri húsa sunnan megin Kirkjustrætis. Einnig þarf að huga betur að ásýnd nýbyggingar frá Austurvelli. Leiðir að hótelinu frá Aðalstræti og Vallarstræti orka tvímælis.
Ákjósanlegt er að hótelið verði fjögurra stjörnu með tilliti til einstakrar staðsetningar í borginni.
Lítið er unnið með Ingólfstorg og Víkurgarð og er þörf á meiri úrvinnslu, m.a. með tilliti til hæðarmunar, yfirborðsmeðhöndlunar og gróðurs.“
Ef smellt er á myndirnar stækka þær og verða skýrari.
Samkeppnissvæðið og næsta umhverfi
Ingólfstorg séð til suðurs
Skissa úr fyrra þrepi tillögunar sem sýnir nýbyggingu við Kirkjustræti sem kallast á við byggingar handan götunnar.
Grunnmynd jarðhæðar sem sýnir tengsl hennar við borgarrýmið.
Þessi nætur- eða vetrarstemming sýnir vel uppbygginguna og hvernig hlutföl húsa passa við byggðina í grendinni, Grjótaþorpið og hús annarstaðar í miðbænum.
Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.
Það er rétt að geta þess í lok umfjöllunar um þessa miklu samkeppni að dómnefnd var fjölskipuð. Í henni voru Páll Hjaltason arkitekt, sem er formaður, Júlíus Vifill Ingvarsson borgarfulltrúi, Dr. Kristín Þorleifsdóttir landslagsarkitekt, Hilmar Þór Björnsson arkitekt, Sigrún Birgisdóttir arkitekt, Pétur Þór Sigurðsson lögfræðingur og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Ritari var Lilja Grétarsdóttir arkitekt og trúnaðarmaður Haraldur Helgason arkitekt.
Athyglisverður punktur hjá Halldóri og þetta kom mér mjög á óvart þegar ég skoðaði tillögurnar. Það lágu ekki frammi bæklingar þegar ég skoðaði sýninguna en ég fékk einn slíkan þegar ég spurðist fyrir um hann. Í bæklingnum eru engar tölulegar upplýsingar.
Það hefði verið upplagt að efna til skoðanakönnunar meðal sýningargesta um tillögurnar og fá þannig álit almennings sem hefur áhuga á málinu til viðbótar dómnefndaráliti. Það er ekki flókið.
Vissega er það rétt greining hjá Halldóri að einn af tilgöngum keppninnar var að sætta sjónarmið. En getur sáttin ekki falist i uppgjöf? Er ekki með samkeppninni búið að reyna allt. Það komu 68 tillögur. Viðurkenni þó að ég hef ekki séð annað úr samkeppninni en það sem komið hefur fram á þessum vef
Ef horft er yfir vinningstillögurnar þrjár, þá er áhugavert að rifja upp hvers vegna samkeppnin var haldin. Það var vegna ósætti almennra borgara við skerðingu Ingólfstorgs vegna aukins byggingamagns á Landssímareitnum og rif á sal NASA. Markmið samkeppninnar var að reyna að sætta uppbyggingarmarkmið heimiluð í deiliskipulagi og þessar raddir.
I þvi ljósi er áhugavert að allar vinningstillögurnar leggja til meiri skerðingu á Ingólfstorgi en áður stóð til. Hvað segir það um faglegt mat arkitektanna sem gerðu tillögurnar (og fleiri tillögur)og dómnefndarinnar á tækifærum torgsins annars vegar og sýn almennings hinsvegar?
Eða var forskrift samkeppninnar einfaldlega þannig upp sett að niðurstaðan gat ekki orðið önnur?
Ég hef sagt nokkru sinnum, þegar við vorum að vinna að okkar tillögu að menn hafi fyrst reynt að fá 7 með einum teningi og það ekki tekist, þá settu menn upp samkeppni, náðu í annan tening og reyndu að fá 14…
Átti samkeppnin ekki að vera leit að staðarandanum?
Takk fyrir að setja þetta á vefinn þinn Hilmar. Það varð til þess að ég fór og skoðaði tillögurnar í Landsímahúsinu í dag. Til viðbótar verðlaunatillögunum eru allar tilögurnar úr hugmyndasamkeppninni til sýnis og hluti af verðlaunatillögunum hafa verið stækkaðar og þær settar á rúðurnar í vesturgluggunum. Þannig er hægt að skoða þær utan frá og bera saman við veruleikann jafnvel þótt sýningin sjálf sé lokuð. Ég hvet alla sem hafa áhuga á skipulagi og uppyggingu þessa svæðis til að gera sér ferð í bæinn. Þetta er al fallegasti og skemmtilegasti árstíminn fyrir bæjarferð.
Ég hitti og heyrði á mál 7 einstaklinga á meðan ég skoðaði tillögurnar og allir voru verulega neikvæðir í afstöðu sinni. Ég er ekki enn búinn að skilja hvað vakir fyrir borgaryfirvöldum eða hvers vegna þau vilja breyta þessu svæði svona mikið.
Lífleg og listfeng er fríhendisteikningin af húsinu við Kirkjustræti. Hún gefur von um þann genius loci sem Gunnlaugur biður um. Svo langar mig að spyrja Hermann hvað honum finnist um 3. Verðlaun.
Það ætti að stefna að því að hafa timburhúsalengjurnar gömlu á öllum hliðum Ingólfstorgs nema mögulega þar sem moggahöllinn og TM og öðru rusli hefur verið hróflað upp. Þetta er eiginlega okkar gamla stan.
Verðlaunatillaga ASK hefur vissulega kosti,en þann afgerandi veikleika,að ekki tekst að skapa viðunnandi „genius loci“,anda staðarinns,sem var eitt meginmarkmið samkeppninnar.
Það gera ýmsar tillögur betur,t.d. 3. verðlaun,m.a. með því að fara varlegra og næmara með svæðið (og miða við einn byggingaraðila!).
Þessi úrslit munu opna umræðuna á ný og legg ég til að fagmenn í dómnefnd fylgi henni eftir.
Ég styð eindregið réttar ábendingar,sem dómnefndaraðilinn Kristín Þorleifsdittur lætur fylgja heildarumsögn nefndinnar.
Þakka þér kynningarnar á tillögunum.
1. Samkv. teikningu 1. verðlauna tillögunnar á sýningunni er eldhús miðsvæðis í byggingarsamstæðunni. Spurning: Hvar og hvaðan liggur aðkoman þangað fyrir aðföng og úrgang?
2. Í kynningu fjölmiðla mátti skilja ‘að ekkert hús yrði rifið og Nasa salurinn fengi að standa’. Í skýringartexta með 1. verðl. tillögu á sýningunni stendur hins vegar: „Ekki er talið raunsætt að vernda húshlutann sem hýsir skemmtistaðinn Nasa, samkvæmt tillögum er sá hluti fjarlægður og byggður upp aftur í breyttri mynd. Byggður verði nýr salur, eins konar kjallari…“.
3. Vil benda lesendum á sérálit eins dómnefndarmanns, Kristínar Þorleifsd., á bls. 13 í dómnefndarálitinu sem hægt er að fá á sýningunni. Þar segir m.a.: „… tel ég enga þeirra [tillagnanna] uppfylla á nógu sannfærandi hátt kröfur samkeppnislýsingarinnar um heildstæða framtíðarlausn fyrir skipulag svæðisins, lausn sem tekur fullt tillit til sögulegrar sérstöðu …“
Í minum huga eru þriðju verðlaun best. Hun fer varfærnislega með svæðið þó mikið sé byggt á grunni einstaklega sterkri skipulagshugmynd. Önnur verðlaun sýnir okkur hugmyndasnautt safn vel gerðra tölvumynda.
Norbert sér á niðurstöðunni að dómnefnd hefur óttast alvöru borgarskipulag með meira „urban“ skipulagi. Ég er sammála honum en skil dómnefnd sem er brennd af ofsafenginni umræðu og ómálefnegum málflutningi Páls Óskars og fl háværra einstaklinga
Gallinn við flestar tillögurnar er að hótelið er of stórt. Þar sker 3 verðlaunatlagan sig úr með minna hóteli og minni byggingum.
Það á ekki að byggja fleiri hótel á þessum viðkvæma og söguríka reit og við þrengstu götur miðborgarinnar. Þær þola ekki einu sinni í dag þá umferð sem skapast af þeim hótelrekstri sem þar er fyrir. Á hverjum einasta morgni er kaótískt ástand í Aðalstræti og við Herkastalann þegar rútur, stórir jeppar, flutningabílar stoppa umferðina, bílar sem eru í lausagangi á meðan beðið er eftir hótelgestum, ólöglega lagt upp á gangbrautum, upp á gangstétt. í vegi fyrir gangandi vegfarendum. Og hótelgestir eru líka á bílaleigubílum upp um allt Grjótaþorp, þar sem ruslagámar hótelanna eru fyrir, hótela sem fengið hafa að vaxa milli húsa, s.s. inn í Morgunblaðshöllina án þess að nokkur væri spurður.
Það væri nær að með tímanum væru stærstu og ljótustu húsin sunnan og vestan við Ingólfstorg rifin og fjarlægð, og lágreistari hús byggð í staðinn, hús sem væru meira í samræmi við elstu og fallegustu húsin. Í leiðinni fengist meiri birta og sól inn á torgið sem gerir það að verkum að fólk vill vera þar.
Eitt er að Nasa fær að vera tónleikasalur inn í risahóteli, en það breytir ekki því að mikið byggingarmagn er fyrirhugað á reitnum, án þess að fjölda herbergja hafi verið getið í fréttum. Það er um að ræða viðbyggingu við Landssímahúsið við Kirkjustræti á sjálfum Alþingisreitnum, plús ofan á Nasa, plús tengibygging milli gömlu húsanna sunnanvert við Ingólfstorg. Sagan er að endurtaka sig, kapitalið ræður á kostnað almenningsrýma og menningarverðmæta. Þétting hótela í elsta borgarkjarnanum er orðin allt of mikil- snúum af þeirri óheillaleið.
Víða meiri ótti en von í mörgum tillögunum.
Ég tek undir sjónarmið Nubert, hérna að ofan, um hversu einsleitar verðlaunatillögurnar eru. Svo er merkilegt hvað erlendum stofum verður lítið ágengt í alþjóðlegum samkeppnum á Íslandi undanfarið.
Að lokum óska ég ASK til hamingju.
Vonandi fær gamli hlynurinn á horni Vonarstrætis á Suðurgötu og trén í Fógetagarðinum að standa áfram.
Það væri fróðlegt að vita hvernig bílastæðamál eru leyst samhliða þessari uppbyggingu.
Skemmtilegt væri að fá martarmarkað (beint frá býli) í nýbygginguna á sunnanverðu torginu. Það væri líf og fjör í því
My dear friend Hilmar,
thanks for showing the results of the KVOSIN-competition, just the prizes 1-3, what about the other projects? Would be great to see this proposals too.
I want to tell you that I’m deeply concerned about the result. For sure I am watching it from the distance – with my „continental Viennese background“. As you know my eye on Reykjavik is critical because of a lot of reasons. I wanted to be part of this competition, because I had a big hope that there is a turn of the strategy in urban planning. It was a big chance for downtown which I see now as passed up, I am sorry to say that.
I can not see any vision and following position out of the awarded proposals. For sure, there are to see some qualities, but they are only punctual and not to see as sustainable for the public and the public spaces.
The awarded proposals are very simular to each other, I see a fear for the „bigger urban dimension“, winners are splitting up buildings into smaller units, telling a story of a smaller scale which isn’t true.
What will the city get or earn out of these amount of compromises? Shouldn’t the compromises come after the competition? Oh, there is just such a lot of things to talk about……..
I would like to discuss these results when I’m coming to Iceland in August. Will there be a documentation of all proposals, cause I can’t come before August?
Warm greetings,
Norbert