Mánudagur 13.09.2010 - 10:30 - 13 ummæli

Kemur aðalskipulagið frá Guði?

Lettur gud

Eyja rís úr hafi, fjallgarðar myndast, árfarvegir móta landið,  sléttlendi verður til, allt er í mótun, ekkert er tilviljun eins og Einstein sagði og allt er í rökréttu samhengi við atburðarrásina.

Þarna virðist eitthvað skipulag vera í gangi sem hefur einhvern tilgang og markmið. Skipulagið er unnið og framkvæmt af meistarans höndum.

Ef okkur líkar verk meistarans þá þökkum við fyrir okkur. Ef okkur líkar það ekki þá sættum við okkur við það og segjum ekki neitt. Við höfum þarna engin áhrif og okkur gefst ekki kostur á að gera athugasemdir

Það er stundum eins og fólk haldi aðaðalskipulag verði til með svipuðum hætti og að það komi frá Guði og sé málaflokkur sem ekki sé ástæða til að blanda sér í.

Þannig er það ekki.

Aðalskipulag er mannanna verk sem gert er til margra ára og er endurkoðað með reglulegu millibili.  En vegna þess að það fjallar um fræðileg efni, varðar almannahagsmuni og er til langrar framtíðar finnst fólki aðalskipulag ekki “interessant”.  Fólk treystir líka stjórnmálamönnum og sérfæðingunum til þess að sjá um málið fyrir þeirra hönd.

Því er þannig háttað að aðalskipulag veldur meiru um hag flestra en þær ákvarðanir sem teknar eru t.d. í deiliskipulagi. Flestar  deilur og umræður undanfarin ár um skipulagsmál hafa tengst deiliskipulagi. Stóru ákvarðanir eru næstum ekki ræddar.

Fyrir utan Vatnsmýrina man ég varla eftir umræðum um aðalskipulag í Reykjavík síðan umræða var um hvort borgin ætti að þróast til austurs upp að Rauðavatni og Norðlingaholti eða norður með sjónum í átt að Mosfellsbæ. Þetta var árið 1982 að mig minnir. Þeir sem þátt tóku í umræðunni fjölluðu ekki um skipulagsmál, félagsleg og efnahagsleg áhrif, samgöngur eða annað, heldur um jarðfræði og hvort tæknilega væri hægt að grunda byggingar við Rauðavatn vegna sprungumyndanna sem áttu upptök sín í iðrum jarðar. Skipulagsumræðan var í raun umræða um grundun húsa og jarðfræði.

Síðan 1982 hefur verið stofnað til kennslu í skipulagsfræðum í sennilega fjórum æðri menntastofnunum.: Háskóla Íslands, Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Hvanneyri.  Í þeim tveim síðastnefndu er þegar hafið  metnaðarfullt meistaranám í greininni.

Þrátt fyrir þetta ber ekki á faglegri umræðu um skipulagsmál að frumkvæði skólanna svo eftir sé tekið.  Undantekning er prófessor Trausti Valsson hjá HÍ  sem hefur vakið athygli á ýmsum álitaefnum í aðalskipulagi undanfarin ár og Háskólinn í Reykjavík hefur staðið fyrir opnum ráðstefnum um skipulagsmál þar sem m.a. Ben Hamilton-Baillie talaði um „shared spaces“

Kannski treystir fræðasamfélagið sér ekki til að hefja umræðu um skipulagsmál eða leggja eitthvað til málanna og stefnir frekar að því að vera “óáreitt og spakt”. Er fræðasamfélagið og skólarnir að bregðast?

Arkitektar blanda sér heldur ekki mikið í umræðuna og alls ekki þeir sem hafa skipulagsmál sem sitt sérsvið, með örfáum undantekningum. Það er athyglisvert og vekur upp spurningar um almenna umræðu hér á landi í heild sinni.

Í opinberri umræðu ber að nefna Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðamann sem fjallaði nokkuð um efnið í vikulegum þáttum sínum á RUV. Skipulagssvið Reykjavíkurborgar gerði líka á síðastliðnum vetri virðingaverða tilraun til þess að hefja umræðu um markmið aðalskipulags borgarinnar. Þetta var nýjung hjá borginni. Haldnir voru margir góðir kynningafundir um hina ýmsu þætti skipulagsins. En einhvernvegin tókst ekki að koma umræðunni af stað. Þó svo að ég sé fullviss um að fundirnir einir og sér hafi gagnast í skipulagsvinnunni, þá fjaraði umræðan út.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Ingibjörg Ólafsdóttir

    Mikið myndi það gleðja mig ef þú sæir þér fært að taka upp þetta mál sem birtist í fréttablaðinu í gær, ef ég man rétt, þar sem formaður AÍ gerði athugasemd (réttmæta) við framkomu háttvirts þingmanns; Marðar Árnasonar gagnvart arkitektum á Íslandi yfirleitt. Mál hans lýsir vanþekkingu og fordómum og stéttin má til með að svara þessu, hvet þig sem einn af málsvörum hennar til að leggja orð í belg. Fyrirfram þökk og bestu kveðjur.

  • Örnólfur

    Af SKÖPUN HEIMS & SKÖPUN REYKJAVÍKUR :

    Samtvinnun 7 daga sköpunarsögu Heimsins og 70 ára sköpunarsögu Reykjavíkur er skemmtilega skondin hjá Guðrúnu Bryndísi.- Það segir í Biblíunni að Guð hafi lokið verki sínu á sjöunda degi og líka að hann hafi hvílst þann dag af verki sínu. Ætla má að hann hafi skapað fram að hádegi og hvílst eftir hádegi, þannig að sköpunin hefur tekið um 6 1/2 dag.

    Um 6500 árum eftir verklok fór íbúi í Voga-skipulaginu í Reykjavík, Helgi nokkur Hóseasson, að benda á galla í sköpunarverkinu og tala um sýkla og veirur. Fulltrúar Guðs tóku aðfinnslunum ýmist með þögn, ónotum eða niðrandi ummælum.

    Í sköpunarsögu Reykjavíkur hafa stundum sprottið fram „Helgar“ sem bent hafa á það sem betur hefur mátt fara í sköpuninni en uppskorið þögn, spott og jafnvel verkefna-bann.- Í áratugi hafa öflug átakasamtök margra „Helga“, með þrautseigju, lagt á sig ómælda vinnu við tillögur
    til bóta á byggðinni með litlum sem engum viðbrögðum.

    Menn spyrja hér í umælum á undan hvort að fulltrúar Skipulags-valdsins séu guðir eða hálf-guðir sem ekki þurfi að svara gagnrýni eins og sá sem skóp, við höfnina, fyrir og yfir okkur skattpínda borgarana 3.2 milljarða glerhjúp sem er að jafnvirði 150 meðalíbúða í vönduðu skipulagi á Höfuð-borgarsvæðinu.

    Stundum hefur verið litið á gagnrýni „Helganna“ sem árásir á starfs-heiður starfsfólks Skipulags-valdsins sem er alveg ástæðulaust því yfirleitt er þar um mjög fært og reynt fagfólk að ræða.
    Vandinn virðist sá að menn geta ekki ræðst við, tekið gagnrýni eða borið saman bækur sínar (skipulag sitt) og rökrætt í vinsemd og nýtt sér það besta hver frá öðrum.

  • Kolbeinn Sigurðsson

    Morten hefur lög að mæla. Kerfishugsun er varasöm. En hún er ráð embættismanna og stjórnmálamanna til þess að verjast gagnrýni. Allir ferlar eru skilgreindir og niðurtaða ferils og kerfishugsunar er rökstudd af kerfinu og ferlunum sjálfum. Í þesskonar vinnulagi verða ekki endilega bestu lausnirnar fundnar og það sem verra er að það hægir á öllum framförum með þessu vinnulagi.

    Ég tek undir það að embættismenn kúgar fagfólk sem spyr gagnrýnna spurninga.

  • „Fagleg sjónarmið“ er flott hugtak, en því miður eru til heilu fagstéttirnar sem hafa verið blindaðir af trú _í_gerfi_vísinda_, og búið var að gagnrýna rækilega. Loks kemur í ljós þannig að „allir“ sjái að þetta var hin mesta firra. Eins og stór hluti hagfræðis og „Fjármálaverkfræði“, að manni skilst.

    Spálíkön um umferð er annað. Kerfishugsun ( systems thinking ) vantaði algjörlega. Af hverju sáu menn ekki að ógjörningur sé að byggja sér út úr vandanum með umferðaröngþveiti, gefið að bensín, bílastæði og annað er gefið eða selt langt undir raunverulegu (samfélagslegu) verði.
    Og menn sem reikna út arðsemi samkvæmt „bestu faglega þekkingu“ af nýjum hraðbrautum og mislægum gatnamótum sömuleiðis. Einn sem hefur gagnrýnt þessar aðsemisútreikningar og segist sýna fram á arðsemi hjólreiðabrauta sé margfaldur á við akvegi bíla er Kjartan Sælensminde, sem vann hjá Transportøkonomisk institutt í Ósló, en er núna hjá Helsedirektoratet.

  • Þorkell G.

    „Faglegur áhugi virðist á ummerkjum að dæma víkja fyrir hagsmunum. Það er ekki fagið sem ræður heldur vinnan“ Segir Stefán Benediktsson og hittir þar naglann á höfuðið.

    Fagið er víkjandi og launaumslagið ráðandi. „Money makes the world go around“. Þess vegna er nánast engin fagleg umræða í gangi um skipulagsmál. Menn fá ekk að njóta þess að hafa vit á skipulagsmálum á starfsvettvangi sínum. Ef þeir koma fram með fagleg sjónarmið er þeim kastað til hliðar.

    Guðirnir kasta roði fyrir hundanna eins og nefnt er hér að ofan

  • Bjarki Gunnar Halldórsson

    Ábendingin um skort á skipulagsumræðu er mjög góð og áhugaverð. Sérstaklega athyglisvert að heyra um skipulagsumræðu frá 1982 sem snerist um grundun húsa og jarðfræði.

    Ég tel að stór ástæða þess að skipulagsmál séu jafn lítið rædd og raun ber vitni sé það menntakerfi sem við erum alin upp í. Í grunnskóla voru vissulega fög eins og landafræði og samfélagsfræði sem kenndu eitthvað í átt að skipulagsfræðum en oft var sú kennsla frekar ómarkviss.

    Ekki tók mikið betra við á námsárum mínum í MR. Þar var margt lagt á minnið eins og þýsk ljóð og ártöl sem voru yfirleitt tengd stríðsrekstri. Umræða og kennsla sem tengdist skipulagsmálum var þó víðs fjarri. Þetta kom berlega í ljós þegar fjöldi nemanda krafðist þess, líkt og um almenn mannréttindi væru að ræða, að bílastæðum fyrir nemendur yrði fjölgað. Bæði undarlegt út frá stærðfræðilegum lögmálum og samfélagslegum sjónarmiðum.

    Stór hluti vandans liggur í menntakerfi okkar. Þar er allt of mikill utanbókarlærdómur á kostnað gagnrýninnar hugsunar.

  • stefán benediktsson

    Til að byrja með Hilmar þá var „god does not play dice“ fixídea hjá Einstein, sem tókst ekki að finna hið eina sanna lögmál og enn hefur engum tekist það. Þannig að enn þróast heimurinn skv. tilviljunum. Þetta snertir að vísu ekki AR (Aðalskipulag Reykjavíkur) nema á ská. AR 1962 er okkar „Big Bang“. Þá er tekin sú afdráttarlausa ákvörðun að Rvík verði bílaborg. Ákvörðunin var að nokkru leiti í takt við tímann en afleiðingar hennar eru mikið vandamál í dag. Rvík verður ekki bílaborg a la 1962. Um það er sammæli. Skipuleggja verður borgina þannig að hún standi undir almenningsamgöngum og geri gangandi fólk og hjólandi hærra undir höfði en bílum. Vegna Grafarvogs má benda á að þar er blönduð byggð en eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði var aldrei mikil þar sem hverfið er ekki nógu stórt til að standa undir fjölbreyttum atvinnutækifærum. Reykjavík er bara stórt hverfi (110000 manns) á mkv. stórborga. Skipulag Reykjavíkur getur ekki borið uppi hugmyndafræðilega umræðu. Það eiga menntastofnanir og fagfélög að gera. Faglegur áhugi virðist á ummerkjum að dæma víkja fyrir hagsmunum. Það er ekki fagið sem ræður heldur vinnan.

  • Guðmundur

    Talandi um hann Trausta, væri ekki ráð að endurútgefa bókina hans um skipulagssögu Reykjavíkur sem Fjölvi gaf út? Og þá kannski endurbætta og uppfærða?

  • Lilja Karlsdóttir

    Allt skipulag á höfuðborgarsvæðinu hefur í gegnum tíðina verið hannað með bílinn í huga og að það væri mannréttindi að komast greiðlega allra sinna leiða á bíl. Á sama tíma virtist alveg gleymast það eru líka mannréttindi að komast greiðlega allra sinna leiða gangandi og hjólandi. Það má því eiginlega segja að skipulagið hafi alltaf tekið útgangspunkt í stórum vegum en ekki blómlegri byggð. Hugsunarhátturinn var reyndar svipaður í Evrópu á 7. og 8. áratugnum en á meðan flestar evrópskar borgir uppgötvuðu í upphafi 9. áratugarins ókostina við yfirgengilega bílaumferð og fóru að huga meira að öðrum samgöngumátum hafa íslendingar haldið áfram á bílabrautinni.

    Skipulag sem tekur útgangspunkt í stórum hraðbrautum hefur hérlendis verið knúið áfram af umferðarlíkani líkt og erlendis. Stóri munurinn á því umferðarlíkani sem hefur verið notað hér miðað við erlendis er sú klikkaða uppbygging sem hefur alltaf verið gert ráð fyrir og fáir virðast hafa sett spurningamerki við. Þegur sett er óraunhæf uppbygging inn skilar það óraunhæfri umferð út (garbage in,garbage out). Ef verkkaupinn spyr engra spurninga heldur gleypir hrátt við því að umferð um Miklubraut tvöfaldist á næstu 10 árum, er auðvitað byrjað að skipuleggja 8 akreina hraðbraut með mislægum gatnamótum út um allt.

    Faglegt samgönguskipulag höfuðborgarsvæðisins er því af mjög skornum skammti eða bara varla til.

  • Það er svo undarlegt með mörg mannanna reglu-verk og lagasetningar, að þau eiga það til að öðlast einhverja sérstaka tilveru, guðdómlega helgislepju-tilveru.
    Margir hafa hag af því að véla þar um sem guðir og gyðjur, en eru þó bara ósköp venjulegir hundar og tíkur á roði, sem óttast umræðu og gagnrýni.

    Öllum reglu-verkum og lagasetningum má breyta, ef vilji stendur til þess.
    Engir eru hræddari við breytingar en þau sem hanga sem hundar og tíkur á roði.

    Takk fyrir þarfa spurningu Hilmar: „Kemur aðalskipulagið frá Guði?“

  • Góðar og þarfar umræður hér þó ég geti ekki verið sammála greiningu Guðrúnar Bryndís hvað varðar uppbyggingu /þéttingu nálægt miðborginni, né hennar afgreiðslu á legu „hjólastíga“ (sem í raun fyrirfinnast nánast hvergi).

  • Arkitekt skrifar

    Góð greining hjá Guðrúnu Bryndísi hér að ofan. Hún veltir fyrir sér hvort skipulagsvaldið geri menn að guðum? Þetta er mjög athyglisvert umhugsunarefni. Því hefur nefnilega háttað þannig að þeir sem gagnrýndu eða settu fram spurningar um skipulagshugmyndir “borgarskipulagsins” eins og það hét í tíð Þorvaldar S. Þorvaldssonar fengu bágt fyrir. Um þetta má finna mörg dæmi. Nægir þar að nefna stórmerkilegt átak samtakanna um betri byggð. Allir sem settu fram spurningar um þróun aðal- og deiliskipulag borgarinnar voru illa séðir af kerfinu (embættis- og pólitiska kerfinu). Sumir voru jafnvel niðurlægðir. Þessi hegðun varð til þess að sérfræðingar úti á markaðnum hætti að tjá sig. Hættu að gagnrýna guð sinn í skipulagsmálum. Hinsvegar hinir sem voru “óáreitandi og spakir” fengu næg verkefni hjá borginni aðrir ekki. Þetta er aðalástæðan fyrir því að arkitektar taka lítið þátt í umræðu um skipulagsmál. Svona var þetta og svona viljum við ekki hafa það.
    Þegar þetta er hugleitt þá er hægt að svara Guðrúnu Bryndísi því að þeir sem höfðu valdið í skipulagsmálum álitu sig vera að minnstakosti hálfguði.

  • Guðrún Bryndís

    Guð skapaði jörðina á 7 dögum, Reykavík var skipulögð á 70 árum.

    Stærsti hluti Reykjavíkur er yngri en 60 ára hún er því ung borg. Það sem gerir Reykjavík að stórborg er umferðin og umferðarteppurnar sem skipulag hennar kallar á. þá spyr einhver væntanlega hvað umferð hefur með aðalskipulag að gera.

    Í aðalskipulagi er ákveðið hvernig land er nýtt, þ.e. hvar fólk býr, hvar það sækir sína nærþjónustu (verslun, skólar o.fl.) og hvar það vinnur. Ef íbúar þurfa að fara langar vegalengdir til að sækja sér þjónustu og vinnu velja þeir bíl, það er bara þannig. Það eru til mælikvarðar á því hvað fólk er til í að ganga og hjóla langar vegalegndir til að fara í búð, í vinnu, til læknis, fylgja börnum í skóla o.s.frv.

    Reykjavík er þannig skipulögð að um helmingur allra starfa er staðsettur vestan Kringlumýrarbrautar og helmingur borgarbúa býr austan Elliðaáa. Á háannatímum eru því allt að fjórum sinnum fleirri bílar á leið til vesturs en austur á morgnanna og til austurs seinnipartinn. Þessi hugmyndafræði hefur verið skírð með því að það þurfi að blása lífi í miðborgina og að það sé verið að gera úthverfin að rólegum og góðum stað til að ala upp börn og rækta garðinn sinn.

    Nú eru stofnbrautir í Reykjavík svo vel nýttar á háannatímum að þær hafa breyst í bílastæði. Það er talað um að efla almenningssamgöngur og hjólreiðastíga og sérfræðingar (stjórnmálamenn?) í skipulagsmálum lýsa þessum „lýðheilsulega hagkvæmu“ lausnum, fólk hittist í strætó og spjallar („félagslega jákvætt“) og fær hreifingu með því að hjóla („heilsuhagfræðilega jákvætt“). Ég bendi á að hjólastígar eru staðsettir milli 6-8 akreina hraðbrautum og hljóðmönum við flestar stofnbrautir borgarinnar (hollt og gott að hjóla þar).

    Til að meta áhrif skipulags á vegakerfið, eru gerð umferðarlíkön. Þau reikna hversu mikilli umferð má búast við m.v. skipulag borgarinnar. Víða erlendis eru þessi líkön notuð til að ákveða hvort vegakerfið þolir skipulagið og gerð aðalskipulags tekur tillit til umferðar. Við gerð aðalskipulags Reykjavíkur virðist vera spurt: Getum við ekki bætt við akreinum, fengið göng eins og landsbyggðin, bætt við flottum mislægum gatnamótum, sett götuna í stokk? Svo er ákveðið að bæta við samgöngumiðstöð, háskóla, 30.000 manna byggð og nýju Háskólasjúkrahúsi við sömu götuna vestur í bæ.

    Það má líka velta því fyrir sér hvaða áhrif önnur staðsetning þessara mannvirkja hefur á vegakerfið og mannfélagið í Reykjavík.

    Og fyrst þú minnist á Trausta Valsson, þá kom hann með tillögu um blandaða byggð í Grafarvogi á áttundaunda áratugnum, hugmyndin var sú að fólk þyrfti ekki að fara út fyrir hverfið sitt til þess að sækja sér þjónustu eða fara í vinnu, sem hefur þau áhrif að fólk þarf ekki að aka hverfa á milli á háannatíma og umferð milli hverfa minnkar. Þessi hugmynd féll í grýttan jarðveg og Grafarvogurinn er íbúabyggð.

    Það má líka velta fyrir sér hvort þeir sem hafa vald til að gera aðalskipulag geri menn að guðum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn