Sunnudagur 16.10.2011 - 22:55 - 7 ummæli

Kirkja

Í upphafi var kirkjan þar sem tveir kristnir menn komu saman.  Í  ritningunni segir „……látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús“  Þannig er byggingarefnið ekki timbur, steinar  eða steinsteypa heldur mannlífið og fólkið  sem er   „….musteri Guðs“.

Það er ekki húsið sem er musteri Guðs, heldur mannlífið.  Það má kannski segja að samkvæmt þesssu er það misskilningur að byggja kirkjur.

En kirkjur eru byggðar og verkefni kirkjusmiðanna er að skapa upphafið heilagt rými fyrir Guð og fólk.  Þetta tekst stundum en ekki næstum því alltaf.

Í kirkju sem teiknuð er af Jörn Utzon hefur þetta tekist.  Það er sóknarkirkja í Bagsværd norðan Kaupmannahafnar sem vígð var árið 1976.  Í Bagsværd hafði ekki verið kirkja síðan á  sautjándu öld. Allir sem koma í kirkjuna finna strax fyrir mikilfenglegu andrúmi sem þarna er í þessu andans húsi. Þetta er upphafið rými sem gefur gestinum tilfinningu fyrir heilagleika og fær hann til þess að losa úr huga sér hugsanir frá veraldlegum hversdagsleika.

Eins og í upphafi var sagt þá er kirkjan sóknarbörnin, ekki húsið.  Prestarnir eru þjónar sóknarbarnanna og Guðs, ekki stofnunarinnar eða hússins,  þó svo virðist á stundum.

Nú þegar íslenska kirkjan er í kreppu þurfa prestarnir að sinna sóknarbörnum sínum í grasrótinni, þ.e.a.s. kirkjunni, samkvæmt ritningunni.  En það gera þeir ekki á þessum erfiðu tímum.  Spurt er hvort þeir séu að svíkja söfnuðinn og kirkjuna með aðgerðarleysi sínu?  Þeir sitja  í musterunum og láta sanngjarna reiði bitna á  alsaklausum manni,  sitjandi biskup.  Prestarnir jafnvel styðja og klappa upp ósanngjarnar árásir á þjóðkirkjuna og biskup.  Þeir horfa  aðgerðarlausir á að skiljanleg reiði fólks  er beint að einstaklingi sem ekkert hefur til sakar unnið annað en að vista ekki  bréf eins og verklagsreglur segja til um.

Kirkjunnar þjónar eiga að breyta í samræmi við boðunina og góða siði.  Prestarnir eiga að hjálpa  söfnuðinum til að fá útrás fyrir reiði sína og beina henni í skynsamlega átt.  Skipuleggja síðan fyrirgefningarferli.  Prestar eru sérfræðingar í huggun og fyrirgefningu.

Að draga sitjandi biskup niður með Ólafi Skúlasyni er ósanngjarnt, ósmekklegt og á engan hátt sæmandi að spyrða athafnir þessara tveggja manna saman eins og gert er.  Að tala jöfnum höndum um glæpi Ólafs og hugsanleg mistök sitjandi biskups er ósmekklegt og ljótt.  Að prestar skuli láta þetta átölulaust og bregðast ekki til varnar er auðvitað villimansleg hegðun svipuð og tíðkaðist á hinum myrku miðöldum þegar galdrabrennnur áttu sér stað.  Þetta minnir á þegar öskrandi alþýðan heimtaði  blóraböggul sem var líflátinn til þess að ró færðist yfir þjóðfélagið.  Er þetta ekki úrelt aðferð til að skapa frið um mál?

Ég skil ekki fálæti presta og finnst þeir bregðast boðuninni um umburðalyndi og fyrirgefningu.  Sóknarbörnunum líður illa vegna þessa meðan prestarnir sitja eins og í Hruninu aðgerðarlausir og máttlausir með hendur í skauti og bíða þess sem verða vill.

Í stað þess að velta fyrir sér hvernig á því geti staðið að fyrrverandi biskup hafi komst til metorða, var klappaður upp og tókst að blekkja alla þjóðin horfa prestarnir aðgerðarlausir á þegar grafin er gjá milli kirkju og þjóðar.  Þeir  taka sumir jafnvel þátt í greftrinum.

Prestarnir fljóta eins og korktappar ofaná almenningsálitinu og skortir alla festu þjóðkirkjunni til varnar og sóknarbörnum til huggunnar og heilla.

Eru kirkjunnar menn kirkjunni verstir?

Þetta var útúrdúr sem samt tengist efninu sem er Kirkja.  Kirkjan er þar sem tveir kristir menn koma saman,  kirkjan er söfnuðurinn.

Kirkjubyggingin í Bagsværd var fyrsta verk Utzon eftir að hann sneri til baka frá Sydney þar sem hann vann að Operuhúsinu. Kirkjan var í byggingu frá árinu 1968-1976.  Kirkjubyggingar eru eitthvað það alskemmtilegasta verkefni sem arkitekt er fengið í hendur og kemur þar margt til.  Það þekki ég sjálfur.


Frumskissa Utzon þar sem hann leggur fram sína skýru sýn á aðalrými kirkjunnar. Himininn, sjóndeildarhringurinn og krossinn.

Grunnmynd og snið. Á grunnmyndinni má sjá hvað hið klassíska heilaga rými er lítill hluti kirkjunnar. Enda eru hefðbundnar athafnir nú á dögum aðeins brot kirkjustarfsins.


Gengið er inn kirkjuna til austurs beint að altari

Loftið leiðir hugan að kúmulus skýjabólstrum og himninum

Útlit kirkjunnar er umdeil. það virkar veraldlegt. minnir kannski á iðnaðarbyggingu. Þegar inn er komið er andstaðan mikil…og áhrifamikil.

Hliðarbirta um mikla þakglugga er áberandi þegar inn er komið

Jörgen Utzon lést 90 ára gamall árið 2009

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Jón Sigurðsson

    Eins og þú kemur réttilega inná Hilmar – hvar eru prestarnir. Eftir að Guðrún Ebba kom með sína reynslusgögu í sjónvarpinu varð mjög mikið að gera hjá Stígamótum. Hvar er baklandið – hvar eru prestarnir. Áttu þeir ekki að standa vaktina „Komið til mín ….“ Hvar eru prestarnir – hvar eru prestarnir – vita þeir ekki hvert þeirra hlutverk er lengur. Ég tek undir með þér – þetta er ekki eins og það á að vera. Sr. Baldur er sá eini sem þorir að láta í sér heyra og segja sínar skoðanir, hinir þora það ekki, því þeir óttast að þeir verði þá ekki kosnir biskup, næst þegar það gerist. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni árið 1994, vegna Ólafs Skúlasonar í Sólveigarmálinu. Sögusagnir vour um það 1993 að mig minnir að 5 konur hyggðust þá kæra Ólaf, en það gerðist ekki fyrr en árið 1996. Hvar er Sólveig Lára núna – af hverju heyrist ekkert í henni. Hún var fyrsti aðstoðarprestur á Íslandi og það í Bústaðarsókn hjá Ólafi. Í hverju fólst hennar aðstoð – ég spyr. Hvar er Örn Bárður – hann var „hægri“ hönd Ólafs. Hvað gerðu þessi tvö í málum Ólafs. Örn rís núna upp á áfturlappirnar og krefur núverandi biskup afsagnar. Eitthvað held ég að hann misskilji. Ég kynntist því í Sólveigarmálinu 1994 að þá var öllu snúið á hvolf og fólk dæmdi og dæmdi og hafði ekki hugmynd um hvað það var að „dæma“. Það er auðvelt að vera sjálfskipaður dómari.

  • Jón Guðmundsson

    Ég vona bara að einhverjir prestar lesi þessar vangaveltur og hugleiði hlutverk sitt sem sálusorgarar i þessu volaða þjóðfélagi.

  • Hilmar Þór Björnsson

    Já Steinar.
    það skal ég gera við tækifæri. Þetta á sér skýringu.

  • Steinarr Kr.

    Hilmar, það væri gaman ef þú myndir fjalla um ástæðurnar fyrir því að nútíma kirkjur eru fæstar með gamla, hefðbundna kross laginu, sem segja má að hafi verið staðall í margar aldir.

  • Það er skemmtilegur munur á þessum tveim húsum Utzon. Óperan er falleg að utan en ljót að innan, Bagsværd kirkja er ljót að utan en falleg að innan. Hugleiðingin um presatana getur vart verið sannari. Það er skömm af þeim en sem betur fer eru þeir ekki “ kirkjan“

  • Jón, þetta var gríðarlega hnyttið hjá þér! 🙂

  • Jón Þórisson

    Það er nú ákveðin hefð fyrir því í kristinni trú að saklaus maður taki á sig syndir annarra………

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn