Þriðjudagur 25.10.2011 - 13:43 - 6 ummæli

Íslenskir arkitektar í fremstu röð

Það hefur marg komið fram að íslenskir arkitektar standa sig afskaplega vel í sínum störfum þegar verk þeirra eru sett  á mælistiku heimsins bestu fagmanna á sviði bygginalistar.

Í síðustu viku hlutu íslenskar arkitektastofur viðurkenningu fyrir framúrskarandi endurbyggingu og endurhæfingu eldri húsa. Að verðlaununum stendur virt stofnun sem heitir Fondation Philippe Rotthier pour l’Architecture í Belgíu.

Viðurkenninguna fengu stofurnar fyrir endurbyggingu á svonefndum brunareit á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík.

Arkitektastofurnar íslensku eru ARGOS: Arkitektastofa Grétars og Stefáns: Arkitektar Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson. Gullinsnið: Arkitekt Hjörleifur Stefánsson. Studio Granda: Arkitektar Margrét Harðardóttir og Steve Christer.

Viðurkenningin er fyrir bestu endurbyggingar í Evrópu s.l. 5 ár.  Valið stóð milli  framúrskarandi verka frá 19 löndum.

Dómnefndin skoðaði verkin sem voru 101 talsins í ljósi þess hvernig tókst að endurnýja húsin með tilliti til sögunnar og  hvernig tókst að tengja fyrr líf þeirra nýrri nútíma starfsemi. Dómnefndin taldi að öll verkin í  hæsta gæðaflokki og veitti 11 þeirra verðlaun eða sérstaka viðurkenningu.

Í dómnefnd  Philippe Rotthier stofnuninnar sátu 10 virtir dómarar frá 5 löndum.  Þar voru 7 arkitektar, einn blaðamaður, einn sagnfræðingur og einn hagfræðingur.  Stefán Örn Stefánsson arkitekt veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd arkitektanna við hátíðlega athöfn í arkitektúrsafninu í La Loge í Brussel þann 15. þessa mánaðar.

Það er ekki leiðinlegt að eiga fagmenn hér á landi sem hafa sýnt að þeir eru með þeim albestu í Evrópu hvað svona vinnu varðar. Það er ástæða til þess að óska þeim og arkitektastéttinni til hamingju með árangurinn sem mun vonandi vísa veginn og opna augu manna fyrir tækifærum sem finnast í gömlum húsum og ekki síður arfleifðinni. Ekki veitir af.

Það er rétt að geta þess að meðal verðlaunaðra verka í þetta sinn var „Neues Museum“ í Berlín sem einnig hlaut virtustu viðurkenningu byggingarlistar í heimi fyrr á árinu, Mies van der Rohe verðlaunin 2011.

Lækjargata/Austurstræti sem hlaut þessa virtu aðþjóðlegu viðurkenningu er afrakstur arkitektasamkeppni/hugmyndaleit sem haldin var hér á landi árið 2007.  Alls bárust 16 tillögur í samkeppninni sem allar voru teknar til dóms. 

Almenn ánægja var með niðurstöðu samkeppninnar þó ýmsir nýhyggjumenn hafi verið í vafa, eins og gengur.

Það má ekki gleyma dómnefndinni í samkeppninni sem sýndi nokkurn kjark þegar þau fundu tillöguna sem dæmd var til fyrstu verðlauna. Sérstaklega í ljósi þess að skiptar skoðanir eru um uppbyggingu eldri húsa á þennan hátt.  Í dómnefndinni sátu arkitektarnir Valdís Bjarnadóttir og Dennis Davíð Jóhannesson.  Auk þeirra sátu í dómnefndinni stjórnmálamennirnir Dagur B. Eggertsson, Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir og fulltrúar hagsmunaaðila, þeir Björgólfur Guðmundsson og Lárus Blöndal.

Nú standa þessi hús þarna öllum sem að komu til sóma. Öllum frá borgarstjórn, gegnum samkeppnina, um dómnefnd til höfundanna og framkvæmdaaðila.  Sóma sem erlendir sérfræðingar hafa tekið eftir og flokkað  með því allra besta sem gert hefur verið af þessu tagi í Evrópu s.l. 5 ár.

Hér er slóðin að dómnefndaráli samkeppninnar:

http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2007/kvos_ba_klingur_loka_tg_fa.pdf

Um þetta verk hefur áður verið fjallað hér.  Sjá þessa slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/06/24/laekjargata-glaesilegt-andsvar/#comments

Lesa má um  „Neues Museum“ í Berlín á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/05/02/perla-i-berlin-mies-verdlaunin-2011/

Hér er greinargerð á ensku:

https://dl-web.dropbox.com/get/Prix%20Rotthier%20Reykjav%C3%ADk/Historic%20Corner.doc?w=aaaa75c6

Að ofan er tölviteikning úr samkeppninni/hugmyndaleitinni árið 2007

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Egill Jònsson

  Það vantaði orðið „òska“ ì athugasemd mìna að ofan.

 • Egill Jònsson

  Það er ástæða til að öllum hlutaðeigandi til hamingju með þessi fallegu hùs og viðurkenningu

 • Stefán Benediktsson

  Endurbyggja Hressó, opna garðinn, gera torg og flytja svo Johnson húsið á Lækjartorg = önnur verðlaun.

 • Hilmar Þór Björnsson

  Kristjám G.
  Þetta orð “nýhyggjumaður” er úr smiðju Jónasar frá Hriflu en hann notaði það um Gunnlaug Halldórsson þar sem hann var að skrifa um viðbyggingu Gunnlaugs við hús Guðjóns Samúelssonar, Landsbankann í Austurstræti. Guðjón vann alla tíð í skjóli Jónasar meðan Gunnlaugur vann óháður öllum og hafði að mínu mati mun sterkari höfundareinkenni en Guðjón.

  Það sem ég á við er að mikið af arkitektum skortir tilfinningu fyrir staðaranda og verkum gömlu mannanna, genginna kynslóða og sjá ekki tækifæri í gömlum byggingum og gamaldags arkitektúr. Þeir vilja að allt sem byggt er endurspegli þann tíðaranda sem ríkir á þeim tíma sem byggingin er byggð. Þetta er skiljanlegt sjónarmið en á ekki við allstaðar frekar en annað.

  Nýhyggjumennirnir (arkitektarnir) mótmæla gjarna þessari nálgun sem hér var verðlaunuð. Ég alít ástæðuna vera skort á þekkingu og þolinmæði eða umburðalyndi fyrir því sem var.

  Ég man eftir því að fyrir einum 3 árum lagði Listaháskólinn verkefni fyrir útskriftarnema sína að hanna hús í Lækjargötu á horninu við Vonarstræti. Nemarnir teiknuðu hús sín, eðlilega, inn á uppdrátt af Lækjargötunni allri frá Tjörn og norðurfyrir Tryggvagötu. Það var sammerkt með öllum verkum útskriftarnemanna að þeir teiknuðu byggingakrana inná uppdráttinn þar sem þessi hús sem nú hafa fengið alþjóðlega viðurkenningu standa. Þetta gerðu þeir þó svo að framkvæmdirnar væru nokkuð á veg komnar og fyrir lá hvernig götumyndin yrði.

  Ég spurði nemanna hverju þetta sætti og fékk hið „faglega“ svar frá nemunum að þeir „skildu þetta ekki“!!!. Ég gat ekki skilið svar þeirra öðruvísi en að þeir vildu ekki sjá þessi hús þarna. Og voru að mótmæla framkvæmdinni með þessum hætti.

  Þau vildu nútímalegri hús á þessum stað og ekki hús sem byggðust á arfleifðinni eins og niðurstaðan er.

  Þetta þótti mér ekki fræðilegt svar hjá unga fólkinu sem benti til skilningsleysis á sögunni og anda götunnar. Þessi skoðun kom líka fram í verkum nemana að mér fannst sem féllu ekki að gömlu götumyndinn í hógværð og tillitssemi, þvert á móti.

  Þetta sjónarmið og þessi svör þótti mér ókurteysi við verk genginna kynslóða, dómnefndar í samkeppninni og höfunda þessa verðlaunaða verks vegna þess að staðhæfingunni fylgdu ekki fagleg rök. Þetta var svo útbreidd skoðun hjá nemunum að það er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að þetta sé einnig skoðun skólans. Þó ég eigi bágt með að trúa því.

 • María Guðmundsdóttir

  Það er ánægjulegt að sjá þessi hús þegar gengið er niður Bankastræti og fara þarna um eftir að þessar „gömlu“ byggingar voru endurbyggðar fyrir nútíma starfssemi. Sama á við um syðri helming Aðalstrætis frá og með Kraumi suður að Túngötu. Og ekki má gleyma Kirkjustrætishúsum Alþingis og Fálkahúsinu. Öll þessi hús voru í útrýmingarhættu fyrir bara 10 árum með einni undantekningu, Fálkahúsinu. Sjálft Alþingi ætlaði að ryðja Kirkjustrætishúsunum öllum í burt fyrir nútímaarkitektúr ef ég man rétt. En þeim bar þyrmt. Háværar raddir vildu modernisma á Lækjargötu/Austurstrætishorni eins og sjá mátti í samkeppninni og mikil mótmæli voru vegna uppbyggingar í gömlum stíl á horni Túngötu og Aðalstræti á sínum tíma. Hvernig liti Kvosin út ef nútímabyggingar hefðu risið á öllum þessum stöðum á bara s.l. 10 árum eða svo? Vill einhver skipta á því sem komið er og tærum nútímaarkitektúr?

  Maria.

 • Kristján G.

  Hvað á greinarhöfundur með „nýhyggjumaður“ í setningunni „almenn ánægja var með niðurstöðu samkeppninnar þó ýmsir nýhyggjumenn hafi verið í vafa“ ?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn