Föstudagur 14.10.2011 - 14:28 - 7 ummæli

Fiskimarkaðs tilraun í Reykjavík 2010

Í framhaldi af umræðu um matarmarkað við höfnina í Reykjavík þá var gerð ágætis tilraun sumarið 2010 með fiskmarkað fyrir almenning við grænu verbúðirnar við Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd hér að ofan fékk ég senda frá einum lesanda síðunnar.  Hún var tekin þegar markaðurinn var í rekstri í fyrrasumar.

Tilraunin tókst vel og það er synd að hún hafi ekki verið endurtekin s.l. sumar.

Að lokinni tilrauninni var unnin skýrsla þar sem lokaorðin eru þessi:

“Eftir tvo rekstrarmánuði Fiskmarkaðar við Gömlu höfnina er ljóst að takmarkaður áhugi er á seljendahlið markaðsins. Mikinn áhuga má merkja hjá almenningi og hafa þeir sem selt hafa varning sinn á markaðnum í sumar orðið varir við mikla umferð um svæðið og góða sölu. Lítill árangur hefur verið af úthringingum og kynningu á markaðnum meðal þeirra er höndla með sjávarafurðir. Margir hafa sýnt því áhuga að vera með varning sinn í boði á markaðnum en kæra sig ekki um söluhliðina. Að líkindum væri betra ef einn söluaðili tæki að sér rekstur markaðsins og væri með söluvarning sinn á öllum básum og gæti einnig leigt þá út líkt og málum er háttað á fiskmörkuðum erlendis”.

Lykilorðin eru: „Mikinn áhuga má merkja hjá almenningi og hafa þeir sem selt hafa varning sinn á markaðnum í sumar orðið varir við mikla umferð um svæðið og góða sölu“.

Ef fundinm yrði staður í skjóli, umfangið aukið og gert fjölbreyttara er vafalaust grundvöllur fyrir svona markað  í Reykjavík allt árið  um kring eins og við þekkjum víða annarstaðar í borgum á stærð við Reykjavík.

Þetta var merkileg tilraun sem sýnir okkur að full ástæða er til þess að koma upp fullburða matarmarkaði í Reykjavík á borð við þann sem lýst var í færslu  sem  hér er vísað til:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Hér er slóð að skýrslu sem var undanfari tilraunarinnar.  Hún er unnin af þeim Þóru Valsdóttur, Brynhildi Pálsdóttur og Theresu Himmer. Slóð að henni er þessi:

http://www.matis.is/media/matis/utgafa/32-09-Smasolu_Fiskmarkadur.pdf

Það er mikil áhersla lögð á ferðamannaþjónust til framtíðar hér á landi. Matarmarkaðir hvarvetna í heiminum eru fjölsóttir af ferðamönnum allstaðar og það sama yrði hér í Reykjavík.  Ég sneiði sjaldan framhjá matarmörkuðum á ferðum mínum um heiminn og sé að það gera fleiri túristar en ég.  Í raun ætti að vera forgangsmál ferðamannaborgarinnar Reykjavík að koma upp matarmarkaði hér sem fyrst.  Hér að neðan eru nokkrar ljósmyndir af matarmörkuðum sem sýna fjölbreytileikann. Þetta eru myndir frá mörkuðum sem við hjónin höfum heimsótt undanfarið.

Matarmarkaður undir berum himni í Kína

Kryddsölumaður á matarmarkaði í Tyrklandi

Fisksali. Ég man ekki hvar.

Fisksali  á götu í Suður Afríku forstjóralegur með hálstau og skósvein hans sem sér um alla vinnuna. Skósveinninn var að vísu kona (!)

Fisksali á Farmers Market í Seattle vesturströnd Bandaríkjanna

Matarmarkaður á götu í Tékklandi. Maður kaupir sér bita og fer með heim í kvöldmatinn (Take away)

Fisksali í Shanghai

Gamall yfirbyggður matarmarkaður í St. John í Canada

Þetta er frá markaði í Indónesíu þar sem verið er að selja lifandi furðudýr  úr sjónum til matar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Það er nú matarmarkaður í Kolaportinu, þar eru aðallega íslenskar afurðir á mismunandi básum, alls kyns fiskur (þó ekki ferskur), lundi, hvalur, folaldakjöt, kartöflur, mávaegg, nammi, kökur og kleinur. Mikið af vörunum eru rekjanlegar beint frá bónda eða villibráðin frá veiðimanni, t.d. hákarl frá Bjarnarhöfn.

  Þetta er ekta markaður fyrir alþýðuna, hann er ekki smart og ekki markaðsettur sem slíkur en ferðamönnum þykir hann mjög forvitnilegur. Það mætti reyna að fá þessa aðila með í nýja matarmarkaðinn í byggingu Brims við hafnarbakkann.

  Þangað mættu koma fleiri aðilar með vörur beint frá býli t.d. markaðurinn í Mosfellsdal og Frú Lauga í Laugalæk, einnig gourmet búð eins og Búrið í Nóatúni, kaffihús og auðvitað ferskur fiskur og ódýrt grænmeti. Þá væri kominn fínn og fjölbreyttur markaður.

  Kolaportsmarkaðurinn er mjög góður grunnur sem mætti byggja nýja markaðinn á.

 • Og ég spyr Pétur Pál, hvenær var þetta reynt og í hverju fólust mistökin?

 • Pétur Páll

  Ég segi enn og aftur, það er búið að reyna þetta og það mistókst.

 • Kristján Sveinsson

  Ef ætlunin er að starfrækja matarkringlu í miðbæ Reykjavíkur, eða í námunda við hann, og borgarapparatið vill skipta sér af samkeppnisstöðu slíkrar verslunar væri líklegra til árangurs að semja um lokun stórmarkaða í miðbænum og við hann heldur en slíkra verslana í úthverfum bæjarins. Það væri þá einmitt Bónus á Hallveigarstíg sem ætti að fara og einnig stórverslanirnar á Örfiriseyjaruppfyllingunni.
  Þarf ekki annars svona starfsemi að mæta samkeppni og þola hana — eða bíða lægri hlut?

 • stefán benediktsson

  Borgin á að hafa frumkvæði, þetta St John dæmi er í þá átt sem við eigum að fara. Borgin verður að fara að semja við stórverslanir í úthverfum um lokanir til að efla innbæjarverslun. Það má alvg vera Bónus eins og á Hallveigarstígnum / Ingólfsstræti.

 • Þette er borðleggjandi dæmi sem samt verður ekkert úr. Stóru hagsmunaaðilarnir munu koma í veg fyrir þetta, Bonus, Krónan, Nóatún og fl. Þessi hugmynd er gegn hagsmunum þeirra. Stjornmalamenn þora ekki gegn þeim núna frekar en á árunum fyrir hrun.

 • Jóhann Sigurðsson

  Takk fyrir áhugaverða grein.

  Nærtækasta dæmið um svona markað er sennilega í Bergen í Noregi. Þar er starfræktur fiski- og grænmetismarkaður allt árið í Voginum við Torgalmenninginn. Mjög vinsælt bæði á meðal ferðamanna og Bergensbúa. Bergen er ekki ósvipuð að stærð og Reykjavík. Þar komu borgaryfirvöld upp fallegum steinkörum og götum sem kaupmenn geta stungið stöngum fyrir tjöld sín ofan í.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn