Fimmtudagur 09.08.2012 - 09:08 - 7 ummæli

Kollgátan í Lystigarðinum

 

 

 Það er  eitt meginverkefni arkitektsins að lesa staðinn sem hann er að fara að vinna með.

Arkitektinn þarf að skynja staðarandann og átta sig á sérstöðu hans með virðingu og í víðu samhengi.

Arkitektastofan Kollgátan á Akureyri tók sér vandasamt verk á hendur . Það var að hanna lítinn veitingastað í Lystigarðinn á Akureyri sem einmitt varð aldargamall á þessu ári.

Ég átti leið þarna um í síðustu viku og naut þess að skoða garðinn og fá hressingu í nýbyggingunni sem var opnuð fyrir um tveim mánuðum.

Mér fannst húsið afskaplega vel heppnað og skýrskotun til staðarins og sögunnar vel útfærð á nútímalegan hátt. Þetta er skólabókardæmi um hvernig nútímaarkitektúr nýtir sér það sem fyrir er til þess að skapa heildstætt og harmóniskt umhverfi.

Arkitektarnir hafa skynjað staðarandann og látið hann ráða för.

Þarna í garðinum er eitt af elstu húsum Akureyrar Eyrarlandshús, sem er svart á lit með 45° þakhalla og litlu þakskeggi. Þessi atriði ásamt fleirum gera arkitektarnir að samnefnara húsanna tveggja með góðri útkomu.

Svo er bætt við  “dassi” af nútímalegum skemmtilegheitum eins og gaflgluggunum tveim sem taka mið af trjágróðrinum. Það er líka skemmtilegt að geta þess að öll húsgögn innandyra voru framleidd fyrir áratugum á Akureyri meðan þar var öflug iðnaðarstarfssemi.

Það er alltaf gaman þegar maður verður þess var að arkitektar skynji staðarandann á svipaðan hátt og maður sjálfur.  Því er nefnilega þannig háttað að menn virðast oft ekki skilja staðina á sama hátt. Þetta á bæði við um fagmenn og leikmenn.

Til að mynda sýnist mér að í Reykjavík sjái menn tækifærin og staðarandann á afskaplega mismunandi hátt eins og dæmin sanna.

En niðurstaða mín er að í Lystigarðinum á Akureyri áttu arkitektarnir kollgátuna.

 

Eyrarlandsstofa er eitt elsta hús Akureyrar er staðsett í Lystigarðinum.

 Afstöðumyndin vekur athygli þar sem græn flöt er framan við veitingastaðinn

 

 Afstöðumynd

 

 Sneiðingin sýnir hvernig arkitektarnir tóku á húsdýptinni og þakforminu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

 • Örnólfur Hall

  ‘Café’ í Lystigarðinum á Akureyri (Litla kaffihúsið) er frábærlega einfalt, frumlegt, hnitmiðað og fallegt verk sem fellur ljúft inn í skógarumhverfið. Snjöll hönnun.

  Ps: Tek undir lokaorð Hilmars um kollgátuna.

 • Arcitecture par exelance

 • Hlmar Þór

  Jóhann
  Það er sjálfsagt ekki skynsamlegt að draga fram sérstök dæmi um mál þar sem menn líta staðarandann misjöfnum augum. Mönnum kann að sárna það. Hinsvegar er augljóst að nokkrir arkitektar telja deiliskipulag Landspítalans falla vel að aðliggjandi byggð og Reykjavíkur innan Hringbrautar svo eru aðrir sem telja svo alls ekki vera og segja tillöguna vera eins og inngrip í rólegan og harmóniskan borgarhluta. Þetta skýrir kannski málið.

 • Það er mikill sómi að þessu nýja húsi í Lystigarðinum. Það var vandaverk að teikna þarna nýtt hús svo vel færi.
  Eyrarlandsstofa stóð forðum á lóð Sjúkrahússins, en var flutt til um nokkur hundruð metra og gekk í endurnýjun lífdaga.
  Nú kallast þessi tvö hús á, fallega, innan garðsins og gegna virðulega hvort sínu hlutverki.

  Nýja húsið eykur veg garðsins á látlausan og smekklegan hátt.
  Veitingahús er líka eins og pínulítil rúsína sem vantaði í garðinn.

 • Jóhann ólafsson

  „Til að mynda sýnist mér að í Reykjavík sjái menn tækifærin og staðarandann á afskaplega mismunandi hátt eins og dæmin sanna“.

  Værir þú til að nefna eitt eða tvö dæmi til skýringar?

 • Finnbogi

  Ég hef komið í þetta hús og er sammála málshefjanda. Það sem sló mig var ákveðin hógværð og lítilæti sem stafar frá þessari byggingu. Það er stundum sem arkitektúrinn áreitir mann of mikið. Stundum held ég að það sé jafnvel markmið arkitektannna að verk þeirra láti mann ekki í friði.

 • Guðl. Gauti Jónsson

  Satt segir þú Hilmar, þetta virðist vera sérstaklega vel heppnað. Ég hef að vísu ekki komið í Lystigarðinn í áratugi og því ekki séð Eyrarlandsstofu á þessum stað né heldur þessar nýlegu byggingar en þetta virðist vera fallega gert. Þetta leiðir hugann að því að orðið fallegur er afstætt og byggir á tilfinningum en ekki rökhyggju. Þarna hafa höfundar sótt viðmið í eitt af elstu húsum Akureyrar til að byggja hús sem virðist vera nýtískulegt. Svona vinnubrögð þurfa ekki að vera einskorðuð við smáhýsi í skógarlundum. Ég man eftir íbúðarhúsi á horni Bergstaðastrætis og Spítalastígs (kunnuglegt ?) þar sem farin er þessi leið með ágætum árangri og þriðju verðlauna tillagan í samkeppninni um Ingólfstorg reynir líka að feta þessa slóð. Það gerir fyrstu verðlauna tillagan hinsvegar ekki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn