Fimmtudagur 08.02.2018 - 08:15 - 37 ummæli

Kirkjusandur – Atvinnusögunni bjargað!

Það var ánægjulegt að hlusta á  borgarstjóra á íbúafundi í Borgarhluta 4 – Laugardalur í gærkvöldi. Hann fór vítt yfir framtíð og tækifæri borgarhlutans, en það sem vakti sérstaka athygli mína var hugmynd um að þyrma gamla fiskvinnsluhúsi Jupiters & Marz á Kirkjusandi sem hefur verið ógnað af nýju skipulagi þarna.

Þetta gamla hús er snar þáttur í atvinnusögu Reykjavíkur og jafnvel landsins alls.  Húsið var reist á árunum 1955-1962

Ekki veit ég hver teiknaði þessa góðu byggingu en það á eftir að skýrast. Mér finnst tveir komi til greina. Annars vegar Rögnvaldur Ólafur Johnsen, (1920-2008) en han nam byggingalist í Kaliforniu í lok seinni heimstyrjaldarinnar  en lauk ekki námi vegna McCarthyismans að mér er sagt. Hinsvegar gæti húsið líka verið eftir Sigurð Guðmundsson (1885-1958) heiðursfélaga Arkitektafélags Íslands.

Árið 1988 var byggingunni breytt í skrifstofuhús Sambands íslenskra samvinnufélaga og allskonar skálar umhverfis það rifnir. Samhliða þeirri endurnýjun var húsið klætt að utan með loftræstri álklæðningu og skipti það þá algerlegu um einkenni (karakter). Eftir fall SÍS keypti Íslandsbanki, (1995) sem síðar varð  Glitnir og aftur Íslandsbanki húsið og hafði þar aðalstöðvar sínar þar til flýja þurfti húsið vegna myglu fyrir nokkru.

Vegna skipulagsvinnu Kirkjusands óttuðust menn að þetta merkilega hús yrði látið víkja fyrir nýjum og nútímalegum byggingum og nýrri landnotkun. Maður horfði á eftir einu besta húsi Guðmundar Þórs Pálssnonar, aðalstöðvum Strætó, víkja fyrir skipulaginu. Maður óttaðist að örlög glæsilegs fiskvinnsluhúss Júpiters & Marz yrðu þau sömu.

En svo verður líklega ekki, sem betur fer.

Á íbúafundinum í gærkvöldi upplýsti borgarstjóri að hugmyndir væru uppi um að fletta álklæðningunni af húsinu og færa borgarbúum og landsmönnum öllum merkilega sögulega vídd staðarins og færa húsið í upprunalegt horf.

Þetta gladdi mig mjög og var hugsað til þeirrar atvinnusögu sem þurrkuð var út aðeins vestar við ströndina þar sem svörtu háhýsin í Skugga standa nú. En þar voru áður hús Völundar, Kveldúlfsskálarnir, byggingar Sláturfélags Suðurlands og fl.  Allt frábær og söguleg hús.  Borgin varð fátækari þegar þessum húsum var fórnað fyrir það sem kom í staðinn.

Verndun fiskvinnsluhúss Júpirer & Marz er stórkostlega góð hugmynd og mikið fagnaðarefni.

Húsið getur hentað ágætlega fyrir margskonar atvinnu- eða menningarstarfssemi á borð við Listaháskóla Íslands eða annað slíkt. Listaháskólinn er nú í kjötvinnsluhúsi Sláturfélags Suðurlands þarna skammt frá.  Þá yrði skólinn loks nánast sameinaður á einum stað í húsum „kjöts og fisks“!

Það vakti líka athygli mína hvernig staðið er að hugmyndavinnunni. Í stað þess að auglýsa enn og aftur einhverja samkeppni var handvalin teiknistofa sem hefur sýnt að hún hefur áhuga og burði til þess að leysa svona verkefni vel af hendi. En hönnuðirnir á þessu hugmyndastigi eru arkitektarnir hjá Kurt og Pi sem eru þeir sömu og hönnuðu endurnýjun Marshall hússins úti á Granda. En Marshallhúsið er eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt og tóks endurnýjunin vel.

+++

Hér er unnið samkvæmt hugmyndum verndunarsinna í byggingalistinni. En þeir halda því fram að menningarstig þjóðar komi best fram í því hvernig hún umgangengst verk genginna kynslóða.

Ég upplifi þessa hugmynd eins og að brotið hafi verið blað í baráttu verndunarsinna og þeirra sem vilja standa vörð um menningararfinn. Gömul hús og hin sögulega vídd í öllu okkar umhverfi verður sífellt mikilvægari. Vonandi tekst borginni að bjarga steinbænum við Veghúsastíg og Veghúsum að Veghúsastíg 1 eins og hugur stendur til, svo maður nefni ekki ásýnd Gamla Garðs.

++++

Að neðan koma nokkrar myndir frá Kurt og Pi og svo mynd af aðalstöðvum Stræto sem rifnar voru á síðasta ári en það átti aldrei að gerast og var alger sóun og óþarfi.

++++

Breytt 10.02.2018  Kl. 14.18

Mér láðist að geta þess í pistlinum að breytingar á húsinu sem gerðar voru fyrir SÍS voru hannaðar af  arkitekunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall.

Viðbót 13.02.2018:

Eftir smá grúsk fann ég húsa- og byggðakönnun Borgarminjasafnsins.

Þar kemur fram að fyrsta hæðin af þessu húsi er teiknuð af Sigurði Pjeturssyni. Svo kom Gísli Hermannsson að verkinu. Siðan tóku þeir félagar Ólafur Júlíusson, Jósef Reynis og Gílsli Halldórsson við og hækkuðu húsið úr einni hæð í fjórar. Og loks komu þeir Örnólfur Hall og Ormar Þór að húsinu og hækkuðu aftur um eina hæð og klæddu að utan og gáfu húsinu það útlit sem það nú ber.

Hver er hinn eiginlegi höfundarrétthafi hússins veit ég ekki en sé nú að þær teikningar sem hér eru kynntar eru í raun ekkert annað en uppmæling og/eða uppteikning af húsinu eins og það var áður en því var breytt eftir þörfum Sambands Íslenskra Samvinnufélaga.

Þess vegna má álykta að öll umræða um virðingu fyrir höfundarrétt sé ótímabær varðandi verk Kurt og Pi.

Í húsa- og byggðakönnuninni stendur; „Húsið hefur menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi Kirkjusand“.

 

Tölvumynd af húsi Júpiters & Marz frá hendi Kurt & Pi arkitekta.

Að ofan er gamla fiskvinnsluhús Jupiter & Marz dregið út í dekkri tón en umhverfið sem var. Þarna vann ég á unglingsárum í fiskvinnslu. Var í „tækjunum“ en þar var borgað hærra tímagjald enn annarsstaðar í húsinu.

Hér eru fyrirmenni að kynna sér verklagið í þessum fyrirmyndar húsi uppúr miðri síðustu öld.

 

Teikningar af húsinu og ljósmynd. Það er áberandi hvað húsið er einfalt stílhreint og fast í formi.

Frumdrög arkitektanna sem sýnir hlutföll og hugsanlegt birtuflæði á hæðum hússins.

Að neðan eru svo mynd af niðurrifi aðalstöðva Strætó sem stóðu í sama skipulagi. Það hús var af mörgum álitið eitt besta hús Guðmundar Þórs Pálssonar arkitekts.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (37)

  • Sælir.

    Þar sem klðningin er hripleg er ekki nema von að steypan verði gegnsósa. Sjáið Orkuhúsið sama dæmið.

  • Ágætis ritgerð hér um sögu höfundarréttar arkitekta, Sandra Sigurðardóttir er höfundur, leiðbeinandi Halldór Eiríksson. https://skemman.is/bitstream/1946/28039/1/BAlokautgafaSandra.pdf

    Hér er greint á milli fjárhagsréttar og sæmdarréttar þegar kemur að höfundarrétti. Sá fyrri er skýr meðan meiri óvissa er um hinn síðari. Fjárhagsrétturinn verndar til dæmis arkitekt sem hefur skilað teikningu af einu húsi fyrir því að tíu eins sé byggð án samþykkis og þóknunar.

    Allmenn kurteisi nær langt með sæmdarréttin, geta höfunda verka, hafa samráð þegar þörf er á breytingum en það eru fá dómsfordæmi um að verk séu vernduð í núverandi mynd. Kannski helst þegar lýsing í Kjarvalsstöðum var vernduð. Sú var hönnuð af Hannesi Davíðssyni átti að breyta að honum forspurðum og það með þeim rökum að ekkja Picasso hefði kvartað undan lýsingunni. Hann hefði verið til viðræðu um breytingar en fór í hart á móti þessum málatilbúnaði og við það situr.

    Hér er gamalt hús sem búið er að ganga í gengum marga endurnýjanir líftíma fyrir mismunandi not og skiljanlegt að eigendur vilji gera það einu sinni enn.

    • Örnólfur Hall

      -Athyglisverð ritgerð sem verðugt er að lesa !

  • Garðar Guðnason

    Fróðlegar samantektir hér að ofan hjá Hilmari og Örnólfi.

    En þótt byggingarsaga húss sé löng og margbrotin, þarf höfundarrétturinn ekki að vera flókinn. Í dag hefur þetta hús ákveðna stærð, form og útlit, og það hefur staðið þannig í áratugi, eða síðan Sambandið var áberandi í atvinnulífi okkar, sem er líka atvinnusaga. Höfundar hússins eins og það nú stendur eru Ormar og Örnólfur. Það er enginn annar sem getur fremur gert tilkall til þess titils.

    Tökum dæmi af öðru húsi sem flestir þekkja, Þórunnartúni 2, sem áður var Skúlatún 2 og hýsti skrifstofur og fundarsali Reykjavíkurborgar. Myndi einhver halda því fram að Einar Sveinsson væri ekki höfundur þess húss, vegna þess að byggt var ofan á þriggja hæða hús sem þar var fyrir? Er einhver sem álítur að sá sem gerði fyrstu þrjár hæðirnar sé meiri höfundur að húsinu? Slíkt þarf ekki að ræða.

    Það er hins vegar flóknara að færa hús með slíka sögu í „upprunalegt horf“. Hversu langt aftur á að fara? Húsið hefur tekið mörgum breytingum í áranna rás og þrátt fyrir allt er núverandi form og útlit þess væntanlega það sem lengst hefur staðið. Ef menn ákveða að rífa hæð ofan af húsinu, rífa klæðninguna utan af, anddyrið burt, marmarann af gólfunum o.s.frv., þá er hinu „upprunalega horfi“ ekki sjálfkrafa náð, enda þyrfti þá enga hönnuði. Það þarf að ganga frá húsinu þannig að það uppfylli kröfur nútímans, byggja nýtt þak, einangra að utan eða innan, velja gólfefni, aðlaga það að nýrri starfsemi o.s.frv. Þetta verður aldrei annað en ný breyting á húsinu, jafnvel þótt farin verði sú leið að líkja eftir ákveðnu tímabili í sögu þess.

    Að taka ákvörðun um slíka breytingu, ráða hönnuði til að vinna tillögur, og kynna breytinguna loks opinberlega, án þess að hafa nokkuð imprað á slíku við höfunda hússins, er óvirðing, bæði af hendi verkkaupa og hönnuða, óháð því hvaða sjónarmið menn ætla að hafa að leiðarljósi við hina nýju hönnun. Það er einfaldlega ekki í lagi.

  • Örnólfur Hall

    STAÐAN Á KIRKJUSANDI NÚ (13/2/2018):
    -Undirritaður hafði samband við upplýsingafulltrúa Íslandsbanka
    Eddu Hermannsdóttur – en þar kom eftirfarandi fram:

    I- Bankinn er ekkert endanlega búinn ákveða að rífa húsið – og kostnaðarsamar viðgerðir koma vel til greina.

    II- Borgin eða Borgarstjóri hafa engan rétt til að ráðskast með húsið án samráðs við bankann.

    III- Samkvæmt sérfræðingum er steypan (gömul/ný) orðin sjúk og þarfnast mikilla viðgerða við -ein og áður segir (sjá líka sem S.V.Ú. skrifar á bloggi).

    IV- Verði það ofan á rífa allt húsi hefur bankinn það s.s. í huga að byggja aðalstöðvar á svæðinu.
    Sú ákvöðun bíður enn um stundir.

    V- Bankinn leigir nú í nýja háhýsinu við Smálind – og ætlar sér s.s. að byggja síðar.

  • Hilmar Þór

    Eftir smá grúsk fann ég húsa- og byggðakönnun Borgarminjasafnsins.

    Þar kemur fram að fyrsta hæðin af þessu húsi er teiknuð af Sigurði Pjeturssyni. Svo kom Gísli Hermannsson að verkinu. Siðan tóku þeir félagar Ólafur Júlíusson, Jósef Reynis og Gílsli Halldórsson við og hækkuðu húsið úr einni hæð í fjórar. Og loks komu þeir Örnólfur Hall og Ormar Þór að húsinu og hækkuðu aftur um eina hæð og klæddu að utan og gáfu húsinu það útlit sem það nú ber.

    Hver er hinn eiginlegi höfundarrétthafi hússins veit ég ekki en sé nú að þær teikningar sem hér eru kynntar eru í raun ekkert annað en uppmæling og/eða uppteikning af húsinu eins og það var áður en því var breytt eftir þörfum Sambands Íslenskra Samvinnufélaga.

    Þess vegna má álykta að öll umræða um virðingu fyrir höfundarrétt sé ótímabær varðandi verk Kurt og Pi.

    Í húsa- og byggðakönnuninni stendur; „Húsið hefur menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi Kirkjusand“.

    • Örnólfur Hall

      – Skil þína afstöðu, Hilmar ! – Þetta er ekkert einfalt mál !!

    • Örnólfur Hall

      1)-Skyldi nú ekki upphaflegi hönnuðurinn Sigurður Pjetursson arkitekt og byggingarfulltrúi vera aðalhöfundurinn ?

      2)-Þetta fríar -Kurt og Pí- ekkert frá þeirri kurteisi að geta höfunda –hvorki í Marshall-húsi eða Júpíter & Marz-húsum !

    • Örnólfur Hall

      Í skýrslu Borgarsögusafns:

      o0O-Fyrsti eigandi Júpiter hf. og Mars hf.
      Hönnun Sigurður Pjetursson arkitekt
      Upphafleg notkun Frystihús, verbúðir, veiðarfærageymsla- O0o

      Í skýrslu Borgarsögusafns (Anna Lísa Guðmundsdóttir og Anna María Bogadóttir) er Sigurður hafður ótvírætt efstur á blaði !!!

  • Sigurður Viktor Úlfarsson

    Það síðasta sem ég heyrði um þetta hús, frá fólki sem vann að myglumálunum hjá Íslandsbanka, var að húsið væri myglað lengst inn í steypuna og eina leiðin til að fjarlægja mygluna væri að fjarlægja steypuna sem myglan var komin í. Hún var hins vegar komin svo djúpt að það voru miklar efasemdir um að húsið héldi burðinum ef allt það myglaða væri fjarlægt.

    Ég held að það sé fjárhagslegt dý að ætla að varðveita þetta hús.

    • Örnólfur Hall

      Væri e.t.v. verðugt verkefni til skoðunnar fyrir Rannsóknarstofu byggingar-
      iðnaðarins sem stendur nú ráðþrota gagnvart ótal myglumálum ?

  • Er þá ekki bara einfaldast að rífa húsið og byggja aftur í upphaflegri mynd ef þetta snýst um höfundarrètt á þessu remixi sem er þarna í dag?

  • Sigurður Gústafsson

    Blessaður Arkitekt.

    Að þora ekki að skrifa undir nafni er sorglegt.
    Það er höfundarréttur á þínum verkum líka.
    Nema að þú þorir ekki að skrifa nafnið þitt á teikningarnar?

    Bestu kveðjur,

    SG

    • Örnólfur Hall

      I-Já,- Sigurður, það er auðvelt (fyrir „arkitekt“?) að láta nafnlaust
      órökstudda skammadælu ganga um „kollegana“!
      -Eins er það þægilegt að vera ekkert geta upprunalegra höfunda verka
      -ef það hentar betur viðkomandi !

      II-Undirritaður hefur oft ekki skilið ritstjóra bloggsins að
      leyfa nafnleysi á bloggi sínu.
      -Það getur verið hvimleitt að þurfa að lesa nafnlaus níð
      og sleggjudóma um einstaklinga og jafnvel heila stétt.

    • Hilmar Þór

      Ég hef mikið velt þessu fyrir mér og tekið upplýsta ákvörðun um að leyfa athugasemdir sem eru undir dulnefni. Það geri ég vegna þess að margir, einkum arkitektar, eru hræddir við að tjá sig opinberlega eins og þú veist Örnólfur.

      Þetta hefur gengið að mestu vel. Ég held að ég hafi þurft að eyða 2-3 athugasemdum vegna þess að þar var ráðist að persónum fólks með ómaklegum hætti. Ég hef aldrei eytt neinu kommenti vegna skoðunum manna eða kvenna sem þar hafa komið fram.

      Ég held að það munu margir hætta við að gera athugasemd ef þeir gætu ekki notast við dulnefni. Margir sem vilja finna að efni pistlanna og skoðunum mínum kannski hika við að gagnrýna skrif mín ef það á að gerast undir fullu nafni.

      En ég óttast ekki gagnrýnina. Ég fagna henni vegna þess að án gagnrýni verða engar framfarir.

    • Örnólfur Hall

      – Skil þína afstöðu, Hilmar ! – Þetta er ekkert einfalt mál !!

  • Og voru þeir sem breyttu húsinu af svona miklu skeytingarleysi að virða upprunalegan höfundarrétt?

  • Ég hef engin tengsl við þessa hönnuði. Er það höfundarverk að breyta upprunalegri hönnun til ills?

  • Er það virkilega svo að sá gjörningur að eyðileggja þetta fína hús með því að klæða það í ósmekklegan ‘80 búning sé höfundaréttarvarið? Þegar menn ætla að hefja húsið aftur til virðingar þarf þá sð spyrja skemmdarvargana um leyfi?

    • Höfundaverk er höfundaverk og það breytir engu hvort það sé ljótt eða fallegt, gott eða slæmt. Þetta á við um bókmenntir, tónmenntir eða hvað sem vera vill. Þetta ætti arkitektinn sem skrifar hér að ofan að vita. Mann grunar að hann sé frá umræddri teiknistofu sem er að breyta húsinu við Kirkjusand eða e.t.v. nátengdur honum. Það eru bara illa menntaðir arkitektar svona þvælu frá sér fara.

    • Hilmar Þór

      Vel mælt V.F.

    • Örnólfur Hall

      Sammála V.F. og H.Þ. þarna !

  • Èg bíð skýringa eða afsökunarbeiðni frá kurt&pí.

  • Hilmar Þór

    Ég bið asökunnar á að hafa ekki getið arkitektanna sem sáu um að hönnun vegna hækkunnar hússins og breytingu fyrir Samband Íslenskra Samvinnufélaga, en það voru Ormar Þór Guðmundsson og Örnólfur Hall.

  • Örnólfur Hall

    Af BJÖRGUN ATVINNUSÖGUNNAR og
    BJÖRGUN ALDAGAMALLAR SÖGU VÍKURKIRKJUGARÐS.

    -Hilmar Þór,- þú segir að atvinnusögunni sé bjargað (með slátrun SÍS-húss) –sem er útaf fyrir sig vissulega göfugt mál og stórt !
    En hvernig væri að þá líka að bjarga sögu Víkurkirkjugarðs með því að sleppa að byggja Þetta túristahótelbákn flatmagandi þar á fornum gröfum og síðari tíma legstöðumum sem eru bæði helgispjöll og goðgá.

    -Um leið og Borgarstjóri berst nú á Kirkjusandi – þá berst hann hart í Víkurgarði fyrir því að milljarða auðjöfraveldin „Lindarvatn“= Icelandair Group hf. & Dalsnes ehf. byggi þar og eyðileggi heildina í Vikurgarði og slíti tengslin og skyggi á Austurvöll og þrengi að Kirkjustræti (Var mótmælt af Alþingi fyrir nokkrum árum).
    – Ég man ekki eftir að þú hafir nokkru sinni fjallað um þetta ?

    ES: Auðjöfraveldi eiga orðið stórar spildur m.a. í Landsímareit og Kvosinni og ekki sé talað um stór svæði annarsstaðar í Borginni !

  • Örnólfur Hall

    I-AÐ SKREYTA SIG MEÐ FJÖÐRUM ANNARRA
    í MARSHALL-HÚSI og JÚPÍTER & MARZ- HÚSI:

    Kurt og Pí arkitektar hafa ekki verið að hafa fyrir því eða sýnt þá kurteisi að nefna hönnuði Þessarra fiskvinnsluhúsa þ.e.a.s. Sigurð Guðmundsson (fv. heiðursfélagi AÍ) og Eirík Einarsson arkitekta Marshallshúss.

    -Eða þá Sigurð Pjétursson arkitekt og fv. byggingarfulltrúa sem nú er komið á daginn (samkv. Þresti Jenssyni) að sé höfundur að Júpíter & Marz-húsi.
    Eins hefur nafn Rögnvaldar Ólafs Johnsens borið á góma líklega vegna breytinga.

    II-MANNASIÐIR (KURTEISI) MILLI ARKITEKTA og LÍKA BORGARSTJÓRA KOSTA EKKERT !!!
    -Hvorki Borgarstjóri eða umræddir Kurt og Pí -arkitektar hafa virt okkur kollega Ormar Þór viðlits eins og kollegar Sigurður Gústafsson og Garðar Guðnason segja. – Hofmóðskan og yfirlætið er í fyrirrúmi ! – Engin Pí – eða Kurt…kurteisi þar.
    Ánægjuspistill Hilmars Þórs með verndun atvinnusögunnar með stórri mynd af dauðadæmda SÍS – húsinu (stafkrókalaust) dæmdu til sláturnar fór óneitanlega fyrir brjóstið. – En hver vill ekki verndun atvinnusögunnar ?

  • Ívar Valgarðsson

    Þetta eru sannanlega ánægjuleg tíðindi!
    Alltof mikið af merkum byggingum farið forgörðum í nafni óafturkræfra skipulagsslysa. Góð vakning í gangi eins og t.d. baráttan um sundlaug Guðjóns Samúelssonar í Keflavík.

  • einar e.sæmundsen

    Þegar Íslandsbanki var að koma sér fyrir í lok tíunda áratugarins kom undirritaður að því að hanna lóð og bílstaæði. Þá komu í ljós saltfiskreitir, þar sem saltfiskur hafði verið breiddur út til þerris forðum daga, þegar farið var í jarðvegframkvæmdir þar sem bílastæðin eru á bak við húsið.

  • Hilmar Þór

    Þetta er líklega rètt hjá þér Sigurður en gerum við ekki ráð fyrir að Kurt og Pi hafi gengið frá þessu máli, áður en þeir hófust handa, við Ormar og Örnólf.

    • Garðar Guðnason

      Þegar við Sigurður Gústafsson tókum við þessari stofu, tókum við að okkur að vera á vaktinni varðandi höfundarrétt þeirra félaga, Ormars og Örnólfs. En varðandi þessa breytingu á húsinu hefur ekki verið haft samband við okkur, og Ormar sagði mér í morgun að enginn hefði heldur haft samband við þá, svo þetta er á engan hátt frágengið.

    • Hilmar Þór

      Ég á ekki von á öðru en að Kurt og Pi hafi samband við ykkur áður en dagur er að kveldi kominn.

      Þeir þekkja allar þær siðareglur sem arkitektum er gert að virða.

      Þó menn séu e.t.v. í vafa um hvort sjálfur höfundarétturinn eigi við hér þá er ótvírætt verið að fikta í verki Ormars og Örnólfs.

      En hvort niðurrif heyri undir höfundarrétt veit ég ekki en það er sjálfsagt að hafa þið kollegarnir talið saman.

      Og samtalið ætti að vera að frumkvæði Kurt og PI.

      Eða hvað?

  • Þetta er alvöru hús með magnaða sögu. Húsbyggjandinn Tryggvi Ófeigsson hefði aldrei fargað viðlíka mannvirki, hann vissi hve marga fiska þurfti að fanga til að byggja hvern fermeter. Smiður sem vann við bygginguna minntist daglegra heimsókna gamla skipstjórans þar sem hann brýndi fyrir mönnum að nýta byggingarefnið skynsamlega. Togararnir eru horfnir en við eigum enn þetta glæsilega hús. Sögulaus þjóð á ekkert erindi við framtíðina.

  • Sigurður Gústafsson

    Það er höfundarréttur á húsinu í dag.
    Höfundar þess eru: Örnólfur Hall og Ormar Þór Guðmundsson.
    Ber ekki núverandi borgarstjóri neina virðingu fyrir höfundarrétti?

    Bestu kveðjur,

    Sigurður Gústafsson.

  • Guðrún Guðmundsdóttir

    Það er mikill fengur af því að endurnýja þetta hús fyrir Listaháskólann. Þá næst fram skemmtilegt samhengi og upplífgandi gönguleið frà Örfyrisey og Marshallhúsinu þar um höfnina framhjá Hörpu og Sólfarinu, skúlptúrgarðinum langa með norðurströndinni, Höfða og nýja vitanum og að gamla Júpiter og Mars með Listaháskólanum. Þetta er eins og draumur í dós 🙂

  • Vissulega ánægjulegt!
    Það er allt of mikið rifið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn