Fyrir allnokkrum árum fengu dönsku arkitektarnir Christian Lund og Kirsten Kiser þá hugmynd að efna til sýningar á litlum garðhúsum (Kolonihavehus) þar sem þrettán af kunnustu arkitektum heims yrði boðið að hanna ódýr smáhýsi af því tagi sem almenningur reisti í garðlöndum utan við stórborgir á árum áður. Samtímis átti að halda opna samkeppni milli minna þekktra arkitekkta om hús á sýninguna. Þannig átti að bera saman þá þekktu og minni spámenn.
Þetta eru smáhýsi sem eru velþekkt víða. Húsin eru örsmá (um 7,5 m2) á svona 200 fermetra lóðum sem notaðar voru til grænmetisræktunar o.fl. Hér á landi var áhugi fólks á matjurtarækt mikill eftir stríð og um 1950 voru um tvö þúsund fjölskyldur í Reykjavík með ræktunarreit. Stærsta ræktunarsvæðið var í Kringlumýri (þar sem nú eru mót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar), en auk þess voru garðlönd á Melunum, í Fossvogi, við Borgartún og í Laugardal. Í garðlöndum Reykvíkinga risu sumarskýli (Kolonihavehús) og jafnvel heilsársbústaðir sem nú eru flestir löngu horfnir undir malbik og steinsteypu.
Þátttaka í verkefni Lund og Kiser var mikil og tóku allir þekktustu arkitektar veraldarinnar þátt. Ég nefni Henning Larsen, Frank O. Gehry, Tadao Ando, Mario Botta, Ralph Erskine, Micael Graves, Arata Isozaki, Richard Meyer, Richard Rodgers og fleiri.
Það sem vaktir sérstaka athygli er að ein af vinningstillögunum var unnin af arkitektunum Hjördísi Sigurgísladóttur og Dennis Davíð Jóhannessyni. Tillaga þeirra varð hlutskörpust í samkeppninni hér á landi og komst í flokk með Kolonihavehúsum hinna heimsfrægu.
Hjördís og Dennis segja hugmynd sýna lýsa „garðskála sem sem felur í sér andstæðurnar í íslenskri náttúru og íslenskri þjóð. Neðri helmingurinn er lokað rými sem hægt er að leita skjóls í á myrkum vetrardögum. Í efri hluta hússins, undir gagnsæju hvolfþaki, er hægt að dást að miðnætursólinni, stjörnunum eða norðurljósunum.“
Efst í færslunni er blaðaúrklippa þar sem fjallað er um verk íslendinganna. Þar kemur fram að verkið er nú í eigu Louisiana listasafnsins í Danmörku sem fjallað var um í síðustu færslu. Verkið er geymt i „Pemanent Collection“ Louisiana og tilheyrir því.
Hér að neðan eru myndir af verkum nokkurra arkitekta. Efst er verki Dennis og Hjördísar. Þá koma tvær myndir af tillögu Richard Meyer. svo kemur verk Leo Krier, Michael Graves, Tadao Ando, Mario Botta og svo endar röðin aftur á skissu þeirra Dennis og Hjördísar.
Ég held að eina Koloni-hverfið sem til er á Íslandi sé í Skammadal.
Þar á ég hús sem var aðallega byggt úr rússneskum bílakössum um 1950. Síðustu ár hefur verið mikil vakning í dalnum og er verið að gera fjölmörg hús upp.
Þegar borgin þéttist, tiltölulega fleiri búa í fjölbýli og með hækkandi bensínverði verður aftur þörf fyrir garðhúsastarfssemi með “Koloni” húsum eins og tíðkaðist um miðja síðustu öld.
Nú þurfa bæjarfélög um land allt að finna staði fyrir starfssemi þar sem fólk getur stundað garðrækt og margskonar félagsstarfsemi og útivist. Nóg er plássið.
Gaman fyrir blokkarbúann að geta farið í strætó í „sumarbústaðinn“ sinn.