Fimmtudagur 10.03.2011 - 15:33 - 8 ummæli

Nystárlegt fjölbýlishús-Blönduð byggð

Siðan Le Corbusier kom fram með hugmyndir sínar um Unité d’Habitation hefur ekki verið unnið áfram með hugmyndina að marki fyrr en núna, ef frá eru taldar tilraunir Moshe Shafdie fyrir um 30 árum.

Húsið sem um ræðir er eftir danska arkitektinn Bjarke Ingels hjá BIG.  Þetta er fjöleignahús sem inniheldur fjölbreyttar hýbýlagerðir með 476 íbúðum ásamt skrifstofu- og verslunarhúsnæði þar sem vinna á fimmta hundrað manns. Húsið er í raun „blönduð byggð“

Byggingin er alls 61 þúsund fermetrar og er afar nýstárleg. Ekki er ólíklegt að í húsinu starfi og búi rúmlega 2000 manns. Í Byggingu Le Courbisiere er líka að finna verslun og þjónustu ásamt íbúðahúsnæði fyrir álíka marga.  Á þaki húss Corbusier er garður,  það er einnig á umræddu húsi en auk þess er þar að finna  e.k. raðhús með litlum einkagörðum.

Til þess að kynnast þessu nýstárlega fjölbýlishúsi betur er gagnlegt að skoða myndband sem fylgir færslunni. Þetta er alveg einstakt myndband þar sem höfundurinn skýrir verkið út með hjálp frumlegrar tölvutækni. Endilega skoðið þetta myndband sem er í tveim 6-7 mínútna hlutum.  Slóðin er hér.:

Ég birti hér í lokin almennan texta um verklag BIG sem Björn Hallsson hefur skrifaði við færslu um byggingu þeirra í Grænlandi. Lýsing Björns er sannfærandi og tek ég undir greiningu Björns sem fer hér á eftir.  Slóðin að færslunni um bygginguna í Grænlandi er þessi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/14/graenland-big-is-getting-bigger/#comments

Gefum Birni Hallssyni orðið:

“…..Eitthvað er gott við verk allra arkitekta. Það á að sjálfsögðu við um verk BIG, sem hefur náð framgangi á skömmum tíma umfram marga. Sérstaklega er áhugavert að sjá nálgunaraðferðir í mörgum verkefnum þeirra og sniðugar útkomur í stórum dráttum hugmyndanna. Það verður hinsvegar að segja eins og er að á þeim punkti virðist þróun hugmyndanna stöðvast meira eða minna, sem er afskaplega miður.

Afraksturinn eru nánast undantekningalaust afar hráar hugmyndir sem ná því ekki að verða að full þróuðum lausnum. Yfirbragðið er gjarnan eins og fyrstu módel í frumgerð hugmynda sem síðan fá ekki frekari þróun. Ekki er gott að segja hvað veldur þessu, en það er áhugaverð spurning. Er það ákafi arkitektanna í að koma tillögum á framfæri, er það hugsanlega áhugaleysi umfram frum hugmyndir, er um að ræða skort á virðingu fyrir verkefninu, eða vantar hreinlega tilfinningu fyrir þróun góðra hugmynda þannig að þær nái að verða góðar lausnir í smáatriðum jafnt sem þeim stóru?……”

Að lokum endurtek ég meðmæli með myndbandinu sem er í tveim hlutum og tekur einar 13 mínútur samtals. Þetta er í raun stórbrotin kynning á húsinu bæði hvað varðar skipulag og hugmyndina að baki hönnun þess.



Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Gestur Ólafsson

    Það er ástæða fyrir því að ráðdeildarsamir stjórnmálamenn um allan heim eru farnir að bæta við kvöldbænirnar sínar: „Guð forði mér og mínum frá stjörnuarkitektum samtímans.“ –

    Þennan góða sið gætu íslenskir stjórnmálamenn líka að ósekju tekið upp!!

  • örnólfur hall

    Þökkum guði byggingarlistarinnar fyrir að gefa
    okkur menn á við Glenn Murcutt þegar horft
    er á stórbrot og ósköp eins og þessi.

    Kynning mynnir á stórkarla-og rosabullulegu
    „dýrðar“kynninguna á ráðstefnu,- tónlistar- og popphátíðahúsinu í saltri greip Ægis við höfnina.

  • Hilmargunn

    Verulega flott unnin myndbönd en valið á soundtrakkinu eitthvað misfarist eins og bent er á hérna að ofan 🙂 Bjarke er snillingur í að koma hugmyndum sínum til skila á einfaldan og skíran hátt.

    Það verður gaman að heyra hvernig þetta skipulag á eftir að reynast þegar fram í sækir.

  • Valgerður Sól

    Þetta er svaka stórt. þarna eru vinnustaðir og íbúðafjöldi eins og í meðalstóru eða stóru þorpi á Íslandi.

    Arkitektúrinn er ekki beinlínis heimilislegur. Útlitið er eins og skrifstofubygging og svo er textinn í laginu í seinna myndbandinu karlrembulegur og niðurlægjandi fyrir konur.

    Eða misskil ég eitthvað?

  • Ég átti þess kost að skoða umrædda byggingar BIG sem eru staðsettar á Ørestad – Amager sem er á stór-Kaupmannahafnarsvæðinu.

    Við fórum þarna í kynningarferð á fjórðu önn, og fengum smáleiðsögn um húsið.

    Eins og þú segir í umsögninnni, þá get ég verið sammála með hönnunn húsins, hún byrjar með látum, sniðugar lausnir, eins og að göngustígurinn um húsið, hverning hann lætur nánast allar íbúðir ná sólinni, einhver hluta af deginum Snýr uppá húsið osfr.

    En við sem vorum í þessari kynningarferð, vorum sammála um að innanhús hönnuninn vakti okkur vonbrigðum, kannski vegna þess hve margar snilldarlausnir eru að finna utanhús, þá vantaði að setja punktinn yfir i-ið.

    Niðurstaða okkar var sú að þegar væntingar manna fara upp til skýanna, við það að kynna sér hönnun húsins að utan, þá verða vonbrigðin með innanhúshönnuninna kannski óverðskuldugar.

    en Kynning Bjarke á verkefninu er snilldarlega uppsett og lýsir nákvæmlega hugmyndinum á bakvið verkefnið.

    En það er vel hægt að eyða nokkrum dögum í það að skoða þessar byggingar í þessu nýja hverfi á Amager.
    Arkitektum var nefnilega leyft að hanna eftir sínu höfðu, fengu lausann taum. það var greinilega ekki sett á stíft deiliskipulag.

    t.d er þarna hið fræga Hús Bergið, eða Bjerget, http://www.vmbjerget.dk

    Svo er jafnvel boðið uppá guidetúr um hverfið:
    http://www.orestad.dk/Orestad/Oplev/Besog.aspx

  • stefán benediktsson

    Ég held að ég sé sammála Birni (enda hann mjög glöggur maður). Corbusier var svona „alla leið“ arkitekt. Hannaði meira að segja manninn, hann Modulor, sem átti að nota húsin hans. Íbúðir Corb koma sumar nærri því út á manni munnvatni og húsgögnin líka. Sá sýningu verka hans í London fyrir nokkrum árum. Gekk meira og minna dofinn af heillun í gegnum hana.

  • Ég velti þessu sama fyrir mér og Gunnar. Ætli skipulagsskilmálar séu eitthvað sveigjanlegri í Danmörku?
    Einn kunningi minn ætlaði að byggja sér hús í nýju hverfi í Garðabæ og vildi ekki hafa bílskúr í húsinu þar sem hann taldi sig ekki hafa þörf fyrir það. Þeir héldu nú ekki, skipulagið gerði ráð fyrir bílskúrum og ekkert múður.

  • Gunnar Halldórsson

    Manni sýnist BIG hafa mikið frelsi hvað varðar skipulagsskilmála. Hann getur togað húsið til eins og honum sýnist. Á myndbandinu er húsið sagt vera 57 þúsund fermetrar en í texta færslunnar er talað um 61 þúsund. Það er um 6% stækkun eða 4000 fermetrar. Það er greinilega eitthvað svigrúm þar líka.
    Það er eins og heil kennslustund í byggingahönnun að skoða þessi myndbönd.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn