Miðvikudagur 04.01.2012 - 10:17 - 10 ummæli

Kennarabústaðir við Egilsgötu

Ég fékk myndina að ofan frá einum lesenda síðunnar. Hún er tekin á fjórða áratug síðustu aldar af kennarabústöðunum við Egilsgötu í Reykjavik. Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari en húsin teiknaði Þórir Baldvinsson arkitekt (1901-1986).

Þetta eru merkileg hús fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er þarna á ferðinni skandinavískur funktionalismi af hreinræktaðri gerð eins og hann gerðist framsæknastur í Evrópu á þessum árum. Í öðru lagi eru húsin teiknuð af arkitekt sem nam vestanhafs, í Kaliforníu. Í þriðja legi er það mér og fleirum óskiljanlegt að þeim hafi verið breytt eins mikið og raun ber vitni.

Að lokum segja þessi hús okkur ýmislegt um stöðu barnaskólakennara í borginni á þessum árum. Þeir hafa haft það býsna gott bæði félagslega og kjaralega. Vinnustaður þeirra, Austurbæjarskólinn var einn sá best búni á Norðurlöndum á þessum árum, með íþróttahúsi, sundlaug og fyrirlestrarsal.

Árið 1930 var Austurbæjarbarnaskólinn eftir Sigurð Guðmundsson tekin í notkun. Egilsgata er þar skammt frá.  Samtök kennara réðust í að byggja þessi hús fyrir félaga sína. Þetta eru alls 8 glæsileg hús, stór og rúmgóð. Uppúr 1930 þekktist varla að tvær fyrirvinnur væru á hverju heimili og barnafjöldi var nokkuð meiri en nú gerist. Þegar horft er á þessi hús þá veltir maður fyrir sér stöðu kennara á þessum árum. Á þessum tíma virðast kjör barnaskólakennara hafa verið þannig að ein laun stóðu undir byggingu og reksturs þessara húsa.

Það væri gaman að fræðast nánar um byggingefélag kennara og stöðu stéttarinnar þá og nú í því samhengi. Kannski gefst tækifæri til þess síðar.

Vonandi rennur sá tími upp að menn finni fjármuni og sjái ástæðu til þess að færa þessi góðu hús í upprunalegt form. Þegar horft er á ljósmynd Vigfúsar finnur maður löngun til þess að sjá götuna eins og hún var.

Þórir Baldvinsson nam við San Francisco Polytechnic og University of California Extension School of Architecture á árunum 1923-1926. Hann teiknaði m.a. Alþyðuhúsið við Hverfisgötu (nú hótel 101 Reykjavík) Samvinnubústaðina við Ásvallagötu vestan Bræðraborgarstígs o.m.fl.

Litmyndirnar sem fylgja færslunni eru teknar af Guðmundi Ingólfssyni. Ljósmyn Vigfúsar er birt með leyfi Gunnars Vigfússonar sonar Vigfúsar sem einnig er ljósmyndari.

Mynd tekin frá svipðum stað og ljósmyndin efst í færslunni. Þarna má sjá að búið er að breyta flestum húsanna allmikið og stækka. Garðsvalir eru horfnar.

Uppdráttur Þóris Baldvinssonar dags. 8. júni 1933. Ef smelllt er á teikninguna þá verður hún stærri og skýrari. Athygli vekja garðsvalirnar og góð aðstaða í kjallara vegna heimilisrekstursins. Grunnmyndir og sneiðing er sérstaklega athyglisverð. Sjáið tengsl milli eldhúss inngangs og stofu/borðstofu og svo forstofuherbergi húsbóndans (kennarans).

Aðeins eitt hús er eftir óbreytt í húsaröðinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Siggeir F. Ævarsson

    Þessi fullyrðing mín er auðvitað ekki byggð á neinu nema munnmælasögum, ekki sótt í tölur frá Hagstofu eða neitt annað álíka. Sjálfur er ég fæddur 1985 svo minni mitt nær ekki að dekka heimildir fyrir þessu 🙂 Þetta er einfaldlega það sem maður hefur heyrt frá fólki sem starfaði í skólunum á þessum tíma, og svo hefur maður heyrt margar sögur af kennurunum eins og Stefán rifjar upp hér að ofan.

  • stefán benediktsson

    Ég man bara að Jakob Sveinsson kennarinn minn í Austurbæjarskólanum, sem átti heima í austasta húsinu minnir mig, gekk dags daglega í jakkafötum og vesti með gullúr á keðju í vestisvasanum. Elskaður og virtur alveg í botn.
    Þetta er að vísu á tímum annars launaumhverfis en við þekkjum í dag.
    Í byrjun aldarinnar þurftu allir fjölskyldumeðlimir að vinna til að halda fjölskyldunni uppi, um miðja öldina, eftir mikla baráttu verkalýðshreyfingar og verkalýðsflokka, þurfti ekki nema eina fyrirvinnu í um tvo áratugi en núna þarf að minnsta kosti tvo til að framfleyta 4-5 manna fjölskyldu.

  • Magnús O.

    Þegar kom að því að ákvarða laun alþingismanna fyrir margt löngu var ákveðið að framhaldsskólakennari og alþingismaður ættu að hafa jöfn laun.

    Hvernig er staðan í dag?

  • Sigurður Ólafsson

    Þetta er fróðlegur pistill, stuttur og skemmtilegur. Ef leyfilegt er að biðja um að fjallað sé um Austurbæjarskólann þá er það gert hér með

  • Finnur Guðmundsson

    Siggeir.

    Eru þessar upplýsingar sannleikanum samkvæmt eða skrifaðar eftir minni? Það er auðvitað ljóst að skólarnir voru lengi þrísetnir og vinna kennara mikil. En voru launin tengd eða svipuð þingmannalaunum? Þinghald var mun styttra þá en nú og þingmannalaun sennilega hlutfallselag lægri en í dag enda vinnan minni.

    • Magnús Ó. Ingvarsson

      Ég gekk í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1965 – 69. Við skólastrákarnir spurðum eitt sinn stærðfræðikennarann okkar, Hörð Lárusson, sem síðar varð fulltrúi í Menntamálaráðuneytinu hvort að það væri rétt að kennaralaunin væru jöfn þingmannalaunum. Hann sagði það rétt vera og að þingmenn hefðu ákveðið að borga sjálfum sér kennaralaun. Þannig að ég tel það vafalaust sem Siggeir segir hér. Kennaralaun voru jöfn þingmannalaunum. Nú eru þingmannalaunin 100% hærri plús allar aukasporslur sem gera þau þrefalt hærri en kennaralaunin.

  • Siggeir F. Ævarsson

    Kennarar voru með þingmannalaun (og jafnvel í 200% stöðu) fram á 8. áratug. Það er af sem áður var!

  • Finnur Guðmundsson

    Þetta hefur verið djarfur arkitektúr fyrir 80 árum og er það jafnvel enn í dag. Þarna gefur að líta margar nýungar. Það er aðdáunarvert að kennarar hafi á þessum árum látið nýhyggjumann í byggingalist sannfæra sig um þessa lausn og þessa frumkvöðlastarfsemi. Áherslur arkitektsins hafa vegið þungt.
    Það sem vekur athygli eru svalirnar (sem láku að sögn, sjá að ofan). Einhvernvegin finnst mani 30 fermetra svalir ekki alveg nauðsynlegar á húsi sem stendur á nokkur hundruð fermetra einkalóð.
    Svo vekur hugleiðingin um kjör kennara á þessum árum spurningar um hvað 80 ára kjarabarátta hafi fært þessari ágætu stétt!!!!!!
    Niðurstaðan er þrátt fyrir allt sú að þetta eru glæsileg hús sem voru langt á undan sinni samtíð.
    Hvað eru arkitektar að gera í dag….árið 2012?

  • Menn eiga enn erfitt með að halda inndregnum svölum þéttum á íslandi á 21. öldinni og skiljanlegt að slíkt hafi gengið illa á 4. áratugnum. Sömuleiðis hafa flötu þökin þurft að víkja. En í dag ætti slíkt þó ekki að vera óyfirstíganlegt.

  • Sigurður Ásbjörnsson

    Fín upprifjun en því miður láku þessi hús, þ.e. svalirnar. Eina húsið sem er óbreytt er í eyði og fullyrt er að það sé ónýtt.

    Sigurður Ásbjörnsson

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn