Miðvikudagur 05.12.2012 - 14:14 - 5 ummæli

Jóhannes Kjarval arkitekt

Vinur minn og kollegi, Jóhannes Kjarval, lést á líknardeild Ladspítalans s.l. laugardag þann 1. desember eftir langvarandi veikindi. Hann varð 69 ára gamall.

Þarna er genginn ástríðufullur arkitekt sem hafði auga fyrir hinu smáa, jafnt og hinu stóra í umhverfinu og breytti engu hvort  það var mannanna verk eða gert af meistarans höndum.  Hann hafði  auga fyrir því sem vel var gert og sá hvað betur mátti fara.  Ég þekki fáa arkitekta  jafn áhugasama um starf sitt og Jóhannes. Hann vildi ræða málefni líðandi stundar jafnt sem hið sögulega samhengi.  Þó Jóhannes hafi helgað starfsæfi sína hinum stóru skipulagsmálum þá var áhugi hans ekki síður bundin hinu smæsta í umhverfinu.  Eftir hann liggja mörg mjög athyglisverð skipulagsverkefni auk allnokkurra merkilegra bygginga á borð við kvikmyndahúsið Regnbogann og Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki.

Jóhannes starfaði hjá borgarskipulagi Reykjavíkur, var skipulagsstjóri Hafnarfjarðar um árabil, árangursríkur í samkeppnum og eftir hann liggja mörg fyrirmyndarverk.

Ég vil sérstaklega geta endurbyggingu Laugarvegar árið 1985 sem hann vann með Kristjáni Ásgeirssyni arkitekt. Verkið var unnið á tímum sem lítill skilningur var meðal fólks á slíkum verkefnum og má þess vegna telja  þrekvirki.  Jóhannes sagði mér frá baráttu arkitektanna fyrir nánast öllu sem verkið varðaði.  Allt frá rósettum umhverfis borgartrén um polla við gangstéttarbrún og lýsingu, ruslatunna,  granitsteina og til bílastæða.  Þó fólk átti sig ekki á því þá varð þetta verk mikilvægur hvati til varnar hrörnunar Laugavegarins á sínum tima.

Ég hitti Jóhannes síðast á heimili hans fyrir stuttu. Þar vakti hann athygli mína á smáatriðum í opnum borgarrýmum. Hann nefndi tengibox orkuveitunnar og gangstéttarlögn og margt fleira í borgarrýminu. Það er gott þegar fólk opnar augu manns fyrir hlutum sem maður er hættur að sjá í doða hversdagsleikans

Jóhannes nam arkitektúr við Heriot-Watt University í Edinborg á árunum 1966-1973 og fór síðan aftur til Edinborgar til þess að nema skipulagsfræði við sama skóla árin 1974-1975  með áherslu á borgarskipulag (Urban design).

Jóhannes var virkur í félagsmálum og vann öll sín verk af kostgæfni. Jóhannes sat í stjórn Arkitektafélagsins, Torfusamtakanna, Bandalagi Háskólamanna, Myndstefs og í Kirkjulistarnefnd Þjóðkirkjunnar og víða annarsstaðar.

Endurhönnun Laugavegarins varð til þess að hann lifði af flótta verslunar inn í Kringlumýri, Múla og Skeifu sem öll ógnuðu gamla miðbænum og Laugaveginum sérstaklega. Frábær hönnun arkitektanna frá árinu 1985.

  

 Fyrir stuttu átti ég spjall við Jóhannes á heimili hans þar sem hann gerði að umtalsefni litlu hlutina í borgarrýminu. Hann benti á nokkur atriði í hverfinu okkar, Vesturbænum. Eitt dæmið var  tengiboxið hér að ofan sem sett er einmitt á þann stað sem garðveggurinn er vandaðastur. Húsbyggjendur hafa sett grindverk á bláhornið til þess að létta á ásýndinni og gefa betri sýn fyrir horn. Þá koma einhverjir og staðsetja tengiboxið einmitt þar, af tæru tillitsleysi.

Svo nefndi hann fráganginn þegar verið er að leggja ljósleiðara í steyptar gangstéttar. Þar fara menn eins og umhugsunarlaust eftir gangstéttinni miðri og setja svo stubba að húsunum. Steypa svo í opið og halda á brott frá stagbættri gangstéttinni.  Hefði ekki verið tillitssamara að hafa aðalrásina næst húsunum eða þá næst gangstéttarbrúninni?  Ég tók myndina að ofan í hádeginu í dag af einum slíkum frágangi.  Jóhannes nefndi einnig  tengibox við styttu Einars Jónssonar  sem heitir Útlaginn við Melatorg þar sem komið hefur verið fyrir fyrirferðamiklum tæknibúnaði sem skapar óróleika við styttuna tilkomumikla. Ég á ekki ljósmynd af þessu en takið eftir því næst þegar þið akið Hringbrautina.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Pétur Örn Björnsson

    Nú setur mig hljóðan; mikið sakna ég þess góða drengs Jóhannesar Kjarval. Alltaf sýndi hann einstaklega mannlegt og hlýtt viðmót í hvert sinn sem maður átti leið niður á borgarskipulag. Frómt frá sagt, þá byrjaði ég alltaf strax og maður var kominn þangað með eitthvert erindi, eftir Jóhannesi, maður leitaði hins mannlega og hans hlýju nærveru. Ég votta fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum innilega mína dýpstu samúð. Takk minn kæri Jóhannes Kjarval fyrir allt það góða sem þú veittir af endalausri rausn þinni.

  • Gestur Ólafsson

    Íslensk arkitektastétt er miklum mun fátækari að Jóhannesi Kjarval gengnum. Fyrir mörgum árum unnum við saman um tíma hérna á stofunni okkar í Garðastrætinu við að reyna að skipuleggja gömul hverfi Reykjavíkur. Okkur blöskraði þá hvað lítið væri notað af fáanlegum upplýsingum í skipulagi og lögðum í umtalsverða vinnu við að búa til yfirlit um upplýsingaflæði í íslensku þjóðfélagi og hvernig hægt væri að nota þessar upplýsingar við stefnumótun í skipulagi. Ekki verður séð að hér hafi átt sér stað mikil breyting til batnaðar ef litið er til greinar eftir Þórarin Hauksson í Mbl. í dag um skipulagið við Einholt/Þverholt sem ber heitið „Engar rannsóknir, bara hómópata-remedíur.“ – En það er nú einusinni svona með manninn, að honum miðar – annaðhvort aftur á bak, ellegar nokkuð á leið.
    Ég á margar góðar minningar sem tengjast Jóhannesi Kjarval. Einu sinni hlupum við saman með Jóni Óttari, fyrrum sjónvarpsstjóra, á móti roki og brimi í fjörunni fyrir austan Vík í Mýrdal og vorum allir sammála um að það væri miklu skemmtilegra að fást við náttúruöflin á Íslandi en stjórnmálamennina.
    Það er mikill missir að Jóhannesi Kjarval og ég votta fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.

  • Einar Einarsson

    Ég þekkti ekki Jóhannes og hitti hann aldrei en hann hefur komið mikilvægum skilaboðum áleiðis með því að tala um þessi smáatriði sem ekkert kosta við pistlahöfund. Jóhannes hefur greinilega haft tilfinningu fyrirn úti- og almenningsrýmum eins og Laugarvegur er til vitnis um. Það er vissulaga ástæða til að huga að þessu. Ég votta aðstandendum samúð mína.

  • Elín G. Gunnlaugsdóttir

    Mjög leitt að heyra um fráfall Jóhannesar. Þar sem á sama degi fyrir 48 árum mitt líf hófst, mun ég ávallt minnast Jóhannesar á þessum degi fullveldis okkar.
    Ég naut þess heiðurs að eiga samstarfi við Jóhannes varðandi skipulagsmál í miðborginni og tók ég eftir því að honum var umhugað um miðborgina okkar og var mjög glöggur á einmitt þessi smáatriði sem Hilmar nefnir í skrifum sínum hér.

    Ég vil hér með nota tækifærið og votta fjölskyldu hans samúð mína!

  • Hilmar Þór

    Ég vil sérstaklega taka fram að þó svo Jóhannes hafi fært þessi smáatriði í tal þegar við hittumst þá var hann fullur skilnings á málinu og var á engan hátt að leita að sökudólg. Þvert á móti var hann að benda á smáatriði sem skipta máli í borgarumhverfinu og þyrfti að huga að.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn