Föstudagur 29.06.2012 - 15:46 - 10 ummæli

Ingólfstorg 3. verðlaun

Það er ánægjulegt hvað skipulags- og byggingasvið Reykjavíkurborgar hefur lagt mikla áherslu á opnar samkeppnir undanfarið.  Sviðið fetar skynsama slóð sem hefur skilað borgurunum góðu umhverfi. Auðvitað eru samkeppnir mikið álag á arkitektastéttina sem hefur lagt gríðarlega vinnu í tillögur sínar um áratugaskeið.  Framkvæmd samkeppna hefur almennt gengið vel og afraksturinn verið góður.

Síðdegis í dag, föstudaginn 29. júní, voru kynnt úrslit í tveggja þrepa samkeppni sem Reykjavíkurborg hélt í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um skipulag og hönnun á svæði sem afmarkast af Aðalstræti, Hafnarstræti, Veltusundi, Vallarstræti Thorvaldsensstræti og Kirkjustræti ásamt hótelbyggingu á svæðinu.

Fyrra þrep samkeppninnar var hugmyndasamkeppni, en síðara framkvæmdasamkeppni. Alls bárust 68 tillögur í fyrri hluta samkeppninnar víðsvegar að úr heiminum.

Ég ætla að kynna þrjár verðlaunatillögur í næstu færslum og byrja á þeirri sem hreppti þriðja sætið.

Það var sérstaklega ánægjulegt að verða þess vísari að höfundur var ungur arkitekt, Helgi Mar Hallgrímsson, sem stóð einn að tillögu sinni. Honum til aðstoðar við myndvinnslu var Fractal mind og tæknilegur ráðgjafi var Hallur Kristmundsson byggingafræðingur.

Þetta sýnir og sannar hvaða tækifæri felast í opnum samkeppnum. Bæði fyrir útbjóðanda og ekki síður unga arkitekta og litlar stofur. Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að einkum hið opinbera hefur stillt upp kröfum til þáttakenda i lokuðum samkeppnum sem eru þannig að hæfileikafólk á borð við Helga fæt ekki að koma nálægt samkeppnisborðinu. Þannig að hið opinbera fer oft illa með góða hæfileika og tækifæri sem eru í boði.

Ég ráðlegg fólki að tvísmella á mydirnar sem þá stækka og verða skýrari.

Hér fer á eftir umsögn dómnefndar um þriðjuverðlaunatillögu Helga Mar Hallgrímssonar arkitekts:

“Grunnhugmyndin  er einföld og skýr.  Tillagan felur í sér flutning húsanna sem nú standa við Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7 út á Ingólfstorg. Þessum tveimur gömlu húsum er komið fyrir við Aðalstræti ásamt aðfluttu húsi sem saman mynda heildstæða götumynd.  Með þessu móti fær Ingólfstorg nýja og óvænta ásýnd þar sem timburhúsaröð myndar nýtt kennileiti við enda Austurstrætis. Lögun og yfirborðsmeðhöndlun torgsins er nokkuð sannfærandi.

Í nýbyggingu  við Vallarstræti og sunnanvert Ingólfstorg er komið fyrir hóteli. Hótelstarfsemin teygir sig yfir í hluta Landsímahússins.  Skemmti- og samkomustaðurinn við Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður í núverandi mynd.

Umferðaskipulag leggur áherslu á gangandi vegfarendur. Það orkar tvímælis að loka alfarið á umferðartenginu  Austurstrætis við Aðalstræti.

Í tillögunni er ekki tekið á uppbyggingu við Kirkjustræti. Nokkuð skortir á að Vikurgarður og nánasta umhverfi sé útfært á sannfærandi hátt.

Þetta er djörf tillaga sem vinnur skemmtilega með sögulega tilvísun. Engu að síður virkar húsaröðin við Ingólfstorg framandi.  Tilfærsla húsanna skapar ásýnd eldri timburhúsaraðar sem á sér ekki sögulega fyrirmynd.”

Efst í færslunni er yfirlitsmynd af Ingólfstorgi þar sem höfundur sýnir hugmynd sína að torgi með eldri húsum á þrja vegu og nýbyggingu sem tekur að formi og hlutföllum mið að því sem fyrir er.

Ég endurtek að mikilvægt er að tvísmella á myndirnar til að skoða þær betur.

Í næstu færslu verður fjalllað um 2. verðlaun.

 

Afstöðumynd og grunnmynd jarðhæðar sem sýnir hvaða starfssemi höfundur hefur í huga.

 

Horft suður Aðalstræti með Herkastalann í baksýn og Fógetahúsið til hægri

 

Ingólfstorg séð til suðurs

Tillagan sem hlaut önnur verðlaun verður kynnt hér eftir nokkra daga.

Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi tillaga vera málið. Þó að rómantíkin sé allsráðandi. Hún vex á mann, eins og maður segir.

    Þessi fullkomnar staðarandann…

  • í ljósi umræðunnar undanfarið þykir mér 3. verðlaun best. Smúel hittir að ofan á skemmtilega hugmynd

  • Guðríður Adda Ragnarsdóttir

    Með því að snúa timburhúsaröðinni á þennan hátt og bæta við húsi, lokast af þau hús sem fyrir eru í Aðalstræti, þ.e. Innréttingar Skúla fógeta, gamla Ísafoldarprentsmiðjan og endurbyggingarnar þar sunnar. Svona verður þetta einnig of þröngt. Legg til að skrefið verði frekar tekið alla leið og gamla Morgunblaðshúsið rifið þannig að sýnin opnist upp í Grjótaþorpið og styðji enn betur við timburhúsin sem fyrir eru við Ingólfstorg. Ekki mun síðdegissólin spilla.

  • Algjör skelfing.
    Allt of mikið byggingarmagn.
    Allt of há byggð hús.
    Allt of þröngt, sérstaklega við gömlu húsin.
    Allt of lítil sól og birta.
    Allt og mörg Hótel, sem skapa allt of mikla umferð.
    Enda er maður nú þegar eins sjaldan og maður getur í miðbænum og það bara versnar mikið.

  • Helgi gunnarsson

    Flott að gera Aðalstræti aftur að götu og láta Moggann draga sig til hlés

  • Garðar Garðarsson

    Það á ekki að byggja fleiri hótel á þessum viðkvæma og söguríka reit og við þrengstu götur miðborgarinnar. Þær þola ekki einu sinni í dag þá umferð sem skapast af þeim hótelrekstri sem þar er fyrir. Á hverjum einasta morgni er kaótískt ástand í Aðalstræti og við Herkastalann þegar rútur, stórir jeppar, flutningabílar stoppa umferðina, bílar sem eru í lausagangi á meðan beðið er eftir hótelgestum, ólöglega lagt upp á gangbrautum, upp á gangstétt. í vegi fyrir gangandi vegfarendum. Og hótelgestir eru líka á bílaleigubílum upp um allt Grjótaþorp, þar sem ruslagámar hótelanna eru fyrir, hótela sem fengið hafa að vaxa milli húsa, s.s. inn í Morgunblaðshöllina án þess að nokkur væri spurður.

    Það væri nær að með tímanum væru stærstu og ljótustu húsin sunnan og vestan við Ingólfstorg rifin og fjarlægð, og lágreistari hús byggð í staðinn, hús sem væru meira í samræmi við elstu og fallegustu húsin.Í leiðinni fengist meiri birta og sól inn á torgið sem gerir það að verkum að fólk vill vera þar.

    Eitt er að Nasa fær að vera tónleikasalur inn í risahóteli, en það breytir ekki því að mikið byggingarmagn er fyrirhugað á reitnum, án þess að fjölda herbergja hafi verið getið í fréttum. Það er um að ræða viðbyggingu við Landssímahúsið við Kirkjustræti á sjálfum Alþingisreitnum, plús ofan á Nasa, plús tengibygging milli gömlu húsanna sunnanvert við Ingólfstorg. Sagan er að endurtaka sig, kapitalið ræður á kostnað almenningsrýma og menningarverðmæta. Þétting hótela í elsta borgarkjarnanum er orðin allt of mikil- snúum af þeirri óheillaleið.

  • Gunnar Gunnarsson

    Þetta er fráleitt hjá Jóni. Tillagan sem hér er sýnd er tillitssöm þegar hugað er að sólu. Hlakka til að sjá fyrstu verðlaunl

  • Það sem er að gerast er að miðbærin er að verða eitt stórt myrkraherbergi. Gleymist sólin í arkitektaskólunum. Það sem bjargar t.d. Austurvelli er að Alþingishúsið stendur sunnan við Austurvöll, annars væri myrkur þar líka.

  • Samúel Torfi Pétursson

    Tek undir það.

    Það kemur mér þó á óvart að engin tillagnanna gerir ráð fyrir því að færa húsin við Vallarstræti að Kirkjustræti og láta þau mynda mótvægi við timburhúsin vestan þess. Þannig væri komin falleg gata timburhúsa beggja vegna Kirkjustrætis með hið endurbyggða Aðalstræti 16 við enda götunnar.

  • Þorbjörn

    Þetta lofar góðu

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn